Opinber stjórnsýsla - Viðbótardiplóma
Opinber stjórnsýsla
Viðbótardiplóma – 30 einingar
Diplóma í opinberri stjórnsýslu er hagnýt 30 eininga námsleið fyrir þau sem lokið hafa BA- eða BS-námi í einhverri grein. Nám í opinberri stjórnsýslu greiðir leið og styrkir nemendur í starfi á fjölbreyttum og lifandi starfsvettvangi, jafnt hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga, sem og í starfi hjá félagasamtökum. Fjarnám.
Skipulag náms
- Haust
- Opinber stjórnsýsla
- Eftirlitsumhverfið í opinberri starfsemiVE
- Starfsumhverfi og stjórnun sveitarfélagaVE
- Skipulagsmál sveitarfélaga: skipulag, stjórnmál og umhverfiV
- Stefnumiðuð almannatengslV
- Rekstrarhagfræði, markaðsbrestir og ríkisafskiptiV
- Mannauðsstjórnun ríkis og sveitarfélagaV
- VerkefnamatVE
- Vor
- Stjórnsýsluréttur fyrir stjórnendur og starfsmenn opinberra stofnana
- Fjármál og fjármálastjórnun hins opinberaV
- Stefnumótun stofnanaV
- Sveitarfélög og veiting þjónustu í almannaþáguVE
- Hegðunarvísindi í opinberri stefnumótunVE
- Forysta og breytingastjórnun í opinberum rekstri - hlutverk stjórnendaV
- Skipulag og stjórnun stofnanaV
- Stjórntæki hins opinberaV
Opinber stjórnsýsla (OSS111F)
Á þessu kynningar- og inngangsnámskeiði fá nemendur heildaryfirsýn yfir skipulag og þróun opinberrar stjórnsýslu. Fjallað er um megineinkenni opinberrar stjórnsýslu á Íslandi, þar á meðal grundvöll hennar og helstu mótunarþætti. Í námskeiðinu er farið yfir grundvallarhugtök stjórnsýslufræðanna. Kynntar eru helstu kenningar um skipulagsheildir, valddreifingu og ákvörðunartöku í opinberri stjórnsýslu og lýst þróun stjórnsýslufræðinnar sem fræðigreinar. Athyglinni er sérstaklega beint að tengslum milli opinberrar stjórnsýslu og stjórnmála og áhrifum þeirra tengsla á uppbyggingu, starfshætti og stefnumótun. Áhersla er lögð á greiningu og skilning á því hvað skilur að einkarekstur annars vegar og opinberan rekstur og þjónustu hins vegar.
Athugið að námskeiðið er aðeins kennt með fjarnámssniði.
2x40 mínútna fyrirlestrar sendir út á netinu og 1x40 mínútna fyrirspurnar- og umræðutími á netinu (Zoom-fundir) á viku.
Eftirlitsumhverfið í opinberri starfsemi (OSS122F)
Byrjað verður á því að fara yfir eftirlitsumhverfi hjá skipulagsheildum. Þegar fjallað er um eftirlitsumhverfið hjá skipulagsheild er meðal annars verið að vísa til lög um opinber fjármál, stjórnskipulags og stjórnarhátta. Í þessu samhengi verður dregið fram mikilvægi góðra stjórnarhátta, sem skapa grundvöll fyrir eftirlitsmenningu stofnana og fyrirtækja.
Eftirlitsumhverfi skipulagsheildar verður skilgreint út frá líkani er kallast „Þriggja þrepa líkan“ (Three lines Model),sem er tæki er útskýrir á myndrænan hátt mismunandi ábyrgðarsvið stjórnenda í vöktun og eftirliti innan skipulagsheildar (internal governance) og samspil á milli þeirra.
Farið verður yfir hlutverk innri endurskoðunar, hvernig staðið er að áætlunargerð og úttektum. Alþjóðlegir staðlar innri endurskoðunar verða lagðir til grundvallar og þeir yfir farnir. Dregið fram með hvaða hætti úttektir innri endurskoðunar hafa áhrif á umbætur á innra eftirliti, áhættustýringu og stjórnarháttum skipulagsheilda.
Farið verður yfir skilgreiningu á innra eftirliti og hvernig best verði staðið að uppbyggingu þess hjá fyrirtækjum og stofnunum, meðal annars á grundvelli alþjóðlegs eftirlitslíkans er kallast COSO. Í því samhengi verður dregið fram mikilvægi þess hlutverks sem áhættustýring hefur í tengslum við uppbyggingu innra eftirlits innan stofnana og fyrirtækja og þá um leið forgangsröðun eftirlitsaðgerða og umbótaverkefna. Farið verður yfir aðferðafræði við greiningu, mat og vöktun áhættu sem skipulagsheildin (fyrirtæki eða stofnun) stendur frammi fyrir.
Tilgangur öflugs innra eftirlits er að styðja skipulagsheildina við að ná markmiðum sínum, auka skilvirkni og að sama skapi draga úr hættu á mögulegu misferli.
Fyrirkomulag(stjórnsýslueftirlits hjá hinu opinbera, hlutverk Alþingis og eftirlitsstofnana, svo sem Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis verður kynnt. Stjórnsýsluendurskoðun telst í dag nauðsynlegur þáttur endurskoðunar hjá opinbera geiranum og er sjálfstæð viðbót við hina hefðbundnu fjárhagsendurskoðun.
Markmið með stjórnsýsluendurskoðun er að veita stofnunum og fyrirtækjum ríkis og sveitarfélaga aðhald í rekstri með ábendingum um það sem betur má fara í stjórnun þeirra, skipulagningu, eftirliti, markmiðssetningu og verklagi. Áhersla verður á stjórnsýsluendurskoðun ríkisins.
Í námskeiðinu verður farið yfir tilgang og markmið stjórnsýsluendurskoðunar og þann fræðilega grunn sem hún byggir á. Markmið hennar eru að greina hagsýni, skilvirkni, markvirkni hjá skipulagsheildum sem eru til skoðunar. Farið verður yfir aðferðafræðina sem hún hvílir á og verkfæri hennar kynnt. Jafnframt fá þátttakendur innsýn í aðferðir stjórnsýsluendurskoðunar og beitingu þeirra hérlendis og víðar. Raunhæf dæmi verða tekin fyrir ásamt því sem útgefnar skýrslur Ríkisendurskoðunar verða teknar til umfjöllunar.
Gert er ráð fyrir staðlotu á kennslutímabilinu sem nemendur mæta í.
Staðlota 1: Mánudaginn 28. ágúst kl. 16:00-19:00
Staðlota 2: Mánudaginn 25. september kl:16:00 - 19:00.
Starfsumhverfi og stjórnun sveitarfélaga (OSS119F)
Sveitarfélögin mynda annan meginstofn íslenskrar stjórnsýslu. Markmið námskeiðsins er að nemendur geri sér grein fyrir starfsumhverfi þeirra og fái innsýn í stjórnun og vinnuferla á þessu mikilvæga stjórnsýslustigi. Í námskeiðinu verður gefið yfirlit yfir stjórnskipulega stöðu og hlutverk sveitarfélaga, lagareglur sem lúta að störfum sveitarstjórna og helstu verkefnum sveitarfélaganna. Fjallað verður um kosti þessi að skipta ríkjum í sveitarfélög, með hliðsjón af kenningum um lýðræði, hagkvæmni og valddreifingu. Farið verður yfir hvað felst í hlutverki sveitarfélaga annars vegar sem lýðræðislegra stjórnvalda og hins vegar sem þjónustuveitenda. Stuttlega verður einnig vikið að samskiptum ríkis og sveitarfélaga, þ. á m. að verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnum sveitarfélaga.
Skipulagsmál sveitarfélaga: skipulag, stjórnmál og umhverfi (OSS121F)
Í námskeiðinu er fjallað um skipulagsmál sveitarfélaga í víðum skilningi. Lögð er áhersla á að greina samspil stjórnmála, almennings og hagsmunaaðila og aðkomu þeirra að skipulagsferlinu.Stjórnskipulag skipulagsmála og hlutverk og ábyrgð sveitarfélaga er kynnt ásamt helstu takmörkunum á valdi sveitarfélaga. Kynnt eru og farið yfir helstu hugtök og kenningar skipulagsfræða. Skipulagsferlið og ólík skipulagsstig eru kynnt og farið yfir hvernig mat á umhverfisáhrifum og umhverfismat áætlana snertir skipulagsgerð sveitarfélaga.
Stefnumiðuð almannatengsl (OSS120F)
Meginmarkmið námskeiðs er að þátttakendur kunni skil á helstu hugmyndum og kenningum um almannatengsl og samskipti, kunni skil á stefnumiðuðum samskiptum og krísustjórnun, geti gert grein fyrir helstu samfélagsmiðlum og nýtingu þeirra, og hannað, þróað og metið samskiptaáætlanir
Rekstrarhagfræði, markaðsbrestir og ríkisafskipti (OSS101F)
Markmið þessa námskeiðs er að nemendur öðlist skilning á grundvallaratriðum rekstrarhagfræði og markaðslíkansins enda eru markaðsbrestir skýrðir á þeim grunni. Áhersla er lögð á að nemendur tileinki sér grunnhugtök hagfræði og geti beitt þeim. Áhrif markaðsbresta á samfélagið eru könnuð og fjallað er um þau afskipti ríkisins sem leiðrétt geta slíka bresti. Þá er einnig vikið að stjórnvaldsbrestum sem er hliðstætt vandamál í opinberum rekstri.
Í námskeiðinu er fjallað um framboð og eftirspurn, teygni, markaði og áhrif stjórnvalda. Fjallað er um stöðu neytenda og áhrif viðskipta á einstaklinga og fyrirtæki við skattlagningu og í alþjóðaviðskiptum. Lýst er velferðartapi, leikjafræði, ytri áhrifum og almannagæðum og farið yfir mismunandi markaðsform og kostnað. Loks er farið yfir tekjudreifingu, neytendaval, ósamhverfar upplýsingar og hagfræði stjórnmála og hegðunar.
Námskeiðið er kennt í fjarnámi.
Mannauðsstjórnun ríkis og sveitarfélaga (OSS102F)
Fjallað er um mannauðsstjórnun hjá hinu opinbera. Farið er yfir lög og reglur sem gilda um réttarsamband opinberra starfsmanna við vinnuveitendur, samskipti á vinnumarkaði og uppbyggingu launakerfis opinberra starfsmanna. Rætt er um helstu tæki og tól við mannauðsstjórnun svo sem mannauðskerfi, aðferðir við val á starfsmönnum, notkun starfs- og árangursmats, starfsmannasamtöl og mótun og eftirfylgni með starfsmannastefnum. Fjallað verður um sálfræðilega samninginn, ýmis vandamál sem upp geta komið á vinnustað og vinnuvernd og öryggismál.
Verkefnamat (OSS123F)
Í námskeiðinu fá nemendur fræðilega og hagnýta þekkingu á aðferðum við mat á verkefnum hins opinbera. Stjórnendur innan geirans koma flestir beint eða óbeint að mati á opinberri starfsemi, úttektum sem beinast að því hversu vel starfsemin gengur miðað við tilgang svo sem þann sem tilgreindur er í markmiðsákvæðum laga. Þær geta einnig beinst að afmörkuðum úrlausnarefnum, t.d. skorti á gæðum almannaþjónustu. Þekking og færni í aðferðum verkefnamats nýtist því vel stjórnendum opinberra stofnana.
Námskeiðið skiptist í þrennt:
- Í fyrsta hlutanum er farið yfir fræðilegar forsendur verkefnamats, þar á meðal kerfislíkanið.
- Í öðrum hluta fer fram kynning á helstu aðferðum verkefnamats, þar á meðal þarfagreiningu, feril-, framvindu- og lokamat. Rætt er sérstaklega um kosti og galla rökrammanálgunar. Fjallað er um framsetningu á skýrslum sem byggðar eru á matsvinnunni.
- Þriðji hlutinn felst í raunhæfu verkefni, verkefnamati nemenda sem lýkur með stuttri skýrslu.
Stjórnsýsluréttur fyrir stjórnendur og starfsmenn opinberra stofnana (OSS204F)
Fjallað verður um íslensk stjórnvöld, íslenska stjórnsýslukerfið, reglur sem gilda um samskipti og yfirstjórn innan stjórnsýslukerfisins, um meðferð stjórnsýslumála og upplýsingarétt almennings. Aðalháerslan er á meðferð stjórnsýslumála og þýðingu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í því sambandi.
Fjármál og fjármálastjórnun hins opinbera (OSS210F)
Námskeiðið fjallar um stjórnun og stjórnsýslu opinberra fjármála og snýst í meginatriðum um undirbúning og framkvæmd fjárlaga og fjárhagsáætlana. Ekki er fjallað um skattamál sérstaklega, heldur einungis að því leyti sem þau tengjast ákvörðunum í fjárlaga-, fjárhagsáætlanaferlinu. Námskeiðinu er skipt upp í tvo meginhluta.
Í fyrri hlutanum er athyglinni beint að fjármálum ríkisins þar sem fjallað verður um gerð fjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps og feril þeirra á vettvangi framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þá verður fjallað um þær breytingar sem verða með gildistöku nýrra laga um opinber fjármál og helstu atriða áætlanagerðar. Hér verða kynnt helstu hugtök, verkfæri og aðferðir sem notaðar eru hjá ríkinu í þessu ferli. Einnig verður fjallað um framkvæmd fjárlaga, eftirlit og önnur áherslumál í áætlunargerð ríkisins.
Í síðari hlutanum er fjallað um sveitarfélög á Íslandi, það lagaumhverfi sem þau starfa undir og helstu verkefni þeirra. Farið er yfir hlutverk sveitarstjórna, helstu tekjustofna sveitarfélaga og þá málaflokka sem eru rekstrarlega umfangsmestir. Sérstaklega er fjallað um fjármálastjórnun sveitarfélaga, undirbúning fjárheimilda og málsmeðferð við afgreiðslu þeirra. Síðan er farið yfir eftirfylgni og eftirlit með framkvæmd fjárheimilda. Að lokum er fjallað um formleg samskipti hlutverk ríkisins og sveitarfélaga við framkvæmd stjórnsýslunnar svo og eftirlit ríkisins með starfsemi sveitarfélaganna
Stefnumótun stofnana (OSS201F)
Markmið námskeiðsins er að veita nemendum hagnýta þjálfun við gerð stefnumótandi áætlunar (strategic planning). Nemendur vinna slíka áætlun fyrir stofnun sem þeir velja. Byggt er á aðferðafræði John M. Brysons. Skoðaðar verða mismunandi aðferðir við stöðumat, mótun stefnumiða og gerð stefnuáætlunar. Fjallað verður um gerð árangursmælikvarða á grundvelli stefnumiða. Fjallað er um fræðilegan bakgrunn aðferðarinnar.
Sveitarfélög og veiting þjónustu í almannaþágu (OSS224F)
Í þessu námskeiði er hlutverk íslenskra sveitarfélaga sem veitanda opinberrar þjónustu skoðað. Í fyrri hluta námskeiðsins er farið yfir helstu kenningar og hugmyndafræði að baki verkefnadreifingu ríkisvaldsins. Einnig er farið yfir hvaða leiðir sveitarfélög fara í því að skipuleggja þjónustu. Lögð er áhersla á að skoða kosti og galla ólíkra leiða til dæmis hvort þjónusta er veitt alfarið að sveitarfélaginu sjálfu, í samstarfi eða útvistuð. Einnig er skoðað hvernig mismunandi þjónusta getur kallað á ólíka aðferðafræði við veitingu hennar. Í seinni hluta námskeiðsins er áherslan á hagnýtingu og farið yfir mismunandi aðferðir til að veita þjónustu sveitarfélaga. Lögð er áhersla á að skoða hvort tveggja þekkt tól og tæki en einnig nýsköpun í þjónustuveitingu og hvað er efst á baugi hverju sinni.
Hegðunarvísindi í opinberri stefnumótun (OSS225F)
Í þessu námskeiði læra nemendur um valin hugtök og rannsóknir úr félagssálfræði, atferlishagfræði og ákvarðanatökufræðum sem nýta má við gerð, greiningu og framkvæmd stefnumótunar. Bornar verða saman kenningar skynsemishyggju og fjötraðrar skynsemishyggju. Nemendur munu öðlast skining á því hvernig fólk tekur ákvarðanir og leggur mat á áhættu, áhrifum hvata á ákvarðanir og hvernig hafa má áhrif á viðhorf og hegðun. Fjallað verður um millihópasamskipti og samninga. Loks verða tengsl stefnumótunar og hagsældar tekin til umræðu.
Forysta og breytingastjórnun í opinberum rekstri - hlutverk stjórnenda (OSS223F)
Að taka forystu fyrir breytingum er í vaxandi mæli þáttur í störfum stjórnenda hins opinbera. Umhverfi og innra starf opinberra stofnana hefur breyst umtalsvert á undanförnum tíu til fimmtán árum og þar með hlutverk þeirra er þar stjórna. Breytingar á verkefnum, auknar kröfur um árangur, hagkvæmni, upptaka nýrra stjórnunaraðferða, bætt tengsl við borgarana og aukin áhrif þeirra á starfsemi hins opinbera og fleira gera nýjar kröfur til starfshátta stjórnenda í opinberum stofnunum. Þeir verða í vaxandi mæli að vera í forystu breytinga innan stofnana, talsmenn gagnvart fjölmiðlum og hagsmunahópum. Þessi krafa nær til æðstu stjórnenda, og að miklu leyti til millistjórnenda. Þessu námskeiði er ætlað að búa nemendur í opinberri stjórnsýslu undir þennan þátt í þeirra framtíðarstörfum, ásamt því að fjalla um leiðir til þess að komast í forystustörf innan stofnana, halda þeim og takast á við átök sem oftast fylgja forystuhlutverki. Nemendur sem hyggja á önnur störf en hjá opinberum aðilum geta einnig haft gagn af þessu námskeiði, þótt aðstæður þar séu aðrar.
Skipulag og stjórnun stofnana (OSS202F)
Fjallað er um helstu kenningar um skipulagsheildi (organizational theory) og atferli innan skipulagsheilda (organizational behavior). Áhersla er á skipulag og stjórnun opinberra stofnana og fyrirtækja. Markmið áfangans er að veita nemendum innsýn í fræðilega umfjöllun um viðfangsefnin ásamt hagnýtingu tiltekinna stjórnunaraðferða.
Stjórntæki hins opinbera (OSS203F)
Markmið námskeiðsins er að nemendur fái innsýn í grunnþætti opinbers rekstrar og önnur úrræði sem ríkið getur beitt til að ná markmiðum sínum. Fjallað verður um ýmis stjórntæki ríkisvaldisins, þar á meðal rekstur opinberra stofnana, markaðsvæðingu, fjárhagslega hvata, regluvæðingu og tryggingar/styrki og áhersla lögð á mat og notkun stjórntækjanna við ólíkar aðstæður. Umfjöllunin um hvert stjórntæki er jafnt á fræðilegum grundvelli sem og útlistun á notkun þeirra á Íslandi. Æskilegt er að nemendur hafi tekið námskeiðið OSS101F Rekstrarhagfræði, markaðsbrestir og ríkisafskipti.
Hafðu samband
Nemenda- og kennsluþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500
Netfang: nemFVS@hi.is
Opið virka daga frá 09:00 - 15:00
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík
Bóka viðtal við nemenda- og kennsluþjónustu Félagsvísindasviðs
Stjórnmálafræðideild á samfélagsmiðlum
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.