Skip to main content

Háskólaráðsfundur 5. júní 2014

06/2014

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2014, fimmtudaginn 5. júní var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Eyvindur G. Gunnarsson (varamaður fyrir Ebbu Þóru Hvannberg), Guðrún Hallgrímsdóttir, Kjartan Þór Eiríksson (varamaður fyrir Jakob Ó. Sigurðsson), Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Þórður Kristinsson sem ritaði fundargerð.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver ráðsmaður teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Svo var ekki. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Rektor bar upp tillögu um að tvennt yrði á dagskrá undir liðnum „önnur mál“, þ.e. tillaga um ákvæði til bráðabirgða í reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 um kjör fulltrúa stúdenta í háskólaráð fyrir næsta tímabil annars vegar og frestun framkvæmdar stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum hins vegar, og var það samþykkt.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Verið er að ganga frá ráðningu í 9 lektorsstörf, en um er að ræða lið í markvissri nýliðun í hópi ungra vísindamanna á öllum fræðasviðum fyrir tilstilli Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands. Alls bárust um 250 umsóknir og sóttu margir öflugir umsækjendur um störfin. Ljóst er að ýmsir möguleikar til þverfræðilegs samstarfs munu opnast í tengslum við ráðningarnar. Rúmlega helmingur nýráðinna lektora kemur úr alþjóðlegu starfsumhverfi.
b) Opinn fundur rektors var haldinn í Hátíðasal 15. maí sl.
c) Sama dag var úthlutað styrkjum úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar við Háskóla Íslands til tveggja rannsókna, sem miða að því að greina bestu aðferðir til að vinna gegn einelti.
d) Hinn 20. maí sl. var átta grunnnemum við Háskóla Íslands veittur styrkur til sumarnáms við þrjá háskóla í Bandaríkjunum sem teljast í hópi þeirra bestu í heimi. Háskólarnir eru California Institute of Technology (Caltech) í Pasadena í Kaliforníu, Purdue University í Indiana og Stanford háskóli í Kaliforníu.
e) Dagana 20.-23. maí sl. var haldið alþjóðlegt framhaldsnámskeið í hjúkrunarstjórnun við Hjúkrunarfræðideild sem skipulagt var í samvinnu við University of Minnesota. Þátttakendur voru 50 talsins frá fjórum löndum.
f) Fulltrúi úr Gæðaráði háskóla fundaði með fulltrúum Háskóla Íslands 21. maí sl.
g) Tæplega 260 m.kr. var úthlutað úr rannsóknasjóðum við Háskóla Íslands 21. maí sl. Styrkirnir renna til 29 doktorsnema og vísindamanna við háskólann og verða þeir nýttir til rannsókna á fjölbreyttum fræðasviðum innan skólans, m.a. til rannsóknaverkefna í læknisfræði, félagsfræði, mannfræði, næringarfræði, félagsráðgjöf, sagnfræði, líffræði, íslenskri málfræði, sálfræði, íþrótta- og heilsufræði, iðnaðarverkfræði, heimspeki, uppeldis- og menntunarfræði, stærðfræði, landfræði, bókmenntafræði, eðlisfræði, umhverfis- og byggingarverkfræði og  tölvunarfræði.
h) Árlegur samráðsfundur fulltrúa Háskóla Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytis um samning háskólans og ráðuneytis um kennslu og rannsóknir var haldinn 22. maí sl.
i) Sjötta útskrift Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) fór fram 22. maí sl., en Jafnréttisskólinn heyrir undir Hugvísindasvið og er rekinn með stuðningi utanríkisráðuneytisins sem hluti af framlagi Íslands til þróunarsamvinnu. Alls útskrifuðust 14 nemar frá fjórum löndum, Malaví, Mósambík, Úganda og Palestínu.
j) Kynningarfundur um árangur rannsóknastarfs við Háskóla Íslands í alþjóðlegum samanburði var haldinn 27. maí sl. þar sem farið var yfir akademískan styrk Háskóla Íslands og röðun háskóla með áherslu á alþjóðlegan samanburð, einkum við norræna háskóla og háskólasjúkrahús.
k) Irina Bokova, aðalframkvæmdastjóri UNESCO, sótti háskólann heim 26. maí sl. og flutti fyrirlestur í Hátíðasal Háskóla Íslands. Í fyrirlestrinum beindi Bokova sjónum að því áhrifavaldi sem felst í hlutverki og umboði UNESCO við nýtingu menningarverðmæta og vísindalegrar þekkingar í þágu varanlegs friðar og sjálfbærrar þróunar. Bokova gat þess í fyrirlestrinum að Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar, sem starfar undir formerkjum UNESCO og er sérstakt setur innan Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, sé afar mikilvæg í alþjóðlegu samhengi.
l) Rektor Háskólans í Nuuk á Grænlandi átti fund með rektor og fræðasviðsforsetum 26. maí sl. og menntamálaráðherra Grænlands fundaði með rektor 2. júní sl.
m) Níunda máltækniráðstefnan LREC (Language Resources and Evalutation Conference) var haldin í Hörpu í lok maí. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og er sú stærsta á sínu sviði. Þátttakendur voru um 1.200 og koma hvaðanæva úr heiminum. Ráðstefnan er mikil lyftistöng fyrir íslenskar málrannsóknir og skapar mörg tækifæri fyrir stúdenta og fræðimenn. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor var formaður íslenskrar undirbúningsnefndar ráðstefnunnar.
n) Fimm nemendum og háskólakennara var veittur styrkur úr Watanabe-styrktarsjóðnum við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands 4. júní sl. Styrkirnir nýtast til náms og rannsókna annað hvort á Íslandi eða í Japan og hafa það að markmiði að efla tengsl íslensks og japansks fræðasamfélags. Heildarupphæð styrkjanna nemur nærri sjö milljónum króna.
o) Rektor Fróðskaparseturs Færeyja fundaði með fulltrúum Háskóla Íslands í morgun (5. júní) um samstarf skólanna.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.
a) Ársreikningur Háskóla Íslands 2013.
Inn á fundinn kom Jenný Bára Jensdóttir, fjármálastjóri og gerði grein fyrir fram lögðum ársreikningi fyrir árið 2013. Málið var rætt ítarlega og svaraði Jenný Bára spurningum ráðsmanna.
– Ársreikningur Háskóla Íslands 2013 samþykktur einróma.

b) Rekstraryfirlit fyrstu fjóra mánuði ársins 2014.
Jenný Bára gerði grein fyrir rekstraryfirlitinu. Málið var rætt. Reksturinn er í jafnvægi.

c) Fjármögnun Háskóla Íslands til framtíðar. Markmið og leiðir.
Rektor reifaði mögulegar leiðir til fjármögnunar Háskóla Íslands til framtíðar og markmið sem því tengjast. Málið var rætt ítarlega.
– Samþykkt einróma að fela rektor að vinna áfram að málinu í takt við umræður á fundinum. Fulltrúar háskólaráðs vegna næstu skrefa verði Ebba Þóra Hvannberg og Jakob Sigurðsson.

3. Árangur starfs háskólaráðs 2013-2014.
a) Álit nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á liðnu háskólaári.

Börkur Hansen, varaforseti háskólaráðs og formaður nefndarinnar, gerði grein fyrir álitinu, en hlutverk nefndarinnar er að leggja árlega mat á störf háskólaráðs á undangengnu starfsári með það að markmiði að rýna vinnubrögð ráðsins og leggja til umbætur á starfsháttum þess. Málið var rætt ítarlega. Fram kom í umræðum að setning starfsreglna 1. nóvember 2012 og breytingar sem ráðið gerði á þeim 5. september 2013 hafi verið til bóta og gert störf ráðsins markvissari. Sammæli var um að nefndarálitið væri gagnlegt fyrir nýtt háskólaráð sem tekur til starfa í lok sumars.

b) Árangur starfsáætlunar háskólaráðs 2013-2014. Yfirlit.
Málið var rætt og lýstu ráðsmenn ánægju með hve vel hefur tekist til við framkvæmd starfsáætlunarinnar.

4. Formenn starfsnefnda háskólaráðs frá 1. júlí 2014, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Fyrir fundinum lá yfirlit um formenn starfsnefnda háskólaráðs 1.7.2014-30.6.2017 sem eru skipaðir skv. erindisbréfum sem háskólaráð setur, sbr. 7. gr. reglna nr. 569/2009.

Vísindanefnd: Ármann Jakobsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði.

Gæðanefnd: Jón Atli Benediktsson, prófessor, aðstoðarrektor vísinda og kennslu til 31.12. 2014. Sigurður Magnús Garðarsson, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, frá 1.1. 2015.

Kennslumálanefnd: Börkur Hansen, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild á Menntavísindasviði.

Fjármálanefnd. Guðmundur R. Jónsson, prófessor, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs.

Samráðsnefnd um kjaramál. Formaður er valinn úr röðum fastráðinna kennara. Guðmundur R. Jónsson, prófessor, formaður.

Jafnréttisnefnd: NN.

– Samþykkt einróma. Rektor mun ganga frá skipun formanns jafnréttisnefndar fljótlega í kjölfar fundarins.

5. Þverfræðilegt samstarf innan Háskóla Íslands, tækifæri og hindranir, sbr. fund ráðsins 6. mars sl. Greining starfshóps. Staða mála.
Daði Már Kristófersson, formaður starfshópsins, kom inn á fundinn og greindi frá vinnu starfshóps og stöðu mála. Fram kom að skýrsla er væntanleg á næstunni. Málið var rætt.

6. Aðalfundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 2013, skv. gr. 3.2 í samþykktum félagsins.
Rektor greindi frá því að undir þessum lið færi fram aðalfundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. (VHÍ) fyrir árið 2013, skv. gr. 3.2 í samþykktum félagsins. Í lok árs 2013 var allt hlutafé í eigu Háskóla Íslands og er háskólaráð því vettvangurinn fyrir aðalfund þess. Inn á fundinn komu Hilmar Bragi Janusson, formaður stjórnar f.h. stjórnar VHÍ, og Eiríkur Hilmarsson framkvæmdastjóri félagsins.

Hilmar Bragi setti aðalfundinn og óskaði eftir því að rektor tæki við fundarstjórn og að fundarritari háskólaráðs ritaði fundargerð. Var það samþykkt.

Samkvæmt gr. 3.2. í samþykktum félagsins eru eftirfarandi mál á dagskrá aðalfundar:

1. Stjórn félagsins skýrir frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári.
Hilmar Bragi Janusson gerði grein fyrir starfsemi félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári. Árið 2013 var tímamótaár í sögu félagsins. Stærstu málin voru kaup VHÍ á fasteigninni að Sturlugötu 8 sem hýsir Íslenska erfðagreiningu og samningur sem gerður var við Alvogen Bio Tech ehf. um heimild Alvogen til afnota af lóð sem samræmist  byggingarréttinum undir fasteign Alvogen, en VHÍ hefur umráðarétt yfir lóðinni í samræmi við samning Háskóla Íslands og VHÍ. Þá var undirritaður rammasamningur við Reykjavíkurborg um uppbyggingu Vísindagarðalóðarinnar og samþykkt aðkoma borgarinnar að félaginu með breytingum á samþykktum þess. Að framsögu Hilmars Braga lokinni var málið rætt og svaraði hann spurningum ráðsmanna.
– Skýrsla stjórnar samþykkt einróma.

2. Ársreikningur ásamt athugasemdum endurskoðanda lagður fram til  samþykktar.
Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri  fór yfir ársreikning og svaraði fyrirspurnum er fram komu.
– Ársreikningur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. fyrir árið 2013 samþykktur einróma.

3. Kosning stjórnar félagsins og endurskoðanda eða skoðunarmanna.
Fyrir fundinum lá eftirfarandi tillaga: Lagt er til að stjórn verði áfram þannig skipuð til næsta hluthafafundar: Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, formaður. Aðrir í stjórn: Ingjaldur Hannibalsson, prófessor, Sigríður Ólafsdóttir, sviðsstjóri, Steinunn J. Kristjánsdóttir, prófessor, Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar. Til vara: Þorgerður K. Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins (1. varamaður), Sigurður M. Garðarsson, prófessor (2. varamaður).
– Samþykkt einróma.

Ríkisendurskoðun annast endurskoðun ársreiknings.
– Samþykkt einróma.

4. Ákvörðun um hvernig fara skal með hagnað eða tap og um arð og framlög í  varasjóð.
Samkvæmt samþykktum félagsins má einungis ráðstafa hagnaði og eignum þess í þágu tilgangs félagsins og er ekki heimilt að taka hagnað eða arð út úr félaginu.

5. Ákvörðun um greiðslur til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu.
Fyrir fundinum lá tillaga um að stjórnarmönnum verði sem fyrr ekki greidd laun. Hilmar Bragi gerði grein fyrir tillögunni. Fram kom hjá honum að gera má ráð fyrir því að með mjög vaxandi starfsemi félagsins verði lagt til á næsta aðalfundi að greiða stjórnarmönnum laun fyrir störf þeirra á liðnu starfsári.
– Samþykkt einróma.

6. Önnur mál löglega upp borin.
Engin önnur mál voru borin upp.

Fleira var ekki gert og aðalfundi Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 2013 slitið.

7. Aðgangspróf fyrir háskólastig. Staða mála.
Inn á fundinn kom Róbert Haraldsson, prófessor og formaður kennslumálanefndar háskólaráðs, og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi aðgangspróf fyrir háskólastig. Málið var rætt og svaraði Róbert spurningum ráðsmanna. Að lokinni umræðu þakkaði rektor Róbert fyrir farsæl störf sem formaður kennslumálanefndar undanfarin sex ár.
– Samþykkt einróma að beina því til deilda að þær taki ákvörðun um það fyrir 15. september nk. hvort þær hyggist nota aðgangspróf við inntöku nemenda í grunnnám á næstu árum.

8. Bókfærð mál.
a) Tillaga Verkfræði- og náttúruvísindasviðs að stofnun tveggja námsleiða til BS prófs í tæknifræði í Rafmagns- og tölvuverkfræðideild.

– Samþykkt.

b) Tillaga námsstjórnar að breytingu á reglum um þverfræðilegt meistara- og doktorsnám í umhverfis- og auðlindafræði.
– Samþykkt.

c) Tilnefning tveggja fulltrúa Háskóla Íslands og tveggja til vara í stjórn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.
Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns: Aðalfulltrúar: Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði og Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði. Varafulltrúar: Ágústa Pálsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild á Félagsvísindasviði og Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor við Umhverfis- og byggingaverkfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.
– Samþykkt.

9. Mál til fróðleiks.
a) Skipun framgangsnefndar Háskóla Íslands.
b) Námsstjórn þverfræðilegs meistara- og doktorsnáms í umhverfis- og auðlindafræði.
c) Námsstjórn þverfræðilegs meistara- og doktorsnáms í lýðheilsuvísindum.
d) Úthlutun úr Tækjakaupasjóði Háskóla Íslands 2014.
e) Úthlutun doktorsstyrkja úr doktorssjóðum Háskóla Íslands 2014.
f)  Stefna og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014-2016.
g) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, maí 2014.
h) Skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirfylgni: Stjórnun og rekstur Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, júní 2014.

10. Önnur mál.
a) Tillaga um ákvæði til bráðabirgða í 3. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 um kjör fulltrúa stúdenta í háskólaráð fyrir næsta tímabil, 2014-2016.

Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu. 
– Samþykkt einróma.

b) Frestun framkvæmdar stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum vegna seinkunar á þróun opins rafræns varðveislusafns.
Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir málinu. Lagt til að framkvæmd stefnu um opinn aðgang verði frestað til 1. janúar 2015.
– Samþykkt einróma.

Í lok fundar færði rektor ráðsmönnum einlægar þakkir fyrir farsælt og árangursríkt samstarf undanfarin tvö ár, en nýtt ráð tekur við frá 1. júlí nk.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.30.