Skip to main content

Geislafræði

Geislafræði

Heilbrigðisvísindasvið

Geislafræði

BS gráða – 180 einingar

Hefur þú áhuga á mannslíkamanum og starfsemi hans? Finnst þér spennandi að vinna með tækni? Langar þig í starf sem er í stöðugri þróun?

Þá gæti geislafræði verið fyrir þig.

Skipulag náms

X

Efnafræði (GSL101G)

Farið yfir grunnatriði í almennri efnafræði, stilling efnajafna, nafngiftir, mólreikningur, leysni, styrkur.  Grunnur skammtafræðinnar og bygging atómsins er kennd sem undirstaða efnaeiginleika frumefnanna og efnahvarfa þeirra. Farið er yfir rafeindaskipan frumefnanna og myndun efnatengja. Helstu kenningar til að ákvarða byggingu og þrívíðan strúktúr sameinda og millisameindakraftar. Farið yfir grunnatriði í kjarnaefnafræði. Farið í undirstöðuatriði í lífrænni efnafræði, nafnareglur og virka hópa. Farið í grunnatriði og eiginleika fjölliða.

Kennsluaðferðir:
Fyrirlestrar, dæmareikningur og heimaverkefni.

X

Kynning á læknisfræðilegri myndgerð og greiningu (GSL102G)

Kynning á sögu læknisfræðilegrar myndgerðar frá uppgötvun W.C. Röntgen til tækninýjunga nútímans. Fjallað um hlutverk, stafssvið og skyldur geislafræðinga í heilbrigðiskerfinu. Farið með nemendur í heimsókn á myndgreiningardeilir.

X

Geislaeðlisfræði 1 (GSL103G)

Byrjað er á kynningu á geislaeðlisfræði, geislavörnum og myndgerðartækni í læknisfræði. Fjallað verður um frumeindir, ljóseindir og rafeindir, rafsvið, segulsvið og rafsegulbylgjur, með áherslu á tilurð og orkusvið röntgengeisla. Fjallað verður um hvernig röntgengeisli er búinn til. Gammageislun, hrörnun og helmingunartími.

Fyrirlestrar og heimaverkefni úr efni námsbókarinnar.

X

Eðlisfræði (GSL104G)

Nemendur fá kynningu á grundvelli í notkun eðlisfræði í störfum heilbrigðisstétta. Farið er yfir nokkur dæmi um lausnir á verkefnum sem snúa að kröftum, hreyfingu, orku o.fl., sem gera nemendur hæfa til að takast á við frekara nám og starf á sviði heilbrigðisvísinda.

Eðlisfræði: Lýsing hreyfingar. Kraftar, orsök hreyfingar og hreyfingarlögmál Newtons. Vinna, orka og afl. Hitastig, varmaeiginleikar efna og varmaflutningur. Vökvar, gas, þrýstingur og rennsli vökva. Rafmagn, rafstraumur, rafspenna, afl, einfaldar rafrásir og rafmagnsöryggi. Segulmagn og segulsvið. Hljóð, ljós og ljósgeislafræði.

Fyrirlestrar og rafræn skilaverkefni úr efni kennslubókarinnar.

X

Myndgreiningarrannsóknir 1 (GSL105G)

Nemendur fá kennslu í þeirri rannsóknartækni sem notuð er við framkvæmd almennra röntgenrannsókna.

Nemendur læra að skoða röntgenmyndir með tilliti til réttra innstillinga, algengustu frávika og helstu sjúkdóma. Fjallað verður um helstu ábendingar og frábendingar fyrir röntgenrannsóknir. Fjallað verður um helstu hugtök og orðræðu geislafræðinnar.

Nemendur læra mikilvægi góðra samskipta.

X

Líffærafræði (LEI102G)

Almenn atriði um gerð mannslíkamans. Líffærakerfi og einstök líffæri, staðsetning þeirra og starfsemi. Myndun mannslíkamans (fósturfræði). Gerð vefja mannslíkamans. Líffærafræði höfuðs, háls, brjósthols, kviðarhols, grindhols og stoðkerfis.

Þátttakendur eru þeir sem uppfylla aðgangskröfur til að stunda nám í lífeindafræði og geislafræði.

X

Frumulíffræði (LEI107G)

Námskeiðið er grunnnámskeið í frumulíffræði. Farið verður í byggingu frumuhimnunnar og flutning um hana. Frumulíffærum verða gerð mjög góð skil þar sem sértæk starfsemi hvers og eins verður krufin til mergjar. Í kjölfarið verður flutningur nýmyndaðra próteina rakin. Innfrumun og útfrumun verður tekin fyrir. Fjallað verður um frumugrindina, þ.e. aktín, örpíplur og milliþræði. Gerð verður grein fyrir helstu boðferlum frumunnar. Frumuhringurinn og stjórnun á honum verður skoðaður auk frumuvaxtar og frumudauða. Einnig verða skoðuð frumu-frumu tengsl og tengsl fruma við umhverfi sitt. Gerð verður grein fyrir hinum ýmsu gerðum fruma og hlutverki þeirra innan vefjagerða og í framhaldi verður stuttlega farið í frumulíffræði stofnfruma og uppruna krabbameins. Að lokum verður farið í almennan inngang að erfðafræði. 

X

Lífeðlisfræði 1 (LEI108G)

Samvægi (homeostasis) og stýrikerfi. Hormónakerfi og taugakerfi. Himnuspenna og rafboð, taugamót. Skynjun. Vöðvar, beinagrindarvöðvi, sléttur vöðvi, hjartavöðvi.

X

Geislavarnir (GSL204G)

Lög og reglur um geislavarnir og Geislavarnir ríkisins. Hugtök og einingar, bakgrunnsgeislun og geislun af mannavöldum. Notkun geislunar fyrr á tímum, geislaskaðar, Alþjóðageislavarnaráðið (ICRP), réttlæting, bestun og takmörkun notkunar jónandi geislunar. Líffræðileg áhrif jónandi geislunar á fullorðna, börn og fóstur. Geislavarnir vegna notkunar röntgentækja til sjúkdómsgreiningar. Geislavarnir sjúklinga og starfsfólks á röntgendeildum og utan röntgendeilda. Eftirlit með geislaskömmtun starfsfólks. Mat og mælingar á geislaálagi sjúklinga og starfsmanna. Mælibúnaður og aðferðir.

X

Geislaeðlisfræði 2 (GSL206G)

Fjallað verður um orkuróf röntgengeisla og deyfingu í efni. Lögð verður áhersla á hvernig geisli víxlverkar við efnið, dofnunarstuðla, helmingunarþykkt og þætti sem hafa áhrif á dofnun geisla. Fjallað verður um dreifigeislun, geislaskammta og geislaálag. Lagður verður grunnur að þekkingu á mælingum á jónandi geislun og gerð ein verkleg æfing.

Fyrirlestrar ásamt verklegri æfingu sem tengist efni fyrirlestranna og krefst virkrar þátttöku nemenda.

X

Myndgreiningarrannsóknir 2 (GSL207G)

Nemendur fá kennslu í þeirri rannsóknartækni sem notuð er við framkvæmd almennra röntgenrannsókna á stoðkerfi, brjóstholi og kviðarholi.

Nemendur læra að skoða röntgenmyndir með tilliti til réttra innstillinga, algengustu frávika og helstu sjúkdóma í stoðkerfi, brjóstholi og kviðarholi. Fjallað verður um helstu ábendingar og frábendingar fyrir röntgenrannsóknir. Fjallað verður um helstu hugtök og orðræðu geislafræðinnar.

Nemendur læra mikilvægi góðra samskipta.

X

Klínískt nám 1 (GSL208G)

Nemendur fá kynningu á starfsemi deildar. Fá þjálfun í móttöku og fræðslu til sjúklinga fyrir rannsókn. Þjálfun í framkvæmd almennar röntgenrannsókna á lungum, kviðarholi og stoðkerfi undir leiðsögn geislafræðinga

X

Umönnun sjúklinga (GSL209G)

Fjallað verður um grundvallarþætti í starfsemi sjúkrastofnanna og umönnun sjúklinga.

Fjallað verður um grundvallarhugmyndir í hjúkrun. Kynning verður á deildum sjúkrahúsanna, sérkenni sérsviða, ásamt starfsemi og hlutverki heilbrigðisstétta.

Farið verður yfir innlögn sjúklinga á spítala, móttöku, dvöl, meðferð og undirbúning fyrir rannsóknir og aðgerðir. Einnig undirbúning fyrir heimferð og útskrift, hjúkrun eftir aðgerðir, fylgikvilla og fyrirbyggingu þeirra.

Enn fremur er farið yfir umönnun sjúklinga með sjúkdóma í taugakerfi, efnaskiptasjúkdóma, sjúkdóma í liðum, hjarta- og lungnasjúkdóma, þvagfærasjúkdóma, meltingafærasjúkdóma og krabbamein. Einnig hjúkrun barna og sérþarfir þeirra.

Í námskeiðinu verður einnig fjallað um öryggisþarfir og félagslegar þarfir sjúklinga, ásamt umönnun aðstandenda. Þagnarskylda og réttindi sjúklinga verða kynnt ásamt réttri líkamsbeitingu og vinnutækni við umönnun og flutning sjúklinga.

X

Vísinda- og teymisvinna (LEI205G)

Námskeiðið skiptist í þrjá hluta, vísinda- og gagnalæsi, framsetningu vísindalegra gagna og teymisvinnu

I. Teymisvinna

Fjallað verður um grunnatriði og verkfæri gæðastjórnunar. Nemendum verða kynnt lykilatriði teymisvinnu og beita þeim.

II. Framsetning vísindalegra gagna

Fjallað verður um aðferðafræði við fagleg skrif innan heilbrigðisvísinda, og uppsetningu og flutning fyrirlestra. Fjallað verður um gagnagrunna við upplýsingaleit og heimildaskráningaforrit. Nemendur beita þessum aðferðum í verkefnum.

III. Vísinda- og gagnalæsi

Nokkur atriði um tölfræði og tilurð gagna. Myndræn framsetning gagna og lýsing á dreifingu gagnasafns. Öryggismörk meðaltals. Næmi, sértækni og forspárgildi. Almennt um uppsetningu rannsókna, lýsing á þýði og úrtaki. Áhættuþættir, áhætta og hlutfallsleg áhætta. Túlkun á niðurstöðum úr rannsóknum fyrir einstakling. Túlkun á niðurstöðum rannsókna í vísindagreinum og mat á mögulegum skekkjuþáttum.

Vinna í námskeiðinu krefst virkrar þátttöku. Farið verður yfir efnið í fyrirlestrum. Aðferðir eru þjálfaðar í dæmatímum og með verkefnum sem er skilað í ræðu og/eða riti.

X

Lífeðlisfræði 2 (LEI206G)

Fyrirlestrar. Lífeðlisfræðileg starfsemi blóðrásar- og öndunarfærakerfis, nýrna, meltingar- og æxlunarfæra. Stjórnun orkubúskapar og efnaskipta.

Verkleg æfing. Ein verkleg æfing um hjarta og blóðrás. Skylt er að mæta í æfinguna, skila niðurstöðuskýrslu og taka netpróf úr efni æfingarinnar

Verkefnatímar. Tveir verkefnatímar eru í námskeiðinu sem skylt er að mæta í. Þar vinna nemendur saman í hópum við að leysa verkefni úr kennslubókinni og kynna niðurstöður sínar

Áfangapróf. Þrjú áfangapróf verða lögð fyrir á misserinu úr efni námskeiðsins eins og nánar er tilgreint í kennsluáætlun.

X

Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi - heilbrigðisvísindadagurinn (HVS202G)

Námskeiðið er ætlað nemendum á fyrsta námsári í greinum heilbrigðisvísinda.  Sameiginlegur heilbrigðisvísindadagur nýnema allra deilda á Heilbrigðisvísindasviði í janúar ár hvert. Fjallað er um þverfaglegt samstarf og mikilvægi þess. Farið verður í grundvallarþætti samstarfsins svo sem sameiginlega sýn á réttindi til heilsu, samskipti og siðfræði. Einnig er fjallað um hlutverk og ábyrgð heilbrigðisvísinda.

X

Sýklafræði og smitgát (GSL302G)

Námskeiðið er í tveimur meginþáttum, sýklafræði og smitgát. Þessir þættir samtvinnast og eru grundvöllur þekkingar og skilnings á eiginleikum sýkla, tengslum þeirra við smitsjúkdóma og aðferðum sem þið, sem heilbrigðisstarfsmenn, getið beitt til að hindra spítalssýkingar eða sýkingar í tengslum við heilbrigðisþjónustu.

Verklag:

Kennslan er í formi fyrirlestra.  Auk þess takast nemendur á við efnið með einstaklingsverkefnum.  Námskeiðinu er skipt upp í eftirfarandi hluta:

  1. Sýklafræði - grunnatriði
  2. Bakteríufræði - bakteríutegundir/hópar
  3. Bakteríusýkingar í mismunandi líffærum/líffærakerfum og helstu sýkingavaldar
    sem tengjast heilbrigðiskerfinu.
  4. Smitgát/sýkingavarnir
X

Ómun (GSL307G)

Á námskeiðinu verður farið í grunnatriði ómunar þar sem komið verður inn á eðlisfræði hljóðbylgna, endurvarps eiginleika helstu vefja og helstu úrvinnsluaðferðir og notkun þeirra. Einnig verður farið vel yfir hvernig ómtækið virkar og fjallað um mikilvægi myndgæða og helstu áhrifaþætti. 

Hálsslagæð verður megin viðfangsefnið en einnig verður hjarta-ómun kynnt.   Farið verður yfir líffærafræði hálsslagæðar ásamt aðliggjandi vefjum.  Nemendur læra að þekkja og greina eðlilegt útlit hálsslagæðar á óm-myndum og einnig greina og þekkja algengustu frávik og helstu birtingarform æðaskella.  Nemendur fá verkefni þar sem þau framkvæma ómrannsóknir og vinna úr niðurstöðum þeirra.

X

Klínískt nám 2 (GSL309G)

Nemendur fá þjálfun í framkvæmd almennra röntgenrannsókna. Fá þjálfun í meðhöndlun skuggaefnis og uppsetningu nála. Fá þjálfun í framkvæmd einfaldra tölvusneiðmyndarannsókna.

X

Röntgenbúnaður (GSL310G)

Almenn kynning á öllum algengum röntgenbúnaði og stutt yfirlit yfir sögu röntgenmyndgerðar.  Kynning á tækjum til brjóstarannsókna, tannlækninga, dýralækninga og sneiðmynda.

Uppbygging stafrænna mynda. Dílastærð og dýpt; einlit mynd og marglit; gráskalinn og litakerfi. Snið myndskráa og þjappanir.  Kontrast- og flatarupplausn myndar. Grunnatriði myndvinnslu; birtubjögun og flatarsíur. Myndgæði og skynjun augans. 

Magn, gæði og rúmfræði röntgengeisla; áhrif á myndgæði.  Hugtakið geislamynd.  Fleygar og dreifigeislasíur.  Rétt geisluð mynd; tímastýringar, sjálfvirkar geislunarstýringar, geislunarvísar, tökugildi og punktakerfi.

Stafrænir myndmóttakarar; flatskynjarar og myndplötur.  Megingerðir móttakara, virkni hvers um sig, næmni og upplausn.  Myndgallar og áhrif myndvinnslu á myndgæði.

X

Siðfræði (GSL311G)

Í námskeiðinu er sjálfstæði nemenda eflt á þann hátt að þeir temji sér að ígrunda skoðanir sínar. Fjallað verður um hvernig best er að hugsa og ræða um siðferðileg vandamál og greina siðferðileg rök. Einnig verður fjallað um helstu kenningar í siðfræði, hugað að rökstuðningi fyrir þeim og gagnrýni á þær. Skerpt verður á meðvitund um þau lögmál sem liggja til grundvallar mannlegum samskiptum og breytni. Kynntar verða siðareglur geislafræðinga.

X

Bráðaviðbrögð (GSL313G)

Skyndihjálparnámskeið.

X

Lyfjafræði og skuggaefni (GSL314G)

Söguleg þróun og notkun skuggaefna í myndgreiningu.

Efnafræði skuggaefna.
Áhrif skuggaefnis á líkamann, ábendingar og frábendingar við notkun skuggaefna.
Áhættuþættir, aukaverkanir og meðhöndlun þeirra.
Lyfjafræði: Lyfjahvörf, verkanir lyfja og lyfjaviðtakar. Bólgueyðandi lyf, verkjalyf, staðdeyfilyf ofl.

X

Segulómun 1 (GSL401G)

Uppbygging og helstu hlutar segulómtækja. Grundvallaratriði í stærðfræði og eðlisfræði segulómunar. Segulmögnun í líkamanum, grundvallaratriði í myndatöku og myndbyggingu í MRI. Gerð MRI-tækis og hvernig einstakir hlutar þess vinna. Yfirlit yfir púlsaraðir, hraðmyndatöku, myndgæði og myndgalla. Púlsaraðir fyrir æðarannsókn og notkun skuggaefna. Rannsóknir á líkamshlutum, notkun leiðbeininga, innstillingar og aðhlynning sjúklinga. Sjúkdómar á segulómmyndum. Öryggismál og áhætta

X

Tölvusneiðmyndir 1 (GSL411G)

Fjallað er um hvernig tölvusneiðmynd verður til, allt frá því hvernig dofnun röntgengeisla í vefjum sjúklinga er mæld, til þess hvernig mynd er reiknuð út frá þeim gögnum og birt á tölvuskjá. Einnig verður fjallað um gæði tölvusneiðmynda og þá meginþætti sem hafa áhrif á þau, bæði í gagnasöfnuninni og mynduppbyggingu, sem og mismunandi aðferðir við framsetningu myndgagna, t.d. þrívíddarmyndir. Fjallað er almennt um framkvæmd tölvusneiðmyndarannsókna, undirbúning sjúklinga, notkun skuggaefnis, innstillingar og val á tökugildum.

X

Klínískt nám 3 (GSL412G)

Þjálfun í framkvæmd almennra rannsókna á myndgreiningardeild. Áhersla lögð á TS rannsóknir, barnaröntgen og skyggnirannsóknir.

X

Sneiðlíffærafræði (GSL413G)

  • Nemendur fá kynningu á skurðarplönum - Fjallað er um útlit og einkenni líffæra og líffærakerfa í þversniði og fleiri plönum.
  • Nemendur fá kynningu á sneiðlíffærarfræði og hvar þau geta leitað til að rifja upp og afla sér meiri þekkingar.
  • Farið verður yfir líffærakerfin á eftirfarandi hátt: skurðarplön og upprifjun á beinum, kviður, brjósthol, hryggur, höfuð og útlimir.
  • Námskeiðið er að mestu leyti sjálfsnám með símati.
X

Skyggnirannsóknir (GSL414G)

Ítarleg umfjöllun um búnað sem notaður er til skyggningar, inngrips- og æðarannsókna sem og geislavarnir starfsfólks og sjúklinga við notkun hans. 

Búnaður til mælinga á geislaskömmtum, mat á geislaálagi í mismunandi röntgenrannsóknum, munur á geislaálagi og helstu áhrifaþættir, viðmiðunargildi (DRL).

Þess er krafist að nemendur taki virkan þátt í verklegum æfingum og skili verkefnum þar að lútandi.

X

Myndgreiningarrannsóknir 3 (GSL415G)

Á öllum myndgreiningadeildum starfa geislafræðingar við framkvæmdir á læknisfræðilegum myndgreiningarrannsóknum og rannsóknarinngripum. Það er mikilvægt að geislafræðingar sem framkvæma rannsóknir stundi fagleg vinnubrögð og sýni skjólstæðingum sínum virðingu og alúð.

Markmið námskeiðsins er að kenna nemendur að skoða röntgenmyndir með tilliti til réttra innstillinga, algengustu frávika og helstu sjúkdóma. Nemendur fá kennslu í innstillingum og hvernig hægt er að sjá villur í innstillingum og leiðrétta þær. Nemendur læra um slysa- og bráðarannsóknarmyndgreiningar sem framkvæmdar eru utan myndgreiningadeilda. Nemendur læra um mikilvægi faglegra og góðra samskipta við sjúklinga og samstarfsfólks.

X

Klínískt nám 4 (GSL508G)

Framkvæmd almennra rannsókna á myndgreiningardeildum. Áhersla á þjálfun í framkvæmd æðarannsókna og segulómrannsókna.



 

X

Aðferðafræði vísindarannsókna í heilbrigðisvísindum (GSL510G)

Námskeiðið veitir hagnýta leiðsögn við undirbúning rannsóknar. Aðferðafræði rannsókna, siðferðileg álitamál, heimildaöflun, tilgátuþróun og gerð yfirlitsgreinar á fræðasviði fyrirhugaðaðrar rannsóknar.

Námskeiðið er einnig ætlað til að dýpka skilning nemenda á tölfræðiaðferðum sem kom til greina að nota við rannsóknir þeirra. Í námskeiðinu undirbúa nemendur leyfisumsóknir og fá þjálfun í að vinna rannsóknaráætlun og kynna hana.

Námskeiðið er ætlað nemendum á meistarastigi sem undirbúningur fyrir lokaverkefni.

X

Myndgreining á börnum (GSL503G)

Myndgreining á börnum er mikilvægur þáttur í starfi geislafræðinga. Á öllum myndgreiningadeildum eru börn hluti af skjólstæðingunum sem koma á deildina og er mikilvægt að geislafræðingar sem framkvæma myndgreiningarannsóknir á börnum stundi fagleg vinnubrögð og sýni börnum virðingu og alúð.

Markmið námskeiðsins er að kynna fyrir nemendum myndgreiningu á börnum og mikilvægi góðs undirbúnings geislafræðings við móttöku barna og aðstandenda þeirra.

Í námskeiðinu verður m.a. fjallað um helstu barnasjúkdóma og áverka hjá börnum. Farið verður yfir undirbúning, framkvæmd, blývarnir og geislavarnir helstu myndgreiningarannsókna. Við munum leggja áherslu á almennar röntgenrannsóknir en einnig kynna fyrir nemendum aðrar myndgreiningarannsóknir eins og tölvusneiðmyndatöku (TS), segulómun (SÓ), ómun og ísótópa.

X

Ísótóparannsóknir 1 (GSL509G)

Geislavirkni, meðhöndlun geislavirkra efna, rannsóknir og myndgerð með gammageislum.

Fjallað um geislavirkni, alfa- beta- og gammageislun, hrörnun og helmingunartíma. 

Almennt um framleiðslu, flutning, bókhald og förgun geislavirkra efna. Lög og reglugerðir, með áherslu á opnar geislalindir. Geislageitur, aðstaða, vinnuaðferðir og geislavarnir. Meðhöndlun, blöndun og gæðaeftirlit á ísótóp og burðarefnum. Myndgerð með gammamyndavél.

Sjúkdómsgreining með teknetíni, og öðrum gammageislandi efnum, á meltingarfærum, þvagfærum, stoðkerfi, öndunarfærum, innkirtlum, hjarta og æðum, heila og taugakerfi kynntar og ræddar.

X

Segulómun 2 (GSL505G)

Tilgangur námsskeiðsins er að dýpka þekkingu nemenda á grunneðlisfræði og tækni segulómunar sem kennd er á önninni á undan (Segulómun I) og skapa tengingu við klíníska notkun segulómunar. Á námsskeiðinu verður fjallað um eftirfarandi þætti:

  • Myndaraðir og kontrast
  • Tengsl tækni og ástand vefs
  • Þróun segulómunar fyrir klínískar skoðanir
  • Rannsóknir á líffærakerfum m.t.t tækni, ábendinga, sjúkdómafræði og sjúkdómsgreininga, þ.m.t. rannsóknir á miðtaugakerfi, stoðvefjakerfi, hjarta, brjóstholi, æðakerfi og rannsóknir á kvið
  • Litarefni (skuggaefni) í segulómun; flokkun, tegundir, notkun, notkunaröryggi
  • Líffræðileg sjónarmið í segulómun og öryggissjónarmið.
X

Tölvusneiðmyndir 2 (GSL613G)

Fjallað um notkun tölvusneiðmynda í sjúkdómsgreiningu, almennar ábendingar og sjúkdóma sem tengjast tölvusneiðmyndarannsóknum á helstu líffærakerfum. Fjallað er um geislavarnir starfsmanna og sjúklinga við tölvusneiðmyndarannsóknir, mælingar á geislaskömmtum, mat á geislaálagi og sérstakar ráðstafanir vegna barna og þungaðra kvenna

Notkun tölvusneiðmyndatækja með PET og SPECT, við æðarannsóknir og inngrip.

X

Rannsóknarverkefni (GSL614L)

Sérhæfing á ákveðnu sviði innan geislafræðinnar. Nemendur velja sér vettvang þar sem þeir dýpka þekkingu sína með rannsóknarverkefni og gera því skil með lokaritgerð og fyrirlestri.

X

Klínískt nám 5 (GSL612G)

Verknám á myndgreiningardeildum. Nemandi fær þjálfun í framkvæmd almenna röntgenrannsókna. Áhersla er á þjálfun á ísótóparannsóknarstofu og segulómun.

X

Sjúkdómafræði (GSL611G)

Námskeið þetta miðar að því að nemandi öðlist yfirsýn yfir helstu sjúkdóma í eftirfarandi sjúkdómaflokkum: Hjarta - og æðasjúkdómar, lungnasjúkdómar, meltingarfærasjúkdómar, þvagfærasjúkdómar, smitsjúkdómar, innkirtla- og efnaskiptasjúkdómar, heila- og taugasjúkdómar, geðsjúkdómar og háls- og eyrnasjúkdómar.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Jón Trausti Traustason
Björk Baldursdóttir
Jón Trausti Traustason
Geislafræði - BS nám

Ég var einn af þeim sem átti mjög erfitt með að ákveða hvað ég vildi læra og starfa við í framtíðinni. Ég vissi að mig langaði að vinna í heilbrigðisgeiranum og ákvað að lokum að hefja nám í geislafræði og sé ekki eftir þeirri ákvörðun. Geislafræðingar eru ekki einungis að vinna með flókinn tækjabúnað, þeir vinna náið með öðru fagfólki og eru í samskiptum við sjúklinga. Námið er krefjandi en mjög skemmtilegt.

Björk Baldursdóttir
Geislafræði - BS nám

Þó að ég hafi ekki vitað mikið um fagið þegar ég byrjaði hefur það komið mér endalaust á óvart og ég er himinlifandi yfir því að hafa valið það. Námið er fjölbreytt og spennandi og við fáum mikla verklega kennslu. Myndgreining er ein af helstu undirstöðum heilbrigðiskerfisins og það er yndislegt að vera partur af því.

Hafðu samband

Skrifstofa námsbrautar í geislafræði
Stapa við Hringbraut 31, 102 Reykjavík
Sími: 525 5442
Netfang: gol@hi.is

Opið á skrifstofu samkvæmt samkomulagi.

Geislafræðin á Facebook

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.