Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 25. september 2008

12/2008

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2008, fimmtudaginn 25. september var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.50.

Mætt voru: Kristín Ingólfsdóttir, Birna Arnbjörnsdóttir, Helgi Þorbergsson, Ólafur Þ. Harðarson, Ólafur Proppé (áheyrnarfulltrúi Menntavísindasviðs), Reynir Jóhannesson (varamaður Ernu Kristínar Blöndal), Rúnar Vilhjálmsson, Þórdís Kristmundsdóttir, Yngvi Eiríksson (varamaður Þóris Hrafns Gunnarssonar), Valgerður Bjarnadóttir og Þórður Sverrisson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

1. Mál á dagskrá

1.1 Reglur um skipan og fundarsköp háskólaþings, samþ. í háskólaráði 26. júní 2008, með breytingu samþ. 28. ágúst 2008.

Inn á fundinn komu Þórður Kristinsson og Jón Atli Benediktsson. Rektor greindi frá því að háskólaþing hefði komið saman fyrir þennan háskólaráðsfund og fjallað um reglurnar. Gerði rektor, ásamt þeim Þórði og Jóni Atla, grein fyrir málinu og var það rætt.
- Háskólaráð staðfestir reglur um skipan og fundarsköp háskólaþings, samþ. í háskólaráði 26. júní 2008, með breytingu samþ. 28. ágúst 2008, einróma. Jafnframt leggur háskólaráð áherslu á að við endurskoðun á heildarregluverki Háskólans verði hugað sérstaklega að hlutverki, samsetningu og verkefnum háskólaþings.

1.2 Reglur um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð Háskóla Íslands, samþ. í háskólaráði 28. ágúst 2008.

Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Í umsögn háskólaþings um reglurnar er gerð tillaga að breytingu á 3. mgr. 5. gr. Málsgreinin svo breytt orðist svo: „Ef atkvæði eru jöfn í vali á milli manna skal hlutkesti ráða. Tilnefning er bindandi og er viðkomandi skylt að taka tilnefningu til setu í háskólaráði til tveggja ára."
- Háskólaráð staðfestir reglur um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð Háskóla Íslands, samþ. í háskólaráði 28. ágúst 2008, svo breyttar. Háskólaráð leggur áherslu á að við skipan í nýtt háskólaráð verði hugað sérstaklega að þeim ábendingum sem fram komu á háskólaþingi 25. september 2008 um ákvæði jafnréttislaga.

Að lokinni formlegri dagskrá færði rektor fulltrúum í fráfarandi háskólaráði miklar þakkir fyrir hollustu og dýrmætt vinnuframlag í þágu Háskóla Íslands.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 14.40.