Skip to main content

Háskólaráðsfundur 4. nóvember 2010

10/2010

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2010, fimmtudaginn 4. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hilmar B. Janusson, Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. Fundinn sat einnig Jón Atli Benediktsson fram að dagskrárlið 1.2. Þórður Sverrisson boðaði forföll og varamaður hans einnig.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá tveimur nýlegum viðburðum. Michael Porter, prófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum kom í heimsókn og hélt tvo fjölsótta fyrirlestra, annan um heilbrigðismál og hinn um jarðvarmaklasa. Porter er heiðursdoktor við Háskóla Íslands og er námskeið hans við Harvard um samkeppnishæfni kennt við Viðskiptafræðideild HÍ. Í öðru lagi greindi rektor frá því að Stanford-háskóli í Bandaríkjunum hefur boðið Háskóla Íslands að senda allt að 10 nemendur í grunnnámi í sumarnám til skólans.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.     Mál á dagskrá

1.1    Stefna Háskóla Íslands 2011-2016. Drög.
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs. Rektor greindi frá því að á háskólaþingi og í háskólaráði í maí sl. hefði verið samþykkt verk- og tímaáætlun fyrir gerð nýrrar stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2011-2016. Heildarstefnuhópur háskólans, sem er skipaður fulltrúum allra fræðasviða, Stúdentaráðs og utanaðkomandi fulltrúum, hefur frá ágúst sl. unnið að undirbúningi stefnunnar og fyrir fundinum lágu drög að stefnuskjali sem er afrakstur þeirrar vinnu. Stefnudrögin eru nú til umsagnar hjá fræðasviðum og deildum háskólans, starfsnefndum háskólaráðs, Stúdentaráði, félögum kennara og sameiginlegri stjórnsýslu. Jón Atli Benediktsson, formaður heildarstefnuhópsins, gerði grein fyrir stefnudrögunum og voru þau rædd ítarlega. Fram komu fjölmargar ábendingar sem tekið verður mið af við frágang stefnunnar áður en hún verður á dagskrá háskólaþings 26. nóvember nk. og háskólaráðs í desember nk. Bauð rektor fulltrúum í háskólaráði að koma til óformlegs aukafundar um stefnudrögin, jafnframt því að senda inn skriflegar athugasemdir og ábendingar.

1.2    Fjármál háskólans. Staða og horfur.
Fyrir fundinum lá minnisblað um stöðu og horfur í fjármálum Háskóla Íslands og niðurstaða millifundanefndar háskólaráðs frá júní sl. um viðbrögð við niðurskurði fjárveitinga til háskólastigsins. Inn á fundinn kom Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerði grein fyrir málinu. Einnig greindi rektor frá fundum sínum með ráðamönnum um fjárlagafrumvarpið og endurskoðun á reikniflokkakerfi ráðuneytisins. Málið var rætt og svaraði Sigurður spurningum ráðsmanna. Að umræðu lokinni bauð rektor fulltrúum í háskólaráði að mæta á óformlegan aukafund um fjármál og rekstur Háskóla Íslands. Einnig verður í desember haldinn sérstakur samráðsfundur háskólaráðs og fjármálanefndar áður en gengið er frá fjármálatillögum fyrir árið 2011.

1.3    Framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands 2010-2020, nýbyggingar o.fl.
- Frestað.

1.4    Tillaga starfshóps háskólaráðs um rannsóknir og fjármál, sbr. síðasta fund. Umsagnir fjármálanefndar, vísindanefndar, kennslumálanefndar og gæðanefndar.
Fyrir fundinum lá tillaga starfshóps háskólaráðs um árangur í rannsóknum og skiptingu fjárveitinga, dags. 6. júlí sl., og umsagnir starfsnefnda ráðsins um tillöguna. Í starfshópnum áttu sæti þau Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, Sigríður Ólafsdóttir, fulltrúi í háskólaráði, Þórólfur Þórlindsson, prófessor við Félagsvísindasvið, Róbert H. Haraldsson, prófessor við Hugvísindasvið og formaður kennslumálanefndar og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs. Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að afgreiðslu málsins verði frestað þar til í desember nk. þegar skipting fjárveitinga fyrir árið 2011 verður afgreidd í heild. Sigríður Ólafsdóttir lagði til að sundurgreindar upplýsingar um skiptingu fjár á milli kennslu og rannsókna yrðu teknar saman fyrir heildarafgreiðslu í desember.
- Samþykkt einróma.

1.5    Tillögur starfshóps um samkennslu, sbr. fund ráðsins 3. júní sl.
Inn á fundinn kom Gunnlaugur Björnsson, vísindamaður við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og varafulltrúi í háskólaráði, og gerði grein fyrir tillögum starfshóps háskólaráðs um aukna samkennslu og skipulag deilda og sviða. Auk Gunnlaugs voru í starfshópnum þau Sigríður Ólafsdóttir, fulltrúi í háskólaráði, Daði Már Kristófersson, dósent í Hagfræðideild Félagsvísindasviðs og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þau Gunnlaugur, Sigríður og Halldór spurningum ráðsmanna. Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að stjórnum fræðasviða, kennslumálanefnd, fjármálanefnd og gæðanefnd verði falið að veita umsögn um tillögurnar. Umsagnirnar verði þríþættar og beinist í fyrsta lagi að liðum a), b) og d) í tillögum starfshópsins (um samkennslu), í öðru lagi að lið c) (um endurskoðun deililíkans) og í þriðja lagi að lið e) (um fjárhagslegt uppgjör innan fræðasviða).
- Samþykkt einróma.

1.6    Tillaga Íslensku- og menningardeildar um kjör þriggja heiðursdoktora.
Fyrir fundinum lá tillaga Íslensku- og menningardeildar og umsögn heiðursdoktorsnefndar um að Álfrún Gunnlaugsdóttir, Matthías Jóhannessen og Thor Vilhjálmsson verði sæmd heiðursdoktorsnafnbót frá deildinni. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum ráðsmanna. Greidd voru atkvæði um hvert þeirra fyrir sig.
- Tillaga Íslensku- og menningardeildar um að veita Álfrúnu Gunnlaugsdóttur, Matthíasi Jóhannessen og Thor Vilhjálmssyni heiðursdoktorsnafnbót samþykkt einróma.

2.    Erindi til háskólaráðs

2.1    Sumarnám og sumarpróf, tillaga kennslumálanefndar, sbr. síðasta fund. Umsagnir fræðasviða og Stúdentaráðs.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Fyrir fundinum lágu umsagnir fræðasviða og Stúdentaráðs um tillögu kennslumálanefndar um sumarnám við Háskóla Íslands. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu í þremur liðum: Í fyrsta lagi verði að tillögu kennslumálanefndar ákveðið að ekki verði sumarnám árið 2011. Í öðru lagi verði tekið undir tillögu Stúdentaráðs um að huga að því til lengri tíma litið hvort taka ætti upp reglulegt sumarnám við Háskóla Íslands, líkt og tíðkast við háskóla víða erlendis. Í þriðja lagi verði ábendingum í umsögn Menntavísindasviðs vísað til kennslumálanefndar til skoðunar.
- Fyrsti liður tillögunnar samþykktur með átta atkvæðum, en fulltrúar stúdenta greiddu atkvæði gegn honum. Annar og þriðji liður tillögunnar samþykktir einróma.

2.2    Stjórnir, nefndir og ráð:
a)  Tilnefning varafulltrúa háskólaráðs í fastar dómnefndir fræðasviða Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.

Fyrir fundinum lá tillaga um skipun varafulltrúa háskólaráðs í fastar dómnefndir tveggja fræðasviða, sbr. síðasta fund. Skipunartíminn er þrjú ár.
- Samþykkt einróma að skipa Árúnu K. Sigurðardóttur, prófessor við Háskólann á Akureyri, varamann Unnar Þorsteinsdóttur, varaforseta erfðarannsókna hjá deCODE Genetics, sem er aðalmaður í dómnefnd Heilbrigðisvísindasviðs, og Sigurð Kristinsson, dósent við Háskólann á Akureyri, varamann fyrir Guðmund Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, sem er aðalmaður í dómnefnd Hugvísindasviðs.

b)     Nýr fulltrúi í gæðanefnd.
Rektor bar upp tillögu um að Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Kennaradeild Menntavísindasviðs, verði skipaður fulltrúi í gæðanefnd í stað Barkar Hansen prófessors, sem kjörinn hefur verið varaforseti háskólaráðs. Skipunartíminn er til 30. júní 2011.
- Samþykkt einróma.

c) Nýr fulltrúi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs í stjórn Reiknistofnunar Háskóla Íslands.
Rektor bar upp tillögu um að Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, verði skipaður fulltrúi sviðsins í stjórn Reiknistofnunar Háskóla Íslands í stað Elínborgar Ingunnar Ólafsdóttur sem er hætt störfum við háskólann. Skipunartíminn er til septemberloka 2012.
- Samþykkt einróma.

d)    Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands.
Rektor bar upp tillögu um að stjórn Happdrættis Háskóla Íslands árið 2011 verði skipuð áfram þeim Eyvindi Gunnarssyni, lektor við Lagadeild Félagsvísindasviðs, Ebbu Þóru Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og Óskari Magnússyni forstjóra.
- Samþykkt samhljóða, en tveir sátu hjá.

2.3    Erindi frá Stúdentaráði: Upptökupróf við Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá erindi frá Stúdentaráði um reglur um upptöku- og sjúkrapróf við Háskóla Íslands. Fulltrúar stúdenta í háskólaráði gerðu grein fyrir málinu. Þar sem erindi stúdenta barst rétt fyrir fundinn og ráðsmenn höfðu ekki tækifæri til að kynna sér efni þess til hlítar bar rektor upp tillögu um að erindið verði sent til umsagnar gæðanefndar og kennslumálanefndar og tekið fyrir á næsta fundi ráðsins.
- Samþykkt einróma.

2.4    Erindi frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, dags. 27. október 2010.
Fyrir fundinum lá erindi frá stjórn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands, dags. 27. október sl., og minnisblað frá stjórnsýslu háskólans um erindið. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Að umræðu lokinni lagði rektor til að skipuð verði millifundanefnd til að undirbúa afgreiðslu málsins á næsta fundi. Nefndin verði skipuð Ingibjörg Halldórsdóttur, lögfræðingi háskólans, sem mun kalla nefndina saman, Berki Hansen og Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur.
- Samþykkt einróma.

3.    Mál til fróðleiks

3.1    Fjöldi nemenda við Háskóla Íslands 20. október 2010.

3.2    Niðurstöður eftirfylgniúttektar á [fyrrum] raunvísindadeild, dags. 20. ágúst sl. og viðbrögð Háskóla Íslands.

3.3    Yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð skipar fulltrúa í á næstu mánuðum.

3.4    Skýrsla stjórnar MPM námsins 2005-2010.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.30.