Skip to main content

Háskólaráðsfundur 27. ágúst 2009

07/2009

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2009, fimmtudaginn 27. ágúst var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 14.00.

Fundinn sátu Kristin Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Hilmar B. Janusson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.     Mál á dagskrá

1.1    Helstu verkefni framundan í starfi Háskóla Íslands. Funda- og starfsáætlun háskólaráðs 2009-2010.
Fjallað var um liði 1.3 og 1.4 undir þessum dagskrárlið. Rektor fór yfir verkefni umliðins starfsárs, helstu verkefni framundan og funda- og starfsáætlun háskólaráðs veturinn 2009-2010. Þá fór rektor yfir helstu tillögur starfshópa menntamálaráðherra um málefni háskólastigsins, skýrði frá viðræðum sínum við rektora íslenskra háskóla og lýsti hugmyndum sínum um málið. Í þessu sambandi vék rektor einnig að tillögum nefndar um fýsileika sameiningar Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega. Settu nokkrir ráðsmenn fram ábendingar um viðbætur við starfsáætlunina. Málið verður áfram á dagskrá á næsta fundi.

Þegar hér var komið sögu þurfti Hilmar B. Janusson að víkja af fundi.

1.2    Fjármál Háskólans
a)  Fjárhagsstaða Háskólans 2009, yfirlit eftir sjö mánuði.
b)  Niðurskurður fjárveitinga 2010.
c)  Stuðningur við öfluga rannsóknahópa.

Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerðu grein fyrir framlögðu yfirliti um rekstur Háskóla Íslands á tímabilinu frá janúar til júlí 2009, væntanlegan niðurskurð fjárveitinga fyrir árið 2010 og mögulegar leiðir til frekari hagræðingar í rekstri skólans. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þeir Guðmundur og Sigurður spurningum ráðsmanna. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.
Rektor og Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi sérstakan stuðning við öfluga rannsóknahópa sem gert er ráð fyrir í Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011. Málið var rætt og svöruðu rektor og Jón Atli spurningum ráðsmanna.
    
1.3    Háskólastigið. Umfjöllun um endurskoðun.
Fjallað var um þetta mál undir dagskrárlið 1.1.

1.4    Nefnd um fýsileika sameiningar Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands. Staða mála.
Fjallað var um þetta mál undir dagskrárlið 1.1.

1.5    Úttektir á starfsemi Háskóla Íslands.
Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri Háskólans, gerði grein fyrir framlögðu yfirliti um úttektir á starfsemi Háskóla Íslands á tímabilinu 2007-2010. Málið var rætt ítarlega og svaraði Magnús Diðrik spurningum ráðsmanna. Fyrir fundinum lá tillaga um að framvegis fari að jafnaði fram ytra og innra mat á nýjum námsleiðum og námsbrautum fimm árum eftir að þeim er hleypt af stokkunum.
- Samþykkt einróma.

1.6    Doktorsvarnir og veiting doktorsnafnbóta í heiðurs skyni.
Til umræðu á næsta fundi.

2.    Erindi til háskólaráðs

2.1    Stjórnir, nefndir og ráð:
a) Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala.
Rektor bar upp tillögu um að hugverkanefnd Háskóla Íslands verði skipuð þeim Karli Guðmundssyni, dósent við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, tilnefndum af rektor, sem verði formaður, Sigríði Ólafsdóttur lífefnafræðingi, tilnefndri af rektor og Kristjáni Erlendssyni, framkvæmdastjóra vísinda-, mennta- og gæðasviðs Landspítala og dósent við Læknadeild, tilnefndum af forstjóra Landspítala. Stjórnin er skipuð til tveggja ára frá 1. september 2009 að telja.
- Samþykkt einróma.

b) Stjórn Reiknistofnunar Háskólans.
Rektor bar upp tillögu um að stjórn Reiknistofnunar Háskólans verði skipuð þeim Helga Þorbergssyni, dósent við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, tilnefndum af rektor, sem verði formaður, Vilborgu Lofts rekstrarstjóra, tilnefndri af Heilbrigðisvísindasviði, Arnfríði Guðmundsdóttur, prófessor í guðfræði, tilnefndri af Hugvísindasviði, Sigurði Jónssyni forstöðumanni Menntasmiðju, tilnefndum af Menntavísindasviði og Elínborgu Ingunni Ólafsdóttur dósent, tilnefndri af Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Tilnefning hafði ekki borist frá Félagsvísindasviði. Stjórnin er skipuð til þriggja ára frá 1. september 2009 að telja.
- Samþykkt einróma. Rektor falið að ganga frá skipun stjórnar Reiknistofnunar Háskólans að fenginni tilnefningu Félagsvísindasviðs.

c) Stjórn Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni.
Rektor bar upp tillögu um að Stjórn Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni verði skipuð þeim Hrefnu Friðriksdóttur lektor, tilnefndri af Lagadeild, sem verði formaður, Sigrúnu Júlíusdóttur prófessor, tilnefndri af Félagsráðgjafardeild, Vilhjálmi Árnasyni prófessor, tilnefndum af Hugvísindasviði, Erlu Kolbrúnu Svavarsdóttur prófessor, tilnefndri af Heilbrigðisvísindasviði og Guðrúnu Kristinsdóttur prófessor, tilnefndri af Menntavísindasviði. Stjórnin er skipuð til þriggja ára frá 1. september 2009 að telja.
- Samþykkt einróma.

2.2        Tillögur að breytingum á reglum og að nýjum reglum.
a) Tillaga frá Heilbrigðisvísindasviði:
- um takmörkun á fjölda nemenda í hjúkrunarfræði og hvernig staðið verður að vali þeirra sem teknir verða í námið á vormisseri 2010. Viðbót við reglur nr. 318/2009.

Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega.
- Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs um takmörkun á fjölda nemenda sem komast áfram á vormisseri á 1. námsári við 120 og um aðferð við val þeirra sem teknir verða í námið á vormisseri 2010 samþykkt einróma.

3.      Mál til fróðleiks

3.1    Árbók Háskóla Íslands 2008.

3.2    Úthlutun úr Tækjakaupasjóði 2009.

3.3    Ræða rektors við brautskráningu kandídata laugardaginn 20. júní 2009.

3.4    Handbók nýnema, bæklingar á íslensku og ensku, útgefnir í ágúst 2009.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 17.00.