Flokkunarkerfið á pdf skjali Háskólinn er samfélag nemenda og starfsfólks og einn stærsti vinnustaður landsins. Háskólaborgararnir eru því stór hluti neytenda landsins og rétt eins og öðrum fylgir þeim sorp. Allt sem fer óflokkað í ruslatunnuna endar á einn eða annan hátt úti í náttúrunni og því er nauðsynlegt að flokka allt sorp sem okkur fylgir. En hvernig virkar flokkunarkerfið í HÍ? Rauða tunnan - skilagjaldsskyldar umbúðir Í rauðu tunnuna fara skilagjaldsskyldar umbúðir - flöskur og dósir. Algeng vafaatriði: Plastflöskur sem eru ekki merktar skilgjaldsskyldar fara í fjólubláa pokann (plast). Það er allt í lagi þó einhverjar ómerktar glerflöskur fari í rauða pokann, því móttökuvélarnar flokka þær frá þeim skilagjaldsskyldu. Fjólubláa tunnan - plastumbúðir Í fjólubláu tunnuna fer allt hreint plastefni. Til dæmis tómar plastumbúðir. Almennt er betra að skola umbúðir, en best er að tæma þær vel eða skafa úr þeim. Viðmiðið er að þær séu 99% hreinar. Ef einhver matur er eftir í umbúðum ber að setja hann í lífrænu tunnuna. Ef umbúðirnar eru mjög skítugar þarf að þvo þær. Algeng vafaatriði: Frauðplast af umbúðum fer í almennt rusl. Ef mikið af frauðplasti fellur til má fara með það til Sorpu sem sér um að endurvinna, hafið samband við umsjónarmenn. Kasettur og videospólur eiga að fara í blandaðan úrgang. Skvísur flokkast sem plast. Ef þú ert í vafa hvort um plast eða álpappír er að ræða er hægt að vöðla umbúðunum saman og ef þær opnast aftur er þetta plast. Plastmerkingar Plast er ekki bara plast. Mismunandi gerðir plasts endurvinnast ekki saman og er því flokkað og aðgreint áður en það fer til endurvinnslu erlendis. Plast er oft einkennt með þríhyrning með tölu inn í sem endurspeglar tegund fjölliðu. Íslenska gámafélagið tekur við plasti sem er merkt í þríhyrningnum frá 1-6. Hér að neðan má sjá útlistun á hvers konar plast fellur undir hvern og einn flokk og dæmi um plastvörur sem falla þar undir. Þríhyrningarnir sjö Númer Skammstöfun Heiti Dæmi Endurvinnsla 1 PET (PETE) Polythylene terephthalte Gosflöskur, umbúðir fyrir matarolíur, einnota glös Hentar vel til endurvinnslu 2 HDPE Polyethylen - High density (HDPE) Umbúðir fyrir snyrtivörur, djúsumbúðir, plastbrúsar. HDPE er harðar en PET plast Hentar vel til endurvinnslu 3 PVC Polyvinyl chloride Plastfilma, regnföt, leikföng, lyfjaspjöld Hentar illa til endurvinnslu 4 LDPE Polyethylen - Low density (LDPE) Plastpokar, plastumbúðir á gosflöskukippum Hentar vel til endurvinnslu 5 PP Polypropylen Skyrdósir, íhlutir í bíla, hitabrúsar, umbúðir utan um matvæli Hentar vel til endurvinnslu 6 PS Polystyren Frauðplast, geisladiskahylki, heilbrigðistæki (sýnaglös t.d.) Hentar illa til endurvinnslu 7 Annað Allt annað plast, t.d. lífplast, ABS, EVA, nylon Aðrar gerðir plasts og plastblöndur s.s. nylon, maíspokar, trefjagler Hentar misvel til endurvinnslu Plast eða plast? Ef umbúðir eru merktar á eftirfarandi hátt fara þau í þessa flokkun: Lífniðurbrjótanlegt (e. biodegradable) = Blandaður úrgangur, svarta tunnan Jarðgeranlegt (e. compostable) = Lífræna tunnan Endurvinnanlegt (e. recyclable) = Plastumbúðir, fjólubláa tunnan Bláa tunnan - pappír og pappi Í bláu tunnuna fer allur hreinn pappír. Til dæmis pappamál, bæklingar, skrifstofupappír, dagblöð og pappírsumbúðir. Engar matarleifar eða vökvi mega vera í umbúðum. Mælt er með því að skola eða tæma eins vel og hægt er. Ef pappírinn er mjög blautur borgar sig að setja hann í almennt rusl. Mikilvægt er að slá kössum saman til að spara pláss í pappírstunnunni. Algeng vafaatriði: Plastlok af kaffimálum fer með plastinu (fjólubláa tunnan) og plaströr af fernum. Pappír blandaður öðrum efnum fer í almennt rusl, t.d. pappír af fílakaramellum. Hefti og bréfklemmur mega fara með í bláa pokann. Bökunarpappír fer í blandaðan úrgang, hentar ekki til endurvinnslu með pappír. Ekki þarf að fjarlægja "gluggann" á gluggapósti. Ekki þarf að fjarlægja límband af bylgjupappa áður en fer til endurvinnslu. Ef örlítil fita er á pizzukassanum má setja hann með pappírnum, en ef pizzakassinn er löðrandi þá fer hann í almennt rusl. Eldhúspappír og servíettur (ólitaðar) fara ekki í bláa pokann heldur í lífrænu tunnuna. Pappi má fara í bláa pokann, en stærri hluti úr pappa ætti að afhenda umsjónarmönnum. Munið að slá kössunum saman til að spara pláss! Lífræna tunnan Í lífrænu tunnuna eiga einungis að fara matarafgangar og servíettur. Algeng vafaatriði: Tyggjó má ekki fara í lífrænu tunnuna! Tepokar mega fara með hefti, miða og bandi í lífrænu tunnuna. Sushipinnar mega fara í lífrænu tunnuna. Sláturúrgangur má ekki fara í lífrænu tunnuna, almennur afskurður er í lagi (í litlu magni). Flest bein mega fara í lífrænu tunnuna, viðmiðið er að lambalæri telst of stórt í jarðgerð. Svarta tunnan - blandaður úrgangur Í svörtu tunnuna fer blandaður úrgangur (almennt sorp) sem ekki er flokkað í HÍ, til dæmis tyggjó, gúmmí og óaðskiljanleg efni svo sem pennar. Við ættum að nota svarta pokann sem allra minnst, enda á að vera hægt að flokka yfir 90% af sorpinu sem fellur til í starfsemi skólans. Algeng vafaatriði: Ef umbúðir eru úr blönduðum efnum eiga þær að fara í svarta pokann. Sótthreinsiklútar, einnota hanskar og grímur eiga að fara í svarta pokann. Kattasandur og dýraúrgangur fer í almennt rusl. Pringles umbúðir fer í svarta pokann nema að umbúðirnar eru teknar í sundur, þá fer botninn í málm, hólkurinn í pappír og lokið í plast tunnuna. Ef fólk er í vafa um hvert ruslið á að fara á að nota svarta pokann en best er að senda fyrirspurn til þess að við getum bætt upplýsingar um vafaatriði (umhverfismal@hi.is) Athugið! Ekki má setja rafhlöður í svarta pokann! Ekki má setja spilliefni í svarta pokann! Aðrir endurvinnsluflokkarGler Dæmi um úrgang úr gleri eru krukkur og flöskur án skilagjalds. Hvorki tappar né málmlok mega fara í glerflokkun. Ef mikið af gleri fellur til í þinni starfseiningu vinsamlegast hafðu samband við umsjónarmann sem kemur því í endurvinnslu eða hafið samband við umhverfismal@hi.is hvort óskað sé eftir sérstökum glergámi. Algeng vafaatriði: Ekki þarf að taka límmiða og pappír af glerkrukkum eða flöskum, en er þó ekki verra. Spilliefni Spilliefni eru efni sem eru hættuleg umhverfinu og geta haft áhrif á heilsu manna og dýra. Mikilvægt er að spilluefnum sé fargað eða eytt á viðurkenndan hátt hjá aðilum sem hafa starfsleyfi til slíkrar meðhöndlunar. Á vef öryggismála Háskóla Íslands er að finna upplýsingar um flokkun og förgun spilliefna enda er mikið um spilliefnum að finna á rannsóknarstofum. Frá heimilum er að finna ýmis spilliefni og má meðal annars nefna þrifbrúsa, ljósaperur, spreybrúsa og efnavörur. Algeng vafaatriði: Ef vörur eru merktar sem spilliefni þarf að flokka þau sem slík, jafnvel þótt ílátið sé úr t.d. plasti og er tómt. Lyf skal fara með í apótek sem sjá um að farga þeim á viðurkenndan hátt. Ljósaperur geta innihaldið spilliefni og skal flokka sem slíkt. Málmar Dæmi um málma eru niðursuðudósir, krukkulok, álpappír og sprittkertakopar. Umbúðir þurfa að vera hreinar. Ef mikið af málmi fellur til í þinni starfseiningu vinsamlegast hafðu samband við umsjónarmann sem kemur því í endurvinnslu eða hafið samband við umhverfismal@hi.is hvort óskað sé eftir sérstökum gámi undir málma. Algeng vafaatriði: Áður mátti setja málma með plastinu í flokkunarbörum HÍ, en þeir fara nú í svarta pokann. Textíll Enginn textíll á að fara með blandaða úrganginum, allur textíll er endurnýttur. Slitið klæði nýtist einnig en það er endurunnið og úr því framleitt t.d. tuskur og teppi. Hvað verður um úrganginn?Lífrænn úrgangur Allt lífrænt sorp er flutt til GAJU, gas- og jarðgerðastöð SORPU, þar sem unnið er úr úrganginum í metangas og jarðvegsbæti (moltu). Plastumbúðir Íslenska gámafélagið sér um að flokka plastið á starfsstöð sinni. Plastumbúðir eru pressaðar og baggaðar og fluttar til Evrópu, bæði til efnislegrar endurvinnslu og orkuvinnslu (úr því plasti sem ekki er hæft til endurvinnslu) og búnar til nýjar vörur úr plasti. Pappír Íslenska gámafélagið sér um að flokka pappírinn frekar á starfsstöð sinni. Pappír og pappi er pressaður og baggaður hér heima og fluttur til Evrópu til endurvinnslu og búnar til nýjar vörur úr pappírnum/pappanum. Skilagjaldskyldar umbúðir Endurvinnslan hf. tekur við skilagjaldsskyldum umbúðum sem berast til SORPU og baggar áldósir og plastumbúðir í pressum. Umbúðir eru fluttar erlendis til endurvinnslu. Glerflöskur eru muldar og nýtast sem undirstöðuefni í landmótun, t.d. á urðunarstað SORPU í Álfsnesi. Blandaður úrgangur Íslenska gámafélagið pressar og baggar blandaða úrganginn. Í staðinn fyrir að blandaða úrganginum er urðað hér heima er því komið í betri farveg í orkunýtingu til Evrópu. Textíll Rauði krossinn tekur við öllum textíl. Sá textíll sem er enn nothæfur er seldur og endurnotaður, annað er endurunnið í aðrar textílvörur. Málmar Íslenska gámafélagið sér um að flokka málmana frekar á starfsstöð sinni. Málmumbúðir eru svo sendar til Evrópu til endurvinnslu og búnir til nýir hlutir úr málminum. Gler Ekki er enn komið endurvinnsluferill fyrir glerumbúðir á Íslandi. Glerið er nýtt með því að mylja það niður og notað sem fyllingarefni í framkvæmdum. Spilliefni Íslenska gámafélagið sér um að flokka öll spilliefni í spilliefnamóttöku ÍGF. Spilliefnum er komið í förgun og eytt á viðurkenndan hátt. Ljósaperur: ÍGF sér um að flokka á spillefnamóttöku sinni og er komið áfram í eyðingu. Glerið er urðað, kvikasilfur og fosfór flutt til förgunar í Danmörku. Rafhlöður: ÍGF sér um að flokka á spilliefnamóttöku sinni og er flutt út til Hollands í endurvinnslu. Raftæki Íslenska gámafélagið sér um að flokka öll raftæki á starfsstöð sinni. Raftæki eru send til Evrópu til endurvinnslu og nýir hlutir nýttir úr málmum og plastinu. Ef þið hafið einhverjar spurningar varðandi sorpflokkunina skal senda vefpóst á umhverfismal@hi.is Á gátt sjálfbærni- og umhverfismála HÍ má finna nánari upplýsingar um úrgangsmál í HÍ, meðal annars þróun á magni sorps, endurvinnsluhlutfall HÍ og hvað á að gera við spilliefni. Á heimasíðu Sorpu eru gagnlegar upplýsingar um hvað á að gera við úrganginn og hvernig hann er flokkaður. Að lokum. Auðlindir jarðar eru takmarkaðar og því er mikilvægt að nýta þær vel, stunda neyslu í hófi og endurnýta eða endurvinna það sem við erum með undir höndunum. Við skilgreinum sorp sem eitthvað sem við ætlum ekki að nota framar, en það þýðir samt ekki að efnið hafi breyst eða misst notagildi sitt. Með því að endurvinna er komið í veg fyrir óþarfa sóun þó enn betra sé að forðast að kaupa drasl eða óþarfa umbúðir sem enda strax í ruslinu. Tengt efni Sjálfbærni- og umhverfismál Hvað get ég gert? Ítarefni Flokkunartafla fyrir plastumbúðir frá Íslenska Gámafélaginu Flokkunartafla fyrir pappír og pappa frá Íslenska Gámafélaginu Flokkunartafla fyrir matarleifar frá Íslenska Gámafélaginu facebooklinkedintwitter