Kennsla íslensku, MT
Kennsla íslensku
MT gráða – 120 einingar
Námið býr nemendur undir íslenskukennslu í grunnskóla. Námið er opið þeim sem hafa lokið B.Ed.-prófi í grunnskólakennslu með áherslu á íslensku, eða BA/BS-prófi í skyldum greinum. Grunnskólakennarar með leyfisbréf geti sótt námið óháð sérhæfingu í fyrra námi.
Nemendur í MT námi vinna ekki 30 eininga lokaverkefni en taka fleiri námskeið í staðinn. Fjarnám að mestu eða hluta.
Skipulag náms
- Haust
- Félagsfræði og heimspeki menntunar
- Ritlist og bókmenntir
- Málrækt og málfræðikennsla
- Óháð misseri
- Nám og kennsla í grunnskóla
- Námsmat og námskrá grunnskóla
- Sígildar sögur
- Bókmenntakennsla
- Mál í sögu og samtíð
- Vettvangsnám í íslensku IIB
Félagsfræði og heimspeki menntunar (SFG106F)
Viðfangsefni: Meginmarkmið námskeiðsins er að veita innsýn í félagsfræðileg og heimspekileg sjónarhorn á menntun og skólastarf. Til að ná því markmiði verður fjallað um valdar félagsfræðilegar og heimspekilegar hugmyndir sem gagnast við að skoða menntun og skólaveruleika. Áhersla er á þrjá þætti. A. Að skilja hugmyndir og hugtök og geta gert grein fyrir þeim. B. Að máta hugmyndir og hugtök við þá menntun og þann skólaveruleika sem við þekkjum. C. Að fjalla með gagnrýnum hætti um hugmyndirnar og þann veruleika sem þær eiga að varpa ljósi á.
Vinnulag: Fyrirlestrar og umræður verða vikulega. Uppteknir fyrirlestrar verða settir á Canvas-vef námskeiðsins. Nemendur kynna sér þá og taka svo þátt í umræðutímum sem ekki verða teknir upp. Í upphafi misseris skrá nemendur sig í umræðuhópa sem haldast út misserið. Mætingarskylda (80%) er í umræðutímana en hægt er að velja um að mæta í Stakkahlíð eða í rauntíma á Zoom. Þá vinna nemendur tvö hópverkefni, tvö einstaklingsverkefni og lokaverkefni.
Ritlist og bókmenntir (ÍET004M)
Inntak og viðfangsefni:
Fjallað verður um ýmsar bókmenntategundir og einkenni þeirra. Nemendur nálgast bókmenntir með því að skapa þær. Lesnar verða fræðigreinar um ritun og skapandi starfi fylgt eftir með fræðilegum tilvísunum og upplýsingum um hvernig nýta má þekkingu á ritlist í kennslu.
Markmið:
Nemendur læra um bókmenntir með því að búa þær til sjálfir. Fræðileg umfjöllun snýst um einkenni bókmennta og það hvernig beita má ritun sem aðferð við kennslu. Tekið er samhliða á kenningum um bókmenntir og því handverki sem einkennir allar bókmenntir.
Nemandi:
- les og greinir mismunandi gerðir bókmennta og kynnist einkennum þeirra.
- metur gildi þeirra fyrir nemendur grunnskóla.
- lærir um bókmenntir með því að skapa texta.
- les sér til í fræðiritum um ritun sem kennsluaðferð.
Vinnulag:
Nemendur skrifa heima í fjarsambandi við kennara. Í þremur staðlotum verða fræðilegir fyrirlestrar um ritlist og jafningjamat þar sem nemendur greina hver annars verk á sameiginlegum fundi.
Málrækt og málfræðikennsla (ÍET106F)
Markmið námskeiðsins er að kennaranemar öðlist almennan skilning á nýjustu þekkingu, kenningum, hugmyndafræði, hugtökum og aðferðum á sviði málræktar og kennslu í málfræði með sérstaka áherslu á aðstæður á Íslandi.
Unnið er með hugtök á borð við málstefnu, málstýringu, málstaðal og málvenju og viðteknar hugmyndir um rétt mál og rangt teknar til endurskoðunar. Auk þess verður fjallað um ólík viðhorf til kynhlutlauss máls og skiptar skoðanir um afskipti yfirvalda af nafngjöfum. Tiltækt kennsluefni verður skoðað í ljósi slíkra hugmynda.
Megináhersla er lögð á hvernig hægt sé að vekja ungmenni til umhugsunar um ábyrgð sína þegar kemur að tungumálinu og viðgangi þess um leið og hvatt er til umburðarlyndis í málfarsefnum. Þá fá kennaranemar þjálfun í að leiða umræður um málpólitísk álitamál.
Sérstök áhersla verður lögð á umfjöllun um þann þátt málræktar sem bregst við erlendum áhrifum með nýyrðasmíð og kennaranemar undirbúnir undir að stýra slíkri vinnu í kennslu nemenda sinna.
Nám og kennsla í grunnskóla (KME102F)
Meginmarkmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í helstu kenningar og rannsóknir um nám, kennslu og kennarastarfið. Sérstök áhersla er lögð á kennsluaðferðir og skipulag kennslu sem sýnt hefur stuðning við áhugahvöt nemenda. Fjallað er um starfsumhverfi grunnskólakennara m.a. þeim lögum og reglum sem gilda um grunnskóla og nemendur kynnast vettvangi með vikulöngu vettvangsnámi.
Inntak / viðfangsefni:
Fjallað er um nám og kennslu frá mörgum sjónarhornum. Nemendur kynnast námi og kennslu á öllum stigum skyldunáms og setja fram markmið, skipuleggja ólíkar kennsluaðferðir og námsumhverfi, auk þess að skipuleggja einnig samskipti og samstarf á vettvangi. Leitast er við að tengja þessi viðfangsefni hugmyndum um fagmennsku kennara og þróun eigin starfskenningar. Í fyrri hluta námskeiðsins verður fjallað sérstaklega um áhugahvöt til náms, verkefnaval, notkun umbunar/umbunarkerfa, námsmat og hópaskiptingu. Í síðari hluta námskeiðsins verður einnig fjallað um þróun sjálfsmyndar nemenda, foreldrasamstarf, stuðning við sjálfræði nemenda, félagsleg tengsl, væntingar nemenda og kennara og skólaforðun. Einstakir efnisþættir verða ræddir og settir í samhengi við árangursríkar kennsluaðferðir sem eru til þess fallnar að ýta undir áhugahvöt nemenda til náms.
Námsmat og námskrá grunnskóla (KME006F)
Meginmarkmiðið er að nemendur öðlist þekkingu, leikni og hæfni sem snýr að námskrárfræðum og námsmati og verði færir um að beita þekkingu sinni á því í skólastarfi. Fjallað er nokkur lykilhugtök námskrárfræða og matsfræða eins og þau hafa birst í íslensku skólakerfi. Þannig er fjallað um áherslur og hugmyndastefnur sem greina má í opinberum námskrám, lögum, reglugerðum og öðrum stefnuritum. Þætti sérfræðinga (kennara, stjórnenda og fleiri) í námskrárgerð, þróun skólanámskrár og þróun námsmats eru gerð skil . Fjallað er um forsendur, tilgang og aðferðir við mat á námi og námsárangri (sbr. leiðsagnarmat, lokamat, gerð prófa og annarra matstækja og beitingu einkunna og vitnisburða). Þátttakendur lesa og ræða einnig um álitamál og ólíka hugmyndafræðilega strauma sem tengjast grundvallarspurningum um tilgang og markmið skyldunáms.
Vinnulag á námskeiðinu felst í lestri greina og bókakafla, fyrirlestrum og kynningum ásamt gagnrýninni umræðu í málstofum og hópverkefnum.
Lesefni er kynnt í námsáætlun hverju sinni.
Sígildar sögur (ÍET102M)
Námskeiðið er helgað þjóðsögum og miðaldabókmenntum og miðlun slíkra texta kennslu. Rýnt verður í valdar þjóðsögur og fjölbreytta bókmenntatexta frá miðöldum, svo sem goðsögur, valin eddukvæði og tilteknar Íslendinga sögur. Fjallað verður um þennan sagnasjóð í alþjóðlegu samhengi. Einnig verða lesnar ýmiss konar bókmenntir þar sem sóttar hafa verið fyrirmyndir til fornra frásagna og hugað að tengslum við menningu og listir á líðandi stund.
Bókmenntakennsla (ÍET213F)
Markmið námskeiðsins er tvíþætt. Annars vegar er fjallað um aðferðir við bókmenntakennslu og lögð áhersla á fjölbreytni bókmennta og margvíslega möguleika á að tengja þær við ólík viðfangsefni. Fjallað verður um hvernig nýta má aðferðir bókmenntafræðinnar við bókmenntagreiningu- og túlkun til að ljúka upp bókmenntatextum fyrir nemendum og setja þá í semhengi við daglegan veruleika. Gegnum bókmenntir og bókmenntafræði er hægt að nálgast mismunandi tímabil, menningu, þjóðerni, tungumál og persónuleika.
Hins vegar verður fjallað um bókmenntakennslu í íslenskum grunnskólum, markmið aðalnámsskrár, tilgang bókmenntakennslu og þátt hennar í samfélagsmótun og almennri menntun. Ítarlega verður rættum val þeirra bókmennta sem kenndar eru í skólakerfinu. Forsendur þessa vals verða ígrundaðar og kannaðar meðal annars með samanburði við slíkt val í öðrum löndum.
Mál í sögu og samtíð (ÍET212F)
Í námskeiðinu verða tekin fyrir valin efni um breytileika tungumálsins og uppruna og skyldleika orða sem síðan verða tengd við kennslu í skólakerfinu. Viðfangsefnin og öll nálgun á þau verður tengd grunnþáttum menntunar, þ.m.t. læsi á samfélag og menningu í gegnum tungumálið.
Fjallað verður um mállýskubundinn mun meðal annars í framburði og orðaforða, orðsifjafræði, helstu lögmál sem málbreytingar lúta og drifkrafta þeirra. Litið verður til málþróunar út frá eðli máltöku með samanburði við önnur tungumál og sú þróun sett í samhengi við menningarlega þætti og breytileika í samfélagsgerð. Einnig verða viðteknar hugmyndir um sérstöðu íslensku meðal skyldra mála á borð við Norðurlandamálin og ensku skoðaðar í gagnrýnu ljósi.
Áhersla er lögð á virkni nemenda og sjálfstæða en um leið skapandi vinnu með fjölbreytt (rafræn) textagögn frá ólíkum tímum. Einnig fá nemendur tækifæri til að hanna verkefni út frá efni námskeiðsins og beita gagnrýninni nálgun á fyrirliggjandi námsefni.
Vettvangsnám í íslensku II (ÍET003G, ÍET007G)
Námskeiðið er vettvangsnámskeið og meginmarkmið þess er að stúdent efli enn frekar þekkingu sína á námsgreininni íslensku í grunnskóla og kennslufræði hennar og öðlist haldgóða kennslureynslu.
Inntak / viðfangsefni
• Lesnir verða fjölbreyttir textar um mál og bókmenntir.
• Fjallað um kennslugreinina íslensku í tengslum við lög og reglugerðir er varða íslenskukennslu í grunnskóla, skólanámskrá og bekkjarnámskrá.
• Fjallað um fjölbreyttar kennsluaðferðir, námsefni og námsmat í kennslugreininni íslensku í grunnskóla.
• Í vettvangsnáminu er lögð áhersla á að stúdent fái haldgóða reynslu af því undirbúa og útfæra kennslu á mið- og unglingastigi í málfræði og bókmenntum og beri ábyrgð á kennslunni.
- Haust
- Nám og kennsla - fagmennska í starfi
- Vor
- Nám og kennsla – vettvangsnám í faggrein
- Íslenskt mál og menntun fjöltyngdra nemenda
- Óháð misseri
- Læsi í faggreinum
- Menntun til sjálfbærni – hæfni í heimi breytinga
Nám og kennsla - fagmennska í starfi (KME301F)
Meginviðfangsefni námskeiðsins er fagmennska í starfi kennara og hlutverk, ábyrgð og skyldur umsjónarkennara sem og fagreinakennara. Sérstök áhersla er lögð á að styðja kennaranema í að móta heildstæða starfskenningu, efla fagvitund, skerpa sýn á kennarastarfið og skilning á þeim skuldbindingum sem starfið felur í sér. Á námskeiðinu er áhersla lögð á tengsl kennslu og náms og það hlutverk kennarans að byggja upp öflugt og skapandi námsumhverfi. Fjallað verður um siðfræði kennarastarfsins, manngildissjónarmið og ábyrgð kennara, gagnvart velferð barna og foreldrasamstarfi. Meðal viðfangsefna verða sjálfsrýni og sjálfsmat, ígrundun eigin kennslu og í samræðu við nema úr öðrum faggreinum. Auk þess er lögð áhersla á samskiptafærni, m.a. í samskiptum við foreldra, viðtalstækni, teymiskennslu og teymisvinnu og mismunandi leiðir til bekkjarstjórnunar.
Vinnulag byggir á fyrirlestrum, umræðum, málstofum, sjálfstæðri vinnu og samvinnuverkefnum. Námsþættir námskeiðsins eru í beinum tengslum við vettvangsnám. Ýmis álitamál verða skoðuð og rædd með vísun til dæma úr skólastarfi. Kennaranemar lesa valdar greinar og rannsóknir sem tengjast námsþáttunum, bæði efni sem kennarar velja og efni sem nemar viða að sér. Þeir vinna námsþáttaverkefni og halda rannsóknardagbók a.m.k. einu sinni í viku meðan á vettvangsnámi stendur. Kennaranemar vinna að jafnaði saman í teymi á vettvangi í samstarfi við æfingakennara og kennara námskeiðsins. Þeir fara með ákveðin verkefni til að skoða og vinna með, auk þess sem þeir skipuleggja samþætt, lýðræðislegt verkefni um málfefni líðandi stundar. Einnig safna þeir gögnum af vettvangi sem nýtt eru í tengslum við vinnu að námsþáttum námskeiðsins. Áhersla er lögð á að skrifin tengist kenningum um nám og kennslu, faggrein, siðfræði og starfskenningu kennaranema. Vettvangsnámshlutinn er einnig hluti af námsvinnunni í bóknámshluta námskeiðsins, þ.e. einstakir námsþættir og vettvangsnámið eiga að mynda eina samofna heild.
Vettvangsnámið dreifist yfir allt skólaárið, allt frá því þegar skólar hefja störf í ágúst þar til skóla lýkur að vori. Mætingaskylda er á námskeiðinu á mánudögum eftir hádegi á Menntavísindasviði eða í rauntíma á neti fyrir þá sem búa að landsbyggðinni utan við Selfoss eða Akranes.
Kennaranemar velja sjálfir hvort þeir fara í launað starfsnám eða ólaunað vettvangsnám:
Launað starfsnám (leiðbeinendur í kennslu). Kennaranemar sem hyggja á launað starfsnám leita sér sjálfir að stöðu og sækja um. Þeir stunda vettvangsnámið í eigin bekk/námshópum sem þeir eru að kenna.
Í launuðu starfsnámi er hálft starf fullgilt vettvangsnám og kennaranemar sinna bæði störfum umsjónarkennara og kennslu í faggrein/sérhæfingu sinni. Miðað er við að allir kenni að lágmarki 4 kennslustundir á viku í faggrein sinni. Vettvangsnámið er hluti af starfi og fylgir því skólaárinu í grunnskóla viðkomandi.
Ólaunað vettvangsnám. Kennaranemar sem hyggja á ólaunað vettvangsnám geta lagt til hvar þeir vilji stunda sitt vettvangsnám. Í könnun sem send verður út í maí geta þeir óskað eftir borgarhluta/ landsvæði eða skóla.
Á vettvangi skila þeir að jafnaði fjögurra til sex klukkustunda viðveru á dag, 2 – 3 daga í viku, þ.e. 12 klukkustundum á viku. Þar af er miðað við að þeir kenni 8 kennslustundir og þarf kennsla í faggrein að vera minnst 4 kennslustundir á viku. Einnig þarf nemi að hafa tækifæri til að kynnast hlutverki umsjónarkennara.
Vettvangsnámstímabilið í ólaunuðu vettvangsnámi fylgir háskólaárinu.
Nám og kennsla – vettvangsnám í faggrein (FAG401F)
Meginviðfangsefni námskeiðsins er vettvangsnám í faggrein. Lögð er áhersla á að nemar prófi sig í kennslu og fái tækifæri til að ræða, meta, ígrunda og þróa kennslu sína. Þeir þróa kennsluáætlun byggða á aðalnámskrá grunnskóla og skólanámskrá. Þeir greina atvik úr kennslu sinni og draga lærdóm af þeim. Þeir skoða fjölbreyttar kennsluaðferðir og beita þeim í kennslu á vettvangi.
Vinnulag: Nemendur eru á vettvangi alla önnina á báðum námskeiðum og mæta reglulega í kennslustundir í háskólanum. Byggt er á fyrirlestrum, umræðum, sjálfstæðri vinnu og samvinnuverkefnum. Námsþættir námskeiðsins eru í beinum tengslum við námskeiðið Nám og kennsla - fagmennska. Ýmis álitamál verða skoðuð og rædd með vísun til dæma úr námsþáttunum, bæði efni sem kennarar velja og efni sem nemar viða að sér.
Íslenskt mál og menntun fjöltyngdra nemenda (ÍET206F)
Fjallað verður um íslensku sem annað mál og menntun fjöltyngdra grunnskólanemenda. Rætt verður um máltöku og máluppeldi og hver sé munurinn á því að öðlast færni í móðurmáli og öðru máli. Sérstök áhersla verður lögð á það sem kennarar þurfa almennt að kunna um íslenskt mál til að geta sinnt vel annars máls nemendum svo að þau nái framförum í þeirri námsgrein sem til umfjöllunar er.
Farið verður í uppbyggingu íslenska málkerfisins, framburð, orðmyndun, beygingar, setningagerð, merkingu orða og orðasambanda, lagskiptingu orðaforðans og ýmislegt sem viðkemur málnotkun, og fjallað um hvað getur helst vafist fyrir fjöltyngdum grunnskólanemendum sem eru að tileinka sér málið. Rætt verður um persónubundinn mun málhafa þegar þeir tileinka sér íslensku sem annað mál, með sérstaka áherslu á hvert móðurmál þeirra er til að geta greint hvar helst sé að vænta erfiðleika við tileinkun íslensku og til að geta brugðist við því.
Í framhaldi af þessu verður unnið með kennslu mismunandi faggreina og hvernig skipuleggja megi hana þannig að hún taki mið af mismunandi getu fjöltyngdra nemenda í íslensku. Meðal annars verður tekið fyrir hvernig hægt er að semja og einfalda texta svo að laga megi þá að getu fjöltyngdra nemenda í íslensku.
Læsi í faggreinum (ÍET214F, FAG201F)
Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur þrói hugmyndir sínar um læsi og hvernig vinna megi með læsi þvert á faggreinar þannig að þeir verði betur í stakk búnir að kenna sínar greinar. Í kennaranámi þróa kennaranemar starfskenningu sínu, þ.e. skoða og móta hugmyndir sínar um það hvernig þeir ætla eða vilja starfa sem kennarar
Lögð er áhersla á heildstæða og skapandi nálgun við undirbúning og skipulag kennslu þvert á faggreinar og að nemendur kynnist rannsóknum og nýjungum í kennsluháttum sem efla læsi og fagorðaforða á öllum skólastigum.
Menntun til sjálfbærni – hæfni í heimi breytinga (ÍET214F, FAG201F)
Fjallað verður um hugtakið sjálfbær þróun og meginhugmyndir alþjóðlegra sáttmála um sjálfbærni. Tekin verða dæmi af ýmsum vandamálum er tengjast umhverfi og náttúru, s.s. loftslagsmálum, tegundafækkun, jarðvegseyðingu og mengun. Lögð verður áhersla á að greina vandamál úr umhverfi nemenda með áherslu á að finna mögulegar lausnir. Fjallað verður um hlutverk kennara í að vinna með ágreiningsmál og hvernig þeir geta kennt börnum að greina vanda, meta upplýsingar og setja fram hugsanlegar lausnir. Þátttakendur lesi og noti rannsóknir á sjálfbærnimenntun. Einnig munu þátttakendur skoða eigin viðhorf til sjálfbærrar þróunar, gildi sín og meta eigin hegðun.
Skyldumæting er í staðlotur samkvæmt kennslualmanaki Menntavísindasviðs.
- Óháð misseri
- Kennslufræði íslensku sem annars málsV
- Íslenska í skólakerfinuV
- Bókmenntir og grunnþættirV
Kennslufræði íslensku sem annars máls (ÍET102F)
Um námskeiðið
Námskeiði þessu er ætlað að efla þekkingu og skilning þátttakenda á íslenskunámi barna og nemenda með erlendan bakgrunn. Fjallað verður um kennslufræði og kenningar í kennslu íslensku sem annars máls. Öll viðfangsefni hafa það meginmarkmið að auka færni þátttakenda til að beita markvissum og faglegum kennsluaðferðum í kennslu íslensku sem annars máls og stuðning við íslensku í faggreinakennslu, en einnig að hvetja til gagnrýnnar hugsunar við beitingu kennsluaðferða. Til viðbótar verður fjallað um fjölmenningarleg hæfni, samstarf við fjölskyldur, móðurmál og fjöltyngi í skólum, og tungumálanám á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Námskeiðinu er enn fremur ætlað að hvetja til stöðugrar þekkingarleitar þannig að þátttakendur taki mið af nýjustu rannsóknum og kenningum hér á landi sem erlendis.
Íslenska í skólakerfinu (ÍSF801F)
Meginmarkmið námskeiðsins er annars vegar að varpa ljósi á það hvernig íslenska er kennd á unglingastigi grunnskóla og í framhaldsskólum og hins vegar hvernig hægt er að efla kennslu í námsgreininni með hliðsjón af hagnýtum og fræðilegum rannsóknum. Hvaða hæfni á að byggja upp í beitingu og meðferð tungumálsins? Hvaða leikni eiga nemendur að hafa eftir hvert skólastig og hvernig á að þjálfa hana? Hvað er mikilvægast að nemendur skilji og viti um tungumál og bókmenntir eftir skólagönguna? Hvaða kennsluaðferðum er helst beitt? Hvaða námsefni er mest notað og að hvaða marki endurspeglar það nýlega þekkingu á sviði íslenskrar málfræði og íslenskra bókmennta? Í verkefnavinnu námskeiðsins fá nemendur tækifæri til að útfæra eigin hugmyndir að viðfangsefnum í íslenskukennslu með áherslu á miðlun nýlegrar þekkingar.
Bókmenntir og grunnþættir (ÍET002F)
Námskeiðið er 5 einingar. Lesnir verða fjölbreyttir bókmenntatextar sem vel eru til þess fallnir að opna umræðu um grunnþætti menntunar eins og þeir eru skilgreindir í Aðalnámskrá grunnskóla (2013): Læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði, velferð og sköpun. Lesefni verður breytilegt en valið út frá þremur meginþemum sem tengjast grunnþáttunum. Valið skal lesefni sem veitir jafnframt almenna menntun í bókmenntum, tungumáli og tjáningu. Grunnþemun þrjú eiga erindi við nemendur allra deilda Menntavísindasviðs. Þau eru:
- Börn og þroski
- Jafnrétti
- Menningararfur og samfélagsskilningur.
Lykilorð námskeiðsins eru: Lesskilningur, orðaforði, tjáning og túlkunarfærni.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
Stakkahlíð, 1. hæð í Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.