09/2009
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2009, fimmtudaginn 1. október var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Ellý Katrín Guðmundsdóttir (varamaður Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur), Gunnlaugur Björnsson, Heiðar Örn Stefánsson (varamaður Gunnars Einarssonar), Hörður Arnarson (varamaður Hilmars B. Janussonar), Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Silja Aðalsteinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir (varamaður Önnu Agnarsdóttur) og Þórður Sverrisson. Einnig sat fundinn Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.
Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor stuttlega frá þremur viðburðum á milli funda ráðsins. Í fyrsta lagi var haldin Vísindavaka Rannís í Hafnarhúsinu föstudaginn 25. september sl. Vísindavakan var mjög vel sótt og tók stór hópur vísindamanna, stúdenta og annarra starfsmanna þátt í henni fyrir hönd Háskóla Íslands. Í öðru lagi greindi rektor frá því að undirritaður hefði verið samstarfssamningur á milli Háskóla Íslands og Virginia Tech háskóla í Bandaríkjunum. Samningurinn felur m.a. í sér að tveir stúdentar frá Háskóla Íslands fá námssæti við Virginia Tech án þess að greiða skólagjöld. Í þriðja lagi átti sér stað sá viðburður að sprotafyrirtækið Oxymap veitti styrk til að kosta starf vísindamanns á sviði augnlæknisfræði við Háskóla Íslands.
Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.
1. Mál á dagskrá
1.1 Fjármál Háskólans. Staða mála og aðgerðir vegna niðurskurðar fjárveitinga.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs og gerði ásamt rektor grein fyrir stöðu mála varðandi fjármál Háskóla Íslands og aðgerðir vegna niðurskurðar fjárveitinga til Háskólans. Í máli þeirra kom m.a. fram að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar yrði birt í dag kl. 16.00 og lægi því ekki fyrir fundinum. Þakkaði rektor stúdentum fyrir tillögur að leiðum til niðurskurðar sem þeir lögðu fram á síðasta fundi. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þau rektor og Guðmundur spurningum ráðsmanna.
1.2 Viðmið um veitingu heiðursdoktorsnafnbóta, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir framlögðum drögum að viðmiðum um veitingu heiðursdoktorsnafnbóta. Málið var rætt ítarlega og komu fram tillögur um fáeinar breytingar
- Framlögð viðmið um veitingu heiðursdoktorsnafnbóta við Háskóla Íslands samþykkt einróma með fáeinum breytingum.
1.3 Viðbrögð Háskóla Íslands við skilagrein rýnihóps um aðgerðir í háskóla- og vísindamálum, dags. 27. ágúst 2009, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lágu drög að viðbrögðum Háskóla Íslands við skilagrein rýnihóps menntamálaráðherra um aðgerðir í háskóla- og vísindamálum. Viðbrögðin byggja á bókun háskólaráðs á síðasta fundi. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Óskaði rektor eftir því að fulltrúar í háskólaráði sendi sér athugasemdir og ábendingar fyrir kl. 14, föstudaginn 2. október nk. og að gengið yrði frá skjalinu að teknu tilliti til aðsendra athugasemda auk ábendinga sem fram komu á fundinum.
1.4 Tillaga um tilfærslu starfsþátta á grundvelli árangurs í rannsóknum.
Fyrir fundinum lá tillaga starfshóps formanna starfsnefnda háskólaráðs, forseta fræðasviða og fulltrúa frá félögum kennara að reglum um tilfærslu starfsþátta akademískra starfsmanna. Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Lýstu ráðsmenn ánægju með tillögurnar.
- Samþykkt einróma.
1.5 Viðbrögð fræðasviða við skýrslum matsnefnda vegna viðurkenningar fræðasviða og heimildar til að bjóða doktorsnám.
Fyrir fundinum lá yfirlit um ábendingar í matsskýrslum sérfræðinganefnda vegna umsóknar um viðurkenningu fræðasviða Háskóla Íslands og umsóknar um heimild til að bjóða doktorsnám, sbr. lög um háskóla nr. 63/2006, viðbrögð fræðasviðanna við þeim og umsögn gæðanefndar. Rektor og Magnús Diðrik gerðu grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom m.a. að fjögur fræðasvið brugðust við ábendingum í matsskýrslum sérfræðinganefndanna, en beðið er eftir viðbrögðum Félagsvísindasviðs. Lýstu ráðsmenn ánægju sinni með framlag gæðanefndar og gæðastjóra og töldu það góðan vitnisburð um virkt gæðastarf Háskólans.
- Háskólaráð beinir því til fræðasviða Háskólans að þau taki mið af umsögn gæðanefndar og skili nefndinni fyrir áramót ítarlegri markmiða- og tímasettri áætlun um viðbrögð við ábendingum í matsskýrslum sérfræðinganefndanna.
2. Erindi til háskólaráðs
2.1 Stjórnir, nefndir og ráð:
a) Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands
Rektor lagði til að stjórn Happdrættis Háskóla Íslands verði skipuð þeim Eyvindi G. Gunnarssyni, lektor við Lagadeild Félagsvísindasviðs, Ebbu Þóru Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og Óskari Magnússyni, hrl. og útgefanda. Stjórnin skiptir með sér verkum og er skipunartími hennar til 31. október 2010.
- Samþykkt einróma.
b) Fulltrúi Læknadeildar í stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
- Rektor falið að skipa fulltrúa tilnefndan af Læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs í stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Fulltrúinn komi í stað Stefáns B. Sigurðssonar sem hefur tekið við starfi rektors Háskólans á Akureyri.
c) Vísindanefnd háskólaráðs. Nýskipan nefndarinnar.
Vísindanefnd er skipuð til þriggja ára. Í nefndinni er einn fulltrúi frá hverju fræðasviði, einn fulltrúi stúdenta og formaður sem rektor tilnefnir. Fulltrúar fræðasviða eru tilnefndir af rektor að höfðu samráði við forseta fræðasviða. Stúdentaráð Háskóla Íslands tilnefnir fulltrúar stúdenta og skal hann vera doktorsnemi. Auk þess tilnefnir rektor árlega til viðbótar allt að tvo fulltrúa vegna mikils vinnuálags við úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskólans. Rektor bar upp tillögu um að vísindanefnd verði skipuð eftirtöldum fulltrúum:
Skipuð til 1. september 2011: Helga Ögmundsdóttir, prófessor við Læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs, sem verði formaður, Steinunn Gestsdóttir, lektor í Uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs og Svandís Nína Jónsdóttir, doktorsnemi í Stjórnmálafræðideild Félagsvísindasviðs.
Viðbótarfulltrúar skipaðir til 1. september 2010: Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild Heilbrigðisvísindasviðs og Jóhannes Rúnar Sveinsson, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.
Áður voru skipuð af háskólaráði til 1. september 2011: Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður á Jarðvísindastofnun, Jón Gunnar Bernburg, dósent við Félags- og mannvísindadeild Félagsvísindasviðs, Herdís Sveinsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs og Svavar Hrafn Svavarsson, dósent við Sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs.
- Samþykkt einróma.
d) Skipulagsnefnd
Rektor bar upp tillögu um að skipulagsnefnd verði skipuð þeim Ingjaldi Hannibalssyni, prófessor við Viðskiptafræðideild Félagsvísindasviðs, sem verði formaður, Helgu Bragadóttur arkitekt, Hrund Ólöfu Andradóttur, dósent við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og Ingu Jónu Þórðardóttur, viðskiptafræðingi. Nefndin er skipuð til þriggja ára.
- Samþykkt einróma.
e) Öryggisnefnd
Rektor bar upp tillögu um að fulltrúar háskólaráðs í öryggisnefnd verði þau Sigríður Jónsdóttir, fræðimaður á Raunvísindastofnun og Sveinbjörn Gizurarson, prófessor við Lyfjafræðideild Heilbrigðisvísindasviðs. Nefndin kýs sér sjálf formann og er hún skipuð til tveggja ára, sbr. 6. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
- Samþykkt einróma.
2.2 Inntaka í framhaldsnám á vormisseri 2010.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson og gerði grein fyrir framlagðri tillögu um inntöku í framhaldsnám á vormisseri 2010.
- Samþykkt einróma að deildir geti heimilað innritun í meistaranám á vormisseri 2010 með umsóknarfresti 15. október 2009.
3. Mál til fróðleiks
3.1 Bréf menntamálaráðherra, dags. 14. september sl., þar sem Háskóla Íslands er veitt heimild til þess að bjóða upp á doktorsnám á fræðasviðum félagsvísinda og heilbrigðisvísinda, sbr. umsókn Háskóla Íslands 9. nóvember 2008.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.55.