03/2012
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2012, fimmtudaginn 1. mars var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl 13.
Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hilmar B. Janusson, Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. Þórður Sverrisson boðaði forföll. Magnús Diðrik Baldursson ritaði fundargerð.
Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.
1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor greindi frá nokkrum viðburðum frá síðasta fundi ráðsins og framundan.
- Háskóladagurinn var haldinn 18. febrúar sl. og lagði mikill fjöldi fólks leið sína á háskólalóðina til að kynna sér nám og starf Háskóla Íslands. Í tilefni af háskóladeginum kom út veglegt Tímarit Háskóla Íslands.
- Brautskráning kandídata fór fram í Háskólabíói 25. febrúar sl. og brautskráðust nærri 500 kandídatar að þessu sinni.
- Rektor fundaði fyrir skömmu með ræðismanni Póllands á Íslandi um háskólamenntun pólskra innflytjenda og samskipti við pólska háskóla.
- Fyrir skömmu færði Gang Chen, eftirlifandi maki Jóns Ma. Ásgeirssonar prófessors sem lést nýlega fyrir aldur fram, Háskóla Íslands að gjöf steindan glugga með myndstefi sem sótt er til Tómasar sögu postula og Tómasarguðspjalls.
- Undirritaður var nýlega samstarfssamningur milli Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands um doktorsnám.
- Rektor og forstjóri Krabbameinsfélags Íslands undirrituðu nýlega yfirlýsingu um viðamikla rannsókn á heilsufari Íslendinga. Rannsóknin verður hluti af alþjóðlegu rannsóknasamstarfi undir stjórn Hans Olov Adami, prófessors í faraldsfræði við Harvard School of Public Health, en íslenskum hluta rannsóknarinnar stýrir Unnur Anna Valdimarsdóttir, dósent í faraldsfræði og forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands.
- Nýlega veitti Glaxo Smith Kline styrk að fjárhæð ein milljón evrur (u.þ.b. 165 m. kr.) til rannsóknahóps læknadeildar HÍ og LSH vegna rannsókna á faraldsfræði baktería (pneumokokka) sem valda m.a. lungnabólgu, eyrnabólgu og heilahimnubólgu. Rannsóknin er undir forystu Ásgeirs Haraldssonar, prófessors og yfirlæknis á Barnaspítala Hringsins, Karls Kristinssonar, prófessors, og Helgu Erlendsdóttur, klínisks prófessors.
- Ýmsir viðburðir eru framundan við Háskóla Íslands, m.a. verður haldið háskólaþing 20. apríl nk. og á næstu vikum mun rektor heimsækja allar deildir háskólans og funda með starfsfólki.
- Rektor greindi frá því að ný sprotafyrirtæki nemenda og kennara við Háskóla Íslands hafa skapað um 150 ný störf og veltu sem nemur á annan milljarð króna. Til viðbótar við þennan árangur eru fjölmörg sóknarfæri á sviði hagnýtingar hugverka innan Háskóla Íslands og að koma hagnýtanlegum hugmyndum á framfæri við atvinnulíf. Verður nánar fjallað um þetta mál á næsta fundi háskólaráðs.
2. Fjármál Háskóla Íslands.
a) Fjárlagagerð 2013.
Fyrir fundinum lá bréf rektors til mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 16. febrúar sl., vegna fjárlagagerðar fyrir árið 2013. Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svaraði Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði.
b) Gjaldskrá Háskóla Íslands vegna þjónustu við nemendur.
Fyrir fundinum lágu tillögur fjármálasviðs og kennslusviðs um gjaldskrá Háskóla Íslands vegna þjónustu við nemendur. Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir tillögunum. Málið var rætt.
- Samþykkt samhljóða, en fulltrúar stúdenta sátu hjá. Verklagsreglur um innheimtu skrásetningargjalds verða uppfærðar til samræmis.
3. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Endurskoðuð drög að sjálfbærni- og umhverfisstefnu Háskóla Íslands, sbr. umfjöllun á háskólaþingi 9. desember 2011.
Fyrir fundinum lágu endurskoðuð drög að sjálfbærni- og umhverfisstefnu Háskóla Íslands. Inn á fundinn kom Allyson Macdonald, prófessor og formaður starfshóps um gerð sjálfbærni- og umhverfisstefnunnar, og Sigurlaug I. Lövdahl, skrifstofustjóri á framkvæmda- og tæknisviði og fulltrúi í starfshópnum, og gerðu grein fyrir stefnudrögunum. Auk þeirra Allyson og Sigurlaugar áttu sæti í starfshópnum Karl Benediktsson prófessor, Kristín Þóra Jökulsdóttir nemandi og Ólafur Páll Jónsson dósent. Við frágang stefnudraganna var m.a. byggt á umhverfisstefnu erlendra háskóla, viðtölum við fjölda starfsmanna og stúdenta háskólans, umræðum á háskólaþingi og í háskólaráði og umsögnum fjölmargra aðila innan Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svöruðu Allyson og Sigurlaug spurningum og athugasemdum ráðsmanna.
- Háskólaráð staðfestir sjálfbærni- og umhverfisstefnu Háskóla Íslands, sem er hluti af Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016. Skipuð verði nefnd sem hafi það verkefni að fylgja eftir framkvæmd sjálfbærni- og umhverfisstefnunnar, í samráði við fræðasvið, aðrar starfseiningar háskólans og Stúdentaráð. Um framkvæmd stefnunar í einstökum liðum fer eftir fjárhag skólans hverju sinni.
4. Tölulegar upplýsingar um starfsfólk Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, sviðsstjóri starfsmannasviðs, og gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um aldursskiptingu og nýliðun akademískra starfsmanna Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svaraði Guðrún spurningum fulltrúa í háskólaráði.
5. Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra reglna og breytts skipulags Háskóla Íslands.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir tillögunum.
a) Reglur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands um meistaranám.
- Samþykkt einróma.
b) Þverfræðilegt diplómanám í áfallastjórnun (30 einingar) á framhaldsstigi í Stjórnmálafræðideild Félagsvísindasviðs.
- Samþykkt einróma með fyrirvara um að styrkur fáist til að fjármagna tvö ný námskeið á námsleiðinni.
6. Nefndir, stjórnir og ráð.
Rektor gerði grein fyrir málinu.
a) Stjórn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands.
Rektor bar upp tillögu um að stjórn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands til næstu þriggja ára verði skipuð þeim Bjarna Bessasyni, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Eyvindi G. Gunnarssyni, dósent við Félagsvísindasvið, Ingvari Sigurgeirssyni, prófessor við Menntavísindasvið, Oddnýju G. Sverrisdóttur prófessor við Hugvísindasvið, og Vilborgu Lofts, rekstrarstjóra Heilbrigðisvísindasviðs. Formaður stjórnar verði Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent við Hugvísindasvið.
- Samþykkt einróma.
b) Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands.
- Frestað.
c) Fastadómnefndir fræðasviða um framgang, skv. reglum nr. 263/2010, með áorðnum breytingum.
- Háskólaráð staðfestir fyrri tilnefningar (sbr. fund ráðsins 7. október 2010) í einstakar fastadómnefndir fræðasviða, sbr. 4. gr. reglna um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands nr. 263/2010, með áorðnum breytingum. Nefndirnar voru skipaðar frá 22. nóvember 2010 til þriggja ára, þ.e. til nóvemberloka 2013. Sú skipan gildir áfram.
7. Málefni fræðasviða Háskóla Íslands. Jón Torfi Jónasson, forseti Menntavísindasviðs mætir á fundinn.
Inn á fundinn kom Jón Torfi Jónasson, forseti Menntavísindasviðs, og greindi frá stöðu mála og helstu áherslum í starfi fræðasviðsins og deilda og stofnana þess. Málið var rætt og svaraði Jón Torfi spurningum ráðsmanna.
8. Umsögn Háskóla Íslands um frumvarp að breytingum á lögum um háskóla nr. 63/2006.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Umsögn Háskóla Íslands um frumvarp að breytingum á lögum um háskóla nr. 63/2006 var borin undir ráðsmenn og afgreidd á milli funda ráðsins.
9. Upplýsingamiðlun.
- Frestað.
10. Mál til fróðleiks.
- Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands um doktorsnám, 9. febrúar 2012.
- Ræða rektors við brautskráningu kandídata laugardaginn 25. febrúar 2012.
- Tímarit Háskóla Íslands.
- Úthlutun úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Scheving Thorsteinssonar 21. febrúar 2012.
- Yfirlýsing um áform um Heilsusögubanka Íslendinga (The SAGA Cohort) – ferilrannsókn Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands, 28. febrúar 2012.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.20.