Skip to main content

Háskólaráðsfundur 8. maí 2014

05/2014

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2014, fimmtudaginn 8. maí var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Jakob Ó. Sigurðsson boðaði forföll og varamaður hans einnig. Fundinn sátu einnig Elín Blöndal, Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver ráðsmaður teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Svo var ekki. Rektor lagði til að lið 8a yrði frestað og var það samþykkt. Að öðru leyti voru engar athugasemdir gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Miðvikudaginn 16. apríl var boðuðu verkfalli Félags háskólakennara frestað. Þriðjudaginn 6. maí sl. var tilkynnt að nýgerður kjarasamningur Félags háskólakennara hefði verið samþykktur í atkvæðagreiðslu með miklum meirihluta greiddra atkvæða (sjá einnig dagskrárlið 2a).
b) Guðrún Gísladóttir, prófessor í landfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hlaut nýverið Wahlberg-gullverðlaun sænska mann- og landfræðifélagsins (Svenska Sällskapet för Antropologi och Geografi, SSAG) fyrir vísindalegt framlag sitt á sviði landfræði. Guðrún tók við viðurkenningunni úr hendi Svíakonungs við hátíðlega athöfn í sænsku konungshöllinni 14. apríl sl.
c) Erla Kolbrún Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði, var útnefnd heiðursvísindamaður Landspítalans 2014 á ráðstefnunni Vísindi á vordögum 7. maí sl.
d) Ný Confocal smásjá var tekin í notkun að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra í húsnæði Lífvísindaseturs Háskóla Íslands í Læknagarði 23. apríl sl. Um afar mikilvægt rannsóknartæki er að ræða og verður lögð áhersla á það nýtist sem flestum í rannsóknaskyni innan og utan HÍ.
e) MBA-nám við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hlaut nýverið vottun frá Association of MBA’s (AMBA) sem eru óháð samtök sem hafa það að markmiði að efla gæði menntunar á sviði stjórnunar og reksturs. Forseti Viðskiptafræðideildar tók við viðurkenningarskjali vegna vottunarinnar við hátíðlega athöfn í París.
f) Úthlutað var þremur styrkjum úr Sjóði Sigríðar Lárusdóttur 6. maí sl., en tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga. Styrkina hlutu Eyþór Örn Jónsson læknir við Landspítala, Sigurbergur Kárason, yfirlæknir svæfinga- og gjörgæsludeildar á Landspítala og dósent við Háskóla Íslands, og Björn Guðbjörnsson, sérfræðingur í gigtarlækningum og prófessor við Háskóla Íslands.
g) Fyrir skömmu var haldinn samráðsfundur rektors með Stúdentaráði þar sem farið var yfir margvísleg sameiginleg málefni.
h) Að beiðni rektors Landbúnaðarháskóla Íslands fundaði rektor Háskóla Íslands í dymbilvikunni með honum og starfsmönnum Landbúnaðarháskólans á starfsstöðvum skólans á Hvanneyri, Keldnaholti og Reykjum.
i) Þriðjudaginn 29. apríl sl. var haldinn á Laugarvatni fræðslu- og samráðsfundur stjórnenda Háskóla Íslands. Fundarefni var sjálfsmat deilda, almennir lærdómar sem draga má af þeim og eftirfylgni.
j) Mánudaginn 12. maí nk. verður haldinn árlegur samráðsfundur Háskóla Íslands og Félags skólameistara framhaldsskóla, fimmtudaginn 15. maí nk. heldur rektor opinn fund með starfsfólki háskólans, miðvikudaginn 21. maí nk. verða afhentir doktorsstyrkir Háskóla Íslands og mánudaginn 26. maí nk. heimsækir Irina Bokova, aðalframkvæmdastjóri UNESCO, Háskóla Íslands og heldur fyrirlestur í Hátíðasal.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs.

a) Kjarasamningur Félags háskólakennara og fjármálaráðherra, dags. 16. apríl sl. ásamt breytingum á stofnanasamningi.
Fyrir fundinum lá viðauki við stofnanasamning Félags háskólakennara og Háskóla Íslands og gerði Guðmundur grein fyrir málinu. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og rektor spurningum fulltrúa í háskólaráði. Rektor þakkaði Guðmundi fyrir mikla og góða vinnu í tengslum við samningsgerðina.
– Viðauki við stofnanasamning Háskóla Íslands og Félags háskólakennara samþykktur einróma.

b) Kjarasamningar annarra félaga. Staða mála.
Guðmundur gerði grein fyrir stöðu mála varðandi kjarasamninga annarra félaga starfsmanna, þ. á m. Félags prófessora við ríkisháskóla. Málið var rætt.

c) Kjör og starfsskilyrði við Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 6. mars sl. Staða mála.
Guðmundur fór yfir gögn um kjör og starfsskilyrði við Háskóla Íslands, m.a. í evrópskum og norrænum samanburði. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum ráðsmanna. Í umræðunni var m.a. vikið að kostum og göllum núverandi framsetningar upplýsinga um fjármál og rekstur Háskóla Íslands, m.a. í samanburði við svokallað „full cost model“. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

3. Niðurstöður 12. háskólaþings 11. apríl 2014.
Rektor gerði grein fyrir niðurstöðum 12. háskólaþings sem haldið var 11. apríl sl., en á þinginu fór m.a. fram kjör þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa háskólasamfélagins í háskólaráð fyrir tímabilið 1. júlí 2014 til 30. júní 2016. Kosningu sem aðalmenn hlutu Ebba Þóra Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði,  Stefán Hrafn Jónsson, dósent við Félags- og mannvísindadeild á Félagsvísindasviði, og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði. Kosningu sem varamenn hlutu Hákon Hrafn Sigurðsson, dósent við Lyfjafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði, (varamaður fyrir Ebbu Þóru), Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Hornafirði (varamaður fyrir Stefán Hrafn) og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Kennaradeild á Menntavísindasviði (varamaður fyrir Eirík).

4. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Niðurstöður starfsumhverfiskönnunar við Háskóla Íslands, eftirfylgni.
Rektor gerði grein fyrir niðurstöðum starfsumhverfiskönnunar við Háskóla Íslands og eftirfylgni með henni, bæði miðlægt og á vettvangi fræðasviðanna. Málið var rætt.

5. Starfsnefndir háskólaráðs. Yfirlit.
Rektor gerði grein fyrir mögulegum formannsefnum fyrir starfsnefndir háskólaráðs, en skipunartími starfsnefndanna rennur út 30. júní nk. Málið var rætt.

6. Stofnun Rannsóknasetra Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands, og gerði ítarlega grein fyrir starfsemi og stjórn stofnunarinnar og setranna. Málið var rætt og svaraði Sæunn spurningum fulltrúa í háskólaráði.

7. Starf prófessors tengt nafni Jóns Sigurðssonar, sem Alþingi efndi til í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta 17. júní 2011 og 100 ára afmæli Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði, sem skipaður er í starf prófessors tengt nafni Jóns Sigurðssonar, og gerði grein fyrir starfinu. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum ráðsmanna.

8. Bókfærð mál.
a) Tillaga Verkfræði- og náttúruvísindasviðs að stofnun tveggja námsleiða til BS prófs í tæknifræði í Rafmagns- og tölvuverkfræðideild. [Nám sem fram fer á vettvangi Keilis].

– Frestað.

b) Tilnefning í stjórn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru Torfi Tulinius, prófessor við Íslensku- og menningardeild, Guðrún Þórhallsdóttur, dósent við Íslensku- og menningardeild, og Terry A. Gunnell, prófessor við Félags- og mannvísindadeild. Skipunartíminn er til fjögurra ára.
– Samþykkt.

c) Drög að samningi Háskóla Íslands og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands um eflingu samstarfs á sviði íþrótta.
– Samþykkt.

d) Drög að svari við erindi til háskólaráðs, dags. 23. apríl 2014.
– Samþykkt.

9. Mál til fróðleiks.
a) Ársreikningur Happdrættis Háskóla Íslands 2013.
b) Beiðni um undanþágu frá greiðslu fjármagnstekjuskatts fyrir styrktarsjóði Háskóla Íslands, bréf til mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 15. apríl 2014.
c) Skipun vísindasiðanefndar Háskóla Íslands.
d) Skipun erfðafræðinefndar Háskóla Íslands.
e) Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Norræna stjörnusjónaukans (NOT).
f) Fréttabréf Hugvísindasviðs, apríl 2014.
g) EUA Work Programme 2014/2015.
h) Minnisblað vegna nokkurra erinda til háskólaráðs.
i) Stjórn Háskólaútgáfunnar.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.55.