08/2009
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2009, fimmtudaginn 17. september var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Sigríður Ólafsdóttir, Silja Aðalsteinsdóttir, Steinunn Tómasdóttir (varamaður Sigrúnar Ingibjargar Gísladóttur) og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir (varamaður Önnu Agnarsdóttur). Hilmar B. Janusson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig. Einnig sat fundinn Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.
Rektor bauð Silju Aðalsteinsdóttur velkomna til starfa, en hún er nýr fulltrúi menntamálaráðherra í háskólaráði í stað Valgerðar Bjarnadóttur. Einnig greindi rektor frá því að menntamálaráðherra hefði skipað varamenn fyrir fulltrúa sína: Sigurð Gísla Pálmason fyrir Silju Aðalsteinsdóttur, Heiðar Örn Stefánsson fyrir Gunnar Einarsson, Ellý Katrínu Guðmundsdóttur fyrir Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur og Ernu Bjarnadóttur fyrir Þórð Sverrisson. Skipunartími aðalfulltrúa og varafulltrúa menntamálaráðherra er til 30. september 2010.
Þá greindi rektor frá fundum sínum með ráðamönnum um málefni Háskóla Íslands.
Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.
1. Mál á dagskrá
1.1 Starfsáætlun háskólaráðs 2009-2010, framhald frá síðasta fundi.
Rektor gerði grein fyrir framlagðri endurskoðaðri starfsáætlun háskólaráðs fyrir tímabilið 2009-2010 og þeirri vinnu sem fram hafi farið í kjölfar umræðna á síðasta fundi. Rektor greindi frá því að formaður kennslumálanefndar muni koma inn á fund háskólaráðs fyrir jól til að kynna tillögur nefndarinnar um aðgerðir gegn brottfalli nemenda úr námi. Rektor greindi frá skipun starfshóps til að taka saman upplýsingar um eigna- og rekstrarform háskóla í nágrannalöndunum, en hann verður skipaður þeim Jóni Atla Benediktssyni, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, sem verði formaður, Gunnlaugi H. Jónssyni, innri endurskoðanda, Guðmundi R. Jónssyni, framkvæmdastjóra fjármála og reksturs, Þórði Sverrissyni, fulltrúa í háskólaráði, Hilmari B. Janussyni, fulltrúa í háskólaráði, Ingjaldi Hannibalssyni, forseta Viðskiptafræðideildar og Margréti S. Björnsdóttur, forstöðumanni Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála. Rektor bar upp tillögu um að kennslumálanefnd í samráði við gæðanefnd og gæðastjóra verði falið að taka saman yfirlit um hvernig staðið er að inntöku nýnema (inntökuskilyrði, aðgangstakmarkanir o.fl.) í háskólum í nágrannalöndum okkar. Samantektinni verði skilað fyrir 16. nóvember nk. og við það miðað að hún verði kynnt á háskólaþingi í lok nóvember.
- Starfsáætlun og tillaga rektors samþykkt einróma.
1.2 Framkvæmd stefnu Háskóla Íslands 2006-2011. Árangur og staða. Skýrsla Háskóla Íslands til menntamálaráðuneytis haustið 2009.
Fyrir fundinum lá skýrsla Háskóla Íslands til menntamálaráðuneytis um framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011. Skýrslan geymir rúmlega 30 árangursmælikvarða og kemur fram að framkvæmd stefnunnar hefur gengið mjög vel og í mörgum tilvikum umfram áætlun. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Svöruðu rektor og Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu spurningum ráðsmanna. Lýstu ráðsmenn mikilli ánægju yfir árangri í starfi skólans.
1.3 Skilagrein nefndar um fýsileika sameiningar Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands, 2. júlí 2009, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Sæunn Stefánsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu rektors, og gerði ásamt Jóni Atla Benediktssyni grein fyrir framlagðri skilagrein nefndar um fýsileika sameiningar Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands, en þau voru fulltrúar Háskóla Íslands í nefndinni. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þau Jón Atli og Sæunn spurningum fulltrúa í háskólaráði og gerðu grein fyrir fundum sem haldnir voru með fagaðilum innan Háskóla Íslands sem málið varðar einkum. Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að málið verði skoðað áfram, einkum með tilliti til fjármála, faglegrar samþættingar, gæða og skipulags.
- Samþykkt samhljóða. Málið verður áfram til umræðu innan Háskóla Íslands og á dagskrá háskólaráðs.
1.4 Tillaga frá Hugvísindasviði um veitingu heiðursdoktorsnafnbótar.
Fyrir fundinum lá tillaga stjórnar Hugvísindasviðs um að veita Joan Maling, prófessor emeríta í málvísindum við Brandeis-háskóla í Massachusetts í Bandaríkjunum og gistikennara við Harvard-háskóla og Háskóla Íslands, doktorsnafnbót í heiðurs skyni.
- Samþykkt einróma
1.5 Doktorsvarnir og veiting doktorsnafnbóta í heiðurs skyni, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lágu tillögur um framkvæmd doktorsvarna annars vegar og um viðmið fyrir veitingu doktorsnafnbóta í heiðurs skyni hins vegar. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Framlagðar tillögur um framkvæmd doktorsvarna samþykktar einróma en afgreiðslu tillagna um veitingu heiðursdoktorsnafnbóta frestað til næsta fundar.
1.6 Ársfundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
Rektor greindi frá því að þar sem Háskóli Íslands er eini eigandi Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. fer aðalfundur félagsins fram á fundi háskólaráðs. Samkvæmt gr. 3.2 í samþykktum félagsins eru eftirfarandi mál á dagskrá aðalfundar:
1. Stjórn félagsins skýrir frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári.
2. Ársreikningur ásamt athugasemdum endurskoðanda lagður fram til samþykktar.
3. Kosning stjórnar félagsins og endurskoðanda eða skoðunarmanna.
4. Ákvörðun um hvernig fara skal með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð.
5. Ákvörðun um greiðslur til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu.
6. Önnur mál löglega upp borin.
Inn á fundinn kom Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. f.h. stjórnar félagsins.
Um dagskrárlið 1: Eiríkur Hilmarsson flutti skýrslu stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. fyrir starfsárið 2008.
Um dagskrárlið 2: Fyrir fundinum lá ársreikningur félagsins fyrir árið 2008.
- Samþykkt einróma.
Um dagskrárlið 3: Fyrir fundinum lá tillaga um að í stjórn verði Hilmar B. Janusson, formaður, Ingjaldur Hannibalsson, Magnús Tumi Guðmundsson og Sigríður Ólafsdóttir. Frosti Sigurjónsson gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og er ekki gerð tillaga um að annar komi í hans stað að svo stöddu. Einnig lá fyrir fundinum tillaga um að Ríkisendurskoðun endurskoði reikninga félagsins.
- Samþykkt einróma.
Um dagskrárlið 4: Enginn hagnaður eða tap varð af rekstri félagsins og er því ekki er gerð tillaga um meðferð hagnaðar eða taps eða um arð og framlög í varasjóð.
- Samþykkt einróma.
Um dagskrárlið 5: Fyrir fundinum lá tillaga um að stjórnarmönnum verði ekki greidd laun eins og verið hefur.
- Samþykkt einróma.
Um dagskrárlið 6: Á fundi stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 10. september 2009 var samþykkt að leggja til við aðalfund tvær breytingar á grein 2.1 í samþykktum félagsins. 4. málsl. hljóði svo: „Stjórn félagsins er þó heimilt að hækka hlutafé félagsins þannig að heildarhlutafé verði 1.200.000.000 - eittþúsund og tvöhundruðmilljónir - að hámarki með útgáfu nýrra hluta án samþykkis hluthafafundar.“ 6. málsl. hljóði svo: „Heimild þessi gildir til og með 1. janúar 2011.“
- Samþykkt einróma.
1.7 Skilagrein rýnihóps um aðgerðir í háskóla- og vísindamálum, dags. 27. ágúst 2009.
Rektor gerði grein fyrir helstu forsendum, niðurstöðum og tillögum skilagreinar rýnihóps menntamálaráðherra. Málið var rætt ítarlega og svaraði rektor spurningum ráðsmanna. Að umræðu lokinni bar rektor upp svohljóðandi tillögu að bókun:
„Rektor er falið að móta og fylgja eftir afstöðu Háskóla Íslands til framkominna hugmynda um aðgerðir í háskóla- og vísindamálum. Háskóli Íslands axli ábyrgð sína með því að hafa afgerandi frumkvæði við mótun háskólastarfsemi í landinu til framtíðar. Byggt verði á stefnu Háskóla Íslands, alþjóðlegum viðmiðum um gæði akademískrar starfsemi og ráðdeild í nýtingu fjármuna. Áhersla verði lögð á forystuhlutverk Háskóla Íslands í íslensku háskólasamfélagi, sjálfstæði hans, aldarlanga uppbyggingu og ómetanlegt framlag í þágu íslensks samfélags. Háskóli Íslands leggur áherslu á framangreindar forsendur í viðræðum um samstarf og mögulega sameiningu við aðra háskóla og stofnanir.“
- Samþykkt einróma. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.
2. Erindi til háskólaráðs
2.1 Stjórnir, nefndir og ráð:
a) Skipun nýs fulltrúa í gæðanefnd.
Rektor bar upp tillögu um að Valdimar Tr. Hafstein, lektor í þjóðfræði taki sæti í gæðanefnd sem fulltrúi frá Félagsvísindasviði í stað Gylfa Zoëga sem óskað hefur eftir því að hverfa úr nefndinni vegna anna.
- Samþykkt einróma.
3. Mál til fróðleiks
3.1 Skipan nýs fulltrúa og nýrra varafulltrúa í háskólaráð Háskóla Íslands, sbr. bréf menntamálaráðuneytis 4. september 2009.
3.2 Education at a Glance 2009, OECD Indicators.
4. Önnur mál
4.1 Sparnaðartillögur stúdenta.
Í lok fundar afhentu fulltrúar stúdenta rektor minnisblað með hugmyndum sínum um sparnaðarleiðir í rekstri Háskóla Íslands. Tillögurnar munu nýtast sem innlegg í umræðuna um viðbrögð við niðurskurði fjárveitinga til Háskólans.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.