Skip to main content

Háskólaráðsfundur 3. febrúar 2011

02/2011

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2011, fimmtudaginn 3. febrúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Börkur Hansen, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hilmar B. Janusson, Margrét Arnardóttir (varamaður Fannars Freys Ívarssonar), Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þórður Sverrisson. Fundinn sat einnig Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.   Mál á dagskrá

1.1     Mál á döfinni.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi ráðsins og helstu málum á döfinni.
a)    Í fyrsta lagi minntist rektor Sólveigar Karvelsdóttur, lektors á Menntavísindasviði, sem lést 15. janúar sl.
b)    Þá fór rektor stuttlega yfir nokkra viðburði í upphafi aldarafmælis Háskóla Íslands. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hélt fjölsóttan hátíðarfyrirlestur um mannerfðafræði 15. janúar sl. Janúarmánuður var tileinkaður Heilbrigðisvísindasviði og gekkst sviðið m.a. fyrir stórri ráðstefnu og hádegisfyrirlestrum, auk þess sem stúdentar stóðu fyrir ýmsum viðburðum. Þá barst háskólanum fyrir skömmu gjöf í tilefni aldarafmælisins frá Félagi kvenna í læknastétt, Læknafélagi Íslands, Læknafélagi Reykjavíkur og Félagi áhugamanna um sögu læknisfræðinnar. Gjöfin er málverk af Kristínu Ólafsdóttur eftir Guðmund Karl Ásbjörnsson, en Kristín var fyrsta konan sem hóf nám við Háskóla Íslands árið 1911 og jafnframt fyrsta konan sem lauk námi við skólann með því að taka læknapróf árið 1917. Nýlega var undirritaður samningur HÍ og Þjóðminjasafns Íslands sem felur m.a. í sér að stúdentar fá ókeypis aðgang að safninu á afmælisárinu og haldin verður hádegisfyrirlestraröð í samstarfi safnsins og Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum. Einnig er hafið samstarf HÍ og Ferðafélags Íslands um röð gönguferða undir leiðsögn vísindamanna skólans og starfsmanna Ferðafélagsins. Efnafræðingafélag Íslands og Námsbraut í efnafræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið gengust fyrir hátíð 14. janúar sl. í tilefni af því að 2011 er alþjóðlegt ár efnafræðinnar.
c)    Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Jarðvísindadeild við hátíðlega athöfn 22. janúar sl.
d)    Haldin var fjölsótt japönsk hátíð á Háskólatorgi 29. janúar sl., en slíkar hátíðir hafa verið haldnar árlega frá 2005.
e)    Rektor HÍ og Guðrún Gísladóttir, framkvæmdastjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, undirrituðu nýlega samstarfsamning sem felur m.a. í sér að sérfræðingar Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar, læknar og talmeinafræðingar, koma að kennslu í meistaranámi í talmeinafræðum við HÍ á næstu tveimur árum.
f)    Fyrir skömmu var undirritaður samningur á milli HÍ og stjórnar Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda um að háskólinn verði bakhjarl keppninnar með margvíslegum stuðningi. Í tilefni aldarafmælisins verður 10 stigahæstu keppendunum veitt gjafabréf í Háskóla unga fólksins sumarið 2012.
g)    Gæðaráð háskóla skipað erlendum sérfræðingum tók nýlega til starfa. Með því flyst umsjón ytra gæðaeftirlits með íslenskum háskólum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til óháðs faglegs aðila sem mun hafa aðsetur hjá Rannís. Samhliða gæðaráðinu starfar innlend samráðsnefnd. Fyrsti sameiginlegi fundur ráðsins og nefndarinnar var haldinn 14. janúar sl. Nýskipan gæðamála verður kynnt á fundi háskólaráðs í mars nk.
h)    Rektor sótti nýlega fund ráðs Evrópusamtaka háskóla (e. European University Association, EUA) í Brüssel, þar sem sérstaklega var fjallað um samstarf á sviði doktorsnáms, fjármögnun doktorsnámsskóla í gegnum sjóði Evrópusambandsins, samstarf evrópskra háskóla á sviði orkurannsókna og framlag þeirra til nýsköpunar.
i)    Rektor hefur í kjölfar fundar háskólaráðs 17. desember sl. skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að gera tillögu um skilgreiningu stjórnunarhluta starfs akademískra starfsmanna. Í hópnum eiga sæti þau Jóhannes Rúnar Sveinsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, formaður, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri framkvæmda og reksturs, Gunnar J. Gunnarsson, lektor við Menntavísindasvið, Inga Þórsdóttir, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið, Sólveig Bachmann, lögræðingur starfsmannasviðs, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, dósent við Félagsvísindasvið og fulltrúi í háskólaráði og Vilhjálmur Árnason, prófessor við Hugvísindasvið.
j)    Helstu viðburðir framundan eru Háskóladagurinn 19. febrúar nk., brautskráning kandídata 26. febrúar nk. og loks verður marsmánuður tileinkaður afmælisdagskrá Hugvísindasviðs.

1.2        Fjármál Háskólans.
a) Bráðabirgðauppgjör Háskóla Íslands 2010.
b) Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2011, sbr. síðasta fund.

Inn á fundinn kom Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerði grein fyrir framlögðu bráðabirgðauppgjöri HÍ fyrir árið 2010 og fjárhagsáætlun fyrir árið 2011. Málið var rætt ítarlega og svaraði Sigurður spurningum ráðsmanna.
- Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2011 samþykkt einróma.

1.3        Samstarf opinberra háskóla, sbr. fund ráðsins 2. desember sl.
Inn á fundinn kom Ásta Bjarnadóttir, forstöðumaður innlendra háskólasamskipta HÍ og starfsmaður verkefnisstjórnar um samstarf opinberra háskóla. Rektor gerði grein fyrir forsendum málsins, þ. á m. skipan verkefnisstjórnar mennta- og menningarmálaráðherra um samstarf opinberu háskólanna, dags. 12. ágúst 2010. Markmið er að efla háskólakennslu, rannsóknir og nýsköpun, hagræða í rekstri háskólanna og halda uppi öflugri og fjölbreyttri háskólastarfsemi víðs vegar á landinu. Ásta gerði nánari grein fyrir starfi verkefnisstjórnar og samstarfshópa háskólanna. Málið var rætt ítarlega og svöruðu rektor og Ásta spurningum ráðsmanna.

1.4        Málefni Orkuskólans RES.
Frestað.

1.5        Bílastæði á háskólalóð.
Inn á fundinn kom Ingjaldur Hannibalsson, prófessor og formaður skipulagsnefndar háskólaráðs, og gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um bílastæði á lóð HÍ. Málið var rætt ítarlega og svaraði Ingjaldur spurningum ráðsmanna.

1.6    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra reglna og breytts skipulags Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir tillögum a), b) og d), en Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir tillögu c).

a) Reglur um meistara- og doktorsnám í lýðheilsuvísindum, sbr. síðasta fund.  
- Samþykkt einróma.

b) Reglur um meistara- og doktorsnám í umhverfis- og auðlindafræði, sbr. síðasta fund.  
- Samþykkt einróma.

c) Breyting á 56. og 57. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 um próf, sbr. fund ráðsins 4. nóvember sl. Sameiginleg tillaga frá kennslumálanefnd og gæðanefnd ásamt breytingartillögu rektor.
Málið var rætt.
- Tillaga kennslumálanefndar og gæðanefndar samþykkt einróma með þeim breytingum sem rektor lagði til.

d) Breyting á reglum um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna á Landspítala og veitingu akademískra nafnbóta.
- Samþykkt einróma.

1.7    Stjórnir, nefndir og ráð.
a) Úthlutunarnefnd styrkja úr Háskólasjóði Eimskipafélagsins 2011-2013.
Rektor bar upp tillögu um að úthlutunarnefnd Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands verði skipuð eftirtöldum einstaklingum: Sigrúnu Aðalbjarnardóttur, prófessor við Menntavísindasvið, sem verði formaður (varamaður hennar verði Börkur Hansen, prófessor við Menntavísindasvið og varaforseti háskólaráðs), Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra í Garðabæ (varamaður hans verði Sigrún Stefánsdóttir, dagskrárstjóri hjá Ríkisútvarpinu), Ingibjörgu Harðardóttur, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið (varamaður hennar verði Valgerður Andrésdóttir, vísindamaður á Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum), Helgu M. Ögmundsdóttur, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið og formanni vísindanefndar háskólaráðs (varamaður hennar verði Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands), Ragnheiði Ingu Þórarinsdóttur, yfirverkefnisstjóri hjá Orkustofnun (varamaður hennar verði Sigríður Valgeirsdóttir, sérfræðingur hjá NimbleGen Systems of Iceland) og Sveini Yngva Egilssyni, prófessor við Hugvísindasvið (varamaður hans verði Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor við Hugvísindasvið). Nefndin er skipuð til tveggja ára.
- Samþykkt einróma.

b) Miðstöð framhaldsnáms.
Rektor bar upp tillögu um að núverandi fyrirkomulag stjórnar Miðstöðvar framhaldsnáms verði framlengt um eitt ár, til 31. janúar 2012. Málið var rætt og svaraði Jón Atli spurningum ráðsmanna.
- Samþykkt einróma.

c) Samráðsnefnd um kjaramál.
Rektor greindi frá því að Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, sviðsstjóri starfsmannasviðs, taki aftur sæti í samráðsnefnd háskólaráðs um kjaramál í stað Guðmundar Ragnarssonar, sem verið hefur staðgengill hennar.

2.    Mál til fróðleiks

2.1    Úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands fyrir árið 2011.

3.    Önnur mál

3.1    Erindi frá Valdimar Briem.
Rektor gerði stuttlega grein fyrir erindi frá Valdimar Briem sem er í vinnslu hjá starfsmannasviði og lögfræðingi HÍ.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.