Aukin samfélagsleg ábyrgð nema með þverfræðilegri hæfni
Á vinnustofu um LOUIS-hæfnirammann 9. apríl nk. verður leiðbeint hvernig hægt er að efla markvisst þverfræðilega hæfni nemenda. Vinnustofan er haldin fyrir tilstilli Aurora-samstarfsins.
Aurora-háskólarnir hafa það markmið að leiðarljósi að kennsla skuli hafa bein samfélagsleg áhrif. Til grundvallar því markmiði leggja skólarnir til kennsluaðferðir sem eiga það allar sameiginlegt að efla samfélagslega vitund, ábyrgð og almenna hæfni nemenda.
Sandra Berg Cepero, verkefnisstjóri Aurora-kennslu á Kennslusviði HÍ, segir að áhersla Aurora-skólanna á þverfræðilega hæfni nemenda kallist beint á við menntasýn Aurora um að valdefla nemendur skólanna. „Hin samfélagslega nálgun Aurora í kennslu miðast við að brautskráðir nemendur búi yfir lykilhæfni til að takast á við áskoranir í lífi og starfi. Samfélög heimsins standa frammi fyrir breytingum af ýmsum toga; stafræna byltingin, loftslagsbreytingar og aukinn fjöldi flóttafólks eru allt áskoranir sem við þekkjum og allt kapp er lagt á að bregðast rétt við svo vel fari. Við þurfum öfluga einstaklinga með þverfræðilega hæfni til að takast á við breyttan heim. Samfélagsleg ábyrgð, frumkvæði og samkennd eru dæmi um almenna hæfni sem við viljum sjá að nemendur taki með sér úr námi Aurora-háskólanna“.
Sandra nefnir LOUIS-hæfnirammann sem eitt af þremur verkfærum sem kennurum Aurora-háskólanna bjóðist til að efla þverfræðilega hæfni nemenda. „Kostir LOUIS-hæfnirammans felast í einföldu orðalagi og hnitmiðuðum skýringum á hæfni. Hann auðveldar kennurum að setja hæfni í orð svo nemendur skilji. Hitt, sem er ekki síður mikilvægt, er að nemendur öðlast skilning á þeirri hæfni sem þeir taka með sér úr náminu. Sameiginlegur skilningur er forsenda farsældar og þar liggja styrkleikar LOUIS“.
Aurora-skólarnir hafa reglulega staðið fyrir vinnustofum fyrir kennara sína um LOUIS-hæfnirammann og hvernig hann er innleiddur í kennslu. Vinnustofunni 9. apríl verður stýrt af þremur akademískum kennurum sem hafa mikla reynslu af notkun LOUIS í öðrum Aurora-háskólum. „Á vinnustofunni fá okkar kennarar tækifæri til að hitta kennara með víðtæka reynslu af notkun LOUIS í kennslu. Það er ómetanlegt að fá þá alla þrjá saman til okkar og enginn ætti að láta slíkt tækifæri fram hjá sér fara“, segir Sandra.
Á síðasta ári var haldin vel heppnuð vinnustofa um LOUIS hjá HÍ þar sem fræðilegi hluti LOUIS-hæfnirammans var í brennidepli. Sandra segir að vinnustofan núna verði fyrst og fremst hagnýt og beinir sjónum að því hvernig LOUIS-verkfærið getur gert þverfræðilega hæfni áþreifanlega, bæði í orði og á borði.
LOUIS-vinnustofan er auglýst í viðburðadagatali HÍ en sætafjöldi er takmarkaður.
Önnur Aurora-tækifæri sem bjóðast starfsfólki HÍ má finna á Aurora-gátt HÍ undir Aurora tækifæri á næstunni. Spurningum um LOUIS-vinnustofuna og önnur tækifæri má beina til aurora@hi.is.