Reglur um Menntavísindastofnun Háskóla Íslands, nr. 1023/2009
með síðari breytingum
1. gr. Almennt.
[Menntavísindastofnun Háskóla Íslands er vísindaleg rannsókna- og fræðastofnun sem sinnir einnig starfsþróun á vettvangi Menntavísindasviðs. Stofnunin er starfrækt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.]1
1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 354/2013.
2. gr. Hlutverk.
[Meginhlutverk Menntavísindastofnunar er að efla rannsóknir og rannsóknaumhverfi innan Menntavísindasviðs og stuðla að miðlun og nýtingu þekkingar á þeim vettvangi sem sviðið þjónar.]1
Stofnunin skal gangast fyrir og greiða fyrir ráðstefnum, málstofum, fyrirlestrahaldi og útgáfustarfsemi sem tengjast rannsóknum og rannsóknastofum við sviðið og bera faglega ábyrgð á árlegu málþingi Menntavísindasviðs um rannsóknir, nýbreytni og þróun.
Enn fremur skal stofnunin stuðla að samstarfi rannsakenda sviðsins við fræðimenn utan þess, bæði innlenda og erlenda, svo og samstarfi við tengdar stofnanir innan og utan Háskóla Íslands. Að auki skal stofnunin sinna rannsókna- og þjónustuverkefnum sem tengjast fræðasviðum Menntavísindasviðs, stuðla að sýnileika rannsókna innan sviðsins og út á við og eiga samstarf við aðila innan sviðsins um kennslu í aðferðafræði, tengsl rannsókna við vettvang og þjálfun nemenda í vísindalegum vinnubrögðum.
[Stofnunin skal, í samráði við deildir Menntavísindasviðs, stofur stofnunarinnar og ýmsa hagsmunaaðila eftir atvikum, stuðla að símenntun og starfsþróun á vettvangi menntamála. Þetta starf getur meðal annars falist í margvíslegri ráðgjöf, skýrslugerð, námskeiðahaldi og starfsþróun á vettvangi, en einnig í umsjón með nemendum sem sækja námskeið á vegum deilda sviðsins.]1
1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 354/2013.
3. gr. Aðstaða.
Menntavísindasvið lætur stofnuninni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað eftir því sem kostur er. Menntavísindastofnun útvegar rannsóknastofum, gestakennurum og starfsmönnum rannsóknaverkefna við sviðið aðstöðu eftir því sem kostur er.
4. gr. Skipulag.
[Innan vébanda Menntavísindastofnunar starfa rannsóknastofur og rannsóknahópar á vegum fastráðinna kennara við Menntavísindasvið. Stjórn Menntavísindastofnunar setur rannsóknastofum og rannsóknahópum við fræðasviðið starfsreglur, þ.á.m. um skipan stjórnar og val forstöðumanns. Heimilt er að deildaskipta Menntavísindastofnun til þess að skerpa verkaskiptingu, meðal annars varðandi rannsóknir og starfsþróun. Rannsakendur greiða fyrir þjónustu Menntavísindastofnunar í samræmi við veitta þjónustu og samkvæmt samkomulagi við forstöðumann. Leitast verður við að veita rannsakendum við sviðið ákveðna þjónustu án endurgjalds samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Gert er ráð fyrir að framlag stofnunarinnar til símenntunar og skyldra verkefna greiðist af sjálfsaflafé.]1
1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 354/2013.
5. gr. Stjórn.
[Stjórn Menntavísindasviðs er jafnframt stjórn Menntavísindastofnunar og er forseti sviðsins formaður stjórnar. Rekstrarstjóri Menntavísindasviðs og forstöðumaður Menntavísindastofnunar sitja fundi stjórnar, með tillögurétt, en án atkvæðisréttar. Forstöðumaður ritar fundargerð. Stjórninni er ætlað að fylgja stefnu fræðasviðsins í rannsóknum og stefnu um miðlun hagnýtrar þekkingar til vettvangs. Stjórn getur myndað samráðsvettvang með formönnum doktorsráðs, kennsluráðs, rannsóknaráðs og vettvangsráðs fræðasviðsins og eftir atvikum öðrum sem stjórn telur mikilvægt að eiga samráð við.
Stjórnarfundi skal halda minnst einu sinni á hverju misseri.]1
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 354/2013.
6. gr. Stjórnarfundir.
Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega eða í tölvupósti með minnst þriggja daga fyrirvara. Fundarboð skal greina frá dagskrá fundar.
Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. [Sama gildir er rektor ber fram slíka ósk, og hefur rektor þá málfrelsi og tillögurétt á fundinum, en ekki atkvæðisrétt.]1
Komi til atkvæðagreiðslu í stjórn ræður meiri hluti atkvæða. [Rita skal fundargerð stjórnarfunda og staðfesta hana á næsta fundi.]1 Afrit fundargerða skulu sett á vef fræðasviðsins.
[Formaður stjórnar og forstöðumaður halda fundi með forsvarsmönnum rannsóknastofa við fræðasviðið a.m.k. einu sinni á ári, þar sem fjallað er um mál sem lúta að þróun stofnunarinnar.]1
1Breytt með 5. gr. rgl. nr. 354/2013.
7. gr. Verkefni stjórnar.
Stjórn fjallar um öll málefni Menntavísindastofnunar, mótar starfsemi hennar, ber ábyrgð á fjármálum hennar gagnvart forseta fræðasviðs, semur fjárhagsáætlun og gerir tillögu til forseta fræðasviðs um fjárveitingar og skiptingu þeirra ásamt skiptingu annarra tekna. Stjórn sker úr vafaatriðum er upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunar. Stjórn undirbýr ásamt forstöðumanni rekstrar- og fjárhagsáætlun og samþykkir þjónustuverkefni sem stofnunin tekur að sér í samræmi við reglur þar um. Heimilt skal að framselja ákvörðunarvald um smærri verkefni til forstöðumanns.
Menntavísindastofnun efnir til ársfundar með forsvarsmönnum rannsóknastofa við fræðasviðið og stjórn sviðsins þar sem ársskýrsla er lögð fram og önnur mál svo sem kveðið er á um í reglum fyrir Háskóla Íslands.
[...]1
1Breytt með 6. gr. rgl. nr. 354/2013.
[8. gr.]1 Forstöðumaður og annað starfsfólk.
[Forseti Menntavísindasviðs ræður forstöðumann Menntavísindastofnunar.]1 Forstöðumaður skal hafa doktorspróf eða rannsóknatengt meistarapróf hið minnsta ásamt þekkingu á aðferðafræði og reynslu af vinnu við rannsóknir. Æskilegt er að forstöðumaður þekki styrkja- og rannsóknaumhverfi á Íslandi og erlendis og hafi reynslu af stjórnun rannsóknaverkefna og vinnu við umsóknir í rannsóknasjóði. Þekking á viðfangsefnum rannsakenda við Menntavísindasvið er einnig æskileg. Forseti fræðasviðs setur forstöðumanni erindisbréf þar sem nánar er kveðið á um verkefni hans. Forstöðumaðurinn tilheyrir stjórnsýslu sviðsins. [Um ráðningu forstöðumanns og annars starfsfólks fer að öðru leyti eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.]1
[Forstöðumaður stýrir daglegum rekstri stofnunarinnar í samráði við stjórn og situr fundi stjórnar.]1
1Breytt með 7. gr. rgl. nr. 354/2013.
[9. gr.]1 Fjármál.
Tekjur Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands eru eftirfarandi:
- styrkir til einstakra verkefna,
- greiðslur fyrir þjónustustarfsemi,
- tekjur af fundum, námskeiðum og útgáfustarfsemi,
- aðrar tekjur, t.d. gjafir og framlög úr ríkissjóði eftir því sem kveðið kann að vera á um í fjárlögum,
- framlag frá Menntavísindasviði.
[Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi Háskóla Íslands og Menntavísindasviðs og heyra alfarið undir stjórn sviðsins. Stofur, deildir og verkefni skulu hafa sérstök bókhaldsnúmer.] Fjárhagsáætlanir skulu bornar undir forseta fræðasviðs. Ef um er að ræða útselda þjónustu sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, skal sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands.
1Breytt með 8. gr. rgl. nr. 354/2013.
[10. gr.] Gildistaka.
Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, að fenginni tillögu stjórnar Menntavísindasviðs, öðlast gildi 1. janúar 2010.
1Breytt með 6. gr. rgl. nr. 354/2013.
Háskóla Íslands, 11. desember 2009.