05/2009
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2009, fimmtudaginn 7. maí var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Brynjar Smári Hermannsson (varamaður Elínar Óskar Helgadóttur), Gunnar Einarsson, Hörður Arnarsson (varamaður Hilmars B. Janussonar), Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Gunnlaugur Björnsson boðaði forföll og varamaður hans einnig. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.
Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá nokkrum atburðum frá síðasta fundi ráðsins. Í fyrsta lagi hefur Valgerður Bjarnadóttir beðist lausnar úr háskólaráði vegna þess að hún hefur tekið sæti á Alþingi. Skilaði rektor góðri kveðju Valgerðar til ráðsins og þakkaði henni fyrir farsælt starf í háskólaráði Háskóla Íslands og óskaði henni alls hins besta á nýjum starfsvettvangi. Í öðru lagi greindi rektor frá ferð sinni á fund menntamálaráðherra aðildarríkja Bologna-ferlisins í Belgíu. Efni fundarins var staða og framtíð Bologna-ferlisins þar sem á næstu árum verður m.a. lögð áhersla á eflingu gæðastarfs, aukið vægi náms alla ævi og samstarf við ríki utan Evrópu. Í þriðja lagi greindi rektor frá samstarfssamningi Háskóla Íslands og Fróðskaparseturs Færeyja sem undirritaður var 17. apríl sl. þar sem lagður er grunnur að auknu samstarfi á milli beggja stofnana og landa. Í fjórða lagi skýrði rektor frá ferð sinni til Ísafjarðar og Bolungarvíkur í upphafi vikunnar, en á síðarnefnda staðnum var opnað formlega fræðasetur Háskóla Íslands, en það hefur verið starfrækt í 18 mánuði. Í fimmta lagi bauð rektor ráðsmönnum að sitja fund kennslumálanefndar háskólaráðs og Félags íslenskra framhaldsskóla sem haldinn verður í Hátíðasal mánudaginn 11. maí nk. og þar sem m.a. verður fjallað um ný framhaldsskólalög og áhrif þeirra á undirbúning framhaldsskólanema og inntökukröfur háskóla.
Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.
1. Mál á dagskrá
1.1 Aldarafmæli Háskóla Íslands 2011. Tillögur afmælisnefndar.
Inn á fundinn kom Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og formaður afmælisnefndar og gerði grein fyrir framlögðum fyrstu tillögum nefndarinnar og viðbrögðum fræðasviða Háskólans. Málið var rætt ítarlega og lýstu ráðsmenn ánægju með tillögur afmælisnefndar. Fram komu ýmsar hugmyndir og ábendingar um framkvæmd afmælisdagskrárinnar sem tekið verður mið af við framhald starfsins. Unnið verði að forgangsröðun og fjárhagsáætlun fyrir næsta fund háskólaráðs.
1.2 Fjárveiting til Háskóla Íslands vegna námskeiða og prófa sumarið 2009.
Rektor vísaði í ákvörðun stjórnvalda að veita fé til þess að Háskólinn geti boðið upp á sumarnám til að koma til móts við stúdenta sem verða án atvinnu í sumar. Fyrir fundinum lá yfirlit um skráningar í sumarnámskeið við Háskóla Íslands.
1.3 Nýtt skipulag Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Jón Torfi Jónasson, forseti Menntavísindasviðs, og kynnti skipulag, stefnu og starfsemi fræðasviðsins. Málið var rætt ítarlega og svaraði Jón Torfi spurningum ráðsmanna.
1.4 Heildarendurskoðun reglna Háskóla Íslands, drög kafla I-XV. Staða mála.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir drögum að endurskoðuðum reglum Háskóla Íslands sem eru í vinnslu. Málið var rætt og svaraði Þórður spurningum ráðsmanna. Málið verður á dagskrá háskólaþings 15. maí nk. og kemur að því búnu aftur til háskólaráðs.
1.5 Tillaga vísindanefndar háskólaráðs um endurskoðað matskerfi rannsókna, sbr. fund ráðsins 5. mars sl. Staða mála.
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, og gerði grein fyrir tillögu vísindanefndar háskólaráðs um endurskoðað matskerfi rannsókna, viðbrögð fræðasviða við þeim. Málið var rætt ítarlega og svaraði Halldór spurningum ráðsmanna. Þökkuðu fulltrúar í háskólaráði Halldóri fyrir vandaðan undirbúning málsins. Málið verður á dagskrá háskólaþings 15. maí nk. og í framhaldinu munu rektor og forsetar fræðasviða vinna áfram að málinu.
1.6 Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs f.h. læknadeildar um veitingu heiðursdoktorsnafnbótar.
Fyrir fundinum lá tilnefning Hans-Olov Adami, prófessors og deildarforseta faraldsfræðideildar Harvard School of Public Health, til heiðursdoktorsnafnbótar við Læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma.
1.7 Meistaranám í talmeinafræði.
Rektor gerði grein fyrir sérstökum fjárstuðningi sem hefði borist af hálfu heilbrigðisráðuneytis og menntamálaráðuneytis til að hrinda af stað meistaranámi í talmeinafræði, en mikil og brýn þörf er í samfélaginu fyrir menntaða talmeinafræðinga. Námið hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið en fjárveitingar ekki verið fyrir hendi. Í ljósi þessa sérstaka framlags verður náminu hrundið af stað haustið 2010. Gert er ráð fyrir að undirbúningsnám hefjist í haust.
2. Erindi til háskólaráðs
2.1 Þverfagleg rannsóknastofnun í fjölskyldufræðum kennd við Ármann Snævarr, sbr. fund ráðsins 5. mars sl. Drög að reglum um stofnunina ásamt greinargerð.
- Frestað til næsta fundar.
2.2 Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum:
a) Tillaga frá Hugvísindasviði:
- breyting á inntökuskilyrðum í deildir Hugvísindasviðs, sbr. reglur nr. 319/2009.
b) Tillaga frá Lagadeild:
- breyting á inntökuskilyrðum í deildina, sbr. reglur nr. 319/2009.
Rektor og Þórður Kristinsson gerðu grein fyrir tillögunum og voru þær ræddar.
- Tillögur Hugvísindasviðs og Lagadeildar Félagsvísindasviðs samþykktar einróma.
2.3 Tillaga frá Félagsvísindasviði um takmörkun á fjölda nemenda í þrjú sumarnámskeið.
- Samþykkt einróma.
2.4 Tilnefning fulltrúa Háskóla Íslands í stjórn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Rektor gerði grein fyrir málinu og bar upp tillögu um að Höskuldur Þráinsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, taki sæti í stjórn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í stað Guðrúnar Nordal prófessors sem skipuð hefur verið forstöðumaður stofnunarinnar og hefur því verið veitt lausn frá setu í stjórninni.
- Samþykkt einróma.
2.5 Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Tern Systems hf. Ársreikningur Tern Systems hf. 2008.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Bar rektor upp þá tillögu að Ebba Þóra Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs verði áfram fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Tern Systems hf. og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs verði varafulltrúi skólans í stjórn félagsins. Stjórnin er skipuð til eins árs í senn og fer kjör fram á aðalfundi.
- Ársreikningur Tern Systems hf. staðfestur og skipun Ebbu Þóru Hvannberg sem fulltrúa Háskóla Íslands og Sigurðar J. Hafsteinssonar sem varamanns í stjórn félagsins samþykkt einróma.
2.6 Skipun fulltrúa háskólaráðs í fastadómnefnd Menntavísindasviðs.
Rektor gerði grein fyrir framlagðri tillögu um að háskólaráð tilnefni Kristján Kristjánsson, prófessor við Menntavísindasvið, fulltrúa sinn og formann í fasta dómnefnd Menntavísindasviðs. Jafnframt verði Guðrún Kristinsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið varafulltrúi ráðsins í dómnefndinni. Fyrir eiga sæti í nefndinni tveir fultrúar menntamálaráðherra, þau Berit H. Johnsen, dósent við Oslóarháskóla og Ingólfur Á. Jóhannesson, prófessor við kennaradeild Háskólans á Akureyri.
- Samþykkt einróma.
2.7 Fjárhagsáætlun fyrir MBA-nám í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands 2009-2011.
Fyrir fundinum lá fjárhagsáætlun MBA-náms í Viðskiptafræðideild fyrir tímabilið 2009-2011. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma.
2.8 Endurskoðað erindisbréf kennslumálanefndar háskólaráðs.
Þórður Kristinsson og Magnús Diðrik Baldursson gerðu grein fyrir málinu og var það rætt stuttlega.
- Samþykkt einróma.
[Þegar hér var komið sögu vék Anna Agnarsdóttir af fundi vegna annarra skyldustarfa].
2.9 Samningur Háskóla Íslands og Orkuvarðar ehf.
Fyrir fundinum lágu drög að samningi milli Háskóla Íslands og Orkuvarðar ehf. um eignaraðild skólans að félaginu. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samningsdrögin samþykkt með 6 atkvæðum, en tveir sátu hjá.
2.10 Veiting akademískra nafnbóta, sbr. reglur nr. 838/2002 um viðurkenningu á akademísku hæfi starfsmanna á Landspítala-háskólasjúkrahúsi og veitingu akademískrar nafnbótar.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma.
2.11 Kjör tveggja stjórnarmanna í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands til næstu tveggja ára.
Rektor gerði grein fyrir málinu og bar upp tillögu um að Björg Thorarensen og Róbert R. Spanó, prófessorar við Lagadeild Félagsvísindasviðs, verði fulltrúar háskólaráðs í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands til til 30. apríl 2011. Jafnframt verði Pétur Dam Leifsson lektor við Lagadeild varamaður til sama tíma.
- Samþykkt einróma.
3. Mál til fróðleiks
3.1 Dagskrá háskólaþings 15. maí 2009.
3.2 Erindisbréf starfshóps háskólaráðs um mörkun stefnu Háskóla Íslands í málefnum er lúta að nýsköpun.
3.3 Samstarfsamningur Háskóla Íslands og Fróðskaparseturs Færeyja, 17. apríl 2009.
3.5 Reglur um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum, nr. 321/2009.
3.6 Samstarfssamningur um stofnun Orkurannsóknaseturs, 16. apríl 2009.
3.7 Yfirlit um starfsemi Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.