Kínversk fræði - Grunndiplóma
Kínversk fræði
Grunndiplóma – 60 einingar
Í kínverskum fræðum öðlast nemendur vald á kínverskri tungu og ritmáli sem og skilning á fjölmörgum hliðum kínverskrar menningar, margbrotnum pólitískum og samfélagslegum birtingarmyndum í kínverskum samfélögum nútímans og hinu blómlega og spennandi viðskiptalífi í Kínverska alþýðulýðveldinu.
Skipulag náms
- Haust
- Kína nútímans: Samfélag, stjórnmál og efnahagur
- Kínversk málnotkun I
- Kínverska I
- Vor
- Kínverska II
- Kínversk málnotkun II
- History of China I: From Mythological Origins to Late MingB
Kína nútímans: Samfélag, stjórnmál og efnahagur (KÍN101G)
Hvernig virkar Kína? Yfirlitsnámskeið helstu áhrifaþátta kínversks samfélags, stjórnmála og efnahags með áherslu á afleiðingar opnunarstefnunnar eftir 1978. Farið verður yfir landfræði Kína. Stiklað er á stóru í efnahagssögu landsins. Stjórnmál og breytingar í forystu ríkisins og flokksins verða rýnd gaumgæfilega m.a. m.t.t. stjórnmálahagfræði Kína og samskipta við nágrannalöndin í Asíu og við Kyrrahaf. Einnig verða helstu atriði er varða þróun Kína nútímans skoðuð hvert fyrir sig í einstökum kennslustundum, þ. á m. orkumál, umhverfismál, lýðfræði, lista og alþjóðatengsl. Einnig verður vikið að stöðu fjölskyldunnar og kvenna, mannréttindum og fjölbreytileika. Hong Kong, Tævan og Tíbet eru einnig sérstaklega til umfjöllunar. Horft verður á klippur úr nýlegum kínverskum heimildamyndum sem taka á ýmsum þáttum hinna miklu umbreytinga sem orðið hafa á kínversku samfélagi undanfarna áratugi. Námskeiðið er kennt á ensku.
Kínversk málnotkun I (KÍN105G)
Í námskeiðinu er einkum lögð áhersla á hljóðfræði með þjálfun framburðar og tóna. Uppistaða námskeiðsins eru æfingatímar til að þjálfa hlustun, skilning og tjáningu sem byggja á og útfæra námsefni námskeiðsins kínverska I. Námsstigið miðast við HSK 1.
Kínverska I (KÍN107G)
Um er að ræða alhliða námskeið í staðlaðri kínversku (mandarín, putonghua) fyrir byrjendur. Nemendur kynnast undirstöðuatriðum tungumálsins og málfræðilegri og tónalegri uppbyggingu þess. Áhersla er lögð á orðaforða daglegs lífs.
Í upphafi er pinyin umritunarformið kennt en síðan koma einfölduð kínversk tákn (jiantizi) til sögunnar.
Heimaæfingar og tímapróf eru tíð. Gert er ráð fyrir miklu heima- og sjálfsnámi og í námskeiðinu gildir mætingarskylda.
Kínverska II (KÍN202G)
Um er að ræða alhliða námskeið í staðlaðri kínversku (mandarín, putonghua) fyrir byrjendur og framhald námskeiðsins kínverska I. Námsstigið miðast við HSK 2-3.
Nemendur dýpka skilning sinn á málfræði, bæta orðaforða og ná föstum tökum á grundvallaratriðum kínverskrar tungu. Kennsla mun fara aukið fram á kínversku og áhersla verður á virka notkun málsins. Heimaæfingar og tímapróf verða tíð. Gert er ráð fyrir miklu heima- og sjálfsnámi.
Kínversk málnotkun II (KÍN204G)
Námskeiðið er framhald námskeiðsins kínversk málnotkun I og heldur áfram hljóðfræðilegri þjálfun nemenda með áherslu á framburð og tóna. Uppistaða námskeiðsins eru æfingatímar til að þjálfa hlustun, skilning og tjáningu sem byggja á og útfæra námsefni námskeiðsins kínverska II. Námsstigið miðast við HSK 2.
History of China I: From Mythological Origins to Late Ming (KÍN108G, KÍN102G)
Þetta námskeið fjallar um sögu Kína frá goðsögulegum tíma Xia-veldisins á þriðja árþúsundi f.Kr. fram að upphafi nítjándu aldar. Varpað verður ljósi á jafnt þær breytur sem varðað hafa mestu um mótun kínverskrar menningar sem einstaka viðburði í pólítískri og samfélagslegri framvindu þjóðarinnar. Veitt verður yfirlit yfir tilkomu og þróun áhrifamestu kínversku trúarbragða- og heimspekikerfa, einkum konfúsíanisma, daoisma og búddisma. Áhrifamiklir einstaklingar verða kynntir til sögunnar og samskipti og gagnkvæm áhrif erlendra þjóðhópa og Kínverja fá umtalsvert vægi.
Hafðu samband
Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2
Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.
Fylgstu með Hugvísindasviði:
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.