Næringarástand inniliggjandi COVID-19-sjúklinga hefur áhrif á lífslíkur
Niðurstöður nýrrar rannsóknar á inniliggjandi sjúklingum með COVID-19 sýna að næringarástand hefur áhrif á innlagnartíma og líkur á dauðsföllum. Allir sem lögðust inn á gjörgæslu í fyrstu bylgjum faraldursins voru með sterkar líkur á vannæringu samkvæmt áhættumati og voru líkur á dauðsföllum meiri meðal þeirra sem voru í áhættu á vannæringu. Einnig var litið til líkamsþyngdarstuðuls og voru sjúklingar með háan líkamsþyngdarstuðul (≥30 kg/m2) líklegri til að leggjast inn á gjörgæslu. Niðurstöður rannsóknarinnar birtust nýverið í vísindatímaritinu Clinical Nutrition ESPEN.
„Markmið rannsóknarinnar var að skoða næringarástand sjúklinga sem lögðust inn á Landspítala með COVID-19 í fyrstu bylgjum faraldursins á Íslandi. Markmiðið var einnig að kanna hvort áhætta á vannæringu, líkamsþyngdarstuðull og D-vítamínstaða tengdist lengd sjúkrahúslegu, innlögn á gjörgæslu og dánartíðni,“ segir Áróra Rós Ingadóttir, doktor í næringarfræði og lektor við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og einn höfunda rannsóknarinnar.
Margir sjúklingar með COVID-19 sýndu merki um vannæringu
Í fyrstu bylgjum COVID-19 unnu næringarfræðingar sem starfa á Næringarstofu Landspítala að mestu leyti heima. Sumir þeirra fóru í önnur störf, til dæmis við eftirlit með sjúklingum á göngudeild COVID í Birkiborg og ákveðnar deildir spítalans urðu að COVID deildum. „Þar sem lítið var vitað um COVID á þessum tíma var ákveðið að veita sjúklingum og deildum spítalans ráðgjöf eftir þörf. Fljótt sáum við að margir þessara sjúklinga áttu í erfiðleikum með að nærast að einhverju leyti, upplifðu lystarleysi, þyngdartap, bragðskynsbreytingar og fleira. Okkur fannst því mikilvægt að skoða betur næringarástand sjúklinganna og hvort það hefði áhrif á ýmsar útkomur,“ segir Áróra aðspurð um kveikjuna að rannsókninni.
Rannsóknin er nátengd áhuga Áróru á næringarástandi og næringarmeðferð sjúklinga en frá því að hún hóf rannsóknastörf hefur hún helgað sig rannsóknum á þessu sviði. „Tíðni vannæringar meðal inniliggjandi sjúklinga er almennt há og hafa rannsóknir sýnt að 20-60% sjúklinga á Landspítala eru í áhættu á vannæringu. Vannæring er tengd lengri legutíma, tíðari endurinnlögnum, auknum sýkingum og hærri dánartíðni. Það er því gríðarlega mikilvægt að fyrirbyggja, greina og meðhöndla vannæringu samkvæmt bestu mögulegu þekkingu,“ útskýrir hún.
„Rannsóknin veitir mikilvægar upplýsingar um næringarástand þessara sjúklinga og hvaða áherslur eru mikilvægar í næringarmeðferð. Hún veitir líka mikilvægar upplýsingar fyrir vísindasamfélagið þar sem um er að ræða nýjan sjúkdóm sem virðist hafa töluverð áhrif á vandamál tengd næringu sjúklings,“ sgir Áróra Rós Ingadóttir, doktor í næringarfræði og lektor við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson
Gagnarannsókn með 273 sjúklinga
Þátttakendur í rannsókninni voru 273 sjúklingar sem lögðust inn á Landspítala með COVID-19 frá febrúar 2020 til mars 2021. Upplýsingar um þátttakendur voru sóttar í sjúkraskrá og voru allir sjúklingar skimaðir fyrir áhættu á vannæringu samkvæmt gildismetnu skimunareyðublaði. D-vítamínbúskapur sjúklinga var skoðaður og svokölluð aðhvarfsgreining notuð til að meta tengsl milli næringarástands og legutíma sem fór yfir sjö daga, gjörgæsluinnlagna og dánartíðni á meðan á sjúkrahúsdvöl stóð.
Rannsóknin var meistaraverkefni Söndru Daggar Guðnadóttur í klínískri næringarfræði og var unnin undir handleiðslu Áróru. Sandra Dögg útskrifaðist vorið 2022 frá Háskóla Íslands og starfar nú sem lyfjafræðingur og næringarfræðingur á Landspítalanum. „Ásamt okkur Söndru Dögg komu að rannsókninni Jenný Kaaber næringarfræðingur, sem ráðgjafi en hún starfaði á göngudeild COVID um tíma við símhringingar og sinnti einnig næringarráðgjöf COVID-sjúklinga á smitsjúkdómadeild Landspítala, Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og aðstoðarrektor vísinda, en hún hefur mikla reynslu í túlkun rannsóknarniðurstaðna og ritun vísindagreina á þessu sviði, og Ubaldo Benitez Hernandez, tölfræðingur hjá vísindadeild Landspítala, sem aðstoðaði við tölfræðiúrvinnslu og greinarskrif,“ segir Áróra um rannsóknarhópinn.
Niðurstöðurnar sýna tengsl vannæringar og legutíma
Af þeim 273 sjúklingum sem voru skimaðir fyrir áhættu á vannæringu sýndu 74% þeirra ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu. Þessir einstaklingar voru líklegri til að liggja lengur en sjö daga á spítala borið saman við þá sem litlar líkur voru á að glímdu við vannæringu. Á tímabilinu lagðist 41 sjúklingur inn á gjörgæslu og voru allir með líkur á vannæringu; 32% með ákveðnar líkur og 68% með sterkar líkur. Líkur á dauðsföllum voru meiri meðal þeirra sjúklinga með sterkar líkur á vannæringu en hjá þeim þar sem litlar líkur voru á slíku ástandi.
Niðurstöðurnar leiddu jafnframt í ljós að sjúklingar með líkamsþyngdarstuðul yfir 30 kg/m2 voru líklegri til að leggjast inn á gjörgæslu en sjúklingar með lægri líkamsþyngdarstuðul. „Hins vegar reynist ekki tenging milli hás líkamsþyngdarstuðuls og D-vítamínskorts og lengri en sjö daga legutíma eða dánartíðni,“ segir Áróra.
Aðspurð um áhrifin sem niðurstöður rannsóknarinnar geta mögulega haft bendir Áróra á að þegar rannsóknin var framkvæmd hafi lítið verið vitað um næringarástand sjúklinga með COVID-19-sjúkdóminn og að það hafi ekki verið skoðað áður á Íslandi. „Rannsóknin veitir því mikilvægar upplýsingar um næringarástand þessara sjúklinga og hvaða áherslur eru mikilvægar í næringarmeðferð. Hún veitir líka mikilvægar upplýsingar fyrir vísindasamfélagið þar sem um er að ræða nýjan sjúkdóm sem virðist hafa töluverð áhrif á vandamál tengd næringu sjúklings.“