Skip to main content
23. apríl 2024

Tveir viðburðir í Loftskeytastöðinni á HönnunarMars 2024

Tveir viðburðir í Loftskeytastöðinni á HönnunarMars 2024 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Boðið verður upp á sýningu á grafískum prentverkum Tinnu Pétursdóttur og efnt til samtals við höfund og listamenn um gerð og hönnun sýningarinnar Ljáðu mér vængi í Loftskeytastöðinni í vikunni en hvort tveggja er framlag Loftskeytastöðvarinnar til HönnunarMars 2024 sem hefst miðvikudaginn 24. apríl.

Loftskeytastöðin var opnuð í síðasta mánuði. Hún hýsir ekki aðeins sýninguna „Ljáðu mér vængi. Ævi og áhrif Vigdísar Finnbogadóttur“ heldur er miðsstöðinni einnig ætlað að vera menningarhús þar sem boðið verður upp á aðrar sýningar og þekkingu er miðlað á frjóan og fjölbreyttan hátt. Hluti af þessu er þátttaka í HönnunarMars í ár og að þessu sinni verða tveir viðburðir í Loftskeytastöðinni.

Miðvikudaginn 24. apríl kl. 18-20 verður sýningin SAMTÖL opnuð á neðri hæð Loftskeytastöðvarinnar en hún hefur að geyma grafísk prentverk eftir grafíska hönnuðinn Tinnu Pétursdóttur. Verkin eru sprottin úr hugmyndum Tinnu um hvernig samtöl eru á litinn og í laginu, taktinn í þeim, stemmninguna og mynstrið sem þau mynda í huga hennar.

Laugardaginn 27. apríl kl. 14-15 er svo boðið upp á samtal um nálgun höfundar og listamannanna við gerð og hönnun sýningarinnar Ljáðu mér vængi. Á sýningunni er lögð áhersla á að varpa ljósi á uppvöxt Vigdísar, ævi hennar og störf og þau miklu áhrif sem hún hafði í embætti forseta Íslands og þá miklu athygli sem kjör hennar vakti. Meðal annars er fjallað um framlag Vigdísar til náttúruverndar, lista, mannréttindamála, jafnréttismála og til tungumála og menningar bæði hérlendis og á heimsvísu.

Ókeypis er inn á báða viðburði og þeir eru öllum opnir.

Nánar um HönnunarMars
 

Sýningin