Fundargerð 128. fundar
Háskólaráð Kennaraháskóla Íslands kom saman til 128. fundar þriðjudaginn 29. apríl 2008 kl. 15:00. Eftirtaldir sátu fundinn: Ólafur Proppé, Allyson Macdonald, Kristín Bjarnadóttir, Haukur Ingibergsson, Júlía Þorvaldsdóttir, Jóhanna Karlsdóttir, Kristján Jóhann Jónsson og Birna Hjaltadóttir
Gestir fundar:
Guðmundur Ragnarsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs (v/3. og 5. liðar á dagskránni).
Svanhildur Kaaber sat fundinn og ritaði fundargerð.
Dagskrá fundarins var svohljóðandi:
1. Fundur settur og dagskrá kynnt
2. Skýrsla rektors
3. Skipan og stjórnun deilda á menntavísindasviði
4. Minningarsjóður Ásgeirs S. Björnssonar
5. Rekstraryfirlit fyrir janúar til mars
6. Vinnumatssjóður og ársmatssjóður
7. Ráðning rekstrarstjóra
8. Umsögn um frumvarp til laga um opinbera háskóla
9. Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands
10. Önnur mál
1. Fundur settur og dagskrá kynnt
Rektor setti fundinn og fór yfir dagskrá hans. Eitt mál bætist inn á útsenda dagskrá þ.e. Inntaka í framhaldsnám, og verður 10. liður en liðurinn önnur mál verða 11. liður
2. Skýrsla rektors
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum
- Rektor fór yfir helstu dagsetningar viðburða í skólanum í maímánuði.
3. Skipan og stjórnun deilda á menntavísindasviði
Rektor rifjaði upp umræðu á síðasta háskólaráðsfundi og sagði frá því að viðræður hafa farið fram milli tveggja minnstu deilda skólans um að sameina þær í eina.
Rektor dreifði minnisblaði um hugsanlegar leiðir til deildaskiptingar og val á deildarforsetum og varamönnum þeirra.
Háskólaráð ræddi möguleika á skiptingu menntavísindasviðs í deildir og leiðir til að velja stjórnendur.
Í umræðum háskólaráðs kom fram að um leið og eðlilegt væri að velja deildarforseta á þann hátt sem næst fer gildandi reglum skólans væri jafnframt æskilegt að opna leið fyrir skólasamfélagið til að hafa áhrif á val stjórnenda.
Rætt var um fjármögnun kennslu og rannsókna og um fjárhagslegt sjálfstæði fræðasviða og deilda innan þeirra.
Háskólaráð samþykkti að til næstu framtíðar verði deildir menntavísindasviðs þrjár,
a) kennaradeild, b) íþrótta-, tómstunda-, þroskaþjálfa- og heilsufræðideild og c) uppeldis- og menntunarfræðideild.
Háskólaráð setti einnig á fót valnefnd til að skipuleggja skoðanakönnun meðal starfsfólks um deildarforseta. Háskólaráð fól Jóhönnu Karlsdóttur og Kristjáni Jóhanni Jónssyni að sitja í valnefndinni ásamt rektor.
Háskólaráð fól rektor að semja við núverandi námsbrautarstjórnir um að sitja áfram þar til ljóst verður hvernig stjórnun deilda verður háttað.
4. Minningarsjóður Ásgeirs S. Björnssonar
Jóhanna Karlsdóttir gerði grein fyrir starfi Minningarsjóðs Ásgeirs Björnssonar. Stjórn sjóðsins hefur farið yfir stofnskrá hans. Nauðsynlegt er að endurskoða stofnskrána nú vegna sameiningar háskólanna sem framundan er. Jóhanna dreifði núgildandi stofnskrá og tillögu stjórnar að nýrri gerð hennar.
Bent var á örfá atriði til lagfæringar á textanum.
Háskólaráð samþykkti nýja stofnskrá Minningarsjóðs Ásgeirs Björnssonar samhljóða.
5. Rekstraryfirlit fyrir janúar til mars
Dreift var rekstraryfirliti fyrir tímabilið janúar til mars 2008.
Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs fór yfir rekstraryfirlitið sem sýnir að rekstur skólans er í jafnvægi.
Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs gerði einnig grein fyrir stóru viðhaldsverkefni sem framundan er en það er utanhússviðgerð á íþróttahúsi skólans í Reykjavík.
6. Vinnumatssjóður og ársmatssjóður
Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs gerði grein fyrir tveimur tillögum sem sendar voru til háskólaráðs með fundargögnum. Tillögurnar fjalla annars vegar um að hækka framlag í vinnumatssjóð úr 20 milljónum í 27 milljónir, hins vegar um að hækka framlag í ársmatssjóð úr fjórum milljónum í fimm.
Háskólaráð samþykkir báðar þessar tillögur samhljóða.
7. Ráðning rekstrarstjóra
Rektor gerði grein fyrir því að Guðmundur Ragnarsson mun fara til starfa á rektorsskrifstofu Háskóla Íslands við sameininguna 1. júlí.
Fram kom að mikilvægt er að rekstrarstjóri samkvæmt nýjum reglum um menntavísindasvið taki við starfi áður en Guðmundur hverfur til annarra verka.
Rektor lagði til að starf rekstrarstjóra menntavísindasviðs yrði auglýst sem fyrst og miðað við að hann hefji störf 1. júní.
Háskólaráð samþykkti tillögu rektors samhljóða.
8. Umsögn um frumvarp til laga um opinbera háskóla
Rektor gerði grein fyrir því að loks hefur frumvarp til laga um opinbera háskóla verið lagt fram á Alþingi. Rektor fór yfir frumvarpið og sagði frá nokkrum atriðum sem Háskóli Íslands mun gera athugasemdir við.
Rektor lagði til að rektorsskrifstofu yrði falið að ganga frá umsögn um frumvarpið.
9. Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála í sameiningarferlinu og lokahnykk ýmissa verkefna sem unnið er að.
10. Inntaka í framhaldsnám
Rektor sagði frá því að umsóknarfrestur um framhaldsnám er liðinn. Alls bárust 487 umsóknir. Rektor dreifði sundurliðuðu yfirliti yfir umsóknirnar.
Háskólaráð samþykkir að öllum hæfum umsækjendum verði boðin skólavist.
11. Önnur mál
Rektor sagði frá því að dagsetning ársfundar skólans hefur verið færð til og verður fundurinn haldinn 13. maí kl. 11:00 í Skriðu.
Rektor sagði frá doktorsvörnum sem fram fara 7., 8. og 9. maí í Skriðu og hefjast varnir kl. 14:00.
Rektor sagði frá hátíðarhöldum 1. júlí í tilefni af sameiningu háskólanna.
Næsti fundur verður haldinn 27. maí.
Fundinum lauk kl.17:25.
Svanhildur Kaaber