07/2016
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2016, fimmtudaginn 2. júní var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Davíð Þorláksson (varamaður fyrir Áslaugu Friðriksdóttur), Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Iðunn Garðarsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Kjartan Þór Eiríksson (varamaður fyrir Margréti Hallgrímsdóttur), Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver vildi gera athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Iðunn Garðarsdóttir tók ekki þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 7. Rektor lagði til að liður 10c undir „bókfærðum málum“ yrði ræddur og var það samþykkt.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a) Rekstraryfirlit Háskóla Íslands fyrstu fjóra mánuði ársins 2016.
Inn á fundinn kom Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. Fyrir fundinum lá yfirlit um rekstur Háskóla Íslands fyrstu fjóra mánuði ársins 2016 og gerði Jenný Bára grein fyrir því. Málið var rætt og svaraði hún spurningum fulltrúa í háskólaráði.
b) Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021, sbr. síðasta fund. Drög að mögulegri ályktun verða send út eftir helgi. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi ályktun:
„Háskólastarfi á Íslandi stefnt í voða
Háskólaráð Háskóla Íslands lýsir miklum vonbrigðum með að háskólar verði skildir eftir í þeirri sókn til uppbyggingar innviða íslensks samfélags sem fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021 felur í sér. Þar er gert ráð fyrir verulegri heildarútgjaldaaukningu en það sama á engan veginn við um fjárveitingar til háskóla- og rannsóknastarfs.
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er að finna eftirfarandi um Háskóla Íslands: „Fylgt verður ákvæðum samnings um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands sem komið var á fót árið 2011 í víðtækri sátt.“ Aldarafmælissjóður hefur það meginmarkmið að tekjur Háskóla Íslands verði sambærilegar við tekjur háskóla á öðrum Norðurlöndum.
Ítrekað hefur réttilega komið fram í orðum mennta- og menningarmálaráðherra að háskólastigið á Íslandi sé verulega vanfjármagnað. Þetta staðfestir samanburður við háskóla á Norðurlöndum og skýrslur OECD um fjármögnun háskólanáms með óyggjandi hætti.
Í samþykktri stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs, sem lýtur formennsku forsætisráðherra og þar sem sex aðrir ráðherrar eiga sæti, segir að framlag á hvern háskólanema skuli vera sambærilegt við það sem gerist á Norðurlöndum árið 2020. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021 er ekkert sem styður við þessa samþykkt, nema ætlunin sé að fækka nemendum sem eiga kost á háskólanámi hérlendis um mörg þúsund og halda fjárveitingum óbreyttum og/eða hefja almenna töku skólagjalda. Ef ætlunin er að fara þessa leið er það meiri háttar stefnubreyting sem hlýtur að kalla á upplýsta umræðu um möguleika nemenda til háskólanáms hérlendis og þarfir íslensks atvinnulífs og samfélags á 21. öld. Slík umræða hefur ekki farið fram.
Í fjárhagsáætlun Háskóla Íslands sem staðfest var af mennta- og menningarmálaráðuneytinu í febrúar sl. er gert ráð fyrir 300 m.kr. rekstrarhalla á yfirstandandi ári. Því er ljóst að starfsemi Háskólans hvílir á mjög veikum fjárhagslegum grunni og er henni stefnt í bráða hættu nema til komi auknar fjárveitingar. Á þetta var bent í vandaðri matsskýrslu um Háskólann sem alþjóðlegur sérfræðingahópur á vegum Gæðaráðs háskóla sendi frá sér sl. vor. Þessi staðreynd er stjórnvöldum kunn.
Fyrir skömmu var gert opinbert að Háskóli Íslands er nú í 222. sæti á hinum virta matslista Times Higher Education World University Ranking yfir fremstu háskóla heims og í 13. sæti meðal háskóla á Norðurlöndum. Þessum árangri hefur verið náð með faglegum metnaði og þrotlausu framlagi starfsmanna og stúdenta. Árangur Háskólans hefur vakið verðskuldaða athygli á erlendri grund og opnað honum ómetanleg tækifæri til samstarfs.
Viðurkennt er um allan heim að menntun er lykill að velsæld þjóða og rannsóknir eru drifkraftur framfara. Með þetta að leiðarljósi hefur Háskóli Íslands nýlega markað sér framsækna og metnaðarfulla stefnu fyrir tímabilið 2016-2021 undir kjörorðunum „Öflugur háskóli – farsælt samfélag“. Meðal áherslna stefnunnar er framsækin sýn á nám og kennslu sem býr nemendur undir þátttöku í atvinnu- og þjóðlífi og þekkingarsköpun þar sem tekist er á við áskoranir samtímans. Í ljósi þessa er fyrirliggjandi tillaga að fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ekki einungis vonbrigði heldur mun hún, verði hún samþykkt óbreytt, hafa verulega neikvæð áhrif á tækifæri nemenda til háskólanáms, vísindastarf, framþróun í atvinnusköpun og samkeppnisstöðu Íslands til framtíðar.
Háskólaráð Háskóla Íslands skorar á ríkisstjórnina og Alþingi að endurskoða fimm ára fjármálaáætlun sína fyrir árin 2017-2021 í ljósi þessa.“
3. Álit nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á liðnu háskólaári, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins.
Ebba Þóra Hvannberg, varaforseti háskólaráðs og formaður nefndar ráðsins um störf þess á liðnu starfsári, gerði grein fyrir áliti nefndarinnar, en hlutverk hennar er að rýna vinnubrögð ráðsins og leggja eftir atvikum til umbætur á starfsháttum þess. Málið var rætt og tekið undir þær ábendingar sem settar eru fram í álitinu.
– Sameiginlegri stjórnsýslu falið að undirbúa útfærslu og framkvæmd tillagnanna og starfsreglur háskólaráðs verði eftir því sem ástæða er til uppfærðar til samræmis á fundi ráðsins í september nk., sbr. 11. gr. starfsreglnanna.
4. Starfsáætlun háskólaráðs 2015-2016: Staða mála varðandi nýsköpun við Háskóla Íslands.
Inn á fundinn komu Einar Olavi Mäntylä, verkefnisstjóri nýsköpunar á vísinda- og nýsköpunarsviði, Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir, lögfræðingur sviðsins og Halldór Jónsson, sviðsstjóri og gerðu ítarlega grein fyrir málinu. Málið var rætt og svöruðu þau Einar, Ólöf og Halldór spurningum fulltrúa í háskólaráði.
5. Tillaga að breytingu á 6. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009, um kosningu, tilnefningu og embættisgengi rektors.
Eiríkur Rögnvaldsson, Ebba Þóra Hvannberg, Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir og Stefán Hrafn Jónsson, fulltrúar háskólaráðs í millifundanefnd ráðsins um málið og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, sem starfaði með millifundanefndinni, gerðu grein fyrir tillögum hennar, en auk þeirra starfaði Kolbrún Einarsdóttir, verkefnisstjóri á kennslusviði, með nefndinni. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma að senda framlagða tillögu að breytingu á 6. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 til umsagnar fræðasviða, Félags prófessora við ríkisháskóla og Félags háskólakennara. Einnig verði leitað umsagnar launadeildar sameiginlegrar stjórnsýslu sem leikur mikilvægt hlutverk við gerð kjörskrár. Í framhaldi af því fari málið til millifundanefndarinnar til úrvinnslu og verði að því búnu kynnt og rætt á háskólaþingi haustið 2016 og komi svo loks aftur til háskólaráðs til afgreiðslu.
6. Tillögur starfshóps rektors um forgangsröðun tillagna um eflingu þverfræðilegs samstarfs innan Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 14. apríl sl.
Halldór Jónsson, sem starfaði með starfshópnum, gerði grein fyrir málinu.
– Tillögurnar um framhald málsins voru samþykktar. Staða mála varðandi innleiðingu tillagnanna verður kynnt fyrir háskólaráði í lok árs 2016.
7. Krafa um rökstuðning fyrir ráðningu í starf lektors við Raunvísindadeild.
Fyrir fundinum lá erindi Bergþóru Ingólfsdóttur hrl. vegna ráðningar í starf lektors við Raunvísindadeild og álit Eyvindar G. Gunnarssonar, prófessors og deildarforseta Lagadeildar um meðferð málsins. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma að vísa erindinu til rektors til afgreiðslu þar sem það heyrir ekki undir háskólaráð.
Iðunn Garðarsdóttir vék af fundi undir þessum dagskrárlið.
8. Lagagrundvöllur skrásetningargjalds í leyfi.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom að upphæðin (10.000 kr.) sem um ræðir er áætluð meðaltalsupphæð til að mæta óhagræði, vinnu og kostnaði sem leyfi frá námi veldur og fellur mest til í Nemendaskrá og skrifstofum deilda og fræðasviða. Nemandinn nýtur allrar þjónustu eins og hver annar nemandi á meðan á leyfistíma stendur en ekki er um að ræða aukagjald umfram skrásetningargjaldið, heldur hluta þess og dregst það frá skrásetningargjaldinu er nemandinn kemur úr leyfinu.
– Samþykkt einróma.
9. Kynning á starfi vísindanefndar.
Inn á fundinn kom Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor og væntanlegur aðstoðarrektor vísinda og gerði grein fyrir störfum nefndarinnar og helstu verkefnum framundan. Málið var rætt og svaraði Guðbjörg Linda spurningum fulltrúa í háskólaráði
10. Bókfærð mál.
a) Tillaga að breytingu á 8. mgr. 5. gr. og á 8. gr. reglna nr. 569/2009, til samræmis við breytt skipulag sameiginlegrar stjórnsýslu Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
– Samþykkt.
b) Endurskoðuð erindisbréf starfsnefnda háskólaráðs, til samræmis við breytt skipulag sameiginlegrar stjórnsýslu Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund og lið 10a.
– Samþykkt.
c) Tillaga um framlengingu á ákvæði til bráðabirgða í 3. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 um kjör fulltrúa stúdenta í háskólaráð fyrir tímabilið 1.7.2016-30.6.2018.
Málið var rætt, sbr. ákvörðun í upphafi fundar. Fyrir fundinum lá tillaga rektors um framlengingu á ákvæði til bráðabirgða í 3. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 um kjör fulltrúa stúdenta í háskólaráð fyrir tímabilið 1.7.2016-30.6.2018. Inn á fundinn komu Kristófer Már Maronsson, formaður Stúdentaráðs og oddviti Vöku og Eydís Blöndal, oddviti Röskvu. Rektor gerði grein fyrir málinu og gerðu þau Kristófer Már og Eydís grein fyrir sjónarmiðum stúdenta. Málið var rætt ítarlega en afgreiðslu þess frestað. Lagði rektor til að hann myndi afla lögfræðilegs álits um málið og í kjölfarið yrði haldinn rafrænn fundur til að afgreiða það. Var það samþykkt.
Föstudaginn 3. júní 2016 var svo haldinn rafrænn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 16.22. Fyrir fundinum lá endurbætt tillaga rektors um framlengingu á ákvæði til bráðabirgða í 3. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 um kjör fulltrúa stúdenta í háskólaráð fyrir tímabilið 1.7.2016-30.6.2018, en við gerð tillögunnar hafði rektor fengið lögfræðilega ráðgjöf frá Eyvindi G. Gunnarssyni, prófessor og deildarforseta Lagadeildar.
– Tillaga rektors var samþykkt með sjö atkvæðum, en einn sat hjá og þrír voru á móti.
Eiríkur Rögnvaldsson, fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði, óskaði eftir að eftirfarandi yrði bókað í fundargerð:
„Ég get ekki stutt þessa tillögu og greiði ekki atkvæði. Ég tel ótækt að háskólaráð skuli neyðast til að breyta reglum Háskólans vegna vanrækslu SHÍ, sem forysta ráðsins virðist hafa verið meðvituð um í nokkurn tíma án þess að bregðast við. Ljóst er að ekki er eining um málið meðal stúdenta. Því tel ég að í stað þess að samþykkja bráðabirgðaákvæði um breytingu á reglum skólans hefði verið eðlilegra að beina því til SHÍ að breyta lögum sínum nú þegar og halda síðan almennar kosningar til háskólaráðs, í samræmi við reglur Háskólans, eins fljótt og fært þætti í haust.“
Iðunn Garðarsdóttir og Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir, fulltrúar stúdenta í háskólaráði, óskuðu eftir að eftirfarandi yrði bókað í fundargerð:
„Fulltrúar stúdenta í háskólaráði 2014-2016 lýsa yfir óánægju með fyrirætlanir SHÍ um kosningar á fulltrúa stúdenta í háskólaráð fyrir árin 2016-2018. Þá lýsa fulltrúarnir yfir vonbrigðum með vinnubrögð Stúdentaráðs árin 2015-2016 með það að ekki hafi verið kosið um fulltrúa stúdenta í háskólaráð í febrúar 2016.
Við endurskoðun á reglum um fyrirkomulag Stúdentaráðskosninga árið 2013 láðist að semja reglur um það hvernig kjósa skyldi fulltrúa nemenda í háskólaráð. Því gilda engar reglur um það hvernig kjósa skuli fulltrúa nemenda í ráðið. Samkvæmt 3. gr. reglna Háskóla Íslands sem birtar hafa verið í stjórnartíðindum skal kosið um tilnefningu fulltrúa nemenda í sérstökum kosningum og í þeim hafa kosningarétt allir skrásettir nemendur við skólann.
Ein ástæða þess að ekki var kosið í háskólaráð þegar fyrirkomulagi kosninga var breytt árið 2013 voru efasemdir Reiknistofnunar HÍ um að hægt væri að hanna kerfi sem tæki bæði til sviðsráðskosninga og almennra kosninga um háskólaráðsfulltrúa á einu bretti. Það var hins vegar á stefnumálalista Vöku árið 2014 sem hlaut meirihluta þau ár að þetta yrði lagfært og því fór formaður Stúdentaráðs á fund með RHÍ og fékk vilyrði fyrir því að í kosningunum í febrúar 2016 yrði einnig gengið til kosninga um háskólaráðsfulltrúa.
Fulltrúar stúdenta í háskólaráði furða sig á því að það hafi ekki verið gert í kosningunum nú þar sem sérstök áhersla var lögð á það við fráfarandi formann Stúdentaráðs að mikilvægt væri að halda kosningar, en formaður SHÍ hugðist þá ræða við Reiknistofnun.
Brýnt er að hinn almenni háskólanemi geti haft áhrif á val fulltrúa stúdenta í háskólaráði. Við teljum eðlilegt og sanngjarnt að haldnar verði sérkosningar um nemendafulltrúann, t.d. í haust, þar sem allir stúdentar við HÍ fengju tækifæri til þess að taka þátt í kosningunum. Þetta krefst vinnu en við teljum að þetta leysi þá stöðu sem komin upp er nú á farsælan hátt, með traust á störfum Stúdentaráðs, gegnsæi og lýðræði að leiðarljósi. Mikilvægt er að val á fulltrúa stúdenta á að vera gegnsætt. Við erum tilbúnar til þess að aðstoða við vinnuna eins og þarf.
Ef kosið yrði í ráðið, t.d. í haust, gætu núverandi fulltrúar stúdenta í ráðinu setið í ráðinu til bráðabirgða, þar til fulltrúi stúdenta verður kosinn á lýðræðislegan hátt. Sú leið er líklegri til að skapa sátt um fulltrúa nemenda í ráðinu en það fyrirkomulag að Stúdentaráð kjósi fulltrúa án þess að hinn almenni stúdent hafi kosningarétt.
Fyrrgreind lausn væri skref í þá átt að skipun fulltrúa nemenda verði í samræmi við lög um opinbera háskóla og reglur Háskóla Íslands. Kosning um fulltrúa stúdenta á lokuðum stúdentaráðsfundi væri aftur á móti í andstöðu við fyrrgreindar reglur.“
Fleira var ekki gert og rafræna fundinum slitið kl. 00.00.
d) Skipun formanns siðanefndar Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Nýr formaður siðanefndar er Hjördís Hákonardóttir, fv. hæstaréttardómari.
e) Tímabundinn fulltrúi í stjórn Reiknistofnunar Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Ingi Rúnar Eðvarðsson prófessor tekur sæti Runólfs Smára Steinþórssonar í rannsóknaleyfi hans á komandi haustmisseri.
11. Mál til fróðleiks.
a) Úthlutun doktorsstyrkja úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.
b) Glærukynning frá árlegum fundi formanns Gæðaráðs háskóla með fulltrúum Háskóla Íslands, 23. maí sl.
c) Dagskrá Rannsóknaþings 2016, haldið 2. júní.
d) Rafrænt fréttabréf Félagsvísindasviðs maí 2016.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.15.