Skip to main content

6. háskólaþing 13. maí 2011

6. háskólaþing Háskóla Íslands haldið 13. maí 2011 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.00-16.00

Dagskrá
Kl. 13.00 – 13.05 Rektor setur háskólaþing, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundargögnum.
Kl. 13.05 – 13.20 Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.
Kl. 13.20 – 14.00 Dagskrárliður 2. Aðgerðaáætlun vegna Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016.
Kl. 14.00 – 14.50 Dagskrárliður 3. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Umhverfismál og sjálfbærnistefna.
Kl. 14.50 – 15.10 Fundarhlé.
Kl. 15.10 – 16.00 Dagskrárliður 4. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Mögulegar aðgangstakmarkanir við Háskóla Íslands.
Kl. 16.00 Rektor slítur háskólaþingi.

Kl. 13.00-13.05 - Fundarsetning
Rektor setti háskólaþing og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Háskólaþing er haldið í samræmi við lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 sem tóku gildi 1. júlí 2008 og var þetta 6. háskólaþing (sem áður hét háskólafundur) Háskóla Íslands. Sérstaklega bauð rektor velkomna þá fulltrúa starfsfólks, stúdenta og háskólaráðs sem mættir voru í fyrsta sinn á þingið sem og gesti frá öðrum stofnunum, þau Björn Zoëga, fulltrúa Landspítala, Bryndísi Hrafnkelsdóttur, fulltrúa Happdrættis Háskóla Íslands, Guðrúnu Nordal, fulltrúa Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Áslaugu Agnarsdóttur, fulltrúa Landsbókasafns Íslandsháskólabókasafns, Sigurð H. Richter, fulltrúa Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Lilju Dögg Jónsdóttur, formann Stúdentaráðs.

Fundargerð síðasta háskólaþings var send fulltrúum fyrir þingið og bárust engar athugasemdir við hana. Þá gerði rektor grein fyrir tímaáætlun og gögnum fundarins og fól Magnúsi Diðriki Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu og gæðastjóra háskólans að vera fundarritari.

Kl. 13.05–13.20 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands

Rektor fór yfir helstu verkefni umliðins vetrar og stærstu mál framundan í starfi Háskóla Íslands.

Aldarafmæli Háskóla Íslands
Hinn 7. janúar sl. var haldinn opinn fundur í Hátíðasal þar sem kynnt var dagskrá Háskóla Íslands í tilefni af 100 ára afmæli skólans og ný Stefna Háskóla Íslands 2011-2016. Afmælisdagskráin er undir kjörorðunum „Fjársjóður framtíðar“ og tók þátt í viðburðinum hópur barna frá Mánagarði, leikskóla fyrir börn háskólastúdenta.

Á afmælisárinu mun m.a. hvert hinna fimm fræðasviða háskólans hafa einn mánuð til ráðstöfunar fyrir sérstaka dagskrá sína og munu sviðin m.a. bjóða til sín heimsþekktum öndvegisfyrirlesurum. Heilbrigðisvísindasvið reið á vaðið með dagskrá sína í janúarmánuði og var þá m.a. haldið Heilbrigðisvísindaþing og hádegisfyrirlestrar, auk þess sem stúdentar efndu til dagskrár um forvarnir og starfræktu bangsaspítala fyrir yngstu börnin. Öndvegisfyrirlesarar Heilbrigðisvísindasviðs eru Elizabeth Blackburn, prófessor við UCSF og nóbelsverðlaunahafi í læknavísindum, og Francoise Barré Sinoussi, nóbelsverðlaunahafi í líf og lækanvísindum. Mars var mánuður Hugvísindasviðs og voru m.a. haldin tvö hugvísindaþing, örfyrirlestrar, veffyrirlestrar, textasamkeppni og viðburðir utan skólans. Öndvegisfyrirlesari Hugvísindasviðs verður Noam Chomsky, prófessor í málvísindum við MIT og þjóðfélagsrýnir. Í apríl var röðin komin að Verkfræði og náttúruvísindasviði og efndi sviðið m.a. til opins húss og vísindasýningar, skoðunarferða, verkfræði og tölvunarfræðidags unga fólksins, orkuráðstefnu o.fl. Öndvegisfyrirlesarar Verkfræði og náttúruvísindasviðs eru tveir, David Suzuki, prófessor í líffræði við University of British Columbia,þáttagerðarmaður og náttúruverndarsinni, og Henry Petroski, prófessor í byggingarverkfræði og sagnfræði við Duke háskólann í NorðurKarólínu í Bandaríkjunum. September verður mánuður Menntavísindasviðs og mun þá Linda DarlingHammond, prófessor við Stanford háskóla, School of Education, flytja öndvegisfyrirlestur. Síðast í röðinni verður Félagsvísindasvið sem mun standa fyrir dagskrá í október. Öndvegisfyrirlesari sviðsins verður Robert D. Putnam, prófessor við Harvard háskóla, School of Government.

Á afmælisárinu verður einnig efnt til sérstakra hátíðarfyrirlestra rektors. Markmiðið með þessari fyrirlestraröð er að skapa vettvang til kynningar á framúrskarandi árangri einstaklinga, fyrirtækja og stofnana og starfi sem hefur skilað verðmætum. Fyrsta fyrirlesturinn hélt Kári Stefánsson, stofnandi, forstjóri og yfirmaður rannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu, og bar hann yfirskriftina „Hönnun manns“. Næstur í röðinni var Hilmar B. Janusson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Össurar hf., og hét fyrirlestur hans „Hreyfing mannsins. Frá hreyfihömlun til afreka. Hvernig geta verkfræðilegar lausnir fyrir hreyfihamlaða orðið hreyfingu allra til framdráttar?“.

Í tilefni aldarafmælisins hafa Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands tekið höndum saman um að efna til skipulegra gönguferða. Sex slíkar ferðir hafa þegar farið fram og verður efnt til þeirrar sjöundu 14. maí nk.

Ennfremur efnir Háskóli Íslands til samstarfs við nokkur höfuðsöfn og menningarstofnanir landsins, s.s. Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands. Meðal annars fá allir stúdentar ókeypis aðgang að Þjóðminjasafninu á afmælisárinu.

Í maí gaf Íslandspóstur út sérstakt frímerki í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands.

Á afmælisárinu verður ennfremur boðið upp á sérstaka dagskrá á landsbyggðinni undir merkjum Háskólalestarinnar. Mun lestin ferðast um allt land í sumar með Háskóla unga fólksins, Vísindavefinn og margt fleira innanborðs. Efnt verður til fjölbreyttrar dagskrár í tengslum við rannsóknasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni og samstarfsaðila á hverjum stað. Fyrsti viðkomustaður Háskólalestarinnar var Stykkishólmur og þaðan lá leiðin til Hvolsvallar.

Veglegur styrkur frá Samtökum iðnaðarins
Fyrir skömmu færðu Samtök iðnaðarins Háskóla Íslands 40 m.kr. að gjöf til að styrkja nám og kennslu í verkfræði og raunvísindagreinum.

Háskóladagurinn
Laugardaginn 19. febrúar sl. var haldinn Háskóladagurinn með námskynningu og opnu húsi í fjölmörgum byggingum Háskóla Íslands. Fjöldi væntanlega nemenda og áhugasamur almenningur lagði leið sína á háskólasvæðið og tók stór hópur starfsfólks háskólans þátt í deginum.

Brautskráning kandídata
Brautskráning kandídata fór fram í Háskólabíói 26. febrúar sl. og tóku nær 500 kandídatar við prófskírteinum sínum. Næsta brautskráningarathöfn fer fram í Laugardalshöll 11. júní og er gert ráð fyrir að ríflega 1.800 kandídatar brautskráist við það tækifæri, þar af tæplega 700 framhaldsnemar.

Úthlutun úr Styrktarsjóði Watanabe við Háskóla Íslands.
Miðvikudaginn 6. apríl sl. var í fyrsta sinn úthlutað úr Styrktarsjóði Watanabe við Háksóla Íslands. Sjóðurinn var stofnaður árið 2008 af Toshizo Watanabe, frumkvöðli og stofnanda Nikkenfyrirtækisins. Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til skiptináms í Japan og á Íslandi, bæði til nemenda í grunn og framhaldsnámi, auk þess að stuðla að kennaraskiptum. Þrír styrkir voru veittir og var Watanabe viðstaddur úthlutunina.

Háskólahlaupið
Apríl var að vanda heilsumánuður starfsfólks og stúdenta Háskóla Íslands. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá og fór m.a. fram Háskólahlaupið. Metþátttaka var í hlaupinu og tóku yfir 400 manns þátt í því.

Norrænt ofurtölvuver
Mánudaginn 11. apríl var handsalað samkomulag um rekstur norræns ofurtölvuvers í samstarfi Háskóla Íslands og þriggja annarra norrænna stofnana, Danish Center for Scientific Computing, Swedish National Infrastructure for Computing og UNINETT Sigma í Noregi. Heildarfjárfesting í verkefninu nemur rúmlega einni milljón evra. Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára og munu háskólar og rannsóknastofnanir á Norðurlöndum samnnýta ofurtölvuverið. Þátttaka Íslands í verkefninu felur ótvírætt í sér aukin tækifæri til samstarfs um vísindarannsóknir og nýsköpun og sömuleiðis markaðssetningu Íslands sem ákjósanlegs staðar fyrir orkufreka samhliða tölvuvinnslu.

Endurbætur á friðlandi í Vatnsmýri og endurheimt votlendis
Í apríl var undirritaður samningur milli Háskóla Íslands, Norræna hússins og Reykjavíkurborgar um endurbætur á friðlandinu í Vatnsmýrinni. Leitað hefur verið álits sérfræðinga innan og utan háskólans til þess að tryggja að framkvæmdirnar verði sem jákvæðastar fyrir lífríkið. Markmið með framkvæmdunum er að tryggja Tjarnarfuglum öruggt varpland, gefa vísbendingu um þann gróður sem einkenndi svæðið fyrr á tímum, endurnýja og viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika á svæðinu og gera svæðið að fyrirmynd fyrir endurheimt votlendis. Þá á að auka rannsóknir á svæðinu og miðla þekkingu úr þeim til almennings þannig að Vatnsmýrin verði nokkurs konar opin rannsóknastofa. Með því á jafnframt að auka áhuga og þekkingu almennings á náttúrusvæðum innan og utan borgarinnar.

Heimsókn forseta Slóveníu
Danilo Türk, forseti Slóveníu, heimsótti Háskóla Íslands 4. maí sl. Heimsóknin var liður í tveggja daga opinberri heimsókn Türks til Íslands og átti hann fund með rektorog tók þátt í málstofu á vegum Félagsvísindasviðs þar sem hann ræddi um stöðu Slóveníu í Evrópusambandinu og alþjóðasamfélaginu.

Samstarf opinberu háskólanna
Um nokkurt skeið hefur verið unnið markvisst að eflingu samstarfs opinberu háskólanna. Verkefnið hefur verið leitt af Háskóla Íslands og er fjármagnað sérstaklega af mennta og menningarmálaráðuneytinu með 300 m.kr. framlagi á tveimur árum. Í maíbyrjun undirrituðu háskólarnir samning um sameiginlega stoðþjónustu á völdum sviðum, s.s. upplýsingakerfi Uglu, mati á akademísku hæfi starfsmanna og ráðningar og framgangsmálum.

Aukið samstarf við háskóla í Bandaríkjunum
Samstarf Háskóla Íslands við alþjóðlega háskóla í fremstu röð hefur aukist og styrkst mikið á undanförnum árum. Á háskólinn nú í skipulegu samstarfi við marga slíka háskóla í Evrópu, Kína og NorðurAmeríku. Sem dæmi um aukið samstarf við bandaríska háskóla má nefnda að Standfordháskóli býður tveimur nemendum Háskóla Íslands styrki til að taka þátt í svonefndu Stanford Summer International Honors Program (SSIHP) og Caltech býður 3 afburðanemendum Háskóla Íslands að taka þátt í 10 vikna SURFverkefni. Ennfremur hefur Háskóli Íslands gert samning við UCSB sem felur m.a. í sér að nemendum UC kerfisins (University of California Systems) gefst kostur á að taka þátt í jarðfræðinámskeiðum hér.

GEST – alþjóðlegur jafnréttisskóli við Háskóla Íslands sækir um að fá stöðu Háskóla Sameinuðu þjóðanna
GESTalþjóðlegur jafnréttisskóli við Háskóla Íslands, sem er starfræktur innan Hugvísindasviðs og í samvinnu við utanríkisráðuneytið, hefur sótt um að fá stöðu Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Hér á landi eru nú þegar starfræktir Jarðhitaskóli og Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna og eru þeir hluti af framlagi Íslands til þróunarsamvinnu.

Samstarf við kínverska háskóla
Fyrir skömmu heimsótti Háskóla Íslands sendinefnd frá Beijing Communication University í Kína. Í hópnum var m.a. heiðursrektor skólans, en skólinn útskrifar flesta þá sem starfa við kínverska fjölmiðla og fréttaskýringar.

Nytjaþýðingar og ráðstefnutúlkun
Stóraukin eftirspurn er eftir fólki sem getur túlkað á milli íslensku og annarra tungumál og mun þörfin enn aukast í tengslum við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Til að mæta þessari þörf hefur utanríkisráðuneytið gert samkomulag við Hugvísindasvið Háskóla Íslands um að annast menntun Íslendinga í túlkunarfræðum og þýðingarfræðum.

Rektor Háskóla Íslands kjörin í stjórn Samtaka evrópskra háskóla
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, var fyrir skömmu kjörin í stjórn Samtaka evrópskra háskóla (European University Association, EUA). Yfir 850 háskólar í 46 löndum eru í samtökunum sem starfa að stefnumótun í háskólamálum og vísindum innan Evrópu. Stjórnin er skipuð 9 mönnum.

Úthlutun doktorsstyrkja úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands
Stjórn Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands hefur í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands ákveðið að úthluta að nýju styrkjum til doktorsnema, en ekki hefur verið úthlutað úr sjóðnum eftir bankahrunið árið 2008. Að þessu sinni munu 15 doktorsnemar hljóta styrki, en að auki er gert ráð fyrir að 12 doktorsnámsstyrkjum verði úthlutað síðar á árinu.

Kl. 13.20–14.00 - Dagskrárliður 2: Aðgerðaáætlun vegna Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016
Rektor gerði grein fyrir málinu. Skýrði rektor frá því að ný stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2011-2016 hefði verið samþykkt á háskólaþingi 7. desember sl. og í háskólaráði 17. desember sl. Á undan hafði farið ítarlegur undirbúningur. Skipaður var heildarstefnuhópur vorið 2010 til að gera fyrstu drög að nýrri stefnu, en í hópnum átti sæti starfsfólk frá öllum fræðasviðum og miðlægri stjórnsýslu, stúdentum og aðilum sem starfa utan Háskóla Íslands. Hópurinn starfaði fram eftir hausti og hafði náið samráð við forseta fræðasviða, fræðasviðin og ýmsa ráðgjafahópa, s.s. erlenda kennara, unga kennara, utanaðkomandi fulltrúa o.fl. Við stefnumótunina var jafnframt höfð hliðsjón af niðurstöðum ytri úttekta á deildum, ábendingum í Rannsóknaskýrslu Alþingis, árangri fyrri stefnu, ábendingum um áherslur frá fræðasviðum háskólans og sjónarmiðum sem fram komu í heimsóknum rektors í allar deildir sl. vor, svo nokkuð
sé nefnt.

Leiðarljós stefnumótunarvinnunnar var tvíþætt, þ.e. annars vegar það hlutverk Háskóla Íslands að vera burðarás í uppbyggingu samfélagsins og að fást við ögrandi viðfangsefni 21. aldar, hins vegar að byggja á þeim árangri sem skólinn hefur náð undanfarin 5 ár þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður. Það var niðurstaða stefnumótunarinnar að hvika ekki frá því langtímamarkmiði Háskóla Íslands að komast í röð fremstu háskóla á alþjóðavísu. Íslenskt samfélag þyrfti á því að halda að háskólinn sýndi festu og stefndi hátt.

Sagði rektor það vissulega vera staðreynd að það sem áður virtist vörðuð leið væri nú torsóttara vegna efnahagskreppunnar. Engu að síður væri markmiðið það sama og áður. Háskóli Íslands væri á leið að sama ákvörðunarstað, þótt feta þyrfti nýjar slóðir og ferðalagið tæki lengri tíma. Vandasamt væri að gera aðgerðaáætlun til að fylgja nýrri stefnu eftir við núverandi kringumstæður þegar ekki er vitað hvaða fjármunir verða til ráðstöfunar á næstu árum. Háskólinn væri þó vongóður um að í fjárlögum ársins 2012 yrði ekki mikill frekari niðurskurður framlaga til Háskóla Íslands, þótt það lægi enn ekki fyrir. Mikilvægt væri að sannfæra stjórnvöld um að stuðningur við stefnu skólans skilaði samfélaginu raunverulegum verðmætum þegar til framtíðar er litið. Þetta skildu dönsk stjórnvöld vel því þau hafa markað þá skýru stefnu í háskólamálum að fyrir árið 2020 verði danskur háskóli meðal 10 bestu háskóla í heimi. Þessu væri fylgt eftir með fjárhagslegum stuðningi og allt kapp lagt á að ná árangri.

Stefnumörkun Háskóla Íslands til næstu fimm ára væri í senn vegvísir skólans og áskorun til stjórnvalda um uppbyggingu háskólastarfs í fremstu röð. Hin nýja stefna Háskóla Íslands væri metnaðarfull og miðaði að því að gera eins vel og hægt er og að skila raunverulegri verðmætasköpun.

Því næst fór rektor yfir hina nýju stefnu og áætlun um framkvæmd hennar.

Stefna Háskóla Íslands 2011-2016

Stefnan skiptist í fjóra meginkafla:

  • Rannsóknir og nýsköpun
  • Nám og kennsla
  • Mannauður
  • Ábyrgð gagnvart samfélaginu og umheiminum

Meginkaflarnir skiptast í undirkafla
Í hverjum undirkafla eru sett fram markmið og aðgerðir - alls 86
Í lok hvers meginkafla eru settir fram lykilmælikvarðar - alls 41

Aðgerðaáætlun – aðferðafræði
Vinna við gerð ítarlegrar aðgerðaáætlunar stendur yfir – uppbygging:
1. Markmið/aðgerð – úr stefnuskjalinu
2. Árangursmælikvarðar – lykilmælikvarðar úr stefnuskjali, að viðbættum fleiri
mælikvörðum eftir því sem við á
3. Tímaáætlun/verklok – áfangar og endanleg verklok
4. Ábyrgð – tilgreindir eru þeir sem (a) hafa frumkvæði (b) bera ábyrgð á
framkvæmd/vinna verkið og (c) afla og miðla nauðsynlegum upplýsingum
5. Staða og útfærsla – skýring á stöðu máls hverju sinni og nánari útfærsla á
því hvernig markmiði verður náð

Dæmi 1 úr kafla um rannsóknir og nýsköpun
Markmið/aðgerð:
Samstarf við fremstu háskóla og háskóladeildir heims verði eflt með skipulegum hætti, m.a. með nemenda og kennaraskiptum, akademískum gestastörfum, leiðbeiningu doktorsnema og stuðningi við sameiginleg rannsóknaverkefni

Árangursmælikvarðar:

  • Fjöldi samninga og virkni samstarfs við fremstu háskóla og háskóladeildir
  • Fjöldi nemenda frá HÍ sem fer í framhaldsnám til fremstu erlendu háskóla og háskóladeilda
  • Fjöldi erlendra doktorsnema

Dæmi 2 úr kafla um rannsóknir og nýsköpun
Markmið/aðgerð:
Virkni doktorsnema í námi verði tryggð með því að styrkja umgjörð þess, bæta aðstöðu til námsins og skýra ábyrgð leiðbeinenda. Við upphaf doktorsnáms verði gerð krafa um raunhæfa áætlun um fjármögnun og framvindu. Fylgst verði reglulega með virkni og árangri doktorsnema, m.a. með árlegum framvinduskýrslum

Árangursmælikvarðar:
Brautskráningarhlutfall doktorsnema

  • Hlutfall doktorsnema sem eru með trygga fjármögnun náms síns (styrkir, laun, lán)
  • Hlutfall doktorsnema sem skila árlegri framvinduskýrslu

Tímaáætlun/verklok:

Sett verða fyrir mitt ár 2012 áfangamarkmið fyrir framangreinda
árangursmælikvarða og staðan síðan tekin árlega

Dæmi 1 úr kafla um nám og kennslu
Markmið/aðgerð:
Fræðasvið og deildir Háskóla Íslands marki sér skýra kennslustefnu sem kveði m.a. á um samþættingu rannsókna og kennslu á öllum námsstigum. Í stefnu fræðasviða og deilda um kennslu, kennsluhætti og námsmat komi fram skýr fagleg sýn, markmið um gæði kennslu og náms og til hvaða mælikvarða verði horft við framkvæmd stefnunnar

Árangursmælikvarði:
Fjöldi fræðasviða og deilda sem hefur markað stefnu og faglega sýn fyrir mitt ár 2012

Tímaáætlun/verklok:
Sameiginlegur rammi fyrir stefnu/faglega sýn deilda liggi fyrir í árslok 2011 og
stefna/fagleg sýn liggi fyrir vorið 2012. Árlegu yfirliti um framkvæmd
stefnunnar verði skilað frá og með kennsluárinu 2012-2013

Fagleg stefna deilda er tæki til að þróa og efla gæði náms og kennslu og nýtist sem grunnur í tengslum við úttektir gæðaráðs háskóla

Dæmi 2 úr kafla um nám og kennslu
Markmið/aðgerð:
Háskóli Íslands endurskoði stefnu sína um inntöku nýnema. Inntökukröfur verði endurskilgreindar og markvisst unnið að því að auka námsástundun, bæta námsframvindu og draga úr brottfalli. Endurkomuhlutfall (e. retention rate) nemenda á öðru námsári og fimm ára brautskráningarhlutfall (e. graduation rate) verði aukið um 5% á ári á tímabilinu 2011-2016.

Árangursmælikvarðar:

  • Endurkomuhlutfall
  • Brautskráningarhlutfall

Tímaáætlun/verklok:
Starfshópur skilar tillögum um stefnu um inntöku nýnema fyrir árslok 2011. Sett verða fyrir mitt ár 2012 áfangamarkmið fyrir framangreinda árangursmælikvarða og staðan síðan tekin árlega

Dæmi úr kafla um mannauð
Markmið/aðgerð:
Vandað ráðningarferli og skipuleg nýliðun starfsfólks er undirstaða mannauðsstefnu háskólans. Gerðar eru miklar kröfur um hæfni við ráðningu og framgang á milli starfsheita. Háskólinn vill laða til sín starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn. Í því skyni verði m.a. leitast við að auglýsa akademísk störf á alþjóðlegum vettvangi

Árangursmælikvarðar:

  • Hlutfall starfsauglýsinga sem birtast á alþjóðlegum vettvangi
  • Hlutfall akademískra starfsmanna með doktorspróf
  • Hlutfall erlendra akademískra starfsmanna
  • Meðalaldur nýráðinna akademískra starfsmanna

Tímaáætlun/verklok:
Gerð verður áætlun um nýliðun starfsmanna (e. recruitment policy) fyrir mitt ár 2012 þar sem m.a. verða sett töluleg markmið fyrir árangursmælikvarðana. Staðan síðan tekin árlega

Dæmi úr kafla um ábyrgð gagnvart samfélaginu og umheiminum
Markmið/aðgerð:
Háskólinn mun setja sér metnaðarfulla umhverfisstefnu og vill auka skilning og þekkingu fólks á sjálfbærni jafnt innan skólans sem utan

Árangursmælikvarði:
Árangursmælikvarðar verða settir í nýrri umhverfis og sjálfbærnistefnu

Tímaáætlun/verklok:
Umhverfis og sjálfbærnistefna, með tímasettum árangursmælikvörðum, liggi fyrir í nóvember 2011

Fagleg stefna fræðasviða og deilda

  • Heildarstefna HÍ gildir fyrir öll fræðasvið og deildir
  • Ekki gert ráð fyrir að fræðasvið eða deildir endurtaki heildarstefnu HÍ
  • Deildir og fræðasvið móti sér faglega sýn og stefnu um áherslur og forgangsröðun á sviði kennslu og rannsókna:

Hvar stendur deildin nú?
Hvert stefnir deildin í framtíðinni?
Hvernig nær deildin settu marki?
Hvernig veit deildin hvar hún er stödd á þessari vegferð (upplýsingar, viðmið og mælikvarðar)?
Hvernig tengist fagleg stefna deilda og fræðasviða heildarstefnu HÍ?

  • Stefnumótun deilda er einnig nauðsynleg í tengslum við sjálfsmat vegna gæðaúttekta á næstu árum

Dæmi um verkefni sem eru unnin miðlægt og á vettvangi fræðasviða og deilda

  • Efling samstarfs við fremstu háskóla og háskóladeildir
  • Aukið samstarf við innlendar rannsóknastofnanir, háskóla, fyrirtæki og menningarstofnanir
  • Aukin sókn í innlenda og erlenda samkeppnissjóði
  • Efling stoðþjónustu við styrkumsóknir og hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna
  • Starfsemi rannsóknasetra HÍ á landsbyggðinni verði efld og tengd nánar við fræðasvið og deildir
  • Fjölgun gæðabirtinga
  • Fjölgun brautskráðra doktora
  • HÍ verði áfram í forystuhluverki í rannsóknum á íslenskri menningu og þjóðfélagi
  • Samræming fjölda námseininga (ECTS) og vinnuálags nemenda
  • HÍ móti sér stefnu um opinn aðgang (e. open access)
  • Aukið þverfræðilegt samstarf innan Háskóla Íslands
  • Bætt móttaka nýrra starfsmanna og nemenda – stuðningur við nýja kennara

Fjármál

  • Stefnan er sett á erfiðum tímum – mikilvægt að nýta öll sóknarfæri og leita nýrra leiða
  • Háskóli Íslands beiti sér fyrir því að árangurstengdur samningur við stjórnvöldum fjármögnun stefnu skólans, sem frestað var í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008, verði virkjaður á nýjan leik á aldarafmæli Háskóla Íslands
  • Sum markmið fela ekki í sér fjárútlát, önnur eru kostnaðarsöm – forgangsröðun
  • Vinnuálag
  • Leitað verður leiða til að umbuna þeim sem taka að sér umfangsmikla vinnu við framkvæmd stefnunnar – starfshópur að meta stjórnunarþáttinn í akademískum störfum

Rektor gaf orðið laust.

Forseti Líf- og umhverfisvísindadeildar hóf umræðuna með því að varpa fram þeirri spurningu, hvað unnt væri að gera til að sannfæra stjórnvöld um mikilvægi þess að styðja við Háskóla Íslands og hvað starfsfólk skólans geti gert til að vinna málinu lið.

Rektor sagði að eftir að síðasta fimm ára stefna Háskóla Íslands hefði verið samþykkt hefði verið sett fram skýr áætlun um að koma skólanum í fremstu röð og áætlunin lögð fram fyrir stjórnvöld. Tekist hefði að sannfæra stjórnvöld um trúverðugleika stefnunnar og staðfesti árangur háskólans að það traust hefði verið verðskuldað. Afar mikilvægt væri fyrir íslenskt samfélag að láta ekki þennan mikla árangur glutrast niður.

Forseti Matvæla og næringarfræðideildar spurði, hvort eitthvað væri að gerast varðandi sameiningar háskóla og endurskipulagningu íslenska háskólakerfisins.

Forseti Félagsvísindasviðs sagði mikilvægt að halda áfram að ræða með skipulegum hætti um nauðsyn heildarendurskipulagningar íslenska háskólakerfisins. Þegar öllu væri á botninn hvolft skipti mestu máli í því sambandi hvort ríkisvaldið ætli að halda áfram að fjármagna tvo stóra háskóla eða hvort sameina ætti Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Einnig væri mikilvægt að vekja athygli á því að framlög til háskólastigsins á Íslandi eru mun lægri en hjá öðrum OECDríkjum, á meðan önnur skólastig eru mun betur fjármögnuð hlutfallslega.

Forseti Jarðvísindadeildar gerði að umtalsefni vinnuálag og vinnuaðstöðu við Háskóla Íslands og taldi að samfara niðurskurði fjárveitinga og fjölgunar nemenda hefði álagið aukist og aðstaðan versnað. Unnt væri að halda slíkt álag út í einhvern tíma, en gæta verði þess að það verði ekki eins og langvinnur sjúkdómur í æsku sem lifir áfram um langa hríð. Um aukna kennsluskyldu í kjölfar kreppunnar sagði deildarforsetinn að hún vegi að öllum vísindamarkmiðum háskólans. Hvatti hann háskólafólk til að taka höndum saman með greinaskrifum og öðrum aðgerðum til að vekja athygli á því hvert stefndi í málefnum háskólans ef þessi þróun héldi áfram á næstu árum. Slíkt myndi hafa skaðleg áhrif á rannsóknir og gæði Háskóla Íslands um ára og jafnvel áratugaskeið. Þá væru launakjör slík að mjög erfitt væri að laða erlenda vísindamenn til Háskóla Íslands og hætta á því að bestu vísindamenn skólans leituðu til annarra
landa.

Forseti Hjúkrunarfræðideildar sagði nýju stefnuna vera rökrétt framhald þeirrar fyrri og í öllum aðalatriðum samhljóða ákvæðum samnings um fjármögnun hennar sem Háskóli Íslands og mennta og menningarmálaráðuneytið gerðu í ársbyrjun 2007. Ekki ætti að þurfa mjög fullkomna aðgerðaáætlun til að sannfæra stjórnvöld um réttmæti nýs samnings því háskólinn hefði staðið við þann fyrri að öllu leyti. Mikilvægt væri að hefja sem fyrst og af fullum krafti viðræður um nýjan samning. Þá sagði deildarforsetinn það vera tvíbent hversu starfsmenn Háskóla Íslands hefðu lagt hart að sér og náð miklum árangri, því það gæti látið fólk utan háskólans halda að innan hans væri allt með besta móti og góður gangur í öllu þrátt fyrir mikinn niðurskurð.

Fulltrúi Félags prófessora ræddi launakjör og starfsaðstöðu starfsmanna sem hann sagði fara stöðugt versnandi. Einnig taldi hann skorta fullnægjandi nærþjónustu við kennara á vettvangi deilda og fræðasviða. Nefndi hann til dæmis að í Líf- og umhverfisvísindadeild væri ekki starfandi tækjavörður sem byði heim óþarfa hættu. Þá sagði fulltrúinn að búast mætti við frekari niðurskurði opinberra fjárframlaga til háskólans á næsta ári og ákveða þyrfti hvernig ætti að bregðast við því, t.d. með því að draga saman námsframboðið. Háskólinn yrði að sníða sér stakk eftir vexti og ekki að reyna að gera allt. Nemendur í greinum sem ekki yrðu kenndar hér myndu þá einfaldlega þurfa að fara til útlanda.

Rektor þakkaði fyrir umræðuna og sagði mikilvægt að leita allra leiða til að draga úr áhrifum kreppunnar á fjárhag Háskóla Íslands. Sú barátta hefði þegar borið nokkurn árangur því háskólinn hefði orðið fyrir minni niðurskurði en ýmsar aðrar menntastofnanir. Engu að síður þyrfti að halda áfram að verja hagsmuni háskólans, t.d. með því að halda á lofti upplýsingum frá OECD um lág framlög hins opinbera til háskóla á Íslandi í samanburði við önnur aðildarlönd, halda uppi kröfu um hækkun skrásetningargjalds, vinna tölfræðilegar upplýsingar um samanburð á lykiltölum úr rekstri Háskóla Íslands og háskóla í öðrum löndum, svo nokkuð sé nefnt. Varðandi mögulegar sameiningar íslenskra háskólastofnana sagði rektor það vera rétt að eina sameiningin sem myndi skila raunverulegum sparnaði væri sameining háskólanna sitt hvorum megin við Reykjavíkurflugvöll, en ósk Háskóla Íslands um viðræður þar aðlútandi hefði hingað til verið hafnað. Í Danmörku hefðu þessir hlutir gengið mun greiðlegar og háskólar verið sameinaðir og endurskipulagðir vegna ákvörðunar stjórnvalda. Að lokum hvatti rektor fulltrúa á háskólaþingi til að senda sér tillögur um hvaðeina sem væri til þess fallið að styrkja og efla Háskóla Íslands.
 
Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Sigurður Sveinn Snorrason, Inga Þórsdóttir, Ólafur Þ. Harðarson, Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Kristjánsdóttir og Gísli Már Gíslason.

Kl. 14.00–14.50  - Dagskrárliður 3: Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Umhverfismál og sjálfbærnistefna.
Fluttar voru þrjár stuttar kynningar. Fyrst tók til máls Sigurlaug I. Lövdal, skrifstofustjóri rekstrar og framkvæmdasviðs, og fór hún yfir stöðu umhverfismála við Háskóla Íslands. Lýsti Sigurlaug ánægju með að í nýrri Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 væru sett metnaðarfull markmið á sviði umhverfismála og sjálfbærni.

Umhverfismál og sjálfbærnistefna Háskóla Íslands „Háskólinn mun setja sér metnaðarfulla umhverfisstefnu og vill auka skilning og þekkingu fólks á sjálfbærni jafnt innan skólans sem utan“ (Stefna Háskóla Íslands 2011-2016)

Vitundarvakning um sorphirðumál í Háskóla Íslands
Háskóli Íslands hefur lengi safnað:

  • gæðapappa og bylgjupappa
  • skilagjaldsskyldum umbúðum, flöskum og dósum
  • alls konar efnum frá rannsóknastofum, rafhlöðum og spilliefnum
  • ljósaperum hefur verið safnað í nokkur ár

2009 fóru hjólin að snúast hraðar

  • Undir lok árs 2010 var tekin ákvörðun um að setja upp flokkunarstöðvar í öllum byggingum bæði til að auka flokkunina og gera þá flokkun sem var fyrir auðveldari og markvissari
  • Flokkunarstöðvar eru nú 80 talsins alls og enn er verið að bæta við
  • Á stöðvarnar er farið með skilagjaldskyldar umbúðir, tómar umbúðir úr pappa og plasti (t.d. skyr og jógúrtsdósir og önnur sambærileg ílát, einnig frauðplast og plastbrúsa), blöð og tímarit og almennt sorp
  • Einnig var ákveðið að auka söfnun á lífrænum úrgangi
  • Ruslafötur fjarlægðar úr almenningsrýmum, kennslustofum, lesrýmum og tölvuverum og hver og einn er gerður ábyrgur fyrir því að koma ruslinu sínu á næstu flokkunarstöð

Flokkunarstöðvar og val á þeim

  • Í samvinnu við nemendur á Verkfræði og náttúruvísindasviði var ákveðið að hafa flokkunarstöðvarnar og merkingar þeirra áberandi og litríkar svo eftir þeim yrði tekið
  • Verðlaunaframleiðsla frá Írlandi (ecodepo) valin og flutt inn til landsins í samvinnu við Gámaþjónustuna hf.

Söfnun lífræns úrgangs

  • Lífræn söfnun hófst frá stærstu matsölum í HÍ í lok árs 2009 (Hámu og Bauninni) í samvinnu við rekstraraðila
  • Hin lífræna söfnun þarf aðra útfærslu íláta (blautt og þungt)
  • Merkingarnar eru í sama stíl og á flokkunarstöðvunum

Hvernig gengur?

  • Verkefninu hefur verið afar vel tekið á öllum fræðasviðum og af stúdentaráði og FS og stuðningur allra og áhugi er ómetanlegur
  • Flokkun krefst mikils eftirlits og eftirfylgni, ekki síst í byrjun skólaárs eða þegar fjölmennir viðburðir eru, s.s. Háskóladagurinn og Háskóli unga fólksins
  • Verkefni sem þetta þarf sterka bakhjarla. Skilning og samþykki æðstu stjórnenda skólans sem ganga á undan og sýna fordæmi
  • Verkefni allra og hluti af lífsstíl háskólaborgara við Háskóla Íslands
  • Segja frá því sem vel er gert. Skapa jákvæða ímynd

Markmið

  • Að Háskóli Íslands sýni ábyrgð gagnvart umhverfinu í verki
  • Liður í að HÍ verði smám saman „grænn“ eins og háskólar um heim allan eru nú að keppa að

Næst tók til máls Hrund Ólöf Andradóttir, dósent í Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, og greindi frá stöðu mála varðandi umhverfismál innan Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.

Rýni nemenda í umhverfisverkfræði Vor 2009
Markmið: Kynna sér umhverfisstefnu Háskóla Íslands og fyrirtækja
Helstu niðurstöður fyrir Háskóla Íslands:

  • Góð skref hafa verið tekin í úrgangsstjórnun og orkusparnaði
  • En umhverfisstefnan er ekki nægilega sýnileg og þátttaka fólks ekki nóg

Aðgerðir Verkfræði og náttúruvísindasviðs síðustu 3 ár
2009: Umhverfisnefnd skipuð
2010: Umhverfisstefna samþykkt

  • Markmið
  • Aðgerðir
  • Mælikvarðar

2011: Skráðir þátttakendur í verkefninu „Skólar á grænni grein“

Málaflokkar umhverfisstefnu Verkfræði og náttúruvísindasviðs

  • Flokkun & endurvinnsla
  • Pappírslaus starfsemi
  • Samgöngur

Hjólað í skólann

  • Hugmynd nemenda
  • Fyrsta keppnin haldin haustið 2011 innan Háskóla Íslands – 13 lið tóku þátt, flest frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði
  • Íþrótta og ólympíusamband Íslands hefur lýst yfir áhuga sínum á að halda
  • slíka keppni milli skóla

Málaflokkar umhverfisstefnu Verkfræði og náttúruvísindasviðs

  • Umhverfisrannsóknir
  • Umhverfisvæn kennsla
  • Orku og auðlindanýting
  • Byggt umhverfi
  • Vistvæn innkaup
  • Flokkun & endurvinnsla
  • Pappírslaus starfsemi
  • Samgöngur

Næsta verkefni: Grænfáninn
Skrefin 7:
1. Stofna umhverfisnefnd
2. Stöðumat
3. Markmið og aðgerðir
4. Eftirlit og endurmat  könnun
5. Námsefni og verkefni taki tillit til umhverfismála og sjálfbærrar þróunar  könnun
6. Upplýsa út á við
7. Umhverfissáttmáli í samvinnu við hagsmuna og framkvæmdaaðila

Könnun í apríl 2011

  • Send öllum nemendum, kennurum og starfsmönnum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs
  • 395 svör (20% svartíðni)

Niðurstöður könnunar 2011
Dæmi um verkefni

  • Smartbíll
  • Raf og vetnissamgöngur
  • Metan vinnsla úr skólpi og landbúnaði
  • Notkun þörunga til framleiðslu á verðmætum efnum
  • Áhrif nýtingar mannsins á gróður og jarðveg
  • Grænkortagerð fyrir Reykjavík
  • Sjálfbær ferðaiðnaður
  • Tillaga að umhverfisstefnu fyrir Marel
  • Kannanir um umhverfisvitund innan Háskóla Íslands
  • Samfélagsverkefni

Hugmyndir úr könnuninni

  • Verðlaun fyrir bestu umhverfisverkefni frá nemendum og kennurum
  • Fígúra / lukkudýr fyrir umhverfisstefnu
  • Efla fjölnotkunarstefnu og stöðugt innprenta í nýnema „kúlið“ við endurvinnslu
  • Bæta viðhorf til umhverfismála og koma umræðunni í jákvæðari farveg
  • Fleiri / skyldukúrsar um umhverfismál

Að lokum

  • Hvernig virkjum við fjöldann?

Þriðji og síðasti framsögumaður var Allyson Macdonald, formaður starfshóps um mótun nýrrar umhverfis og sjálfbærnistefnu fyrir Háskóla Íslands.

Undirbúningur nýrrar umhverfis og sjálfbærnistefnu fyrir Háskóla Íslands
Fulltrúar í starfshópnum:

  • Allyson Macdonald
  • Karl Benediktsson
  • Kristín Þóra Jökulsdóttir
  • Ólafur Páll Jónsson
  • Sigurlaug I. Lövdahl

Yfirlit
Vinnulag
– Söfnun upplýsinga
– Greining og mat
– Tillögur
Skilgreiningar og sýn
Dæmi

Vinnulag – söfnun upplýsinga
Undirbúningsfundir – farið yfir stöðuna
Hópviðtöl – a.m.k. 10 hópar og nokkrir einstaklingar
Tilgangur er að fá fram upplýsingar og meta
– það sem er nú þegar gert
– það sem er í bígerð
– áherslur í mismunandi einingum
– aðgerðir sem hægt er að fara í innan skamms
– aðgerðir sem eru flóknari og þarfnast meiri undirbúnings
Skjöl

Vinnulag – greining, mat og tillögur
Drög að stefnu unnin
– Greining á stöðu – Innra umhverfi – hvar erum við, hvert stefnum við
– Ytra umhverfi – hvar erum við, hvert stefnum við
– Mat
– Áherslur, grunngildi og ábyrgð
– Aðgerðir
– Markmið og leiðir
– Sjálfbærnivísar
– Eftirfylgd og aðgerðaáætlun
Kynning á drögunum og athugasemdir

Sýn á sjálfbærni

  • Náttúra
  • Efnahagur
  • Samfélag

Mál allra!

  • Kennarar, nemendur, annað starfsfólk
  • Rektorsskrifstofa
  • Félagsvísindasvið
  • Heilbrigðisvísindasvið
  • Hugvísindasvið
  • Menntavísindasvið
  • Verkfræði og náttúruvísindasvið
  • Fjármálasvið
  • Framkvæmda og tæknisvið
  • Kennslusvið
  • Markaðs og samskiptasvið
  • Starfsmannasvið
  • Vísindasvið
  • Rannsóknastofnanir
  • Þjónustustofnanir

Drög að sjálfbærnistefnu fyrir Háskóla Íslands verða kynnt á næsta háskólaþingi í nóvember 2011

Rektor þakkaði þeim Sigurlaugu, Hrund og Allyson fyrir framsögurnar og gaf orðið laust.

Deildarforseti Kennaradeildar þakkaði fyrir kynningarnar og lýsti ánægju sinni með að þessi mikilvægi málaflokkur væri tekinn svo föstum tökum. Vék forsetinn sérstaklega að kynningu og fræðslu um umhverfis og sjálfbærnimál og varpaði fram þeirri spurningu, hvort unnt væri að útbúa leiðarvísi fyrir deildarforseta og aðra stjórnendur um það hvernig þeir geti beitt sér fyrir kynningu á málaflokknum? Einnig vakti deildarforsetinn máls á því að umhverfis og sjálfbærnimál væru tilvalið efni fyrir t.d. þverfræðilegt sumarnám.

Fulltrúi stúdenta tók undir með deildarforseta Kennaradeildar og sagði það einnig geta verið gagnlegt að formenn nemendafélaga deilda verði virkjaðir í þágu umhverfisfræðslu og átaks.

Fulltrúi Menntavísindasviðs tók undir þá skoðun að mikilvægt væri að virkja nemendur og benti í því sambandi á að í aðalnámsskrá grunn og framhaldsskóla væri kveðið á um menntun til sjálfbærni.

Rektor þakkaði fyrir umræðuna og sagði að stefnt væri að því að haustið 2011 myndu liggja fyrir drög að umhverfis og sjálfbærnistefnu sem yrðu tekin fyrir á háskólaþingi í nóvember.

Til máls tóku undir þessum lið, auk framsögumanna og rektors, Anna Kristín Sigurðardóttir og Jakob Ómarsson.

Kl. 14.50-15.10 - Fundarhlé

Kl. 15.10–16.00 - Dagskrárliður 4: Stefna Háskóla Íslands 20112016: Mögulegar aðgangstakmarkanir við Háskóla Íslands.

Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu og formaður starfshóps háskólaráðs um mögulegar aðgangstakmarkanir við Háskóla Íslands, kynnti málið.

Starfshópurinn

  • Jón Atli Benediktsson, formaður
  • Ásta Bjarnadóttir, forstöðumaður innlendra háskólasamskipta
  • Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri
  • Róbert Haraldsson, formaður kennslumálanefndar
  • Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, stúdent

Verkefni starfshóps háskólaráðs

Bókun háskólaráðs 17. des. 2010:
„Aðgangstakmarkanir: Unnin verði áætlun um hvernig staðið skuli að aðgangstakmörkunum í Háskóla Íslands sem unnt verði að hrinda í framkvæmd ef ljóst þykir að fjöldi nemenda sæki um nám umfram hámarksfjölda nemendaígilda sem greitt er fyrir.“

Hvers vegna er þetta til skoðunar nú?
Þrjár ástæður fyrir fjöldatakmörkunum í grunnnámi við Háskóla Íslands:
– Tryggja að fjöldi nemenda við Háskóla Íslands verði í samræmi við þann
fjölda sem skólinn fær kennslufjárveitingu fyrir
– Draga úr brottfalli og bæta námsframvindu
– Gera Háskóla Íslands kleift að bæta móttöku nýnema og auka þjónustu við
nemendur almennt og þannig auka gæði námsins
Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2011 fær Háskóli Íslands kennslufjárveitingu fyrir 8.645 nemendaígildi. Núverandi fjöldi nemendaígilda er hins vegar áætlaður 9.515 og eru því 870 nemendaígildi án kennslufjárveitingar.

Yfirlit
I. Núverandi staða í HÍ
II. Inntaka nýnema á Norðurlöndum
III. Takmarkanir á fjölda nemenda við Háskóla íslands
Inntökupróf
Aukin krafa um virkni nemenda

Meginregla og frávik
Meginregla um inntöku nýnema við Háskóla Íslands: Stúdentar sem hefja grunnnám í Háskóla Íslands skulu hafa lokið stúdentsprófi, eða öðru sambærilegu prófi frá erlendum háskóla
Frávik: Jafnframt veita lög og reglur háskólunum heimild til að víkja frá meginreglunni með þrennum hætti
– Undanþága (jafngildur þroski og þekking að mati viðkomandi háskóla)
– Frekari skilyrði um undirbúning (t.d. inntak stúdentsprófs, inntöku eða stöðupróf)
– Fjöldatakmarkanir (þar sem eru ekki fyrir hendi skilyrði eða aðstæður til inntöku allra umsækjenda)

Úr lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008
„Reglur um takmörkun á fjölda nemenda sem teknir eru inn á einstakar námsleiðir skulu settar fyrir fram fyrir hvert háskólaár. Í slíkum reglum skal taka mið af skilyrðum háskóla til þess að veita kennslu á viðkomandi námsleið. Í reglum háskólaráðs er heimilt að takmarka fjölda nemenda inn á einstakar námsleiðir enda séu þá ekki fyrir hendi skilyrði til inntöku allra umsækjenda.“

Sbr. einnig reglur fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 (47. gr.)

Takmörkun inntöku við Háskóla Íslands
Þrjár aðferðir hafa verið viðhafðar:
1) Inntökupróf
– Læknisfræði og sjúkraþjálfun
2) Samkeppnispróf í lok fyrsta misseris í desember
– Tannlæknisfræði, hjúkrunarfræði, geislafræði, lífeindafræði, næringarfræði
3) Inntökunefnd falið að fjalla um umsóknir í einstakar greinar á meistarastigi
– Sálfræði, blaða og fréttamennska, náms og starfsráðgjöf, félagsráðgjöf til starfsréttinda og kennsluréttindi

Norðurlöndin: Almennar ályktanir
1. Almenna krafan er stúdentspróf
a) Undanþágur skilgreindar
b) Viðbótarkröfur um fjölda eininga í tilteknum námsgreinum
c) Aðrir þættir svo sem starfsreynsla og annað nám metið
d) Einhvers konar samræmd próf (Danmörk, Finnland) eða miðlæg, stöðluð hæfnispróf (SweSAT í Svíþjóð)
e) Aldur stúdentsprófs getur skipt máli
2. Miðlæg umsýsla með umsóknum
a) Miðlæg skrifstofa: KOT í Danmörku, SO í Noregi, VHS í Svíþjóð
b) Rafrænar umsóknir
c) Nemendur raða nokkrum námsleiðum í forgangsröð
d) Nemendur fá tilboð um námsæti frá háskóla
e) Fái nemandi hvergi inni fær hann bréf frá miðlægri skrifstofu ásamt upplýsingum um laus sæti og möguleika á að skrá sig á biðlista
f) Nemendur geta kært niðurstöðu umsóknarferlis til viðkomandi háskóla eða
kærunefndar
3. Kvótar eru fyrir fjölda inntekinna nemenda á hinum ýmsu námsleiðum í háskólum
(almennt notaðir)
a) Reiknireglur notaðar til að forgangsraða umsóknum (einkunn á stúdentsprófi vegur
þyngst)
b) Boðið er upp á mismunandi kvóta, auk hinna almennu samkeppniskvóta
i. Kvótar fyrir þá sem ekki eru með stúdentspróf
ii. Staðbundnir kvótar (umsóknir frá tilteknum landshlutum)
iii. Kvótar fyrir nám á ensku
4. Háskólarnir hafa mikið sjálfræði um inntökukröfur, inntökuaðferðir og fjölda
námssæta í einstökum námsgreinum „Í námsleiðum þar sem ekki eru aðgangstakmarkanir ákvarðar háskólinn fjölda námsæta með hliðsjón af getu hans til að veita með ábyrgum hætti kennslu á grundvelli rannsókna, með hæfum kennurum og fullnægjandi húsnæðisaðstöðu. Háskóli skal ennfremur taka mið af því að fjöldi inntekinna nemenda sé í samræmi við menntunarþarfir samfélagsins á viðkomandi fagsviði.“ (Danmörk, 13. gr. 2. hluti)

5. Möguleikar nemenda til að breyta námsvali eftir að nám er hafið eru takmarkaðir og kosta fyrirhöfn
a) Almennt gildir að ef nemandi hyggst skipta um námsgrein þarf hann að sækja um á nýjan leik og fara gegnum hefðbundið umsóknaferli
b) Í sumum tilvikum, þar sem um sambærilegt nám er að ræða, getur nemandi sótt um endurinnritun og fengið einingar metnar á milli námsleiða
c) Nemendur þurfa ekki að greiða sérstaklega fyrir að skipta um námsgrein, en námsstyrkir eru aðeins veittir til takmarkaðs árafjölda

Ísland: Inntökukerfi fyrir nýnema að norrænni fyrirmynd?
Nokkur úrlausnarefni blasa við:
1. Ekki samræmd stúdentspróf eða miðlæg, stöðluð hæfnispróf
– Með nýjum framhaldsskólalögum virðumst við raunar vera að færast fjær samræmdum stúdentsprófum
2. Engin miðlæg umsýsla með umsóknum í alla háskóla
– Hugmynd um sameiginlega innritun nýnema á háskólastigi er varpað fram (en hún ekki útfærð) í skýrslu rýnihóps menntamálaráðherra (ágúst 2009)
3. Ákveða þyrfti kvóta á hinum einstöku námsleiðum
– Reiknilíkan menntamálaráðuneytis veitir einungis grófar vísbendingar um hvernig mætti ákveða kvóta
– Byggja mætti á nemendafjölda á tilteknu árabili (t.d. næstu fimm árum á undan)

Leiðir til að takmarka fjölda nemenda sem teknir eru inn í grunnnámi við HÍ
Sú leið sem starfshópurinn hefur skoðað hvað mest er upptaka almennra inntökuprófa og takmörkun aðgangs á grundvelli þeirra
– Frá 2015 verður stúdentspróf ekki lengur almennt, samræmt viðmið um námsgetu eða þekkingu nemenda
Önnur leið er að nota valnefndir til að meta nemendur á grundvelli árangurs í framhaldsskóla og annarra hæfniþátta sem koma fram í umsókn
– Þessi leið er mjög erfið í framkvæmd þar sem hún er bæði tímarfrek og líkleg til að leiða til kvartana um huglægni varðandi matið

Inntökupróf: Hvað og hvernig ætti að prófa?
Við val á inntaki og aðferðum inntökuprófs koma einkum tvær leiðir til greina sem báðar geta talist áreiðanlegar og réttlátar:
Almennt inntökupróf sem fæli í sér blöndu af þekkingarprófi (e. achievement) og getuprófi (e. ability)
– Kosturinn við þessa leið er að hægt er að mæla beint þá þætti sem hafa mest forspárgildi fyrir árangur í námi og hún er réttlætanleg með vísan í erlendar fyrirmyndir og niðurstöður rannsókna

Inntökupróf: Hvað og hvernig ætti að prófa?
Sérhæft inntökupróf fyrir ólíkar námsgreinar/deildir eða fræðasvið
– Kostur: Hægt er að mæla beint þá þætti sem veita besta forspá um árangur í námi í viðkomandi námsgrein (t.d. annað hvort málfarslega eða talnalega leikni)
– Meginókostur: Er flóknari og dýrari í framkvæmd þar sem hún kallar á rannsóknir á því hvað veitir besta forspá í hverri námsgrein

Aðrar leiðir til að takmarka fjölda nemenda við Háskóla Íslands
Aðrar leiðir en aðgangstakmarkanir eru mögulegar til að ná markmiðum háskólaráðs um að fjöldi nemenda við Háskóla Íslands sé í samræmi við fjárveitingar til skólans. Ein sú helsta er eftirfarandi:
Gerð verði krafa um að nemendur ljúki ákveðnum fjölda eininga, t.d. 70%,
áður en þeir geta farið á 2. námsmisseri
– Kostur: Allir fá að prófa
– Ókostir: Nær ekki markmiði um aukinn aðbúnað nemenda auk þess að
nemendur fara aftur á fyrsta ár

Mál til umhugsunar
Ef innleiddar verða almennar aðgangstakmarkanir við HÍ þarf að meta vandlega áhrif þeirra á fjárhag einstakra fræðasviða, deilda og námsbrauta.
Fjölmennar námsgreinar sem fækka þannig nemendum fái aðlögunartíma þar sem þeim er bætt upp það tekjutap sem óhjákvæmilega verður.
Loks þarf að skoða hvernig aðgangstakmarkanir gætu spilað saman við áform um að nemendur geti skráð sig ýmist í fullt nám eða hlutanám.

Hvenær er niðurstöðu að vænta?
Starfshópurinn mun skila tillögum síðar á þessu ári
Ljóst að þær tillögur koma ekki til framkvæmdar fyrr en í fyrsta lagi haustið 2012

Rektor þakkaði Jóni Atla fyrir framsöguna og gaf orðið laust. Málið var rætt ítarlega og komu fram fjölmörg sjónarmið.

Formaður Stúdentaráðs sagði að tillögurnar væru af tvennum toga, annars vegar viðbrögð við niðurskurði fjárveitinga og hins vegar aðgerðir til að auka gæði náms við Háskóla Íslands. Áður en lengra væri haldið þyrfti þó að koma fram hver afstaða stjórnvalda væri til málsins, eða hvort þau teldu að Háskóli Íslands ætti að hafa frumkvæði í því. Sagði formaðurinn að stúdentum hugnaðist illa að takmarka aðgang að Háskóla Íslands vegna fjárskorts, en að því marki sem um væri að ræða aðgerðir til að auka gæði námsins hefðu stúdentar meiri skilning fyrir því. Þá sagði formaður Stúdentaráðs að ef valið stæði á milli aðgangstakmarkana og aukinna krafna um námsframvindu á fyrsta námsári litist sér betur á síðari kostinn.

Forseti Viðskiptafræðideildar sagði að þótt virkum nemendum yrði fækkað t.d. um 800 - 900 myndi það hafa órverulega kostnaðarlækkun í för með sér en háskólinn yrði af nokkrum tekjum. Lagði deildarforsetinn til að gerð verði krafa til allra nemenda sem skráðir eru í Háskóla Íslands með hefðbundnum hætti um að þeir ljúki að minnsta kosti hálfu námi á hverju skólaári (30 ECTS). Aðrir sem taka vilja einstök námskeið geti skráð sig í þau hjá Endurmenntun gegn greiðslu. Hér væri yfirleitt um að ræða nemendur sem stunduðu nám með vinnu og væru því færir um að greiða fyrir endurmenntun sína. Nú þegar seldu nokkrar deildir inn í námskeið á meistarastigi og í Danmörku byðu ýmsir háskólar upp á að fólk gæti tekið eitt eða tvö námskeið gegn greiðslu. Með þessari aðferð ætti að vera unnt að fækka virkum nemendum sem ríkið borgar ekki fyrir en tekjur háskólans myndu aukast vegna tekna frá þeim sem vildu taka einstök námskeið. Lyki nemandi sem væri skráður með hefðbundnum hætti ekki a.m.k. hálfu námi myndu námskeiðin sem hann þó tók hverfa af námsferli hans nema hann borgaði það gjald sem hann hefði þurft að greiða hefði hann aðeins verið skráður í þau.

Forseti Félagsvísindasviðs sagði formann Stúdentaráðs hafa hitt naglann á höfuðið: Stjórnvöld yrðu að gera upp við sig hversu hátt hlutfall nemenda í hverjum árgangi ætti að menntast. Engu að síður þyrfti háskólinn að halda þessari vinnu áfram og leggja svo kosti fyrir stjórnvöld, því þau vildu eflaust ekki aðgangstakmarkanir. Mikilvægt væri að vinna málið vel og gæta þess að einfalda það ekki of mikið, því margt væri undir, gæði, fjármál o.fl. Um fjárhagsvanda Háskóla Íslands sagði forsetinn að hann væri í hnotskurn sá að skólinn fengi of litlar tekjur fyrir hvern nemanda. Annar vandi væri sá að kennd væru of mörg fámenn námskeið með 515 nemendum. Á hinn bóginn væri nokkuð um fjölmenn námskeið við skólann og þar væri hættan sú að kennsluhættir fullnægðu ekki gæðakröfum. Hvað brottfall varðaði þyrfti að greina alla tölfræði mjög vel og skoða t.d. hvað væri raunverulegur vandi og hvað væri gervivandi.

Forseti Heilbrigðisvísindasviðs þakkaði starfshópnum og háskólaráði fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp. Sagði forsetinn það fyrst og fremst snúast um gæði náms og því vaknaði sú spurning, hvers vegna nú væri verið að hverfa frá stöðluðu stúdentsprófi og setja með því háskólana í þá stöðu að taka hliðstæða aðgerð upp á sínum vettvangi? Um mikið brottfall á fyrsta misseri eða námsári í sumum greinum sagði forsetinn það vera siðferðilega hæpið að taka við miklum fjölda nýnema og vita fyrirfram að 50-70% þeirra myndu hverfa á brott. Alltént væri slíkt ekki skynsamleg meðferð almannafjár. Sagðist forsetinn vera hlynntur almennum inntökuprófum sem hefðu gefist vel í heilbrigðisgreinum. Skýr vitnisburður um það væri t.d. að nemendur í læknisfræði við Háskóla Íslands stæðu sig síst verr en aðrir nemendur í inntökuprófum við bandaríska háskóla. Loks sagði forsetinn það sýna galla reikniflokkakerfisins að það skapaði freistingu fyrir deildir að taka við sem flestum nemendum en fækka þeim ekki.

Forseti Stjórnmálafræðideildar þakkaði fyrir góða kynningu og umræður. Tók forsetinn undir með formanni Stúdentaráðs og sagði mikilvægt að gera greinarmun á aðgangstakmörkunum vegna niðurskurðar fjárveitinga og aðgangstakmörkunum til að tryggja gæði náms. Einnig tók deildarforsetinn undir með Forseta Félagsvísindasviðs um að nauðsynlegt væri að skýra brottfallshugtakið vandlega og greina á milli eðlilegs og óeðlilegs brottfalls. Þá þyrfti einnig að rannsaka hvort tryggt væri að aðgangstakmarkanir myndu draga úr brottfalli.

Kjörinn fulltrúi Hagfræðideildar greindi frá því að deildin hefði nýlega ákveðið að innleiða til reynslu inntökupróf sem væntanlega myndi byggja að töluverðu leyti á stærðfræðiprófi. Við undirbúning málsins hefði m.a. verið skoðaður sérstaklega einn árgangur nemenda og hefði þá komið í ljós að af 88 nemendum hefðu aðeins 12 tekið öll prófin. Frá sjónarhóli Hagfræðideildar væri þetta sóun á vinnuafli og fjármunum því skipulögð væri heil námsbraut með öllum tilkostnaði. Ef horft væri á málið í stærra samhengi blasti hins vegar við önnur mynd. Því hafi hin 60% sem ekki tóku próf farið í annað nám væri ekki jafn augljóst að þau hefðu sóað tíma eða peningum. Sagði fulltrúinn að í vissum skilningi mætti líkja námi í háskóla við kaup á korti í líkamsræktarstöð – því fylgdi iðulega góður ásetningur, en oft væri minna um efndir þegar á hólminn væri komið.

Formaður Stúdentaráðs beindi því til starfshópsins að tekinn yrði út munurinn á afleiðingum þess að innleiða stöðupróf annars vegar og fækkun námsleiða hins vegar.

Kjörinn fulltrúi Menntavísindasviðs sagði frá tilraun sem gerð hefði verið til að meta hæfni umsækjenda um nám. Hefði tilraunin leitt í ljós að aðeins þeir nemendur sem raunverulega höfðu vilja og getu til að stunda nám náðu tilskyldum árangri. Með viðeigandi stuðningsaðgerðum leiddi tilraunin til þess að 98% nýnema sem tóku þátt í henni luku námi. Reynsla Menntavísindasviðs eftir sameiningu Kennaraháskóla Íslands við Háskóla Íslands sýndi að nemendahópurinn hefur breyst og virkni minnkað. Einnig væru vísbendingar um að nýjum nemendum liði félagslega vel í náminu en þeir stunduðu ekki fullt nám. Til að bregðast við þessu hefðu verið settar reglur um að nemendur þurfi að ljúka tilteknum undanfaranámskeiðum til að mega halda áfram námi.

Forseti Félags og mannvísindadeildar þakkaði fyrir góða kynningu og umræðu. Sagði forsetinn nauðsynlegt að skýra viðfangsefnið betur og tryggja að ekki væri blandað saman viðbrögðum við kreppu og niðurskurði, kröfum um gæði og aðgerðum gegn brottfalli. Þetta væru þrír ólíkir hlutir sem kölluðu á ólík viðbrögð. Einnig skipti máli hvort talað væri útávið við stjórnvöld um fjárhagsleg málefni eða innávið um aðgerðir til að auka námsgæði. Um brottfall sagði deildarforsetinn að sumt af því væri eðlilegt en annað væri raunverulegt vandamál. Háskóli Íslands hefði nú þegar reglur um inntöku nýnema, en færi kannski ekki alltaf eftir þeim. Þannig hefði nýlega borist bréf um að opna ætti fyrir inntöku í meistaranám fyrir atvinnulausa nemendur. Þetta væri vissulega jákvætt útávið, en á skjön við anda þeirra markmiða sem t.d. væru sett fram í nýrri stefnu háskólans eða í kynningu starfshópsins um mögulega aðgangstakmarkanir á þessu háskólaþingi. Til að halda þessum ólíku markmiðum aðgreindum væri mikilvægt að greina málið betur. Þannig væri ekki sjálfgefið að orsakasamhengi væri á milli aðgangstakmarkana og betri fjárhags deilda og þar með fjármuna til að geta tekið betur á móti nemendum. Niðurstaðan væri því sú að þótt sjálfsagt væri að fara vel með almannafé ætti að fara varlega í að draga ályktanir fyrirfram um orsakasamhengi á milli aðgangstakmarkana og aukinna námsgæða.

Sviðsstjóri kennslusviðs skýrði hvers vegna tekin hefði verið ákvörðun um að opna fyrir umsóknir um framhaldsnám eftir að almennur frestur hafði verið útrunninn. Ekki væri um að ræða almenna opnun, heldur aðeins fyrir afmarkaðan hóp atvinnulausra skv. tilmælum stjórnvalda. Einnig lægi fyrir að þessum hópi fylgdi sérstök fjárveiting.

Fulltrúi Félags prófessora sagði að aðgangstakmarkanir myndu væntanlega hafa tiltöluega lítil áhrif til sparnaðar í rekstri skólans vegna þess að launaskostnaður væri langstærsti hlutur útgjalda skólans. Til að ná fram raunverulegum sparnaði hefði Félag prófessora lagt til að námskeiðaframboð yrði minnkað og jafnvel lokað námsleiðum. Með þessu móti yrði ekki dregið úr gæðum alls námsins heldur haldið uppi námsgæðum á helstu sviðum en öðrum lokað. Á Íslandi væri offramboð á háskólanámi og of mikið af fámennum námskeiðum. Þessi leið væri alltént betri en flatur niðurskurður.

Fulltrúi í háskólaráði þakkaði fyrir góða kynningu og fróðlegar umræður. Sagði hann að farið hefði verið af stað með þetta verkefni á vegum háskólaráðs útaf þeim fjárhagsvanda sem við væri að etja. Háskólinn hefði sýnt mjög ábyrgan rekstur og hefði afkoma skólans t.d. verið í jafnvægi á síðasta ári. Sagðist fulltrúinn þó ekki bjartsýnn á að stjórnvöld myndu vera örlát við háskólana í landinu á næstu árum og því hefði m.a. verið ákveðið að skoða þennan möguleika, auk þess sem áfram yrði leitað leiða til að virkja nýja tekjustofna. Þá beindi háskólaráðsfulltrúinn því til háskólafólks að það mætti vera virkara í ábyrgri opinberri umræðu um mikilvægi háskólanáms fyrir framtíð landsins. Þessi umræða færi ekki nógu hátt, miðað við t.d. umræðuna um vegagerð sem væri þó fjarri því eins góð fjárfesting og háskólamenntun. Verkefnið væri að leita leiða til að lækka kostnað og að opna augu stjórnvalda, þingmanna og almennings fyrir mikilvægi háskólamenntunar og Háskóla Íslands.

Forseti Umhverfis og byggingarverkfræðideildar sagði að málið snérist ekki aðeins um fjármál og gæði heldur einnig þriðju breytuna sem væru framhaldsskólar landsins. Þeir væru að þróast í átt að þriggja ára skóla og Háskóli Íslands væri að fá verr undirbúna nemendur en áður. Til að bregðast við þessu gæti reynst nauðsynlegt að innleiða almennt inntökurpróf við háskólann.

Aðstoðarrektor vísinda og kennslu þakkaði fulltrúum á háskólaþingi fyrir góðar umræður og gagnlegar ábendingar. Í framhaldi af innleggi formanns Stúdentaráðs sagði hann varasamt að halda því á lofti að nemendahópurinn sem háskólinn fengi ekki greitt kennsluframlag fyrir væri ódýr, því með því spilaði skólinn frá sér mikilvægu þrýstitæki. Þá mætti ekki gleyma því að stjórnvöld hefðu á síðustu misserum komið til móts við Háskóla Íslands í ýmsum efnum. Um tillögu forseta Viðskiptafræðideildar um að gera kröfu um a.m.k. 50% virkni nemenda á öllum námsárum sagði aðstoðarrektor að hún væri verðug frekari skoðunar og mikilvægt væri að greina á milli hinna mismunandi leiða. Að ýmsu væri að hyggja, m.a. hvernig virknikrafan kæmi við fatlaðra nemendur. Varðandi fámenn námskeið sagði aðstoðarrektor að gæta þyrfti að fleiri sjónarmiðum en hagræðingakröfunni einni, því ef aðeins yrðu skilin eftir fjölmenn námskeið myndi það stuðla að einsleitni í námsframboði. Varðandi þróun mála á Norðurlöndum sagði hann að vinna svonefndrar brottfallsnefndar, sem fyrir nokkru hefði skilað viðamikilli skýrslu, hefði sýnt að t.d. í Danmörku hefði með markvissum aðgerðum tekist að draga töluvert úr brottfalli. Einnig tók aðstoðarrektor undir orð forseta Stjórnmálafræðideildar um að mikilvægt væri að einfalda ekki um of umræðuna um þessi mál. Inntökupróf gæti nýst sem tæki til að meta nemendur og fá þannig dýrmætar upplýsingar um þá sem aftur nýttust til að hvetja þá til að standa sig betur. Einnig þyrfti í tengslum við aðgangstakmarkanir að hefja vinnu við að finna hugsanlegar leiðir til að ákvarða fjöldanemenda í hverri námsgrein eftir að þeir hefðu staðist inntökupróf.

Til máls tóku undir þessum lið, auk Jóns Atla Benediktssonar og rektors, þau Lilja Dögg Jónsdóttir, Ingjaldur Hannibalsson, Ólafur Þ. Harðarson, Sigurður Guðmundsson, Þorgerður Einarsdóttir, Helgi Tómasson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Þórður Kristinsson, Gísli Már Gíslason, Þórður Sverrisson og Sigurður Magnús Garðarson.

Að lokum þakkaði rektor fulltrúum á háskólaþingi fyrir góðar og málefnalegar umræður og sagði að málið yrði áfram á dagskrá næsta þings. Sleit rektor háskólaþingi og bauð fundarmönnum að þiggja hressingu í anddyri Hátíðasalar.

Útsend gögn og gögn sem lögð voru fram á 6. háskólaþingi 13. maí 2011:
1. Dagskrá og tímaáætlun 6. háskólaþings 13. maí 2011.
2. Listi yfir fulltrúa á háskólaþingi.
3. Fundargerð 5. háskólaþings 7. desember 2010.