Tímamótarannsókn á áhrifum heilahristings á íþróttakonur
Flest íþróttaáhugafólk sem fylgist með hópíþróttum hefur eflaust einhvern tíma tekið andköf eða litið undan þegar höfuð tveggja leikmanna skella saman í hita leiksins þannig að báðir liggja óvígir eftir. Þá hafa í fjölmiðlum á síðustu árum birst sögur af íþróttafólki sem hefur glímt við langvarandi veikindi eða einkenni eftir höfuðáverka. En hvaða áhrif hafa höfuðáverkar og þá sérstaklega heilahristingur á heilsu þeirra sem fyrir slíku verða? Við þessa spurningu hefur hópur vísindakvenna við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Landspítala fengist undanfarin ár og skoðað sérstaklega íþróttakonur og langvarandi áhrif heilahristings á þær, en margt hefur bent til að konur séu viðkvæmari fyrir áhrifum heilahristings en karlar. Þær hins vegar verið minna rannsakaðar. Hópurinn hefur nú sett saman stutt fræðslumyndbönd um áhrif heilahristings og höfuðáverka á líkamann og niðurstöður rannsókna sinna.
„Kveikjan að rannsókninni tengist í fyrsta lagi íþróttáhuga okkar rannsakendanna og þeirri staðreynd að of oft lenda íþróttamenn í snertiíþróttum í langvarandi einkennum eftir höfðáverka eða heilahristing í sinni íþrótt og þurfa jafnvel að hætta að stunda íþróttina í kjölfarið. Í öðru lagi er það forvitni okkar um áhrif heilahristings á hormónastarfsemi heiladingulsins. Það er því mikilvægt að finna þætti sem hægt er að meðhöndla og stytta sjúkdómsferli og jafnvel lækna,“ segir Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, klínískur prófessor við HÍ og LSH og sérfræðingur í lyflækningum og innkirtla- og efnaskiptalækningum.
Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, klínískur prófessor við HÍ og LSH og sérfræðingur í lyflækningum og innkirtla- og efnaskiptalækningum. MYND/Kristinn Ingvarsson
Hún bætir við að áhugi hópsins beinist einnig að því að greina einkenni sem hægt er að meðhöndla eftir höfuðáverka eða heilahristing, hvort sem slíkt á sér stað í íþróttum eða slysum á annan hátt. „Getur verið að einstaklingar sem verða veikir í langan tíma eftir t.d. bílslys, án þess að hafa sjáanlega áverka, hafi einkenni eftir höfuðáverka/heilahristing sem hafi orðið við slysið?“ spyr Helga og bætir við að rannsóknir hafi m.a. að sýnt fram á að hálshnykkur geti valdið vanstarfsemi á heiladingli.
Einkenni heilahristings geta verið mörg, m.a. minnistap, einbeitingarskortur, skert skynjun, þunglyndi, kvíði, þreyta og úthaldsleysi, vanlíðan, svefntruflanir og höfuðverkur.
Heilahristingur í íþróttum: Nýgengi – Hafrún Kristjánsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík
Skoða sálfræðileg og taugasálfræðileg áhrif heilahristings
Rannsóknin, sem m.a. hefur notið styrkja frá Rannís, er þrískipt. Fyrsti og annar hluti rannsóknarinnar var fyrst og fremst í höndum Maríu K. Jónsdóttur og Hafrúnar Kristjánsdóttur, prófessora við Háskólann í Reykjavík, og Ingunnar S. Unnsteinsdóttur Kristensen sálfræðings sem vann doktorsverkefni sitt innan rannsóknarinnar við HR. „Þar var m.a. skoðað í megindráttum áhrif heilahristings með sálfræðilegum og taugasálfræðilegum prófum,“ segir Helga. Rýnt var í þekkingu íslenskra íþróttakvenna á heilahristingi, hversu algengur hann er og tengsl heilahristings við ýmsa þætti eins svefnvanda, þunglyndi og hugræna virkni.
Um niðurstöður þeirra rannsókna er fjallað í meðfylgjandi myndböndum:
Heilahristingur í íþróttum - Bakgrunnur og afleiðingar (1. hluti) – Hafrún Kristjánsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík
Heilahristingur í íþróttum - Afleiðingar (2. hluti) – Ingunn S. Unnsteinsdóttir Kristensen, doktor frá Háskólanum í Reykjavík
„Rannsóknarhópurinn hefur þegar birt niðurstöður úr öllum hlutum rannsóknarinnar og ljóst er að heilahristingur leiðir til breytinga sem koma fram í sálfræðiprófum, taugasálfræðiprófum og blóðprufum á hormónum heiladingulsins. Það er því ljóst að heilahristingur getur valdið vanstarfsemi á heiladingli sem hægt er að meðhöndla og auka þannig lífsgæði sjúklingsins,“ útskýrir Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen, læknir og doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson
Hvaða áhrif hefur heilahristingur á starfsemi heiladingulsins?
Í þriðja hluta rannsóknarinnar skoðuðu Helga og Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen, læknir og doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands, möguleg áhrif heilahristings á starfsemi heiladingulsins.
Heiladingullinn er að sögn Helgu afar mikilvægt líffæri en hann situr 7-10 sentímetra fyrir aftan nefrótina, „hangir eiginlega niður úr heilanum eins og lítil jólakúla,“ útskýrir Helga. Heiladingullinn stýrir nær öllum hormónum líkamans og framleiðslu þeirra í hinum ýmsu líffærum.
Lengi hafa verið uppi hugmyndir um að heiladingullinn geti skaðast við höfuðáverka og heilahristing og gerðar hafa verið einstakar rannsóknir, tengdar slysum, heilablæðingum og íþróttum, sem styðja það, segir Helga. „Þetta er að okkar bestu vitund hins vegar eina rannsókn sinnar tegundar og sú eina þar sem svo stór hópur kvenna, sem fengið hefur höfuðáverka eða heilahristing við íþróttaiðkun, er skoðaður,“ segir Lára en auk hennar og Helgu og rannsakenda innan HR kemur Sigrún Helga Lund, prófessor í tölfræði við HÍ, að rannsókninni á öllum stigum eins og þær allar.
Heilahristingur í íþróttum - Afleiðingar (3. hluti) - Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, klínískur prófessor við HÍ og LSH og sérfræðingur í lyflækningum og innkirtla- og efnaskiptalækningum
Helga bendir enn fremur á að einkenni höfuðverka og heilahristings geti verið langvarandi og svipi til einkenna við vanstarfsemi í heiladingli. „Ef um vanstarfsemi á heiladingli er að ræða er mögulega hægt að meðhöndla það sem getur breytt miklu fyrir viðkomandi einstakling. Því er mikilvægt að athuga hvort vanstarfsemi verði á heiladingli við höfuðáverka/heilahristing í íþróttum. Við mælum því alla hormónaöxla heiladingulsins í þeim konum sem hafa einkenni sem geta samræmst vanstarfsemi í heiladingli,“ útskýrir Helga.
Hægt að meðhöndla vanstarfsemi heiladinguls eftir heilahristing
Konur í snertiíþróttum sem höfðu áhuga á þátttöku skráðu sig rafrænt í rannsóknina en þær reyndust rúmlega 500. „Síðan var unnið með skilgreininguna á heilahristing til að staðfesta hvort hver kona uppfyllti kröfur um þátttöku í rannsókninni,“ útskýrir Lára.
Sem fyrr segir voru gerð ýmis sálfræðileg og taugasálfræðileg próf í 1. og 2. áfanga rannsóknarinnar til að greina hvaða skaða íþróttakonurnar gætu hafa orðið fyrir eftir heilahristing. Í hluta 3 undirgengust konurnar nákvæma læknisskoðun og blóðrannsókn þar sem hormón allra heiladingulsöxla voru mæld. Ef niðurstöður þeirra hormónamælinga reyndust utan eðlilegra viðmiðunargilda endurtekið voru konurnar rannsakaðar frekar með nánari prófum á heiladingulsstarfsemi.
Heilahristingur í íþróttum - Afleiðingar (4. hluti) – Lára Ósk Eggertsdótir Claessen, læknir og doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands
„Rannsóknarhópurinn hefur þegar birt niðurstöður úr öllum hlutum rannsóknarinnar og ljóst er að heilahristingur leiðir til breytinga sem koma fram í sálfræðiprófum, taugasálfræðiprófum og blóðprufum á hormónum heiladingulsins. Það er því ljóst að heilahristingur getur valdið vanstarfsemi á heiladingli sem hægt er að meðhöndla og auka þannig lífsgæði sjúklingsins,“ útskýrir Lára enn fremur en þess má geta að hún hlaut viðurkenningu fyrir rannsóknir sínar á uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala, Vísindum á vordögum.
Ekki þarf að efast um mikilvægi rannsóknarinnar fyrir íþróttakonur og bendir Helga á að niðurstöðurnar ættu að leiða til breytinga á meðhöndlun einstaklinga sem verða fyrir höfuðáverkum eða heilahristingi í íþróttum og jafnvel öðrum slysum líka. „Þjálfarar, heilbrigiðsstarfsfólk og almenningur þarf að þekkja einkenni höfuðáverka og heilahristings. Vonandi leiðir þetta til breytinga í íþróttaiðkun, bæði með tilliti til þess að reyna að hindra slíka áverka og að taka rétt á þeim einstaklingum sem fyrir þessu verða,“ segir Helga að endingu.