06/2009
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2009, fimmtudaginn 4. júní var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Brynjar Smári Hermannsson (varamaður Elínar Óskar Helgadóttur), Friðrik H. Jónsson (varamaður Gunnlaugs Björnssonar), Hilmar B. Janusson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir og Þórður Sverrisson. Forföll boðuðu Gunnar Einarsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.
Áður en gengið var til dagskrár fór rektor stuttlega yfir nokkra atburði frá síðasta fundi og framundan. Þriðjudaginn 2. júní sl. kom Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbet og handhafi friðarverðlauna Nóbels, í heimsókn til Háskóla Íslands og flutti ávarp og átti samræðu við þrjá háskólakennara. Viðburðurinn fór fram í Hátíðasal og var varpað á skjá í anddyri Aðalbyggingar. Fullt var út úr dyrum. Þá greindi rektor frá því að dagana 8.-12. júní nk. verður í sjötta sinn efnt til námskeiðahalds á öllum fræðasviðum fyrir unglinga undir merkjum Háskóla unga fólksins. Metaðsókn er að þessu sinni og hafa 300 ungmenni skráð sig til þátttöku. Hinn 16. júní nk. verður úthlutað öðru sinni styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands og munu 11 nýstúdentar hljóta styrk að þessu sinni. Þá fer brautskráning kandídata frá Háskóla Íslands fram í Laugardalshöll 20. júní nk. Athöfnin verður tvískipt í fyrsta skipti eftir sameiningu HÍ og KHÍ og verða kandídatar í framhaldsnámi brautskráðir kl. 11 árdegis og kandídatar í grunnnámi kl. 14 síðdegis.
Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.
1. Mál á dagskrá
1.1 Tvær skýrslur um málefni háskóla vegna hins alvarlega ástands í efnahagsmálum.
a) Education, Research and Innovation Policy, skýrsla nefndar erlendra sérfræðinga til stjórnvalda, 25. maí 2009.
b) Skilagrein verkefnisstjórnar vísinda og háskólamála, 25. maí 2009.
Inn á fundinn kom Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, og gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um helstu niðurstöður skýrslnanna. Málið var rætt ítarlega. Rektor mun fylgja málinu eftir og upplýsa háskólaráð um framvindu þess.
1.2 Nefnd um fýsileika sameiningar Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands. Staða mála.
Rektor gerði grein fyrir starfi nefndar um fýsileika sameiningar Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands. Vinnunni miðar vel áfram og stendur nú yfir athugun og greining á fjárhagslegri hlið málsins. Nefndin mun skila áliti sínu fyrir sumarhlé.
1.3 Ársreikningur Háskóla Íslands 2008.
Fyrir fundinum lágu drög að ársreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2008. Inn á fundinn kom Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerði grein fyrir málinu. Greindi Sigurður m.a. frá því að rekstur Háskólans á árinu var í jafnvægi og í samræmi við áætlun. Málið var rætt og svaraði Sigurður spurningum ráðsmanna.
- Ársreikningur Háskóla Íslands 2008 samþykktur einróma.
1.4 Fjárhagsstaða Háskóla Íslands 2009, yfirlit eftir fjóra mánuði.
Sigurður J. Hafsteinsson gerði grein fyrir framlögðu yfirliti um fjárhagsstöðu Háskóla Íslands eftir fyrstu fjóra mánuði ársins 2009. Skýrði Sigurður frá því að rekstur Háskólans var í jafnvægi á tímabilinu. Málið var rætt og svaraði Sigurður framkomnum spurningum.
1.5 Niðurstöður 2. háskólaþings 15. maí sl.
a) Ályktanir þingsins.
b) Heildarendurskoðun reglna Háskóla Íslands, drög eftir háskólaþing 15. maí sl.
Rektor skýrði frá ályktunum háskólaþings 15. maí sl. og framgangi þeirra í kjölfar þingsins. Fyrir fundinum lágu endurskoðuð drög að reglum Háskóla Íslands að teknu tilliti til athugasemda og ábendinga háskólaþings og umfjöllunar um tiltekin atriði í gæðanefnd og kennslumálanefnd háskólaráðs. Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs og gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt og svaraði Þórður spurningum ráðsmanna. Að umræðu lokinni þakkaði rektor Þórði fyrir umfangsmikið og vel unnið starf og jafnframt starfshópi háskólaráðs sem var honum til aðstoðar. Starfshópinn skipuðu þær Anna Agnarsdóttir Sigríður Ólafsdóttir og Sigrún Ingibjörg Gísladóttir.
- Endurskoðaðar reglur fyrir Háskóla Íslands voru samþykktar einróma og sviðsstjóra kennslusviðs falið að undirbúa þær fyrir birtingu.
1.6 Aldarafmæli Háskóla Íslands 2011. Tillögur afmælisnefndar. Framhald frá síðasta fundi.
Fyrir fundinum lá minnisblað um dagskrá og fjárhagsáætlun vegna aldarafmælis Háskóla Íslands 2011. Minnisblaðið var unnið milli funda af Magnúsi D. Baldurssyni, Jóni Atla Benediktssyni og Guðrúnu Nordal, formanni afmælisnefndar. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Lýstu ráðsmenn ánægju með tillögurnar.
- Rektor falið að ganga frá málinu í samráði við afmælisnefnd og sameiginlega stjórnsýslu.
1.7 Nýtt skipulag Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Ólafur Þ. Harðarson, forseti Félagsvísindasviðs og kynnti skipulag, stefnu og starfsemi fræðasviðsins. Málið var rætt og svaraði Ólafur framkomnum spurningum og athugasemdum.
1.8 Eftirfylgni Ríkisendurskoðunar með stjórnsýsluúttekt á Háskóla Íslands árið 2005.
Fyrir fundinum lá greinargerð Ríkisendurskoðunar um eftirfylgni með stjórnsýsluúttekt á Háskóla Íslands sem fram fór árið 2005. Magnús Diðrik Baldursson gerði grein fyrir málinu. Greindi Magnús frá því að af 15 ábendingum Ríkisendurskoðunar hefur Háskólinn framkvæmt 11 að fullu og 4 að hluta. Um síðarnefndu ábendingarnar gildir að framkvæmd þeirra er að takmörkuðu leyti á valdi Háskólans og er þetta því mjög góður árangur.
1.9 Tillaga Hugvísindasviðs f.h. Sagnfræði- og heimspekideildar um veitingu heiðursdoktorsnafnbótar.
Rektor gerði grein fyrir málinu.
- Tillaga Hugvísindasviðs um að Ólafía Einarsdóttir verði kjörin heiðursdoktor við Sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands samþykkt einróma.
2. Erindi til háskólaráðs
2.1 Þverfagleg rannsóknastofnun í fjölskyldufræðum kennd við Ármann Snævarr, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lágu drög að reglum um Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma.
2.2 Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum:
a) Tillaga frá Heilbrigðisvísindasviði:
- um takmörkun á fjölda nemenda í tannsmiðanám og hvernig staðið verður að vali þeirra sem teknir verða í námið. Viðbót við reglur nr. 319/2009.
b) Tillaga undirbúin af stjórnsýslu Háskóla Íslands:
- breyting á reglum Reiknistofnunar Háskóla Íslands nr. 735/2001.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt stuttlega.
- Báðar tillögurnar samþykktar einróma.
2.3 Skipan fjármálanefndar háskólaráðs frá 1. júlí 2009.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Rektor bar upp tillögu um að fjármálanefnd háskólaráðs verði framvegis skipuð forsetum fræðasviða og Guðmundi R. Jónssyni, framkvæmdastjóra fjármála og reksturs, sem verði áfram formaður.
- Tillaga rektors samþykkt einróma. Jafnframt verði verklag við gerð fjárhagsáætlana endurskoðað með tilliti til tengsla við háskólaráð á undirbúningsstigi. Ný fjármálanefnd tekur til starfa 1. júlí 2009.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.30