Skip to main content

Reikningsskil og endurskoðun M.Acc

Reikningsskil og endurskoðun M.Acc

Félagsvísindasvið

Reikningsskil og endurskoðun

M.Acc. gráða – 90 einingar

Náminu er ætlað að mæta þeirri miklu þörf, sem orðið hefur á sérþekkingu vegna aukinna krafna um gæði og skilvirkni, er varða reikningsskila- og endurskoðunarferla í fyrirtækjum.

Námið hentar mjög vel þeim einstaklingum, sem hafa hug á að vinna við fjármál og reikningshald í fyrirtækjum, þar sem sérþekkingar er krafist. 

Námið er án lokaritgerðar og kennt er í lotukerfi.

Skipulag náms

X

Endurskoðun og umhverfi (VIÐ160F)

Þrjár af höfuðkenningum siðfræðinnar, þ.e. kenningar Aristótelesar, Immanuels Kant og Johns Stuart Mill og nemendum kynnt grundvallaratriði gagnrýnnar hugsunar.  
Skoðað verður samband löggjafar og siðferðis sem og hvað einkennir fagmennsku. Þá verður fjallað um ítarlega um siðareglur endurskoðenda og hvernig þær spila saman við lög um endurskoðendur og tengjast samfélaginu.  
Yfirlit yfir leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja, bæði hér á landi og erlendis, og hlutverk endurskoðunar í þeim. Farið verður yfir hverjir teljast vera „varðhundar" almennings og hvernig þeir hafa sinnt hlutverki sínu undanfarin ár.  
Lagaleg umhverfi endurskoðenda m.t.t. alþjóðlegu reikningsskilastaðla og alþjóðlegu endurskoðunar staðla. Einnig verður eftirlit með IFRS kynnt og tilgangur ESMA sem og framkvæmd eftirlits hér á landi sem er i umsjón Ársreikningaskrá.  

X

Félaga- og skuldaskilaréttur (VIÐ121F)

Fjallað verður um viðfangsefni og réttarheimildir félagaréttar. Farið verður yfir mismunandi flokka félaga og mismunandi sjónarmið við úrlausn álitaefna. Gerð verður grein fyrir einkennum helstu tegunda fjárhagslegra félaga. Til umfjöllunar verður m.a. fjárhagslegur grundvöllur þeirra og reglur sem lúta að stöðu viðsemjenda þeirra, stjórnkerfi, ábyrgð stjórnenda og endurskoðenda og réttarstöðu félagsmanna. Meginefni námskeiðsins snertir einkahlutafélög og hlutafélög og þau grundvallaratriði sem leiða af takmarkaðri ábyrgð eigenda þeirra, þ.e. um vernd fjármuna þessara félaga. Er þar um að ræða reglur um innborgun hlutafjár, skráningu hlutafjár, hækkun og lækkun hlutafjár, eigin hluti og reglur um útgreiðslu fjár með arði eða við slit félaga. Rætt verður um samruna og skiptingu hlutafélaga og þær reglur sem uppfylla þarf í því sambandi. Þá verður rætt um greiðslustöðvun, nauðasamninga og gjaldþrotaskipti félaga. Einnig verður fjallað um hlutverk endurskoðenda í tengslum við störf þeirra fyrir félög.

X

Endurskoðunarferli I (VIÐ1A4F)

Kynntar verða aðferðir við gagnaöflun endurskoðenda og hvernig endurskoðun tekur mið af áhættugreiningu og hagkvæmni. Fjallað verður sérstaklega um notkun tölvukerfa við endurskoðun. Við yfirferð námsefnis verða alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar hafðir til hliðsjónar, og rætt um gildi þeirra fyrir íslenskt umhverfi. Námsefni verður bókin Auditing & Assurance Services höfundar Aasmund Eilifsen o.fl, alþjóðlegir staðlar um endurskoðun, greinar og önnur gögn sem kynnt verða á námskeiðinu.

X

Endurskoðun og úttekt á upplýsingakerfum (VIÐ1A3F)

Í námskeiðinu verður farið í grundvallarhugtök fjárhagsupplýsingakerfa (AIS). Farið er yfir viðskiptaferla, uppbyggingu og hlutverk fjárhagsupplýsingakerfa. Farið verður í kerfisþróun og skjölunaraðferðir. Fjallað verður um tölvusvik og misnotkun upplýsingakerfa. Farið verður yfir upplýsingaöryggi, vinnureglur og alþjóðlega staðla, aðgengi, stýringar og aðgerðir til að stuðla að auknu öryggi viðkvæmra upplýsinga. Farið verður yfir eðli endurskoðunar og endurskoðunarkerfi kynnt. Farið verður yfir helstu ferli fyrirtækja s.s. tekju,-gjalda,-og framleiðsluferli og þau sýnd í gagnaflæðiskorti. Farið verður yfir kerfisþróunarferlið og aðferðir í kerfisþróun. Endurskoðun með notkun tölvukerfa (IT audit) hefur aukist mikið sl. áratug og mörg tölvukerfi hafa litið dagsins ljós,
t.d. Standadfusion og Adaptive GRC. Farið verður yfir hvernig notkun upplýsingakerfa hefur áhrif á verklag í endurskoðun og fjallað verður um hvernig notkun gervigreindar getur haft áhrif á áhættumat og mat á virkni eftirlitsaðgerða í samtíma. Að lokum verður fjallað um kerfishönnun, innleiðingu og rekstur upplýsingakerfa. Nemendur skila einu skylduhópverkefni. Leitast verður eftir að kynna fyrir nemendum helstu fjárhagsupplýsingakerfi sem í notkun eru á markaðnum. Verkefnið byggist bæði á kennsluefni og því efni er fram kemur í fyrirlestrunum.
 

Farið er í grunnhugtökin og kenningarnar varðandi ADA (Audit Data Analytics). Einnig verða ADA-staðlar kynntir (Audit Data Standards). Skoðað hvernig hægt er að nota gagnagreiningar til að gera sjálfvirka úttektaraðgerðir sem venjulega eru gerðar handvirkt. Kynning á ISO PC 295 Audit Data Collection m.t.t. endurskoðunar. 

Farið verður í fræðilega uppbyggingu fyrirtækja er snertir stjórnunarkerfi (Management Systems) og eftirlitskerfi (Control Systems). Einnig mismunandi tegundir af ábyrgðareiningum (deildum, sviðum, rekstrareiningum.) 

X

Stjórnsýsluendurskoðun og opinber fjármál (VIÐ295F)

Stjórnsýsluendurskoðun telst í dag nauðsynlegur þáttur endurskoðunar hjá opinbera geiranum og er viðbót við hina hefðbundnu fjárhagsendurskoðun. Markmið með henni er að veita stofnunum og fyrirtækjum ríkis og sveitarfélaga aðhald í rekstri með ábendingum um það sem betur má fara í stjórnun þeirra, skipulagningu, eftirliti, markmiðssetningu og verklagi.

Að kynna þátttakendum eðli og tilgang stjórnsýsluendurskoðunar, þann fræðilega grunn sem hún byggir á og hvað greinir hana frá hefðbundinni fjárhagsendurskoðun.
Jafnframt að þátttakendur fái innsýn í aðferðir stjórnsýsluendurskoðunar og beitingu þeirra hérlendis og víðar.

Ennfremur að þátttakendur öðlist nokkurn skilning á grundvallaratriðum opinberrar stjórnsýslu og þeim eðlismun sem er á opinbera geiranum og einkageiranum.
Opinber fjármál, lög nr. 123/2015. Ríki og sveitarfélög mynda saman hið opinbera. Opinber fjármál snúast um rekstur sameiginlegra sjóða. Eftirlit með þessu fjármagni er hjá Ríkisendurskoðun. Stefnumörkun í opinberum fjármálum grundvallast á fimm grunngildum: Sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi. Þessi grunngildi eru leiðarljós allra stefnumótunar og ákvarðana Alþingis og stjórnvalda í opinberum fjármálum.

Á þessu námskeiði verða tilgangur og markmið stjórnsýsluendurskoðunar rækilega kynnt. Farið verður yfir aðferðafræðina sem hún hvílir á og verkfæri hennar kynnt. Helstu efnisþættir námskeiðsins verða þessir: Opinber stjórnsýsla, endurskoðun í opinbera geiranum, fjármál hins opinbera, hagsýni-skilvirkni-markvirkni, framlagning niðurstaðna. Raunhæf dæmi verða tekin fyrir.

X

Virðisgreining, fjármögnun og rekstrarhæfi (VIÐ294F)

Farið er í grundvallarhugtök tengt fjárfestingu og virðigreiningar. Farið er í uppbyggingu ársreiknings og hvernig rekstrarreikningur, efnahagsreikningur og sjóðstreymi. Farið verður í uppbyggingu á "grunngreiningu" (fundamental analysis). Samanburðar- og kennitölugreining (comparables multiple analysis) er aðferð þar sem hægt er að nálgast virði. Skoðað verður hvernig sjóðstreymi, hagnaður, umframhagnaður, eðlilegur hagnaður og virðismat tengjast ásamt áhrifum vegna ávöxtunarkröfu. Greining á arðsemi til þess að nálgast "hið rétta virði" fyrirtækisins. Vöxtur hefur mikil áhrif á virðismat sem tengist meðal annars P/E og P/B. Aðferðir við virðismat og næmnisgreiningar. 
Virðismat er nátengt fjármögnun og rekstrarhæfi. Kynnt verður hvernig virðismat tengist á einn eða annan hátt hugtökunum fjárhagsleg staða (financial position) og rekstrarhæfi (going concern) fyrirtækja. Hugtökin verða skoðuð út frá IFRS og ISA í breiðu samhengi og skilningi um áframhaldandi rekstur.
 
Eftirlitskerfi er tengjast fjármálum og árangri. Árangur getur bæði tengst fjárhagslegum liðum sem og ófjárhagslegum. Verkferlar sem og aðferðafræði við að meta árangur er mikilvægur til að rétt mynd fáist að rekstrarstöðu.  
Hópverkefni byggjast bæði á kennsluefni og því efni er fram kemur í fyrirlestrunum..  

X

Alþjóðlegur skattaréttur og milliverðlagning (VIÐ296F)

Á námskeiðinu verður farið ítarlega yfir reglur innlendra laga og alþjóða samninga um gerð og túlkun tvísköttunarsamninga. Fjallað verður um fulla skattskyldu manna og fyrirtækja vegna heimilisfestar í ríki og upphafningu hennar í öðru hvoru aðildarríkja tvísköttunarsamnings ef maður eða fyrirtæki er samtímis heimilisfast í tveimur eða fleiri löndum. Gerð verður grein fyrir reglum um takmarkaða skattskyldu og skiptingu skattlagningarréttar milli aðildarríkja tvísköttunarsamnings. Rætt verður um aðferðir til að milda tvískattlagningu samkvæmt innlendum rétti og tvísköttunarsamningi þegar tekjur eru skattlagðar í tveimur eða fleiri löndum. Farið verður yfir það hvernig unnt er að nota tvísköttunarsamninga við skattaskipulagningu með stofnun fyrirtækja í ólíkum löndum. Upplýst verður um áhrif EBE- eða ESS-samningsins á skattalög einstakra ríkja, skaðlega skattasamkeppni og hvað gert hefur verið til að uppræta hana. Nemendur verða þjálfaðir í notkun tvísköttunarsamninga með úrlausnum dæma og raunhæfra verkefna. Að námskeiðinu loknu er við það miðað að námsmaður hafi góða innsýn í það flókna kerfi sem innlendur réttur og tvísköttunarsamningar geta spunnið um fjárhagsráðstafanir manna og fyrirtækja í nútíma þjóðfélagi.

Aðferðir við milliverðlagningu (Transfer-Pricing Methods) ráð oft því hvað hagnaðurinn og kostnaðurinn lendir. MVL er mikilvægur þáttur í alþjóðavæðingu, en um MVL gilda reglur heimalands og einnig útgefnar reglur OECD. MVL er nátengt skattalögum í viðkomandi landi. Reglur vegna MVL eru skoðaðar og áhrif þeirra eru greind.

X

Sjálfvirkni, fjártækni og stjórnunarreikningsskil (VIÐ293F)

Farið er í grunnhugtökin og kenningarnar um sjálfvirknivæðingu og RPA (Robotic Process Automation Projects). Sérstaklega er skoðað hvernig eigi að bera kennsl á ferla/verkefni í rekstri, bókhaldi og endurskoðun sem hægt er að gera sjálfvirk með RPA 
Farið í hugtök og grunnatriði er varða fjártækni (Fin. tech.). Þróun og aðstæður á markaði kynntar sem og rafmyntir. Endurskoðunar áhætta skoðuð sérstaklega m.t.t. fjártækni.

Farið verður í hugtök er tengjast stjórnunarreikningsskilum (Management Cost Accounting). Mikilvægi stjórnunarreikningsskila hefur aukist vegna aukins flækjustigs við kostnaðarúthlutun og áreiðanleika kostnaðar. Fjárhagslegar skýrslur byggja á kostnaðarbókhaldi og er því grunnur fyrir áreiðanlegum reikningsskilum, t.d. ársreikningi. Samhliða þessu eru stjórnunar- og eftirlitskerfi skoðuð í samhengi við stjórnunarreikningsskil.   

X

Endurskoðun og sjálfbærnistaðlar (VIÐ303F)

Í námskeiðinu er fjallað um reikningsskilafræði, aðferðafræði og siðfræði. 
Reikningsskilafræði, verður m.a. fjallað um: 1) staðlagerð í ársreikningagerð, 2) hugtakakerfi fyrir reikningshald, 3) þróun reikningsskila, 4) afkomuhugtök reikningshalds, 5) alþjóðleg reikningsskil, og 6) ýmis sérstök vandamál við gerð reikningsskila.
 
Aðferðafræði, verður m.a. fjallað um: eigindlegar aðferðafræði, meginlega aðferðafræði, þýði, gagnaöflun, kví kvaðrat, framsetning og uppbygging ritgerða o.fl.
Siðfræði og heiðarleiki er tengist vinnu við lokaritgerð og grunnhugtökum þess.  

X

Samstæðureikningsskil (VIÐ177F)

Í þessu námskeiði er fyrst og fremst fjallað um gerð samstæðureikningsskila og reikningshaldslegar hliðar á sameiningu og samruna fyrirtækja. Auk þess er fjallað um eftirtalin viðfangsefni reikningshalds: uppgjör sameignarfélaga, vörubirgðir, viðskipakröfur, viðskiptavild, bókun umboðsviðskipta, bókun erlendra viðskipta og umbreytingu ársreikninga úr einum gjaldmiðli í annan, gjaldþrotauppgjör, og reikningsskil sveitarfélaga og annarra aðila, sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni. Verkefni. Skilaskylda. 

X

Endurskoðunarferli II (VIÐ305F)

Námskeiðið er í beinu framhaldi af Endurskoðunarferli I. Fjallað verður sérstaklega um notkun tölvukerfa við endurskoðun. Við yfirferð námsefnis verða alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar hafðir til hliðsjónar og rætt um gildi þeirra fyrir íslenskt umhverfi. Kynntar verða aðferðir við gagnaöflun endurskoðenda og hvernig endurskoðun tekur mið af áhættugreiningu. Fjallað verður sérstaklega um notkun tölvukerfa við endurskoðun. Fjallað verður um hlutverk endurskoðenda og störf þeirra í samræmi við ákvæði laga og alþjóðlegra endurskoðunarstaðla sem og mikilvægi endurskoðunar fyrir samfélagið.

X

Gangvirðisreikningsskil (VIÐ304F)

Markmið með námskeiðinu er að nemendur öðlist betri þekkingu og skilning á helstu atriðum er varða greiningu á ársreikningum sem gerðir eru í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Sérstök áhersla verður lögð á gangvirðisreikningsskil og þá helst færslu fjármálagerninga, ss. hlutabréfa, skuldabréfa og afleiðusamninga. Þá verður farið yfir reglur um  virðisrýrnun fjáreigna og annarra eigna. Þá verður einnig gerð grein fyrir helstu kröfum IFRS staðla er varðar færslu rekstrarfjármuna á gangvirði, ss. varanlegra rekstrarfjármuna og fjárfestingareigna sem og vikið að uppreikningi leiguskuldbindinga í ársreikningum. 

Sérstök áhersla á eftirfarandi reikningsskilastaðla;
IFRS 9: Financial Instruments,
IFRS 7: Financial Instruments: Disclosures
IFRS 13: Fair value measurement
IFRS 16: Leases 
IFRS 2: Share-based Payment 
IAS 32: Financial Instruments: Presentation 
IAS 40: Investment Property 

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hafðu samband

Nemenda- og kennsluþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 
Netfang: nemFVS@hi.is

Opið virka daga frá 09:00 - 15:00 
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík

Bóka viðtal við nemenda- og kennsluþjónustu Félagsvísindasviðs

Viðskiptafræðideild á samfélagsmiðlum

 Instagram    Facebook

Gimli, Háskóli Íslands

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.