Skip to main content

Háskólaráðsfundur 1. október 2015

10/2015

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2015, fimmtudaginn 1. október var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Borgar Þór Einarsson (varmaður fyrir Orra Hauksson), Davíð Þorláksson (varamaður fyrir Áslaugu Maríu Friðriksdóttur), Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Jakob Ó. Sigurðsson, Margrét Hallgrímsdóttir, Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir og Stefán Hrafn Jónsson. Iðunn Garðarsdóttir og Tómas Þorvaldsson boðuðu forföll. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson.

1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver vildi gera athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Bar rektor upp tillögu um að undir liðnum „önnur mál“ yrði kynnt hugmynd um fjáröflunarverkefni fyrir hollvini Háskóla Íslands og var hún samþykkt. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Ebba Þóra Hvannberg greindi frá því að hún væri vanhæf til að fjalla um mál undir dagskrárlið 10c og myndi ekki taka þátt í afgreiðslu þess. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2. Verklag háskólaráðs, sbr. síðasta fund.
a) Drög að verklagsreglum um fyrirkomulag rafrænna funda háskólaráðs, ásamt tillögu að breytingu á 4. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 og 3. gr. starfsreglna háskólaráðs.

Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu gerðu grein fyrir framlögðum drögum að verklagsreglum um fyrirkomulag rafrænna funda háskólaráðs, sbr. síðasta fund. Málið var rætt og svöruðu Þórður og Magnús spurningum ráðsmanna. Undir umræðum voru gerðar fáeinar orðalagsbreytingar.
– Verklagsreglur um fyrirkomulag rafrænna funda samþykktar einróma ásamt samsvarandi breytingu á 4. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 og 3. gr. starfsreglna háskólaráðs.

b) Vefsvæði háskólaráðs, sbr. 3. gr. starfsreglna háskólaráðs.
Inn á fundinn kom Ragnar Stefán Ragnarsson, deildarstjóri hjá Reiknistofnun Háskóla Íslands, og kynnti nýtt vefsvæði háskólaráðs. Gert er ráð fyrir að vefsvæðið verði tekið í notkun fyrir næsta fund ráðsins.

3. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a) Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016. Staða mála.

Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerðu grein fyrir fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 að því leyti er snýr að Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þau Guðmundur og Jenný Bára spurningum ráðsmanna. Að lokinni umræðu var eftirfarandi bókað:

„Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum náð eftirtektarverðum árangri í alþjóðlegum samanburði. Fyrir liggur að starfsemi háskólans hvílir á veikum fjárhagslegum grunni og er stefnt í hættu nema til komi auknar fjárveitingar, eins og m.a. er bent á í matsskýrslu Gæðaráðs háskóla frá sl. vori. Þessi staða snertir ekki Háskóla Íslands einan heldur allt samfélagið þar sem stuðningur við háskólann er forsenda þess að hann geti rækt hlutverk sitt í þágu þjóðar og atvinnulífs og sótt fram í síharðnandi samkeppni á alþjóðavettvangi.

Háskólaráð fagnar hækkun framlags til reikniflokka raunvísinda-, verk- og tæknifræði, læknisfræði og hjúkrunarfræði. Á hinn bóginn er alvarlegt að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir heildarendurskoðun reiknilíkans og hækkun framlags til reikniflokks hug- og félagsvísinda sem háskólinn lagði ríka áherslu á í aðdraganda fjárlagagerðarinnar líkt og undanfarin ár.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir: „Fylgt verður ákvæðum samnings um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands sem komið var á fót árið 2011 í víðtækri sátt.“ Það er miður að í frumvarpinu er ekki að finna sérstakt ákvæði um Aldarafmælissjóð, en sjóðurinn hefur það meginmarkmið að tekjur Háskóla Íslands verði sambærilegar við tekjur háskóla á öðrum Norðurlöndum.

Ítrekuð er ályktun háskólaráðs frá 4. júní sl. um að brýnt sé að stjórnvöld beiti sér fyrir því að nefnd um framtíðarfjármögnun Háskóla Íslands, sem forsætisráðherra skipaði 24. október 2014, ljúki störfum án frekari tafa þannig að langtímaáætlun liggi fyrir og að niðurstaða nefndarinnar skili sér í auknum fjárveitingum frá og með árinu 2016.

Hvað varðar byggingamál sérstaklega telur háskólaráð það miður að sjá ekki í frumvarpinu áform um byggingu Húss íslenskra fræða. Fyrir liggur að hlutur Háskóla Íslands í fjármögnun byggingarinnar er tryggður og er brýnt að framkvæmdum verði haldið áfram hið fyrsta.“

– Samþykkt með öllum atkvæðum nema einu, en Davíð Þorláksson óskaði þess að bókað yrði að hann greiddi atkvæði gegn bókuninni.

4.Starfsáætlun háskólaráðs 2015-2016, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lágu endurskoðuð drög að starfsáætlun háskólaráðs 2015-2016. Rektor gerði grein fyrir málinu og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á áætluninni á milli funda. Fram kom að verið er að vinna að stefnumótun fyrir Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021, sbr. dagskrárlið 5, og mun ný stefna setja mark sitt á starfsáætlun ráðsins. Málið var rætt og svaraði Jón Atli spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Starfsáætlun háskólaráðs 2015-2016 samþykkt einróma.

5. Undirbúningur stefnu Háskóla Íslands 2016-2021, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn komu Sigurður Magnús Garðarsson, prófessor og Steinunn Gestsdóttir, prófessor, formenn stýrihóps um mótun stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021 og gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi stefnumótunina. Málið var rætt og svöruðu Sigurður Magnús og Steinunn framkomnum spurningum og ábendingum.

6. Háskólasvæðið, sbr. fund ráðsins 4. júní sl.
a) Framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands 2015-2024.

Fyrir fundinum lá framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands 2015-2024. Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands 2015-2024 var staðfest.

b) Húsnæði Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands á lóð Landspítala.
Guðmundur R. Jónsson greindi frá stöðu mála og áformum varðandi húsnæði Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands á lóð Landspítala. Málið var rætt.

7. Sóknarfæri í námi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund. Staða máls.
Guðmundur R. Jónsson greindi frá stöðu vinnu starfshóps sem hefur það hlutverk að fara yfir valkosti varðandi framtíð náms, kennslu og rannsókna í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.

Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir þurfti að víkja af fundi.

8. Styrktarsjóður til minningar um Ingjald Hannibalsson prófessor. Skipulagsskrá.
Fyrir fundinum lágu drög að skipulagsskrá styrktarsjóðs til minningar um Ingjald Hannibalsson prófessor. Rektor og Þórður Kristinsson gerðu grein fyrir málinu.
– Skipulagsskrá styrktarsjóðs til minningar um Ingjald Hannibalsson prófessor samþykkt einróma og rektor falið að ganga formlega frá málinu.

9. Málefni Félagsstofnunar stúdenta.
Inn á fundinn kom Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta og gerði grein fyrir starfsemi og helstu málum á döfinni hjá stofnuninni.

10. Bókfærð mál.
a) Heilbrigðisvísindasvið. Tillaga að breytingu á 17. gr. reglna nr. 140/2014 um meistaranám við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Varðar sérreglur um meistaranám við Læknadeild.
– Samþykkt.

b) Stjórn Listasafns Háskóla Íslands 2015-2019.
– Samþykkt. Stjórnina skipa þau Æsa Sigurjónsdóttir, dósent við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði, formaður, Arndís Vilhjálmsdóttir, doktorsnemi við Sálfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði og Kristján Steingrímur Jónsson, deildarforseti Myndlistardeildar Listaháskóla Íslands. Með stjórninni starfar Auður Ólafsdóttir listfræðingur, forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands. Skipunartími stjórnar er fjögur ár eða til 30. september 2019.

c) Stjórn Reiknistofnunar Háskóla Íslands 2015-2018.
– Samþykkt. Stjórnina skipa þau Helgi Þorbergsson, dósent við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, formaður tilnefndur af rektor, Matthew Whelpton, dósent við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Hugvísindasvið, Sólveig Jakobsdóttir, dósent við Kennaradeild á Menntavísindasviði, Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor við Viðskiptafræðideild á Félagsvísindasviði, Ásta Thoroddsen, prófessor við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði og Valentina Giangreco M. Puletti, dósent við Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Skipunartími stjórnar er þrjú ár eða til 30. september 2018. Ebba Þóra Hvannberg tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

d) Stjórn Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr 2015-2018.
– Samþykkt. Stjórnina skipa þau Hrefna Friðriksdóttir, dósent við Lagadeild á Félagsvísindasviði, formaður tilnefnd af Lagadeild, Jörgen Pind, prófessor við Sálfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði, Annadís Gréta Rúdolfsdóttir, lektor við  Menntavísindasvið, Sigurveig H. Sigurðardóttir, dósent og deildarforseti Félagsráðgjafardeildar á Félagsvísindasviði og Vilhjálmur Árnason, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild á Hugvísindasviði. Skipunartími stjórnar er þrjú ár eða til 30. september 2018.

e) Bréf umboðsmanns Alþingis, dags. 8. september sl. um gjald í leyfi frá námi. Málsmeðferð.
– Samþykkt.

11. Mál til fróðleiks.
a) Glærur frá opnum fundi rektors 15. september sl.
b) Árshátíð Háskóla Íslands 9. október nk.
c) Innri endurskoðandi Háskóla Íslands. Ferilskrá og erindisbréf.
d) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, september 2015.

12. Önnur mál.
Inn á fundinn komu Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við Viðskiptafræðideild, Hersir Sigurgeirsson, dósent við Viðskiptafræðideild og Ásta Möller, verkefnisstjóri á skrifstofu rektors og gerðu grein fyrir hugmynd um fjáröflunarverkefni fyrir hollvini Háskóla Íslands. Málið var rætt og svöruðu þau Ásgeir Brynjar, Hersir og Ásta spurningum ráðsmanna.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.