Skip to main content

Sænska - Grunndiplóma

Sænska - Grunndiplóma

Hugvísindasvið

Sænska

Grunndiplóma – 60 einingar

Hagnýtt eins árs nám með áherslu á að nemendur nái hratt og örugglega valdi á viðkomandi máli, öðlist lesskilning, byggi upp orðaforða og þjálfist í töluðu máli. Diplóman nýtist því vel þeim sem hyggja á frekara háskólanám erlendis eða þeim sem vilja ná forskoti á vinnumarkaði, til dæmis í viðskiptum eða ferðaþjónustu. Fjarnám.

Skipulag náms

X

Sænsk málnotkun I (SÆN101G)

Lögð verður áhersla á talað mál, orðaforða, ásamt færni í að tala eðlilega og fjölbreytta sænsku. Markmiðið er að nemendur nái góðum tökum á að nota sænsku til tjáskipta. Lestur, talmál, munnlegar æfingar í nútímasænsku. Ætlast er til að nemendur hafi a.m.k. grunnþekkingu í sænsku fyrir. Nemendur í fjarnámi gera æfingar skriflega eða taka upp myndbönd eða hljóðskrár þar sem þeir svara spurningum vikunnar.

Lokaprófið er munnlegt fyrir alla og þá á Teams fyrir þá sem komast ekki á staðinn.

X

Sænskar bókmenntir eftir 1980 (SÆN102G)

Farið verður yfir nýjustu stefnur og strauma í sænskum bókmenntum. Nemendur eiga að lesa eina bók á önninni og skrifa ritgerð um hana. Yfirferðin um ritgerðina er lokaprófið og þá á nemandinn að geta svarað spurningum frá kennara um bókina. Best er að velja bók snemma á önninni svo hægt sé að lesa hana í ró og næði og skrá athugasemdir um hana til að undirbúa ritgerðina.

Annars verður lögð áhersla á brot úr bókmenntum þar sem farið verður yfir nýjar og áhugaverðar sænskar bækur og stílbrigðin í þeim. Nemendur eiga einnig að lesa eina smásögu á önninni. Markmiðið er að nemendur fá góða og yfirgripsmikla þekkingu um sænskar nútímabókmenntir og -höfunda.

X

Ingmar Bergman - uppreisn gegn föðurímynd (SÆN105G)

Í námskeiðinu verður fjallað um kvikmyndir Ingmars Bergman, fyrst og fremst fyrstu kvikmyndir frá tímabilinu 1950-60, þar sem uppreisn gegn föðurvaldinu myndar eins konar sálrænan kjarna. Áhersla verður lögð á þróun þemans um þörf hins trúaða manns fyrir einhvers konar tákn frá Guði í Sjunde inseglet (1956) til þess að hann samþykki að trúa á hinn grimma Guð í Jungfrukällan (1960) og áfram til uppgjörs við hina neikvæðu guðsmynd í Såsom i spegel (1961), Nattvardsgästerna (1962) og Tystnaden (1963). Nemendur horfa á fimm myndir og þær ræddar og greindar í tímum.

X

Sænsk málfræði I (SÆN106G)

Farið yfir grundvallaratriði í sænskri málfræði. Í námskeiðinu er áherslan lögð á beygingarfræði. Fjallað verður um orðflokkana og gefið yfirlit yfir uppbyggingu og beygingu orða. Veittur verður fræðilegur grunnur ásamt því að nemendur geri skriflegar æfingar.

X

Orðaforði og orðmyndun (SÆN111G)

Markmið námskeiðsins er að auka orðaforða nemenda. Námskeiðið skiptist í merkingarfræðihluta og orðmyndunarhluta. Fjallað verður um fyrirbrigði eins og merkingu, samhljóða orð, samheiti og skammstafanir. Í seinni hluta námskeiðsins verður sjónum beint að orðmyndun, nýyrðum og tökuorðum.

X

Hagnýt sænska (SÆN112G)

Námskeiðið er fyrir nemendur sem óska eftir grunnþekkingu í sænsku máli sem er hægt að nota á hagnýtan hátt annað hvort í námi eða starfi í Svíþjóð. Námið inniheldur vikulegar æfingar í Canvas í skriflegu formi en einnig æfingar sem gerðar eru í tíma eða heima þar sem nemendur fá að æfa framburð og tjáningu á sænsku. Nemendur læra helstu orð og frasa sem notuð eru í daglegu tali og fá einnig að æfa hagnýta málfræði þar sem áherslan er á notkun en ekki fræði.

X

Svíþjóð í tónum - frá Gamla Nóa til ABBA (SÆN109G)

Námskeiðið er kynning á sænskri tónlist með sérstakri áherslu á tónlist sem slegið hefur í gegn á heimsvísu, en einnig verður farið yfir sænska tónlistarsögu og sænska vísnahefð. Fjallað verður sérstaklega um ABBA og áhrif þessarar hljómsveitar, nútímapopptónlist og tónlist í samfélagslegu samhengi. Nemendur eru hvattir til að hlusta á sænska tónlist og mynda sína eigin skoðun um hana sem og að greina hana.

X

Sænsk málnotkun II (SÆN201G)

Lögð verður áhersla á talað mál og ritað mál. Markmiðið er að nemendur nái góðum tökum á að nota sænsku til tjáskipta. Talað og ritað mál, munnlegar og skriflegar æfingar í nútímasænsku.

X

Félagsleg málvísindi og sænskar mállýskur (SÆN203G)

Markmið námskeiðisins er að kynna nemendum helstu viðfangsefni í félagslegum málvísindum. Meðal annars verður fjallað um kyn-, aldurs- og svæðisbundna málnotkun, innflytjendamál og áhrif þeirra á sænskuna, samtalsgreiningu og áhrif viðhorfa málnotenda á tungumálið. 

X

Þýðingar (sænska) (SÆN205G)

Í námskeiðinu fást nemendur einkum við að þýða texta úr sænsku og á móðurmál sitt.

Skoðaðir verða ýmsar gerðir texta, bæði fagtextar og bókmenntatextar. Textarnir eru fengnir úr bókum, dagblöðum, bæklingum og af vefsíðum stofnana. Þýðingar á fagurbókmenntum verða teknar til sérstakrar athugunar. Nemendur þýða stutta texta og rædd verða þýðingavandamál sem upp koma eins og orðasambönd og menningarbundin atriði og hugað að mismunandi lausnum á þeim. Grunnatriði í þýðingarfræðum verða kynnt og nemendur kynna sér ritgerðir sem fjalla um rannsóknir á þýðingum.

X

Sænsk málfræði II (SÆN206G)

Sænsk málfræði II er framhald af Sænskri málfræði I en ekki er þó nauðsynlegt að hafa lokið því námskeiði. Fjallað verður um sænska beygingarfræði, sérstaklega fallorð og sagnorð. Kynnt verða hugtök á borð við persónuhætti og fallhætti og agnarsagnir. Innan setningafræði verður fjallað um setningar, setningarliði og greiningu á setningarhlutum. Einnig verður rætt um orðaröð og upplýsingaflæði.

X

Sænsk málsaga í 13 textum (SÆN211G)

Námskeiðið er inngangur að sænskri málsögu frá árinu 800 til ársins 1900. Í hverri viku fá nemendur stuttan texta úr mikilvægu riti í sænskri málsögu og læra að skilja textann og greina málfarsbreytingar í honum.

Námskeiðið byrjar á rúnasteininum Rökstenen frá um 800 og svo verður farið fram í tímann með hverjum nýjum texta. Þá verða tekin fyrir atriði eins og málfræði, stafsetning, orðmyndun og innihald. Námskeiðið endar á texta sem myndaði kaflaskiptin þar sem sænskan kom inn í núverandi tímabil, svo kallaða nútímasænsku (nusvenska).

Í lokaprófinu fá nemendur alveg nýjan texta sem þeir eiga að greina. Þá reyna nemendur að skilja innihald og orð textans, nefna mikilvæg málfræðileg atriði í honum og nefna hvað er áhugavert við stafsetninguna. Út frá þessu reyna nemendur að staðsetja textann í tímaröð eftir bestu getu.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Ásdís Ingólfsdóttir
Ásdís Ingólfsdóttir
Sænsku- og ritlistarnám

Þegar ég hóf nám í ritlist við Háskóla Íslands gat ég valið námskeið í sænskudeildinni. Til að byrja með valdi ég sænskar bókmenntir og þýðingar úr sænsku en fleira vakti áhuga minn. Þannig að þegar ég kláraði ritlistina ákvað ég að halda áfram í sænskunni og klára diplóma-próf. Bæði fann ég hvað það bætti sænskuna mína og styrkti kunnáttu mína í málfræði, auk þess var fjöldi áhugaverðra námskeiða sem mig langaði til að taka meðal annars um sænska tónlist og kvikmyndir. Kennararnir eru áhugasamir og metnaðarfullir. Hóparnir litlir og möguleiki er að taka námskeið í fjarnámi sem hentaði mér vel. Með því að ljúka prófi í sænsku aukast möguleikar mínir á að fá verkefni í þýðingum og kennslu sem ég hef að aðalstarfi. 

Hafðu samband

Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2

Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.

Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.

Fylgstu með Hugvísindasviði:

Háskóli Íslands - aðalbygging

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.