Hagfræði, BS
Hagfræði
BS gráða – 180 einingar
Grunnnám í hagfræði hentar þeim sem hafa áhuga á félags- og raunvísindum og hafa gaman af því að greina lausnir á vandamálum og sjá tækifæri í þeim. Námið hefur reynst góð þjálfun fyrir störf á vinnumarkaði og frábær undirbúningur fyrir framhaldsnám í hagfræði og fjármálum.
Skipulag náms
- Haust
- Fjármálahagfræði I
- Líkindafræði og forritun (Líkindareikningur og tölfræði)
- Eindahagfræði I (Inngangur að hagfræði)
- Hagræn stærðfræði I
- Heildahagfræði I (Þjóðhagfræði I)
- Vor
- Fjármálahagfræði II
- Heildahagfræði II (Þjóðhagfræði II)
- Hagrannsóknir
- Eindahagfræði II (Rekstrarhagfræði II)
- Hagræn stærðfræði II
Fjármálahagfræði I (HAG106G)
Markmiðið námskeiðsins er annars vegar að kynna nemendur fyrir grunnatriðum fjármála og fjármálahagfræði og hins vegar að þjálfa færni þeirra í því að leysa raunhæf verkefni á þessu sviði. Farið er yfir, vexti og vaxtaútreikninga, mismunandi tegundir fjármálagerninga, virkini og tegundir fjármálamarkaða og kenningar um skilvirkni markaða. Aðferðir við að meta virði fjármálagerninga með tilliti til tímavirðis og óvissu. Þá verður áhersla á að kynna nemendum fyrir innlendum fjármálamörkuðumi og virkni þeirra. Nemendur öðlist skilning á fórnarskiptum áhættu og ávöxtunar, s.s. með aðstoð CAPM líkansins. Loks er fjallað um samval eigna byggt á Markowitz líkaninu og áhættu með hliðsjón af nytjaföllum.
Líkindafræði og forritun (Líkindareikningur og tölfræði) (HAG108G)
Fjallað er um frumatriði líkinda- og tölfræði á grundvelli einfaldrar stærðfræðigreiningar.
Viðfangsefni:
Útkomurúm, atburðir, líkindi, jöfn líkindi, óháðir atburðir, skilyrt líkindi, Bayes-regla. Slembistærð, dreififall, þéttleiki, samdreifing, óháðar stærðir, skilyrt dreifing. Væntigildi, miðgildi, dreifni, staðalfrávik, samdreifni, fylgni, lögmál mikils fjölda. Bernoulli-, tvíkosta-, Poisson-, jöfn-, veldis- og normleg stærð. Höfuðmarkgildisreglan. Poisson-ferli. Úrtak, lýsistærð, dreifing meðaltals og dreifing úrtaksdreifni í normlegu úrtaki. Punktmat, sennileikametill, meðalferskekkja, bjagi. Bilmat og tilgátupróf fyrir normleg, tvíkosta- og veldisúrtök. Einföld aðhvarfsgreining. Matgæði og tengslatöflur.
Eindahagfræði I (Inngangur að hagfræði) (HAG107G)
Áhersla er lögð á, að nemar öðlist bæði þekkingu á helstu hugtökum og kenningum hagfræðinnar. Fjallað verður um helstu einkenni markaða. Jafnframt verður lögð áhersla á þjálfun í því, hvernig nota má hagfræðina til að fjalla skipulega um margvísleg mál. Hagrænt hlutverk hins opinbera verður skoðað og áhrif tiltekinna opinberra aðgerða á mörkuðum. Nemendur eiga í námskeiðslok að hafa öðlast nokkra leikni í að beita hagrænni hugsun og aðferðum hagfræðinnar til að leysa einföld hagræn vandamál.
Hagræn stærðfræði I (HAG101G)
Markmið: Markmið þessa námskeiðs er að leggja grunn að notkun stærðfræðilegra aðferða í hagfræði.
Námsefni: Í byrjun námskeiðs er fjallað um nokkur grunnatriði í stærðfræði eins og veldi og rætur, jöfnur og ójöfnur, þáttun og liðun, mengi, varpanir, föll. Síðan er fjallað um stærðfræðileg grundvallaratriði sem hafa mikla þýðingu í hagfræði. Þeirra á meðal eru vektorar, fylki, ákveður, andhverfur, eigingildi, eiginvektorar, lausn jöfnukerfa, mengi, varpanir (e. mappings) og föll, diffrun falla, Taylor setningu og nálganir, og tegrun falla. Þá er fjallað um ótímatengda (e. static) hámörkun án hliðarskilyrða.
Heildahagfræði I (Þjóðhagfræði I) (HAG103G)
Markmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í helstu kenningar og hugtök heildahagfræði. Fjallað verður um lögmál efnahagslífsins og helstu grundvallarkenningar heildahagfræðinnar um þróun hagstærða til skamms og langs tíma ásamt helstu hugtökum í efnahagsumræðu. Áhersla er lögð bæði á fræðilegt inntak og hagnýtt gildi námsefnisins og tengsl þess við ýmis efnahagsmál, sem eru ofarlega á baugi á Íslandi og erlendis. Staðgóð þekking á þjóðhagfræði býr nemendur undir ýmis önnur námskeið, og lífið.
Fjármálahagfræði II (HAG208G)
Markmið námskeiðsins er þríþætt. Í fyrsta lagi að kynna fyrir nemendum grunnatriði reikningsskila og fjárhagsbókhalds þannig að þeir verði þokkalega læsir á ársreikninga fyrirtækja. Í öðru lagi að nemendur geti greint og metið upplýsingar og helstu verðkennitölur úr ársreikningum fyrirtækja og túlkað þær fyrir þeim sem þurfa á þessum upplýsingum að halda. Í þriðja lagi að nýta upplýsingar úr ársreikningum til þess að framkvæma verðmat á viðkomandi útgáfuaðila sem er byggt á sjóðstreymi.
Heildahagfræði II (Þjóðhagfræði II) (HAG209G)
Tilgangur þessa námskeiðs er að veita stúdentum yfirsýn yfir viðfangsefni nútímaþjóðhagfræði og innsýn í þau lögmál efnahagslífsins, sem þjóðhagfræði fjallar um. Höfuðáherzla er lögð á að lýsa ákvörðun og samspili þjóðartekna, atvinnu, verðlags, vaxta, launa og annarra helztu þjóðhagsstærða í bráð og lengd og skilyrðum almannavaldsins til að hafa áhrif á gang efnahagsmála. Áherzla er lögð bæði á fræðilegt inntak og hagnýtt gildi námsefnisins. Höfuðviðfangsefni námskeiðsins eru: Hagfræði og hagtölur. Hagvöxtur. Atvinnuleysi. Verðbólga. Heildareftirspurn og vörumarkaður. Ríkisfjármál og peningamarkaður. Heildarframboð og vinnumarkaður. Hagstjórn í opnu hagkerfi.
Hagrannsóknir (HAG210G)
Gert er ráð fyrir að nemendur hafi lokið tölfræði og stærðfræði á fyrsta ári í hagfræði. Í námskeiðinu er fjallað um tölfræðilegar aðferðir í hagfræði, hagmælingar. Þungamiðja námskeiðsins er umfjöllun um aðferð minnstu kvaðrata og hið klassíska línulega líkan. Fjallað er um þá bresti sem fram geta komið í forsendum þess líkans, svo sem sjálffylgni, misdreifini, marglínuleika og fylgni á milli skýristærða og truflunar, og því hvernig bregðast skal við. Áhersla er lögð á að nemendur tileinki sér notkun tölfræðiforrita og séu færir um að túlka niðurstöður rannsókna sinna.
Eindahagfræði II (Rekstrarhagfræði II) (HAG201G)
Námskeiðið er framhald af Inngangur að hagfræði/Rekstrarhagfræði I. Áhersla er lögð á nemar öðlist bæði víðtækari og dýpri þekkingu á kenningum hagfræðinnar. Það verður gert með því að gera frekari grein fyrir helstu kenningum í rekstrarhagfræði og sýna hvernig nota megi fræðin til að fjalla skipulega um margvísleg mál.
Hagræn stærðfræði II (HAG203G)
Markmið:
Markmið þessa námskeiðs er að halda áfram að kenna nemendum að beita grundvallaraðferðum í stærðfræðilegri hagfræði og veita þjálfun í notkun þeirra á hagræn viðfangsefni. Námskeiðið er framhald af þeim grunni sem lagður er í Hagrænni stærðfræði I.
Námsefni:
Fjalað er um ótímatengda hámörkun með hliðarskilyrðum (Lagrange aðferð og Kuhn-Tucker aðferð) og mikilvægar setningar í stærðfræði fyrir hagfræði sem tengjast hámörkun, þ.e. umslagssetninguna (e. envelope theorem) og setninguna um dulin föll (e. implicit functions theorem). Í framhaldi af því er fjallað um svokölluð virðisföll (e. value functions) og samanburðarjafnvægisgreiningu (e. comparative static analysis). Því næst er fjallað um runur og raðir. Námskeiðinu lýkur á umfjöllun um tímatengdaraðferðir í hagfræði, þ.e. lausn einfaldra diffurjafna. Áhersla er lögð á að þjáfa nemendur í að beita þessum aðferðum til að glíma við áhugaverð vandamál í hagfræði.
- Haust
- Eindahagrannsóknir
- Heildahagfræði III (Þjóðhagfræði III)
- Heildahagrannsóknir
- Eindahagfræði III (Rekstrarhagfræði III)
- Haglýsing
- Vor
- Efnahagsmál í ræðu og riti (áður Aðferðir í hagfræði)
- Þættir í eindahagfræði (Þættir í rekstrarhagfræði)
- Þættir í heildahagfræði (Þættir í Þjóðhagfræði)
Eindahagrannsóknir (HAG308G)
Markmið námskeiðsins er að auka þekkingu og skilning nemenda á notkun tölfræðiaðferða í hagfræði með áherslu á orsakasambönd. Fjallað er um mat á líkönum þar sem notað er sambland af tímaröðum og þversniðsgögnum (e. panel data). Síðan er fjalla um mat á hjálparbreytulíkönum (e. instrumental variable regression), mun á mismun (e. difference-in-differences) og aðferð ósamfellds aðhvarfs (e. regression discontinuity design).
Heildahagfræði III (Þjóðhagfræði III) (HAG310G)
Í námskeiðinu er fjallað um helstu kenningar heildahagfræðinnar um neyslu, sparnað og fjárfestingu auk þess sem kenndar eru stærðfræðiaðferðir sem notaðar eru til þess að leysa nútíma heildahagfræðilíkön, þ.e. tímatengd hámörkun bæði í samfelldum og ósamfelldum tíma. Þar að auki er fjallað um almennt jafnvægi í heildahagfræðilíkön og fjallað sérstaklega um tvö almenn jafnvægislíkön; líkan Ramsey og líkan Diamonds, og eru líkönin notuð til þess að greina áhrif ríkisfjármálastefna og fyrirkomulags lífeyrissjóða á hagstærðir.
Heildahagrannsóknir (HAG309G)
Markmið námskeiðsins er að kynna fyrir nemendur mikilvægar aðferðir hagrannsókna sem notaðar eru í heildahagfræði. Fjallað er um eiginleika gagna og aðferðir hagrannsókna í þjóðhagslíkanagerð, s.s. mismunajöfnur og kerfi mismunajafna, sístæðar (stationary) tímaraðir, ARMA og ARIMA líkön. Co-integration aðferðir fyrir ósístæðar tímaraðir, Granger-Engle og Johansen aðferðir, villuleiðréttingarlíkön, VAR líkön.
Eindahagfræði III (Rekstrarhagfræði III) (HAG304G)
Námskeiðið er framhald af rekstrarhagfræði I og II, en einnig er gert ráð fyrir að nemendur hafi lokið stærðfræði I og stærðfræði II. Í rekstrarhagfræði III er áhersla lögð á að nemar öðlist bæði víðtækari og dýpri þekkingu á kenningum hagfræðinnar. Lögð er áhersla á stærðfræðilega framsetningu þess fræðagrunns sem lagður hefur verið í fyrri námskeiðum í rekstrarhagfræði. Farið er vandlega yfir heildarjafnvægi í hagkerfinu og eiginleika þess. Sýnt er fram á tilveru þess við vissar aðstæður, forsendur þess að aðeins sé um eitt jafnvægi að ræða raktar og stöðugleiki þess kannaður. Velferðarsetningar 1 og 2 settar fram, rök færð fyrir þeim og ýtarlega fjallað um gildi þeirra í hagfræði. Í framhaldi af því er rætt er sérstaklega um tiltekna markaði eins og vinnumarkað, markað fyrir fjárfestingarvörur og markaði fyrir eignir eins og verðbréf. Þá verður fjallað um markaðsbresti, hagrænt gildi eignarréttar, og markað stjórnmálanna. Lögð er áhersla á að sýna hvernig nota megi rekstrarhagfræðina og aðferðir hennar til að komast að skynsamlegum niðurstöðum um ýmis efnhagsleg álitamál.
Haglýsing (HAG311G)
Í námskeiðinu er fjallað um þróun íslenska þjóðarbúskaparins og stöðu hans í dag. Námsefnið er fjórskipt. Fyrst er fjallað um hagsögu fram til loka nítjándu aldar. Þá er farið yfir nútímavæðingu landsins með sérstakri áherslu á þéttbýlishagfræði og fasteignamarkaði. Og síðan er fjallað um hagþróun tuttugustu aldar með sérstakri áherslu á utanríkisviðskipti og gjaldeyrismarkað. Loks, er fjallað um þjóðhagslegan ábata, tekjuskiptingu og fjármagnsmarkaði. Lögð er áhersla á að tengja námskeiðið því sem hæst ber í efnahagsumræðu hverju sinni. Engar forkröfur eru gerðar um hagfræðikunnáttu til þess að geta setið námskeiðið en nemendur eru kynntir fyrir helstu hagfræðikenningum er máli skipta jafnóðum í gegnum námsefnið.
Efnahagsmál í ræðu og riti (áður Aðferðir í hagfræði) (HAG408G)
Í námskeiðinu verður farið yfir praktískar aðferðir í hagfræði. Áhersla er lögð á að nemendur tileinki sér vinnubrögð við úrvinnslu gagna og heimilda og við skrif á texta byggt á fræðilegum athugunum. Nemendur vinna einstaklingsverkefni af þeim toga. Þá er jafnframt kennd undirstöðuatriði við notkun hugbúnaðar sem gagnast í námi og starfi hagfræðinga.
Tilgangur námskeiðsins er að tengja hagfræðinámsefnið við efnahagsumræðuna á fjármálamörkuðum og í atvinnulífinu og veita nemendum tækifæri á að æfa sig í að skrifa stutta, áhrifaríka texta (greinar, ræður, stuttar greiningar) um efnahagsmál. Áhersla er á gagnadrifnar rökfærslur. Efni fyrirlestranna nýtist vel í þeirri vinnu. Stóru umræðuefnin í efnahagsmálum á Íslandi og erlendis verður efni fyrirlestranna. Nemendur eru hvattir til að fylgjast vel með efnahagsfréttum, sem styður við getu til að taka þátt í umræðum í tímum.
Þættir í eindahagfræði (Þættir í rekstrarhagfræði) (HAG403G)
Þetta námskeið byggir á þeim grundvelli sem lagður er í fyrri námskeiðum í rekstrarhagfræði og er meginmarkiðið að ræða strategíska hugsun, markaðsbresti, ytri áhrif og annað sem fyrirtæki nútímans þurfa að bregðast við. Sérstök áhersla er lögð á stafræna þróun, þar með talið eiginleika gagna og stafrænna lausna, tvíhliða/marghliða markaði, blockchain í tengslum við ný og gömul líkön hagfræðinnar.
Rædd verða helstu hugtök og kenningar varðandi hvernig fyrirtæki skipuleggja sig á stafrænum mörkuðum. Undirstöðuatriði í leikjafræði eru rakin með formlegum hætti. Samkeppnisleikir og samvinnuleikir og jafnvægishugtök í þeim skoðuð. Einstakir leikir athugaðir til nokkurrar hlítar. Gildi leikjafræði í hagfræði útskýrð vandlega. Lítillega verður fjallað verður um hönnun hagrænna stofnana (e.mechanism design theory). Fjallað um grundvallaratriði í upplýsingahagfræði. Eftir því sem tök eru á verður farið yfir hagnýt dæmi.
Þættir í heildahagfræði (Þættir í Þjóðhagfræði) (HAG407G)
Í námskeiðinu er fjallað um mikilvæg þjóðhagfræðilíkön sem notuð eru í vinnu hagfræðinga og þau notuð til greiningar auk þess sem nemendum eru kenndar stærðfræðiaðferðir sem notaðar eru til þess að leiða út jafnvægisskilyrði í þeim, þ.e. tímatengd hámörkun í samfelldum tíma og lausn á kerfum diffurjafna. M.a. er fjallað um neyslu- og fjárfestingarkenningar og um líkön Ramsey og Diamond og þau notuð til þess að greina áhrif ríkisfjármálastefna og til greiningar á lífeyrissjóðamálum.
- Haust
- Fjármál hins opinbera
- Alþjóðahagfræði
- Vor
- Saga hagfræðikenninga
- Óháð misseri
- Þjóðhagslíkön og þjóðhagsspár
- BS ritgerð
- BS ritgerð
- BS ritgerð
Fjármál hins opinbera (HAG514G)
Fjármál hins opinbera fjallar um áhrif opinberrar stefnu á efnahagslífið bæði út frá hagkvæmi og réttlæti. Fjallað verður um helstu kenningar innan fjármála hins opinbera. Fjallað er um það hvenær og hvernig stjórnvöld ættu að grípa inn. Einnig verður fjallað um hvaða áhrif inngrip hafa á efnahagslífið og hvers vegna stjórnvöld grípa inn í með þeim hætti sem þau gera.
Alþjóðahagfræði (HAG508G)
Fyrri hluti - alþjóðaviðskipti: Yfirlit yfir alþjóðaviðskipti. Helstu hagfræðilíkön af alþjóðaviðskiptum. Ástæður viðskipta milli landa og afleiðingar viðskiptanna, til dæmis fyrir laun og vexti. Rætt er um tolla og aðrar takmarkanir á innflutningi. Þá eru viðskiptabandalög skoðuð og samhengi viðskipta, hagvaxtar og tekjuskiptingar kannað. Rætt er um stefnumörkun stjórnvalda í viðskiptum, s.s. með tollum og kvótum.
Seinni hluti - alþjóðafjármál: Greiðslujöfnuður og samsetningu hans; kaupmáttarjöfnuður gjaldmiðla (e. purchasing power parity). Fast gengi og fljótandi í hefðbundnum þjóðhagslíkönum: Mundell-Fleming líkanið, líkan Dornbusch. Hagkvæmni gjaldmiðilssvæða, fjármálakreppur.
Saga hagfræðikenninga (HAG615G)
Fjallað er um hugmyndir manna um starfsemi efnahagslífsins frá tímum Grikkja og til loka 20.aldar. Stiklað er á stóru. Reynt er að sýna fram á samhengi í þessari hugmyndasögu og þannig eru einstaka kenningasmiðir og skólar tengdir saman. Áhersla er lögð á sögulega þróun og vendipunkta fremur en nákvæma tæknilega útfærslu á kenningum einstakra hugsuða.
Þjóðhagslíkön og þjóðhagsspár (HAG515G)
Í námskeiðinu er nemendum kynnt helstu þjóðhagslíkön sem eru notuð í tölulegri greiningu og spágerð. Fjallað um svokölluð DSGE líkön og nemendum kennt að leysa og herma líkönin, með því að nota forritið Dynare, sem þróað hefur verið af hagfræðingum við seðlabanka í Evrópu. Fjallað verður um forsögu DSGE líkana (svokölluð RBC og Ný-Keyensísk líkön), og rekstrarhagfræðilega undirstöðu, mat á líkönunum og notkun þeirra í hagfræðilegri greiningu. Þá er fjallað um einvíð og fjölvíð tímaraðalíkön og not þeirra í spágerð.
BS ritgerð (HAG261L, HAG261L, HAG261L)
Allar upplýsingar um lokaritgerðir má finn í Uglu undir Lokaritgerðir:
https://ugla.hi.is/cms/milli.php?sid=4221
Sjá upplýsingar um skil á rannsóknaráætlun og ritgerðaskil í Kennsluskrá í kafla undir "Upplýsingar" - "Lokaritgerðir". Í samráði við leiðbeinanda gera nemendur rannsóknaráætlun og vinna lokaritgerð samkvæmt henni. Ritgerð skal skilað rafrænt í samræmi við auglýsingu þar að lútandi hverju sinni. Heimilt er að prófa stúdent munnlega úr efni ritgerðar og meta frammistöðu hans sem hluta af einkunn.
BS ritgerð (HAG261L, HAG261L, HAG261L)
Allar upplýsingar um lokaritgerðir má finn í Uglu undir Lokaritgerðir:
https://ugla.hi.is/cms/milli.php?sid=4221
Sjá upplýsingar um skil á rannsóknaráætlun og ritgerðaskil í Kennsluskrá í kafla undir "Upplýsingar" - "Lokaritgerðir". Í samráði við leiðbeinanda gera nemendur rannsóknaráætlun og vinna lokaritgerð samkvæmt henni. Ritgerð skal skilað rafrænt í samræmi við auglýsingu þar að lútandi hverju sinni. Heimilt er að prófa stúdent munnlega úr efni ritgerðar og meta frammistöðu hans sem hluta af einkunn.
BS ritgerð (HAG261L, HAG261L, HAG261L)
Allar upplýsingar um lokaritgerðir má finn í Uglu undir Lokaritgerðir:
https://ugla.hi.is/cms/milli.php?sid=4221
Sjá upplýsingar um skil á rannsóknaráætlun og ritgerðaskil í Kennsluskrá í kafla undir "Upplýsingar" - "Lokaritgerðir". Í samráði við leiðbeinanda gera nemendur rannsóknaráætlun og vinna lokaritgerð samkvæmt henni. Ritgerð skal skilað rafrænt í samræmi við auglýsingu þar að lútandi hverju sinni. Heimilt er að prófa stúdent munnlega úr efni ritgerðar og meta frammistöðu hans sem hluta af einkunn.
- Haust
- Verðmat fyrirtækjaV
- Hagfræði stjórnmálannaVE
- AtvinnuvegahagfræðiVE
- Fjármálastærðfræði II (Hagfræði og stærðfræði fjármálamarkaða)V
- VinnumarkaðshagfræðiV
- Hagnýttar hagmælingarV
- Vor
- AlmannavalsfræðiVE
- Bankar og peningarV
- UmhverfishagfræðiV
- HagkerfiVE
- Náttúruauðlindir og fiskihagfræðiV
- Inngangur að réttarhagfræðiV
- Hagrannsóknir IIIV
Verðmat fyrirtækja (HAG512G)
Viðfangsefni - markmið: Í námskeiðinu verður kennd nauðsynleg færni til þess að framkvæma ítarlegt virðsmat á fyrirtækjum. Áhersla verður lögð á rekstrarfélög og kenndar þrjár aðferðir: samanburðargreining, viðskiptamargfaldarar og sjóðstreymisgreining.
Jafnframt verður lögð áhersla á útleiðslu hlutafjárvirðis, virðishvata, virðismargfaldara og ávöxtunarkröfu.
Hagfræði stjórnmálanna (HAG515M)
Af hverju eru sumar þjóð ríkar og aðrar fátækar, er líklega mikilvægasta spurning hagfræðinnar. Tilgáta hagfræðinga hefur verið sú að hagkerfi sem byggja að mestu á markaðsskipulagi atvinnulífsins vaxi hraðar og skapil betri lífskjör en þau sem byggja að minna leyti á markaði. En er þessi tilgáta rétt í raun? Án viðtækra mælinga gæti reynst erfitt að svara spurningunni á sannfærandi hátt.
Undanfarna áratugi hafa hagfræðingar, undir merkjum nýju stofnanahagfræðinnar eða stjórnmálahagfræðinnar, birt fjölda rannsókna þar sem reynt er að meta áhrif efnahagslegra, stjórnmálalegra- og lagalegra stofnana á efnahagsárangur hagkerfa. Rannsóknir þessar virðast styðja þá tilgátu að stofnanir hafi mikil áhrif á hagvöxt og útskýri því mismunandi framleiðsluverðmæti landa. Aðrir þættir, eins og þjóðfélagsmenning, loftslag og landfræðileg staðsetning, geta einnig verið mikilvægir, en eiginleikar stofnanna virðast almennt hafa meiri skýringarmátt en hinar. Rannsóknir virðast einnig sýna meiri tengsl efnahagslegs vaxtar og hagrænna stofnanna heldur en við stjórnmálalegar stofnanir, eins og lýðræðis. Umræða meðal fræðimanna um hverjar þessar stofnana séu mikilvægastar fyrir vöxt hagkerfa og um tengsl orsaka og afleiðinga í efnahagslegu og stjórnmálalegu skipulagi er þó hvergi lokið.
Hagfræði stjórnmálanna lítur á stjórnmálin og stjórnskipulag frá sjónarhorni hagfræðinnar. Lögmál og kenningar hagfræðinnar eru nú kynntar í samhengi við þjóðfélagslegt umhverfi þeirra. Hér er litið á þjóðfélagsstofnanir; tilurð þeirra og þróun er umræðuefnið. Áhersla er lögð á að reyna að útskýra hvernig ólíkt stofnanaumhverfi hefur áhrif á hagræna hegðun einstaklinga og hvernig ólíkar stofnanir hafa mismunandi áhrif á virkni hagkerfa. Er m.a. fjallað um viðskiptakostnað og skipan eignarréttar og sýnt hvernig bæði móta hegðun einstaklinga, árangur í viðskiptum, og hagvöxt og velferð þjóðfélaga. Þá er fjallað er um áhrif óvissu og áhættu á ákvarðanir og hvernig takmörkuð þekking og viðskiptakostnaður hafa áhrif á og takmarka umbætur. Starfsemi ríkisins og leikreglur stjórnmálanna verða einnig gerð að umræðuefni.
Atvinnuvegahagfræði (HAG512M)
Atvinnuvegahagfræði (industrial organization) er oft lýst sem anga af rekstrarhagfræði, sumir vilja segja hagnýt rekstrarhagfræði (applied microeconomics), og fjallar um ýmsa þætti í skipulagi og atferli fyrirtækja. Hér er byggt verður ofan á þá þekkingu sem nemendur hafa öðlast í fyrri námskeiðum og er áhersla á að auka skilning nemenda á grunnhugtökum og kenningum um verðmyndun á mörkuðum. Önnur og fleiri kenningarleg sjónarmið, svo sem kvik samkeppni, skapandi eyðilegging, einstígur, og kenningar um þróun fyrirtækja og markaða eru kynntar og áhersla er á að nemendur fái víðari sýn á atvinnuvegi en fyrri námskeið hafa sýnt.
Helstu viðfangsefni: Áhrif starfsskilyrða og samkeppni á tekju- og þróunarmöguleika fyrirtækis. Áhrif fjölda samkeppnisaðila, markaðsþróunar, verðaðgreiningar, vöruaðgreiningar, ófullkominna upplýsinga, auglýsinga, rannsókna og vöruþróunar á hagkvæmustu stefnu fyrirtækis og á markaði. Áhrif stefnu eins fyrirtækis á þróun annarra fyrirtækja í atvinnugreininni. Aðgerðir fyrirtækja til að gera öðrum erfiðari aðgang að atvinnugreininni. Áhrif aðgerða einstakra fyrirtækja í atvinnugrein á þróun greinarinnar. Einnig er hagfræðinni beitt til að útskýra tilhögun viðskipta á markaði og skipulag fyrirtækja, svo sem lóðréttra hamla, lóðréttrar samþættingar, og samruna. Þá eru afleiðingar af ýmsum höftum sem lögð eru á fyrirtæki og markaði greindar.
Fjármálastærðfræði II (Hagfræði og stærðfræði fjármálamarkaða) (HAG122M)
Í námskeiðinu verður farið yfir helstu atriði tölfræði og verðlagningar í fjármálum. Lögð er áhersla á kynna nemendum fyrir notkun töl- og stærðfræðilegra aðferða til að greina, verðleggja og afla upplýsinga um fjármálagerninga. Lögð er áhersla á raunveruleg dæmi þar sem nemendur fá þjálfun í að leysa verkefni lík þeim sem þau gætu þurft að leysa á vinnustað.
Í tölfræðihluta námskeiðsins verður farið yfir tímaraðagreiningu. Þar verða líkön á borð við sjálfsaðhverf líkön (e. Auto regressive model, AR model) og líkön með hlaupandi meðaltöl (e. Moving-average model, MA model) kynnt til leiks. Einnig samsetning þeirra ARMA, ARIMA og SARIMA líkön. Að lokum verður farið yfir líkön með skilyrða misdreifni eða ARCH og GARCH líkön.
Í verðlagningahluta verður farið í tvíliðutré, Wiener-ferli, hjálparsetningu Ito, líkan Black-Scoles-Merton og verðlagningu á valréttum á hlutabréf og gjaldeyri.
Vinnumarkaðshagfræði (HAG514M)
Vinnumarkaðshagfræði leitast við að skilja virkni og gangverk markaðar fyrir launavinnu. Framboð og eftirspurn eftir vinnuafli, launamyndun og atvinna eru grundvallaratriði innan vinnumarkaðshagfræðinnar. Í faginu er einnig fjallað um hvað ákvarðar launadreifingu og áhrif stofnana vinnumarkaðar á laun og atvinnu.
Hagnýttar hagmælingar (HAG104M)
Markmið þessa námskeiðs er að gera nemendur hæfa í að tjá sig með einföldum hætti um hversdagslegar spurningar, sem fram koma umræðum um hagmál. Tekin eru fyrir málefni líðandi stundar, svo sem vísitölur, fjármögnun húsnæðis og lánamarkaðir. Nemendur eru þjálfaðir í að gera einfaldar skriflegar skýrslur, þar sem efni er lýst í texta, töflum og myndum. Kynnt verða tæki til framsetningar á texta, töflum, myndum og heimildum. Einföld reiknitæki verða ennfremur kynnt. Þá verða ræddar ýmsar gildrur, sem sem varast ber við mat á hagrænum samböndum. Haustið 2019 verður m.a. rætt um bayesískar aðferðir og tímaraðaaðferðir.
Almannavalsfræði (HAG405G)
Kenningum og aðferðum hagfræði er beitt hér á hegðun og ákvarðanatöku utan markaða. Grundvallarhugmyndir og tækjakista almannavalsfræðinnar eru kynntar og notkun líkana hagfræðinnar til greiningar á starfsemi stjórnmálanna og þjóðfélagsstofnanna. Aðferðum almannavalsfræðinnar eru notaðar til að skoða rökvísi einstaklingsvals og samvals, kosningahegðunar, samkeppni stjórnmálaflokka, samtaka og tilurðar samsteypa, og skipulags löggjafarstofnana. Þá er þeim aðferðum einnig beitt til greiningar á orsökum og afleiðingum vaxtar í starfsemi hins opinbera, hegðunar opinberra stofnanna, og þá eru hagræn rök takmarkanna á stærð og umfangi hins opinbera skoðuð.
Bankar og peningar (HAG409G)
Námskeiðið fjallar um hlutverk seðlabanka í hagstjórn, stjórntæki peningamála, miðlun aðgerða hans um fjármálamarkaðina og áhrif á hagkerfið, gengismál og alþjóðleg peningamál. Farið verður yfir helstu einkenni íslensks fjármálamarkaðar í samanburði við það sem þekkist erlendis, stiklað á stóru í sögu fjármagnsviðskipta og gert grein fyrir leiðni hagstjórnar í gegnum gengi og vexti. Einnig er um að ræða samspil stjórnar peningamála við aðra hagstjórn og stöðugleika fjármálakerfisins, svo og við ákvarðanir á vinnumarkaði. Þá skal fjalla um stjórnmálahagfræði tengda peningastjórn, svo sem varðandi skipulag ákvarðana í peningamálum. Markmiðið er veita yfirlit um tengsl hagstjórnar og fjármálamarkaða. Lögð er sérstök áhersla á að tengja kenningar peningamálahagfræðinnar við þau málefni sem efst eru á baugi í efnahags- og þjóðmálaumræðu á hverjum tíma, þannig að nemendur öðlist hagnýta fræðilega þekkingu á hagstjórn og peningamálum.
Umhverfishagfræði (UAU206M)
Í þessu námskeiði er fjallað um ýmsar veigamiklar hliðar umhverfishagfræði. Rætt er um efnahagslegt gildi umhverfisins, mismunandi not þess, kostnað við umhverfisrýrnun og svokallaða "græna" landsframleiðslu. Ennfremur er fjallað sérstaklega um land, landnotkun og landvirði. Þá er geta markaðskerfisins til að framkalla hagkvæma nýtingu umhverfisins rannsökuð, aðferðir til að lagfæra "mistök" í því efni skoðaðar og bornar saman við hugmyndir umhverfissinna.
Hagkerfi (HAG601M)
Í hagfræði er yfirleitt litið á fyrirtæki, markaði og hagkerfi sem gefnar stærðir og miðað við hefðbundnar ímyndir af þessum fyrirbærum. Í greininni Hagkerfi er skipulag og þróun atvinnulífsins helsta viðfangsefnið. Hagkerfi þróast—iðnbyltingar eiga sér stað—og á hverjum tíma er skipulag atvinnulífsins breytilegt frá einu landi til annars. Og ný tækni kallar yfirleitt á skipulagsbreytingar. Námskeiðið skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hluta er farið yfir ýmis fræðileg hugtök, svo sem hagfræði eignarréttar og áhrif viðskiptakostnaðar á skipulag fyrirtækja og gerð samninga. Fjallað er um áhrif óvissu og áhættu á ákvarðanir einstaklinga og hvernig vanþekking, stjórnmál og viðskiptakostnaður takmarka umbætur. Í öðrum hluta er fjallað um uppruna og þróun nútíma markaðshagkerfa á Vesturlöndum og þau öfl sem halda kerfunum gangandi. Einnig er vandi þróunarríkja skoðaður. Í þriðja og síðasta hluta er fjallað um hátækniþjóðfélag samtímans og þær breytingar sem tölvutækni, líftækni og aðrar tækninýjungar hafa í för með sér fyrir skipan eiganrréttar, gerð fyrirtækja, samninga, viðskipti, og dreifingu atvinnugreina milli landa. Einnig er fjallað um áhrif hinnar nýju tækni á mannlífið almennt, svo sem búsetu, nýjar tegundir afbrota og skipulag á vinnumarkaði.
Takið eftir að ætlast er til þess að nemendur komi lesnir í tíma og geti svarað spurningum og rætt texta dagsins.
Náttúruauðlindir og fiskihagfræði (HAG031M)
Markmið þessa námskeiðs er að kynna og útskýra hagræn grundvallarlögmál um nýtingu náttúruaðlinda. Hagkvæmasta nýting í kyrrstæðu og tímatengdu samhengi er leidd út. Ástæðurnar fyrir því að nýting náttúruauðlinda er iðulega ekki hagkvæm eru raktar og útskýrðar. Á þeim grundvelli er fjallað um hagkvæm stjórnkerfi fyrir nýtingu náttúruauðlinda. Hagfræði fiskveiða, orkulinda og umhverfisgæða er skoðuð sérstaklega. Beitt er greiningaraðferðum hagfræðinnar.
Inngangur að réttarhagfræði (HAG617M)
Markmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í réttarhagfræði, sem fjallar um hvernig setning og framkvæmd laga hefur áhrif á hagkerfið. Fjallað verður um helstu hugtök rekstrarhagfræðinnar, sem lögð eru til grundvallar í réttarhagfræðinni eins og verðmyndunarkerfið, mælikvarða á skilvirkni laga (Pareto og Kaldor-Hicks) og Coase kenninguna. Þá verður umfjöllun um helstu undirsvið réttarhagfræðinnar eins og eignarréttarhagfræði, bótaréttarhagfræði, samningaréttarhagfræði, samkeppnisréttarhagfræði og réttarfar og refsiréttarhagfræði. Eftirfarandi eru dæmi um viðfangsefni: Hvaða reglur vernda best réttindi? Hvaða aðstæður réttlæta inngrip ríkisins? Hefur úthlutun réttinda áhrif á skilvirkni framleiðslu í þjóðfélaginu eða getur framsal réttinda með frjálsum samningum aukið hana? Hver er kostnaðurinn og ábatinn, sem fylgir lagasetningu og athöfnum manna? Hvaða reglur lágmarka samfélagslegan kostnað á bótaskyldu tjóni? Hver er skilvirkni samningsbóta og riftunarreglna samninga? Er unnt að skipta ábata af samrunum á milli framleiðenda og neytenda? Er til þjóðhagslega hagkvæm brotatíðni? Hvenær eiga aðilar að leita sátta og hvenær sækja mál fyrir dómstólum? Ef tími leyfir verður einnig umfjöllun um atferlisréttarhagfræði, leikjafræði lögfræðinnar og hugmyndir manna um skilvirkni laga á þjóðveldisöld. Þrátt fyrir að hafa þróast innan lögfræðinnar, hafa margar af helstu kenningum réttarhagfræðinnar verið settar fram af hagfræðingum, eins og t.d. Nóbelsverðlaunahöfundunum Gary Becker, Ronald Coase, Oliver Hart, Elinor Ostrom og Oliver Williamson. Áhersla verður jöfnum höndum á fræðilegt inntak og hagnýtt gildi námsefnisins. Ætti námskeiðið að vekja áhuga allra, sem hafa áhuga á áhrifum laga og reglna á athafnir fólks og þjóðhagslegri hagkvæmni laga, og sérstaklega þeirra á sviði lögfræði, hagfræði, viðskiptafræði og stjórnmálafræði. Einungis er gert ráð fyrir þekkingu á stærðfræði, sem allir nemendur, sem skráðir eru í Háskóla Íslands ættu að uppfylla. Kennsla verður á íslensku.
Hagrannsóknir III (HAG606G)
Nútímaaðferðir í hagrannsóknum, sérstaklega meðferð á tímaröðum (time-series) og gögnum sem innihalda upplýsingar um dvalarlengd í ákveðnu ástandi (transition data, survival, reliability). Tengsl við áhættustjórnun kynnt. Einvíð og margvíð líkön fyrir samfelldan og sundurslitna tíma. Nemendur gera eigin verkefni og flytja um þau fyrirlestra. Áhersla verður á vinnu með gögn af fjármálamörkuðum. Æskilegar forkröfur eru grunnnámsskeið í tölfræði/hagrannsóknum og viss geta í tölvuvinnu með gögn.
Hafðu samband
Skrifstofa Hagfræðideildar
1. hæð í Gimli
Opið 10-12 og 13-15:30 virka daga
Sími 525 4500 Tölvupóstur: hagfraedi@hi.is eða nemFVS@hi.is
Bóka viðtal við nemenda- og kennsluþjónustu Félagsvísindasviðs
Hagfræðideild á samfélagsmiðlum
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.