Skip to main content
10. maí 2024

Áframhaldandi samstarf HÍ og Alvotech um nám í iðnaðarlíftækni

Áframhaldandi samstarf HÍ og Alvotech um nám í iðnaðarlíftækni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Ingibjörg Gunnarsdóttir, starfandi forseti Heilbrigðisvísindasviðs, og Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, endurnýjuðu á dögunum samstarfssamning milli HÍ og Alvotech um meistaranám í iðnaðarlíftækni.

Í námi í iðnaðarlíftækni er lögð áhersla á rannsóknir og að veita hagnýta þjálfun og reynslu sem nýtist í starfi fyrir líftæknifyrirtæki. Kennsla á námsleiðinni er í höndum starfsfólks á Heilbrigðisvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskólans í samstarfi við starfsfólk Alvotech. Þá hefur Alvotech lagt námsleiðinni til fjármagn og aðstöðu og hafa nemendur HÍ unnið lokaverkefni í samstarfi við fyrirtækið. 

Samstarfssamningur um námið var fyrst undirritaður árið 2019 og hefur samstarfið gengið afar vel. Nú þegar hefur á annan tug nemenda brautskráðst með meistaragráðu í iðnaðarlíftækni og þá stunda rúmlega 20 nemendur nám í greininni um þessar mundir. Meðal þeirra sem sótt hafa námið er starfsfólk Alvotech en fyrirtækið er eins og kunnugt er með höfuðstöðvar sínar á svæði Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýri.

Samstarf Háskólans og Alvotech nær til fleiri þátta en reksturs námleiðar í iðnaðarlíftækni því Alvotech hefur boðið nýútskrifuðum nemendum í líffræði, efnafræði, lífefnafræði, lífeindafræði, líftækni og lyfjafræði tækifæri til starfsþjálfunar sem leitt getur til framtíðarstarfs. Þá hafa aðilarnir tveir styrkt rannsóknarinnviði hér á landi með sameiginlegum tækjakaupum og staðið saman að málþingum um nýsköpun, líftækni og lyfjafræði með erlendum og innlendum fyrirlesurum.
 

Fulltrúar Alvotech og Háskóla Íslands við endurnýjun samstarfssamningsins.