Veturinn 1998-1999 samdi alþjóðaráð að beiðni rektors fyrstu drög að stefnu Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum. Á grundvelli þeirra vann undirbúningshópur rektors fyrir háskólafund í samvinnu við alþjóðaráð drög II sem lögð voru fram til umræðu og afgreiðslu á háskólafundi 16. og 17. nóvember 2000. Á fundinum var samþykkt að fresta afgreiðslu draganna og vísa þeim til alþjóðaráðs og deilda til umsagnar. Undirbúningshópur rektors fór yfir þær athugasemdir og tillögur sem fram komu og undirbjó á grundvelli þeirra drög III. Stefna Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum var samþykkt með áorðnum breytingum á háskólafundi 23. febrúar 2001. Stefna Háskóli Íslands er í senn þjóðleg vísinda- og menntastofnun og hluti af hinu alþjóðlega fræðasamfélagi. Háskólinn leggur áherslu á alþjóðleg samskipti í öllu starfi sínu. Hann leitast við að skapa nemendum sínum fjölbreytt tækifæri til að stunda hluta náms síns við erlenda háskóla og rannsóknastofnanir í því skyni að auka gæði og fjölbreytni námsins og undirbúa þá sem best til að takast á við líf og starf að námi loknu. Enn fremur er lögð áhersla á að taka vel á móti erlendum nemendum sem stunda nám við skólann. Háskólinn ætlar að veita starfsfólki sínu sem best tækifæri til að taka þátt í alþjóðasamskiptum og rækja samstarf við erlend starfssystkin, enda sé sýnt að það muni nýtast starfsemi Háskólans. Framkvæmd og útfærsla Háskóli Íslands stendur vörð um alþjóðasamskipti sem þegar hefur verið komið á og ætlar að nýta sér til fullnustu tækifæri sem gefast í þeim efnum. Háskóli Íslands leitast við að: gera nemendum sínum kleift að stunda hluta náms síns erlendis, m.a. á grundvelli samstarfssamninga við erlenda háskóla laða erlenda skiptinemendur að námi á öllum stigum háskólanáms tryggja fullnægjandi framboð á námskeiðum á ensku og öðrum erlendum málum fyrir skiptistúdenta sem koma vegna alþjóðlegra samninga sem Háskólinn á aðild að nota ECTS-einingakerfið í nemendaskiptum þar sem því verður við komið auðvelda kennurum skólans að taka þátt í kennaraskiptum, t.d. með því að deildir reikni skiptikennslu við erlenda háskóla sem hluta af kennsluskyldu kennara við Háskóla Íslands tryggja að kostnaður við alþjóðasamskipti verði hluti áætlanagerðar deilda, þ.m.t. fjárhagsáætlana þeirra efla hlut Háskóla Íslands í styrkveitingum alþjóðlegra sjóða leita nýrra leiða til að afla fjár til alþjóðasamskipta treysta skipulag alþjóðasamskipta við Háskóla Íslands, m.a. með því að ákveðinn aðili í hverri deild hafi umsjón með alþjóðasamskiptum í samráði við Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins gera upplýsingar um þá möguleika sem nemendum og starfsfólki skólans bjóðast í alþjóðasamskiptum aðgengilegar. Umsjón og ábyrgð Alþjóðaráð og Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins hafa umsjón með framkvæmd stefnu Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum. Þessir aðilar gera verkefnaáætlun um alþjóðasamskipti á grundvelli þessarar stefnu til þriggja ára í senn og skila háskólaráði starfsskýrslu að hverju starfsári loknu. facebooklinkedintwitter