Stúdentaráð er málsvari allra nemenda við HÍ. Ráðið fer með þau mál er varða hagsmuni nemenda gagnvart háskólayfirvöldum, stjórnvöldum og öðrum þeim sem áhrif hafa á stefnu Háskólans. Ráðið hefur aðstöðu á 3. hæð Háskólatorgs, fyrir ofan Bóksölu stúdenta. Stúdentaráð var stofnað árið 1920 og hefur alla tíð barist fyrir hagsmunum stúdenta og margvíslegum framförum í háskólasamfélaginu. Stúdentaráð stendur að Stúdentablaðinu, heldur utan um félagslífið og sinnir hagsmuna-, jafnréttis- og réttindamálum innan Háskólans. Á student.is er hægt að kynna sér starfsemi Stúdentaráðs og það sem er á dagskrá. Réttindabarátta Á skrifstofu Stúdentaráðs er starfrækt Réttindaskrifstofa stúdenta sem rekur erindi fyrir þá stúdenta sem telja sig órétti beitta innan háskólasamfélagsins. Hagsmunagæsla lýtur meðal annars að einkunnaskilum, námsmati og einkunnagjöf. Stúdentablaðið Stúdentaráð er útgefandi Stúdentablaðsins sem kemur út reglulega yfir skólaárið. Stúdentablaðið er metnaðarfullur frétta-, skemmti- og upplýsingamiðill sem dreift er til allra stúdenta Háskóla Íslands. Stúdentablaðið er opinn miðill og á hverju ári er lýst eftir hæfileikaríkum nemendum til þess að gera blaðið sem veglegast. Ritstjóri Stúdentablaðsins er ráðinn til eins skólaárs í senn. Hægt að lesa um Stúdentablaðið á www.student.is. Rafræna útgáfu Stúdentablaðsins má lesa á vefnum studentabladid.com. Stúdentakort Allir stúdentar ættu að verða sér úti um Stúdentakort um leið og hefja nám við Háskólann. Sótt er um kortið í Uglunni, innri vef skólans (Uglan mín --> Stúdentakort). Stúdentakort eru gefin út í tveimur mismunandi útgáfum og velur nemandinn aðra hvora. Bæði kortin eru auðkennis- og afsláttarkort háskólanema en annað veitir auk þess lengri aðgang að einni háskólabyggingu. Hægt er að lesa nánar um afslætti stúdentakortsins. facebooklinkedintwitter