Leikskólakennarafræði, MT
Leikskólakennarafræði
MT gráða – 120 einingar
Meistaranám fyrir þau sem hafa lokið B.Ed. námi í leikskólakennarafræðum með fyrstu einkunn. Allir nemendur stunda vettvangsnám í leikskóla á námstímanum.
MT námi lýkur án rannsóknarritgerðar.
Skipulag náms
- Haust
- Kenningar í félagsfræði og heimspeki menntunar
- Menntunarfræði yngri barna
- Vor
- Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðumB
- Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðumB
- Skólastarf og rannsóknirB
- Rannsóknir með börnum og ungmennumB
- StarfendarannsóknirB
Kenningar í félagsfræði og heimspeki menntunar (MVS101F)
Í þessu námskeiði eru ræddar ýmsar áhrifamiklar kenningar á sviði félagfræði og heimspeki menntunar og þær settar í samhengi við álitamál í samfélaginu hversu sinni svo sem kynjajafnrétti, fjölmenningu, stéttaskiptingu, uppeldishætti, kennslufræði, lýðræði og skóla án aðgreiningar.
Á fyrri hluta misseris er röð fyrirlestra og umræðutímar.
Á seinni hluta misseris vinna nemendur tiltölulega sjálfstæð verkefni í hópum og fá leiðsögn um notkun kenninga við mótun rannsóknaráætlana eða þróunarverkefna á sviði kennslu eða uppeldisfræða.
Menntunarfræði yngri barna (KME109F)
Á námskeiðinu verður fjallað um sýn á börn, rannsóknir á námi þeirra og þá hugmyndafræði sem þær byggja á og athyglinni beint að ýmsum áherslum og álitamálum á sviðinu. Kynntar verða innlendar og erlendar rannsóknir og kenningar á eftirfarandi sviðum:
- Sýn á börn og nám í nútíma samfélagi: Fjallað verður um grundvallarhugmyndir um nám barna og hvernig þeim eru skapaðar námsaðstæður í skólum þar sem þátttaka, valdefling, lýðræði og vellíðan eru í brennidepli.
- Félagslegur raunveruleiki barna og áhrif hans á virka þátttöku þeirra í skólastarfi, m.a. jafnrétti í víðum skilningi, foreldrasamskipti, tækni í lífi barna.
- Þróun náms, skipulag námsumhverfis og fjölbreyttar leiðir til að meta nám ungra barna sem snerta meðal annars námssvið í leik- og grunnskóla.
Vinnulag:
Mætingarskylda er í tveimur staðlotum. Vikulegar kennslustundir eru yfir önnina þar sem nemendur geta valið mismunandi tíma dagsins í kennslustofu eða á neti (kennt er á þriðjudögum.).
Kennsla verður í formi fyrirlestra, umræðna og verkefna sem nemendur kynna og ræða. Nemendur athuga hvernig nýta má kenningar og niðurstöður rannsókna í skólastarfi. Þeir velja sér afmarkað svið til að dýpka þekkingu sína á með því að kynna sér niðurstöður rannsókna og starf á vettvangi. Dæmi um viðfangsefni eru: Mat í skólastarfi, margbreytilegur barnahópur (svo sem menningarlæsi, kynjagervi, fjölmenning) ákveðið námssvið, leik og námssamfélag barna, foreldrasamstarf, læsi, samfella í námi barna og skapandi starf.
Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðum (MVS213F, MVS212F, KME211F)
Markmiðið er að nemendur
- hafi innsýn í megindlega aðferðafræði á sviði rannsókna í uppeldis- og menntunarfræði
- þekki helstu rannsóknaraðferðir og hugtök sem þeim tengjast
- geti beitt algengum rannsóknaraðferðum og þannig aflað gagna, unnið úr þeim og túlkað á agaðan og viðurkenndan hátt
- séu færir um að rýna í rannsóknir og nýta sér niðurstöður þeirra
- hafi tileinkað sér rannsakandi hugarfar og gagnrýna hugsun
Kynnt verða algeng rannsóknarsnið megindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemendur nota tölvuforrit til að reikna algenga tölfræðistuðla og halda utan um og vinna úr gögnum. Sérstök áhersla verður lögð á þjálfun í túlkun matsniðurstaðna sem líklegt er að verði á vegi þeirra hópa sem taka námskeiðið.
Fyrirlestrar á vef, umræður og verkefni. Námskeiðið er kennt vikulega en fyrirlestrar verða eingöngu á vef. Verkefnatímar verða ekki teknir upp. Ekki er mætingarskylda í námskeiðið en nemendur eru hvattir til að mæta í kennslustundir.
Nemendur verða að hafa Jamovi (sjá nýjustu útgáfu á https://www.jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir.
Lesefni: Kaflar 1-11 í Navarro DJ and Foxcroft DR (2019). Learning statistics with jamovi: a tutorial for psychology students and other beginners. (Version 0.70). DOI: 10.24384/hgc3-7p15. Rafræn ókeypis kennslubók sem hala má niður á síðunni https://www.learnstatswithjamovi.com.
Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðum (MVS213F, MVS212F, KME211F)
Fjallað verður um ólíkar rannsóknarstefnur og tengsl þeirra við uppbyggingu og útfærslu rannsókna. Einnig um siðfræði vísinda með áherslu á hagnýt atriði og um gæðahugtök, s.s. réttmæti, trúverðugleika og ólíka sýn á þessi hugtök. Í námskeiðinu beinist athyglin að eigindlegum aðferðum. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemar fá nokkra þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna m.a. vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum. Þá vinna nemar með öflun, skráningu, flokkun, greiningu og túlkun gagna, og með framsetningu þeirra og gera heildstæða rannsóknaræfingu.
Fyrirlestrar, umræður og verkefni. Skyldumæting er í staðlotum.
Skólastarf og rannsóknir (MVS213F, MVS212F, KME211F)
Fjallað verður um innlendar og erlendar rannsóknir um nám og kennslu og greint hvernig þær geta stutt við þróun kennsluhátta og skipulag námsumhverfis. Rýnt verður í ólíkar rannsóknarstefnur og tengsl þeirra við rannsóknaraðferðir.
Matstæki sem skólum bjóðast, meðal annars á vegum Menntamálastofnunar, verða kynnt og rædd á námskeiðinu. Þar má nefna HLJÓM-2 fyrir leikskóla, Lesskimun fyrir fyrsta bekk, önnur lesskimunarpróf, mælaborðið Lesfimi og Matsferil sem er nýtt tæki í þróun hjá stofnuninni.
Einnig verða skoðaðar alþjóðlegar kannanir svo sem PISA fyrir 10. bekkinga og TALIS sem er könnun meðal kennara.
Námskeiðið á að vera hagnýtt og nýtast kennurum í daglegu starfi.
Vinnulag
Haldnir verða fyrirlestrar, málstofur og umræðutímar. Nemendur taka þátt í athugunum og æfa sig í að lesa og túlka niðurstöður rannsókna sem styðja þá í kennarastarfi.
Fyrir hverja er þetta námskeið?
Námskeiðið er einkum ætlað nemendum í leik- og grunnskólakennaranámi sem valið hafa MT-námsleiðir.
Rannsóknir með börnum og ungmennum (KME201F)
Í námskeiðinu verður fjallað um eigindlegar rannsóknaraðferðir með áherslu á að fá fram sjónarmið barna og ungmenna. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemendur fá þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna bæði með börnum og fullorðnum m.a., vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum og gera heildstæða rannsóknaræfingu. Fjallað er sérstaklega um rannsóknir með börnum og ungmennum, þ.e. rannsóknir þar sem þátttakendur eru börn, ungmenni og aðrir sem eiga hættu á að vera jaðarsettir í samfélaginu. Gengið verður út frá Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna til að hafa áhrif á eigið líf og félagsvísindalegum rannsóknum á bernskunni þar sem litið er á barnæsku sem afmarkað rannsóknarefni. Einnig verður byggt á félags- menningarkenningum og síðtímahugmyndum um börn sem sterk og hæf með eigið sjónarhorn á veröldina og réttindi þeirra sem borgara virt.
Í umfjöllun námskeiðs verður velt upp álitamálum sem upp koma þegar börn og/eða ungmenni eru þátttakendur í rannsóknum. Fjallað verður m.a. um hugmyndafræði, siðferðislega þætti og áhersla lögð á ýmsar aðferðir sem nota má í rannsóknum með börnum. Nemendur vinna eigin rannsókn og fá tækifæri til að glíma við fjölbreyttar aðferðir.
Starfendarannsóknir (MVS011F)
Inntak / viðfangsefni
Á námskeiðinu verður farið yfir tilurð og þróun starfendarannsókna í ýmsum löndum, m.a. Japan, Ástralíu, Bandaríkjunum og Bretlandi. Rýnt verður í hugmyndafræði slíkra rannsókna og hinar margvíslegu myndir sem þær hafa tekið á sig og birtast í ólíkum orðum sem notuð eru um slíkar rannsóknir, t.d. starfendarannsóknir (action research), kennararannsóknir (teacher research), kennslurýni (lesson study), starfstengd sjálfsrýni (self-study) og practitioner research. Sérstök áhersla verður lögð á starfendarannsóknir í skólum og öðrum vettvangi menntunnar, þar á meðal á Íslandi og ákveðin dæmi skoðuð í því sambandi. Megináherslan í námskeiðinu er á að þátttakendur geri rannsókn á eigin starfi/starfsháttum og kynni hana í námskeiðinu. Ekki er skilyrði að nemendur séu í starfi þegar þeir taka námskeiðið.
Vinnulag
Námskeiðið er vettvangs- og samstarfsmiðað. Grunnhugmyndin er sú að þátttakendur geri rannsókn í tengslum við eigið starf í samráði við kennara og aðra þátttakendur í námskeiðinu og vinni úr henni í nánu samstarfi við kennara og aðra þátttakendur, t.d. í gegnum ígrundanir, kynningar og samræður. Nemendur halda leiðarbók eða rannsóknardagbók um rannsókn sínar og gera lestrardagbók í tengslum við lestur fræðigreina. Að auki taka þeir þátt í ýmis konar verkefnum og umræðum á netinu.
Fræði og starf á vettvangi I (LSS303F)
Markmið
Að nemendur öðlist þekkingu á þáttum sem hafa áhrif á þróun fagmennsku og eigin starfskenningu, þjálfi sig í að beita aðferðum starfendarannsókna við að rýna í eigið starf og stuðla að faglegri þróun á vettvangi.
Viðfangsefni
Í námskeiðinu verður fjallað um hugmyndafræði starfendarannsókna og þýðingu þeirra fyrir þróun skólastarfs. Stuðst er við rannsóknir sem sýna að með þátttöku í starfendarannsókn fá kennarar tækifæri til að ígrunda starf sitt og styrkja sig faglega. Með það að leiðarljósi kynna nemendur sér gildi og aðferðir starfendarannsókna ásamt því að vinna að rannsókn á eigin starfi, í samstarfi við samnemendur, háskólakennara og leiðsagnarkennara á vettvangi.
Á vettvangi rýna nemendur í eigið starf, þekkingu, gildi og skoðanir sem liggja þar að baki. Nemendur velja viðfangsefni sem þeir vilja beina sjónum sínum að, lesa fræðigreinar því tengdar, móta spurningar og setja fram áætlun um framkvæmd. Til þess ígrunda þeir þá faglegu þekkingu sem þeir hafa öðlast í námi sínu ásamt reynslu sinni af vettvangi leikskóla. Samhliða ferlinu safna þeir gögnum sem nýtast til að rýna í og greina eigin starfshætti, með það að markmiði að þá megi þróa.
Nemendur halda rannsóknardagbók, rýna í eigin athafnir og þá hugmyndafræði sem þær athafnir byggja á, ásamt því að setja fram drög að eigin starfskenningu. Í lok námskeiðs gera nemendur grein fyrir vinnu sinni á vettvangi í málstofu.
Vettvangsnám
Vettvangsnámið dreifist yfir allt misserið, frá miðjum ágúst og fram í desember. Gert er ráð fyrir reglulegri mætingu á Menntavísindasvið - sjá nánar í náms-og kennsluáætlun námskeiðs.
Vinnulag
Nemendur mæta í staðbundna tíma í háskóla samkvæmt námsáætlun, þar sem markmiðið er að þeir fylgist að í gegnum ferlið og styðji hvern annan jafnt og þétt í framvindu rannsóknar sinnar á vettvangi. Í staðbundnum tímum verða tekin fyrir viðfangsefni sem tengd eru áherslum og ferli námskeiðsins hverju sinni; nemendur ræða og ígrunda þær áskoranir sem þeir standa frammi fyrir á vettvangi, greina þau tækifæri sem þeir sjá til faglegrar þróunar og leita leiða til lausna. Nemendur skila niðurstöðum í formi rannsóknardagbókar og málstofukynninga, þar sem ferlið er ígrundað í ljósi eigin starfskenningar og þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað.
Skyldumæting er í áfangann. Nemendur mæta í staðbundna tíma í háskóla (miðvikudaga f.h.).
Fræði og starf á vettvangi II (LSS403F)
Markmið námskeiðs
Að nemendur öðlist þekkingu á þáttum sem hafa áhrif á þróun lærdómssamfélags í leikskóla, m.a. sameiginlegs náms barna, starfsfólks og foreldra. Þjálfi sig í að beita aðferðum starfendarannsókna við að vera í faglegri forystu í leikskóla.
Viðfangsefni og vinnulag
Fjallað verður um leiðandi hlutverk og ábyrgð leikskólakennara við þróun lærdómssamfélags leikskóla. Meðal þeirra viðfangsefna sem tekin verða til umfjöllunar eru fagleg forysta, lærdómssamfélag, ásamt gildi starfendarannsókna við að rýna í og þróa starf og starfshætti í leikskóla. Í því samhengi velja nemendur viðfangsefni til innleiðingar, lesa fræðigreinar tengdar viðfangsefninu, móta spurningar og setja fram áætlun um skipulag framkvæmdar á vettvangi.
Á vettvangi eru nemendur í faglegri forystu við framkvæmd starfendarannsóknar, með þátttöku samstarfsfólks, foreldra og barna, eftir því sem við á. Á námskeiðinu halda nemendur áfram vinnu við starfendarannsókn sem þeir hófu í Fræði og starf I.
Vettvangsnám
Vettvangsnámið dreifist yfir all skólaárið, frá miðjum ágúst og fram í miðjan maí. Gert er ráð fyrir að nemar mæti að jafnaði einn dag í viku í vinnu á Menntavísindasviði.
Vinnulag
Gert er ráð fyrir að nemendur séu starfandi í leikskóla og að vettvangshluti námskeiðsins fari fram þar, undir handleiðslu leikskólakennara á vettvangi. Nemendur mæta reglulega í staðbundna tíma í háskóla samkvæmt námskeiðsáætlun, þar sem þeir fylgjast að í gegnum ferli starfendarannsókna og styðja hvern annan. Þá verða tekin fyrir viðfangsefni sem tengd eru áherslum námskeiðsins hverju sinni ásamt því að nemendur ígrunda og fjalla um innleiðingarferlið og áskoranir á vettvangi. Niðurstöðum er skilað í formi rannsóknardagbókar og málstofukynninga þar sem ferlið er ígrundað í ljósi eigin starfskenningar og faglegrar forystu.
Skyldumæting er í áfangann. Nemendur mæta hálfsmánaðarlega í staðbundna tíma (miðvikudaga f.h).
- Heilsársnámskeið
- Mentor í SprettiV
- Haust
- Einelti, forvarnir og inngripB
- Barnavernd - hvað er börnum fyrir bestu?B
- Þróunarstarf í menntastofnunumB
- Leiðtogar í skóla án aðgreiningar í fjölmenningarsamfélagiBE
- Starfstengd leiðsögn – leiðsagnarhlutverkiðB
- Vor
- Hlutverk millistjórnendaBE
- Leiðsögn og samvinnaB
- Lýðræði, mannréttindi og borgaravitund barna og ungmennaB
- Óháð misseri
- Þættir í leikskólastjórnunB
Mentor í Spretti (GKY001M)
Í námskeiðinu felast verkefni nemenda í að vera mentor fyrir þátttakendur á framhalds- og háskólastigi í verkefninu „Sprettur”. Mentorar sinna því mikilvæga starfi að styðja og hvetja ungmenni í námi og félagslífi. Hlutverk mentora er að skapa uppbyggjandi samband við þátttakendur, vera jákvæð fyrirmynd og taka þátt í sameiginlegum viðburðum skipulögðum í Spretti. Mentorhlutverkið snýst um tengslamyndun og samveru sem felur í sér skuldbindingu gagnvart ungmennunum sem mentor styður.
Sprettur er verkefni sem styður við nemendur með innflytjenda- eða flóttamannabakgrunn sem koma úr fjölskyldum þar sem fáir eða engir hafa háskólamenntun. Nemendur í námskeiðinu eru mentorar þátttakenda og eru þeir tengdir saman með hliðsjón af sameiginlegu áhugasviði. Hver mentor ber ábyrgð á að styðja tvo þátttakendur. Mentorar skipuleggja samveru og verja þremur klukkustundum á mánuði (frá ágúst fram í maí) með þátttakendum í Spretti, þremur klukkustundum í mánuði í heimavinnuhópi og mæta í fimm málstofur sem dreifast yfir skólaárið. Nemendur skila dagbókarfærslum á Canvas í nóvember og mars. Dagbókarfærslur byggjast á lesefni og hugleiðingum nemenda um mentorstarfið. Námskeiðið er kennt á íslensku og ensku.
Nemendur sækja um þátttöku á námskeiðinu. Sjá rafrænt umsóknareyðublað. Umsækjendur fara í viðtal og eru 15-30 nemendur valdir til þátttöku.
Frekari upplýsingar um verkefnið „Sprettur” má nálgast hér: www.hi.is/sprettur
Einelti, forvarnir og inngrip (TÓS509M)
Þetta námskeið er um einelti og markmiðið er að þeir sem ljúka námskeiðinu öðlist þekkingu, leikni og hæfni til að geta tekist á við og komið í veg fyrir einelti meðal barna og unglinga.
Námskeiðið byggir á kenningum og rannsóknum á einelti. Námskeiðið er bæði fræðilegt og hagnýtt. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem hafa hug á að vinna með börnum og unglingum og hentar því vel fyrir nemendur á menntavísindasviði HÍ. Nemendur á öðrum sviðum eru einnig velkomnir. Á námskeiðinu verður fjallað um fjölmarga þætti sem snúa að einelti, þar á meðal mismunandi birtingarmyndir, árangursríkar aðferðir við forvarnir og inngrip, samstarf við foreldra og forsjáraðila og árangursríka vinnu með þolendum, gerendum og áhorfendum. Námskeiðið fer fram á íslensku en lesefni er á íslensku og ensku.
Námskeiðið byggir á fyrirlestrum, umræðu- og verkefnatímum, reynslusögum af vettvangi og kynningum nemenda.
Skyldumæting er í námskeiðið (lágmark 80%). Skyldumæting er fyrir fjarnema í staðlotur námskeiðsins. Missi þeir af staðlotu verða þeir að vinna það upp með því að mæta í aðra tíma í staðinn. Fjarnemum er frjálst að mæta í aðrar kennslustundir. Fjarnemar vinna virkniverkefni um kennslustundir sem þeir mæta ekki í.
Barnavernd - hvað er börnum fyrir bestu? (KME118F)
Markmið námskeiðsins er að auka fræðilega þekkingu og hæfni sérkennara, starfsfólks leik- og grunnskóla og nema í tómstunda- eða uppeldis- og menntunarfræði til að efla hagsmunagæslu, vernd og stuðning við börn.
Námskeiðið tengist Heimsmarkmiðum Sameinuðuþjóðanna nr. 3 (heilsa og vellíðan) nr. 4 (menntun fyrir alla).
Í námskeiðinu er fjallað um réttindi og skyldur starfsmanna, barna og forsjáraðila. Rætt um lög og reglugerðir þessu viðkomandi. Fjallað er um einkenni og vísbendingar þess að farsæld barns sé ábótavant, ofbeldi gagnvart börnum sem og mati á slíkum aðstæðum. Sjónum verður beint sérstaklega að farsæld barna og þá læsi á einkenni áfalla og steitu í hegðum og háttum barna. Fjallað er um gildi þverfaglegs samstarfs þegar unnið er að velferð barna, það tengt forvarnarstarfi og gerð viðbragðsáætlanna. Kennsla er í formi fyrirlestra á upptöku og í staðlotum, umræðna og verkefna.
Kennsla er í formi fyrirlestra og umræðu í tveimur staðlotum, vikulega umræðutíma innan námshópa yfir önnina og verkefnavinnu. Viðvera í staðlotum er skylda og því forsenda þess að taka þátt í námskeiðinu. Áhersla er á sjálfstæða vinnu nemenda. Nemendur þurfa að skipuleggja lestur sinn og þannig kynna sér efnið sem kennari leggur fram. Krafa er gerð til nemenda að þeir deili þekkingu sinni með samnemendum og eigi í reglulegum samskiptum við aðra nemendur.
Þróunarstarf í menntastofnunum (STM110F)
Markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur öðlist hagnýta og fræðilega þekkingu á einkennum þróunarstarfs og þáttum í menningu menntastofnana sem stuðla að umbótum eða hindra þær. Jafnframt öðlist þeir leikni í að skipuleggja og leiða þróunarstarf, starfsþróunartækifæri og móta þróunaráætlanir. Byggt er á kenningum um faglegt lærdómssamfélag sem gerir ráð fyrir að faglegt nám og þróun stofununar séu nátengd.
Í lok námskeiðsins eiga nemendur að:
- hafa skilning á helstu hugtökum og kenningum um þróun menntastofnana og skóla sem og frístundastofnana sem lærdómssamfélags,
- geta tekið faglegar ákvarðanir um leiðir í starfs og skólaþróun sem og þróun frístundastofnana og rökstutt þær,
- geta aflað fjölbreyttra gagna um þróunarstarf og metið gildi þeirra,
- geta beitt hugtökum, kenningum, líkönum og aðferðum á raunveruleg viðfangsefni,
- geta átt frumkvæði og haft forystu um rannsóknar- og þróunarverkefni í mennta- og frístundastofnunum til að efla fagmennsku,
- geta greint leiðir til að efla kennara og starfsfólk frístundastarfi í með þátttöku alls samfélagasins.
Námskeiðið er skipulagt í lotum með fjarnámssniði, staðlotur (skyldumæting er í fyrri staðlotu) eru tvær auk kynninga á lokaverkefnum. Þess á milli fer fram lestur fræðilegs efnis, verkefnavinna og samræður þátttakenda. Auk þess býðst nemendum að taka þátt í umræðutímum um viðfangsefnin. Verkefni námskeiðsins eru hagnýt og tengjast þróunarstarfi og leiðsögn við raunverulegar aðstæður. Lögð er áhersla á samræðu og samstarf nemenda samhliða sjálfstæði í vinnubrögðum og frumkvæði auk virkni í umræðum og lestri fræðilegs efnis.
Námsmat byggir á fjölbreyttum verkefnum sem ýmist eru unnin í samvinnu við aðra eða eru einstaklingsverkefni.
Leiðtogar í skóla án aðgreiningar í fjölmenningarsamfélagi (STM015F)
Tilgangur námskeiðsins er að búa þátttakendur undir að leiða skólastarf sem byggir á fræðilegri sýn á menntun án aðgreiningar í fjölmenningarlegu samfélagi (inclusive intercultural education), þ.e. þátttöku fjölbreytts nemenda hóps í skólastarfinu. Grunnþættir námskeiðsins eru leiðtogahlutverkið, lýðræði, mannréttindi, samvinna og viðurkenning á auðlindum nemenda, þ.e. að þeir byggja á ólíkri reynslu og læra á mismunandi hátt. Áhersla er lögð á þróun leiðtoga sem byggir á samstarfi þar sem hlustað er eftir röddum nemenda, foreldra og samstarfsfólks um sýn þeirra á skólastarf.
Markmiðið er að þátttakendur öðlist færni í að greina og meta stöðu menntunnar án aðgreiningar í sínu starfsumhverfi og geti brugðist við þörfum skólasamfélagsins með lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi.
Rýnt verður í framkvæmd og þróun á þessum sviðum og hvernig þessi áhersla hefur tekið á sig ólíkar myndir. Einnig munu þátttakendur greina eigin starfsvettvang, meta viðhorf, þekkingu og færni starfsfólks og gera aðgerðaáætlun sem tekur til uppbyggingar menntunar án aðgreiningar.
Námskeiðið fer fram með fyrirlestrum, umræðum, samstarfi og sjálfstæðri vinnu þátttakenda. Námskeiðið er vettvangs- og samstarfsmiðað. Áhersla er lögð á að þátttakendur greini eigin viðhorf og skoðanir um leið og þeir kynna sér hugmyndir annarra. Þeir halda námsdagbók um athuganir sínar, lestur fræðigreina og ígrundun.
Starfstengd leiðsögn – leiðsagnarhlutverkið (STM104F)
Námskeiðið er ætlað kennurum á öllum skólastigum og öðrum sem annast starfstengda leiðsögn á sviði uppeldis og menntunar. Námskeiðið er grunnnámskeið á námssviðinu/námsleiðinni Starfstengd leiðsögn á sviði uppeldis og menntunar en einnig er hægt að taka það sem stakt valnámskeið.
Tilgangur námskeiðisins er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á starfstengdri leiðsögn, markmiðum með slíkri leiðsögn, leiðsagnarhlutverki kennara og leiðsagnaraðferðum, og geti beitt þekkingunni í starfi. Stefnt er að því að nemendur geti nýtt sér helstu kenningar um starfstengda leiðsögn og fræðileg hugtök til að ræða og skipuleggja eigið starf sem leiðsagnarkennarar. Áhersla er lögð á að nemendur verði meðvitaðir um hvernig starfstengd leiðsögn getur eflt faglega starfshæfni einstaklinga og hópa, m.a. nemenda í vettvangsnámi, nýliða í kennslu, reyndra kennara og annars fagfólks. Lögð er áhersla á hagnýta þjálfun í starfstengdri leiðsögn sem leið til aukinnar fagmennsku og hugað er að ábyrgð og samstarfi leiðsagnarkennara og þeirra sem njóta leiðsagnarinnar.
Hlutverk millistjórnenda (STM210F)
Markmið þessa námskeiðs er að nemendur öðlist fræðilega þekkingu á hlutverki millistjórnenda í skólum og á vettvangi frítímans með sérstakri áherslu á faglega forystu þeirra og gildi þverfaglegs samstarfs í menntakerfinu.
Viðfangsefni
Þemu námskeiðsins eru sex:
- Millistjórnandinn og dreifð forysta: Hvað skiptir máli?
- Ólík hlutverk millistjórnenda eftir skólastigum og stofnunum á skóla- og frístundavettvangnum.
- Millistjórnandinn á landamærum fagstétta: Þverfaglegt samstarf á tímum farsældar
- Millistjórnandinn sem leiðtogi jafningja: Að leiða samtal um starfsþróun og fagmennsku
-
Millistjórnandinn og mjúku gildin: Seigla og félags- og tilfinningahæfni
-
Millistjórnandinn og áskoranir samtímans: Sögur af vettvangi
Nálgun og vinnulag námskeiðs
Í námskeiðinu er lögð áhersla á að ná jafnvægi milli fjölbreyttra gerða náms:
- Tileinkun náms (e. acquisition)
- Umræður (e. discussion)
- Könnun og/eða rannsókn (e. investigation)
- Samvinna (e. collaboration)
- Virkni og/eða æfing (e. practice)
- Afurð (e. production)
Námskeiðið er skipulagt í staðbundnum lotum og fjarnámi. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum, umræðum, lestri, hlustun og áhorfi, sem og verkefnavinnu sem bæði verður unnin í hóp og á einstaklingsgrunni. Leitast verður við að tengja viðfangsefni námskeiðsins sem mest aðstæðum og reynslu nemenda.
Leiðsögn og samvinna (STM215F)
Tilgangur námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á leiðsögn og samvinnu í skólastarfi þar sem stefnt er að starfsmenntun kennara, skólaþróun og öflugu foreldrasamstarfi, og að þeir geti beitt þekkingunni í starfi. Nemendur kynnast helstu rannsóknum og kenningum um starfstengda leiðsögn, og er stefnt að því að þeir geti nýtt sér þær á gagnrýninn og markvissan hátt sem leiðsagnarkennarar nýrra kennara og leiðtogar í teymisvinnu, jafningjaleiðsögn og þverfaglegu samstarfi í hópum. Einnig er lögð áhersla á hlutverk kennara í foreldrasamstarfi og í því að efla tengsl heimila og skóla. Kynnast þeir helstu kenningum og rannsóknum á því sviði, og tengja þær við eigin reynslu í starfi. Nemendur vinna með æfingar og verkefni sem miða að því að efla samskiptahæfni þeirra, einkum hæfni í leiðtoga- og leiðsagnarhlutverki, og í faglegum samskiptum við samstarfsfólk og foreldra.
Námskeið er kennt í fjarnámi með þremur staðbundnum lotum. Gert er ráð fyrir mætingu í staðbundnar lotur. Fyrirlestrar, umræður, einstaklings- og hópverkefni.
Lýðræði, mannréttindi og borgaravitund barna og ungmenna (UME002F)
Í námskeiðinu er fjallað um lýðræði og mannréttindi og hvað það merkir að vera borgari í lýðræðissamfélagi á tímum hnattvæðingar. Rætt er um mikilvægi þess að borgarar skynji að þeir hafi tiltekinn rétt í samfélaginu en jafnframt ábyrgð og skyldur. Áhersla er lögð á fræðilega og stefnumótandi umræðu um borgaravitund (e. citizenship, civic engagement) bæði hér á landi og á alþjóðavísu. Þá er fjallað um lífsgildi og hvernig þau vísa ungu fólki veginn í hugsun og hegðun bæði sem einstaklingar og sem samborgarar í fjölmenningarlegu og síbreytilegu samfélagi nútímans. Einnig verður gerð grein fyrir rannsóknum um hlutverk heimila, skóla og félagasamtaka við að efla borgaravitund ungs fóks ásamt því að fjalla um tengsl borgaravitundar við mismunandi þroskaþætti og hæfni hjá börnum og ungmennum, svo sem samskipta- og fjölmenningarhæfni og siðferðiskennd.
ATH: Námskeiðið fer fram á Zoom. Kennsluinnlegg eru tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram. Vikulega eru umræðutímar (90 mín.) á netinu en í nokkur skipta í stofu og þá er einnig hægt að vera á neti. Nemendur kynna fræðilegt efni sem einstaklingar og ritgerð í hópastarfi einu sinni á misserinu.
Þættir í leikskólastjórnun (STM211F)
Megintilgangur þessa námskeiðs er að gefa þátttakendum kost á að kynnast ýmsum völdum þáttum stjórnunar og forystu í leikskólastarfi. Fjallað verður um hefðbundin forystuhlutverk leikskólastjóra , forystu kennara og dreifða forystu. Starfsmannamál og starfsmannahópurinn innan leikskóla verður skoðaður með gagnrýnum hætti m.a. með hugtakið míkrópólitík (e. micro-politics) stofnana að leiðarljósi og sjónum beint að stressi og kulnun stjórnenda í því samhengi. Í öðru lagi er ljósi varpað á barnaverndarmál og tilkynningaskyldu leikskóla. Í þriðja lagi verður sjónum beint að þróun leikskólastarfs þar sem m.a. gildi rannsókna, þróunarverkefna og mats á leikskólastarfi er gert hátt undir höfði.
Fjallað verður um stjórnun og forystu í leikskólum og sjónum sérstaklega beint að rannsóknum á því sviði. Málefni starfsmannahópa verða krufin og sjónum beint að fagmennsku, leiðtogastarfi, hagsmunaárekstrum og fjölþættum öflum innan hópa (micro-politics). Barnaverndarmál verða krufin, sjónum beint að stressi og kulnun stjórnenda og þróun leikskólastarfs til aukinna gæða.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Fylgstu með Menntavísindasviði
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.