Skip to main content
7. maí 2024

Afhentu HÍ málverk af fyrrverandi rektor skólans

Afhentu HÍ málverk af fyrrverandi rektor skólans - á vefsíðu Háskóla Íslands

Afkomendur Ágústs H. Bjarnasonar, fyrrverandi rektors Háskóla Íslands og skólastjóra Gagnfræðaskóa Reykjavíkur, færðu Háskóla Íslands á dögunum málverk af honum til varðveislu. Ágúst var fyrsti prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands.

Það voru tveir afkomendur Ágústs og alnafnar, þeir Ágúst H. Bjarnason verkfræðingur og Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur, sem komu færandi hendi með málverkið á fund Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, og Magnúsar Diðriks Baldurssonar, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu. Er það ósk niðja Ágústs að Háskóli Íslands taki að sér að varðveita listaverk þetta um ókomna tíð.

Ágúst H. Bjarnason fæddist á Bíldudal 20. ágúst 1875, yngsta barn Hákonar Bjarnasonar, kaupmanns og útgerðarmanns þar, og Jóhönnu K. Þorleifsdóttur. Ágúst missti föður sinn ungur að árum og var komið í fóstur í framhaldinu hjá skólastjóra Mýrarhúsaskóla, Sigurði Sigurðssyni frá Reykhúsum í Eyjafirði. Jóhanna, móðir Ágústs, seldi verzlun og útgerð mannsins síns skömmu eftir lát hans og sigldi með elstu börn sín til Kaupmannahafnar til þess að þau gætu hlotið góða menntun. Þegar Ágúst var á fimmtánda ári flutti hann til móður sinnar í Danmörku og gekk þar í skóla. 

Meðal fyrstu prófessora skólans

Ágúst lauk stúdentsprófi frá Efterslægtskabets Skole í Kaupmannahöfn 1894 og meistaraprófi í heimspeki frá háskólanum þar 1901. Ágúst var styrkþegi sjóðs Hannesar Árnasonar 1901 til 1904 og síðan stundaði hann framhaldsnám í Þýzkalandi, Sviss og Frakklandi. Hann lauk doktorsprófi í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla 1911 með ritgerð um franska heimspekinginn Jean-Marie Guyau. 

Sama ár var Háskóli Íslands stofnaður og varð Ágúst fyrsti prófessor í heimspeki við skólann. Kennslugrein hans var heimspekileg forspjallsvísindi og gegndi hann því starfi til 1945. Hann var tvívegis rektor háskólans, 1917/18 og 1928/29. Áður hafði hann gegnt stundakennslu bæði í Menntaskóilanum í Reykjavík og Verzlunarskóla Íslands.

Ágúst H. Bjarnason var mjög verkadrjúgur fræðimaður. Hann samdi mörg rit á sínu fræðasviði, einnig var hann mikilvirkur alþýðufræðari, stóð að útgáfu tímarita og var afkastasamur þýðandi. Þá stóð hann einnig að stofnun nokkurra félaga, meðal annars Vísindafélags Íslendinga 1918. Hann var haldinn mikilli fróðleiksfýsn og var einkar ljúft að miðla lærdómi meðal manna.

Það voru forráðamenn Gagnfræðaskóla Reykvíkinga, sem fengu Ásgeir Bjarnþórsson (1899-1987), listmálara, til þess að mála þessa mynd af Ágústi 1944, þegar hann lét af störfum.

Skólastjóri Gagnræðaskóla Reykvíkinga í vel á annan áratug

Frá árinu 1928 til 1944 var Ágúst skólastjóri Gagnfræðaskóla Reykvíkinga. Þetta var einkaskóli, oft nefndur Ágústarskóli, sem fékk styrk úr ríkis- og bæjarsjóði, en var aðallega rekinn af kennslugjöldum sem nemendur greiddu. Skólinn var stofnaður á sínum tíma vegna aðgangstakmarkana að menntaskólum en margir nemendur fengu ekki skólavist í menntaskóla þótt þeir hefðu staðist inntökupróf til 1. bekkjar gagnfræðadeildar. 

Skólinn varð ríkisskóli árið 1947 og nafni hans var breytt frá hausti 1948 í Gagnfræðaskóli Vesturbæjar. Skólinn var þá í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu. Haustið 1958 flutti Gagnfræðaskóli Vesturbæjar að Hringbraut 121 (JL húsið) eftir að Gagnfræðaskólinn á Hringbraut 121 flutti í nýtt húsnæði og breytti um nafn og varð Hagaskóli. Árið 1969 hætti skólinn starfsemi.

Það voru forráðamenn Gagnfræðaskóla Reykvíkinga, sem fengu Ásgeir Bjarnþórsson (1899-1987) listmálara til þess að mála þessa mynd af Ágústi 1944 þegar hann lét af störfum. Sagt var, að Ágúst hafi verið svo hrifinn af þessu málverki, að hann fékk að hengja það upp í skrifstofu sinni í Hellusundi 3. Nokkrum árum síðar hætti Gagnfræðaskóli Reykvíkinga starfsemi og varð að ríkisskóla. Þess vegna varð málverkið innlyksa á heimili Ágústs og frá andláti hans 1952 hefur verkið verið í húsakynnum niðja hans sem nú hafa fært skólanum það til varðveislu. 
  

Afkomendur og alnafnar Ágústs H. Bjarnasonar ásamt Jóni Atla Benediktssyni rektor og Magnúsi Diðrik Baldurssyni.